28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Páli Pétursson:

Herra forseti. Ég verð að þakka hv. fjvn. fyrir það sem hún tók undir af þeim óskum sem ég hafði fram að færa við fyrri hluta umr., þ. e. a. s. að vegurinn til Skagastrandar komi í stofnbrautaflokk. Hins vegar hefur hún ekki treyst sér til þess að gera allt sem ég lagði til að gert yrði, og það er uppfærslan á vegáætluninni, að taka áhaldahúsaprósentuna út úr fjárveitingadæminu og hafa hana í sérlið, þannig að það væru raunverulegar framkvæmdatölur sem prentaðar verða í áætluninni. Það er náttúrlega búið að fara um það mörgum orðum hér að þetta eru allt of litlir fjármunir og það vantar peninga til þess að svigrúmið geti verið rýmra.

Ég fagna eins og aðrir þm. þeirri yfirlýsingu að áætlunin verði endurskoðuð í haust og þá væntanlega með því fororði að eitthvert efnahagslegt svigrúm gefist til þess að geta gert hana betur úr garði fyrir árið 1978 heldur en lítur út hér á plagginu. Enn fremur vil ég láta í ljós ánægju vegna þess hluta yfirlýsingarinnar, sem vék að happdrættisfénu. Mér þykir sannarlega ekki ótímabært að hægt yrði að gera betur við veginn yfir Holtavörðuheiði en horfur eru á samkv. þessari áætlun. En ég er nú óánægðastur með að sú fjárveiting, sem þar er fyrirhuguð, skuli ekki vera rífari, og get ekki annað en látið það í ljós.

Hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson talaði hér nokkuð strítt áðan um hvað reykvíkingar væru afskiptir og nytu lítillar umhyggju hér í þinginu og forsjár. Ég get ekki tekið undir þetta með honum, því að ég held að reykvíkingar eigi ágæta þm. sem gæti vel hlutar Reykjavíkur. Og ég vil minna á að til viðbótar þessum 17 eða um það bil 17, sem hann var að tala um, þá eru það ekki nema um það bil 17, sem eru búsettir utan Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis. Ég bið menn að athuga það, að það eru 17–20 manns hér á þingi sem eru búsettir, hafa sitt heimili utan þessara tveggja kjördæma, og af því leiðir að sjálfsögðu að þeir eru kunnugir þeim vandamálum, sem við er að stríða, og hafa skilning á þeim þörfum sem augljóslega eru hér á þessu svæði og engar líkur til þess að þeir séu með neitt svínari í garð Reykjavíkur eða Reykjaneskjördæmis. En mér fannst nú eins og hv. þm. væri að undirbúa prófkjör. Mér fannst eins og hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson væri að undirbúa sig að fara í prófkjör hjá sjálfstæðismönnum með ræðu sinni og hygðist keppa þar við hv. þm. Albert Guðmundsson.

Hvað varðar þær brtt., sem hv. þm. Ragnar Arnalds kynnti hér áðan og vörðuðu sérstaklega Norðurl. v., þá verð ég að láta í ljós nokkra undrun á þessum brtt. Mér finnst að við höfum haft mjög gott samstarf við niðurröðun á þeim litlu fjármunum, sem við vorum að skipta, og ég átti ekki von á því að hann legði inn þetta plagg hér. Að vísu hafði hann haft orð á því um eitt tiltekið atriði að hann mundi flytja brtt., en mér finnst hann leggja þarna fram till. um verk sem eru að sjálfsögðu góð, en ekki var svigrúm til þess að taka núna. Ég gæti lagt fram annan lista af hér um bil jafngildum verkum, sem eru óunnin í Norðurlandskjördæmi vestra eða gildari, og sannarlega væri gaman að hafa 800 millj. til ráðstöfunar aukalega þarna fyrir norðan. En mér finnst þarna kenna nokkurrar sýndarmennsku og ég get ekki orða bundist um það. E. t. v. getum við tekið þetta og notað sem minnisplagg við þá endurskoðun, sem fyrirsjáanlega verður í haust, ef við verðum orðnir svo ríkir að hafa meira til ráðstöfunar.

Einstakir liðir orka tvímælis, hvernig þeir eru undirbúnir í þessum till. hv. 5. þm. Norðurl. v. Ég ætla nú að spara tímann og fer ekki út í það, t. d. með brúna yfir Svartá. Vegagerðarmenn eru hættir við að leggja til að hafa hana hjá Saurbæ og nú heitir þessi brú Svartá hjá Daufá.

En það er einn sérstakur liður þarna í þessum till. sem mér leiddist að sjá. Það var þegar hv. þm. lagði til að liðurinn brúargerð á Laxá hjá Hvammi félli niður. Ég veit ekki hvort þið þekkið staðhætti þarna. Þetta er byggðin á bak við Tindastól, þetta er byggðin vestan við Tindastól. Þar er dalur sem heitir Laxárdalur. Hann er afskekktur og að honum liggur sú heiði sem hv. þm. Ragnar Arnalds gat um, Laxárdalsheiði, og er mikill farartálmi, og ég tek undir með honum að mjög brýnt er að leggja þar veg sem allra fyrst. En þarna eru tveir bæir, Hvammur og Sævarland, og þeir hafa ekki brú, þeir hafa ekki vegasamband, og það var ákvarðað á Alþ. 1972 að byggja nú brú yfir þetta vatnsfall. Annar þessi bær er kirkjustaður og þarna eru, eins og ég sagði, ákaflega erfiðar samgöngur og slæm aðstaða sem þessir bændur hafa. Ég ann þeim þessarar brúar sem þeim var fyrst lofað hér á Alþ. 1972 í vegáætlun frá því ári. Ég tel að við eigum að byggja þetta land og reyna að jafna aðstöðumun eftir því sem við getum. Hv. þm. er formaður Alþb. Ég man nú ekki betur en þegar við vorum að bjóða okkur fram fyrir norðan um árið til Alþ., þá taldi hann flokkinn, Alþb., vera alveg sérstaklega skjól og skjöld þeirra sem verr væru settir í þjóðfélaginu, og þess vegna leiðist mér þetta, að hv. þm. vill ekki byggja brúna yfir Laxá. (Gripið fram í.) Það getur skeð að kirkjusókn sé ekki með þeim hætti sem best væri. (Gripið fram í.) Þessi jörð er í byggð, það er gildur bóndi á henni, en ekki hef ég gert manntal hjá honum. En ég hef enga trú á öðru en það verði rekinn búskapur á Hvammi í Laxárdal ef þjóðfélagið leggur ekki sérstaklega stein í götu búsetu þar.

Samþm. okkar, hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson, lagði að velli gullfallegan lambhrút Sveins Nikódemussonar norður á Sauðárkróki í fyrrahaust, en mér finnst að hér ætli formaður Alþb. að ræna lambi fátæka mannsins.