28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2941 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki gerast margmáli um vegáætlunina. Langflest af því, sem ég hefði hér sagt viljað, hefur þegar komið fram í ágætum ræðum sem hér hafa verið fluttar til gagnrýni á plagg þetta og þó, eins og að líkum lætur, öllu fremur gagnrýni á þá stjórnarstefnu sem vegáætlunin er eðlilegt framhald af.

Ég sé því miður að hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson er nú fjarri góðu gamni, og er illt til þess að vita hversu oft það skeður að góðkunningjar eru fjarri þegar maður helst vildi ávarpa þá. En hvort hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson hefur nú átt bókstaflega við það þegar hann sagði að þm. þessa svæðis væru um það bil 17, þá er hér nú staddur í salnum einn af þeim þm. Reykv. sem fyrrnefndur ræðumaður, Eggert G. Þorsteinsson, sagði að ýmsir teldu að Reykjavík hefði ekki, og má því ætla að hann kynni að verða hér nokkuð fyrir svörum þegar rætt er um afstöðu hins tittnefnda Reykjavíkurvalds til fjárveitinga í vegagerð úti á landi, — afstöðu sem manni virðist að hljóti að hafa markað öðru fremur stefnu ríkisstj. þegar plagg þetta var samið sem við hér nú fjöllum um, þar sem vegáætlunin er.

Síst af öllu vil ég ýta undir meting eða ríg milli íbúa Reykjavíkur og hins svonefnda dreifbýlis, því að það ætla ég að sé mála sannast að hvorir efli svo best hag hver annars að þeir geri sér grein fyrir því að sameinaðir standa þessir hópar, en sundraðir falla þeir. Og hræddur er ég um að sneiðast mundi nú um hag reykvíkinga ef skorið yrði með öllu á samgöngurnar við byggðirnar, við tölum nú ekki um hið allra næsta, því að vegir þeir, sem út frá Reykjavík liggja, eru með þeim hætti að þeir eru farnir fram og til baka sumir hverjir.

Við höfum hlýtt hér í kvöld á rökstuðning, ítarlegan rökstuðning fyrir því áliti að fjárveitingar til vegagerðar á landi hér, til vegamála, hafi rýrnað um nær 50% að framkvæmdagildi frá því að núv. ríkisstj. settist á valdastólana. Og ræðumenn hafa leyft sér að draga þær ályktanir af þessari staðreynd, að áhugi núv. stjórnarvalda, núv. ríkisstj. á málefnum byggðarlaganna muni yfirleitt vera í nokkurn vegin hlutfalli við þessar fjárveitingar sem við stöndum frammi fyrir nú í dag. Hæstv. samgrh. hefur æ ofan í æ vakið athygli á því, að enda þótt, eins og hann viðurkennir fúslega sjálfur, fjárveitingar séu hvergi nærri nógu miklar til þess að koma því í verk í vegamálunum sem hann gjarnan hefði viljað, þá sé það eigi að síður staðreynd að hlutfall fjárveitinga til vegaviðhalds hafi stóraukist að þessu sinni, hlutfall viðhaldsfjárins hafi stóraukist að þessu sinni, eins og fram kom í vegáætluninni. Þetta er rétt, hlutfall viðgerðarfjárins hefur stóraukist. En nokkuð mun það nú vera vafasamt að stæra sig svo mjög af aðferðinni við þessa aukningu, því að hún minnir vissulega á stjórnvisku apans í hinni frægu dæmisögu Esóps um það, hvernig sá ágæti ráðherra skar úr deilumálinu milli músanna tveggja sem deildu um ostbitana. Þetta deilumál leiddi hann til lykta með þeim hætti að bíta stöðugt meira af öðrum ostbitanum þannig að vægið skiptist á milli ostbitanna. Þannig má hugsa sér t. d. að hæstv. samgrh. muni næst hugga okkur með því, e. t. v. eftir endurskoðunina sem hann boðar á fjárveitingu til vegamála í haust, að breyta nú aftur þessu vægi, þessu hlutfalli þannig, að þá verði vægi nýbyggingarfjárins meira en viðhaldsfjárins og hann nái því vægi með sama hætti, að taka bara meira af hinu, enda hélt hinn frægi dómari, sem Esóp skýrði frá, áfram að fjalla með þessum hætti um neyslufé músanna þangað til ekkert var orðið eftir.

E. t. v. hefði það verið langsamlega sæmst, þegar fjallað var um skiptingu þessa vegafjár innan kjördæmanna, að stjórnarandstæðingar hefðu sagt: Við verðum ekki með, þið skuluð gera þetta. Þið fylgið hér hvort sem er þeirri stefnu í fjárveitingum til vegamálanna sem kalla mætti stefnu hungurlúsarinnar, og nú skuluð þið sjálfir skipta fé þessu innan kjördæmanna. Þetta hefði e. t. v. verið sæmst að gera. En ég hlýt að segja fyrir mig, að ég treysti mér ekki til að taka slíka afstöðu beinlínis vegna þess að mér var ljóst, hvílíkur vandi samþm. mínum í Norðurl. e. var þarna á höndum, og mér var einnig ljóst, að þeir höfðu svo sannarlega viljað hafa meira að skipta í þessu skyni. Og það stóð ekki upp á þá í þessu máli að öðru leyti en því, að þeir styðja til valda ríkisstj. sem hefur þess háttar viðhorf til byggðanna úti á landi og þ. á m. til kjördæmis þeirra sem fram kemur í þessari hungurlúsarstefnu í vegamálunum. Ég tel að þm. Norðurl. e. hafi lagt sig fram um að skipta þessu litla fé sem ætlað er til vegamála í kjördæminu, að ráðstafa því samkv. bestu samvisku eins vel og hugsanlegt er. Samkv. vegáætlun mun vera ætlunin að lagðar verði á þessu ári þjóðbrautir í Norðurlandskjördæmi eystra upp á eina 7 km, og liggur í augum uppi hvílíkt verk það er að skipta því þannig á milli sveita að nokkur verði ánægður.

Ég hef með skírskotun til brtt. á þskj. 428, sem formaður Alþ. og formaður þingflokks Alþb., þeir tveir, hv. þm. Lúðvík Jósepsson og Ragnar Arnalds, bera fram um fjáröflun til vegagerðar, og með skírskotun til brtt. á þskj. 439, sem ég er meðflm. að einnig um fjáröflun, þá hef ég ásamt Ragnari Arnalds, sem er 1. flm., flutt hér till. þar sem svo er ráð fyrir gert að Norðurlandsáætlun taki það gildi sem lög mæla fyrir um og samkv. henni verði ætlaðar 200 millj. kr. árlega, á þessu ári og svo á árunum 1978, 1979 og 1980, til vegamála á Norðurlandi, og til bráðabirgða fallist á þá hugmynd að þessum upphæðum verði skipt jafnt á milli Norðurl. e. og Norðurl. v. þótt seinna kynnu þar að verða gerðar á rökstuddar breytingar, og síðan að af þessu fé verði varið 50 millj. umfram það, sem ætlað er í vegáætlun, til Víkurskarðsvegar og 32 millj. að auki í lánsfé á árinu 1977, og að upphæðin, sem varið verður til Víkurskarðsvegar árið 1978, verði 106 millj. og þá 44 millj. í lánsfé, en mér skilst á vegagerðarmönnum að unnt ætti að vera að ljúka veginum um Víkurskarð á tveimur árum með 300 millj. kr. fjárveitingu, fyrir 300 millj. kr., miðað við núgildandi framkvæmdaorku peninga.

Ég geri að till. minni að til Norðausturvegar um Melrakkasléttu verði varið 50 millj. á þessu ári, en 50 millj. á árinu 1978 og 100 millj. árið 1979, til þess að ljúka mætti gerð vegar er fær mætti teljast að vetri til á milli Húsavíkur og Raufarhafnar.

Að öðru leyti legg ég til að árið 1979 verði ætlaðar 65 millj. kr. í vegþekju á veginum fyrir Ólafsfjarðarmúla. Ég tel að það skipti ekki ákaflega miklu máli, en þó kann ég betur við að þessi framkvæmd, þessi smíð verði nefnd í þskj. þekja heldur en svalir, og ég legg það raunverulega á hv. þm. sjálfa að skilja hvers vegna ég vil heldur að þetta verði nefnt þekja heldur en svalir.

Hv. frsm. fjvn. sem reis hér karlmannlega og óklökkur undir ákaflega erfiðu starfi, að mæla hér fyrir fjárveitingu til vegamála sem hann mun manna best vita hversu ófullnægjandi og raunverulega skammarleg er, hann lét svo um mælt að vegáætlun þessi væri afgreidd í skugga efnahagskreppunnar sem hófst árið 1974. Hann sagði, ef mig minnir rétt, að enn sætum við í skugga efnahagskreppunnar 1974, en þó sýndist nú vera að rofa til. Við sitjum enn undir íhaldsstjórn sem hv. þm. hjálpaði til að mynda árið 1974. Við sitjum enn undir þeirri stjórn, í skugga hennar. Og ef við eigum að draga nokkrar ályktanir af plaggi því, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, og reyna að sjá í því út af fyrir sig skýjarofið sem hv. þm. minntist á áðan að hann sæi nú djarfa fyrir, þá hygg ég að vonin í því, að nú fari að rofa til, liggi þá helst í því að nokkuð hefur liðið fyrir tímans eðli á kjörtímabil þessarar ríkisstj. Og segja mætti mér að þeim 200 millj., sem fjvn. hefur undir forustu hv. þm. Inga Tryggvasonar tekið af svonefndum verkfræðilegum undirbúningi til þess að fela í aumingjaskap vegáætlunar, yrði nú kannske best varið til þess að hefja sálfræðilegan undirbúning að því að skipta um ríkisstj.