28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Ég endurtek það, að ég skil það vel að menn eru ekki ánægðir. Þörfin fyrir nýbyggingu vega er geysileg um allt land. Það hefur talsvert heyrst hér í þm. Vestf., og mér dettur ekki í hug að rengja það sem þeir hafa sagt, að þar væri feikimikil þörf á fjármunum til nýbyggingar vega. Þó er það nú svo, að þörfin er vissulega svo mikil um allt land og þá að mínum dómi sérstaklega um þá hluta landsins sem snjóþyngstir eru, að þar er erfitt að dæma á milli. Ég get sagt frá því svona til gamans, að á s. l. sumri kom til mín bóndi úr mínu héraði sem var nýbúinn að fara í langt ferðalag um Vestfirði. Það lá við borð að hann væri dálítið argur í skapi þegar hann kom til mín. Hann sagðist vera nýkominn af Vestfjörðum og þar hefði verið upphleyptur vegur heim á hvern bæ og alls staðar eggsléttur og það væri nú eitthvað annað heldur en í Norðurlandskjördæmi eystra, það væri greinilegt að þm. Vestf. hefðu haldið öðruvísi á vegamálum en þm. Norðurl. e. Ég veit að hann var á ferðinni á blíðum sumardögum og hafði ekki átt við að etja ófærð :

vetrarsnjó um Vestfirði. En það snjóar raunar víðar en á Vestfjörðum, og þetta er því miður svona um allt land, að það er svo geysilangt á milli þarfarinnar og þess, sem við höfum gert, og þess, sem við sjáum í nálægri framtíð að við getum gert, að þarna eru sannarlega ótæmandi verkefni.

Hv. þm. Karvel Pálmason hafði tekið eftir samlíkingu minni um blóðrásina. Ég stend nú í þeirri meiningu, þó að mér hafi að vísu heyrst nokkuð á einhverjum hv. þm., að við séum alltaf heldur að rýmka um þessa blóðrás, það færist þó aðeins í þá áttina. En vissulega mundum við óska þess að hraðar miðaði.

Það er misjafnt hvað mönnum finnst mikið. Hv. þm. Karvel Pálmasyni finnst ekki til mikils mælst þó að komi einar litlar 100 millj. í Breiðadalsheiði. Ég veit að það veitir ekkert af slíku fé þarna. En enn þá erum við nú, því miður kannske, á því stigi í uppbyggingu á vegum að hverjar 100 millj. eru í okkar augum nokkurt fé þegar borið er saman við heildina, sem er til þessara hluta.

Ég ætla mér ekki hér að fara að reyna að svara einstökum atriðum í ræðum þm. Ég skil mætavel að þeim er nokkuð mikið niðri fyrir þegar þessi mál eru rædd og eðlilegt og gott að það, sem inni fyrir býr, komi fram í ræðum manna. Ég get þó ekki stillt mig um að minnast á leiðara þann sem Helgi Seljan, hv. 7. landsk. þm., las að verulegu leyti upp úr Morgunblaðinu. Mér fannst á háttv. þm. að leiðari þessi ætti að vera sönnun þess hvert stefndi í byggðamálum. Mér fannst þessi leiðari sönnun þess að sú ríkisstj., sem nú situr, hefur einmitt haldið uppi byggðastefnu. Ég hef ekki nokkra trú á því að nokkur ritstjóri Morgunblaðsins mundi skrifa svona í dag, ef hann teldi ekki, þessi hv. ritstjóri, sem ég veit ekki hver er og er ekki sammála, ef hann teldi ekki að byggðastefnu hefði einmitt verið haldið uppi þessi ár. Mér hefur stundum heyrst á hv. þm. Alþb. að þeir efuðust um áhrif Framsfl. í þessari ríkisstj. Hverra áhrif eru það sem speglast í þessum leiðara Morgunblaðsins? Það eru ekki endilega eingöngu áhrif framsóknarmanna, mér dettur það ekki í hug. En innan þeirra flokka, sem styðja núv. ríkisstj., eru sem betur fer margir þm. sem fullkomlega skilja það að til þess að við getum búið í þessu landi þurfum við að jafna kjörin sem fólkið í landinu býr við. Og þó að oft hafi verið deilt um einstök atriði í byggðastefnu, þá tel ég að nokkuð hafi enn miðað í þá átt á þessum síðustu árum að sá aðstöðumunur, sem því miður er allt of mikill enn milli þéttbýlis og strjálbýlis, hafi nokkuð verið jafnaður.

Ég ætla ekki að gera hér að umtalsefni ræðu hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar þar sem hann er hér ekki við, en mér datt í hug að hann hefði þurft að líta upp, því að ég hef ekki nokkra trú á því að svo réttsýnn maður sem Eggert G. Þorsteinsson er mundi ekki sjá, hversu hann fór með miklar firrur í ræðu sinni, ef hann líti vel í kringum sig á landi okkar.

Það hefur verið talað mikið hér um prósentureikning, og það er nú svo einkennilegt með tölur, sem ætti kannske að vera meðal þess sem erfiðast er að rengja á nokkurn hátt, að þær er hægt að nota með ýmsu mismunandi móti. Það hlýtur að verða svo í vegagerð, að verkefni kalla misjafnlega að og það er misjafnlega hlýtt á það kall sem kemur frá verkefnunum. Ef við t. d. tökum það sem hér hefur verið sagt um minnkun vegafjár til Vestfjarða, þá er rétt að geta þess, að í þeim útreikningi, sem hér er sýndur, er brúafé með og á s. l. ári kom talsvert fé til brúargerðar á Vestfjörðum, miklu meira þá en á þessu ári. Þetta hlýtur að víxlast nokkuð eftir landshlutum. Ef ég man rétt, þá var varið 71/2 millj. kr. til brúargerðar í Norðurlandskjördæmi eystra á árinu sem leið, auk þess var að vísu gert við brýrnar sem biluðu í jarðskjálftunum norður í Kelduhverfi og kom ekki sérstaklega á brúaáætlun. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem hljóta að hreyfast nokkuð til eftir ýmsum aðstæðum, og ég er þeirrar skoðunar að okkur sé nokkur nauðsyn að geta hreyft helstu verkefnin til milli kjördæma eftir því sem skynsamlegt er að vinna þau hverju sinni, þó mér sé hins vegar ljóst að þetta er erfitt meðan þarfirnar eru hvarvetna svo miklar sem raun ber vitni.

Þá langar mig til þess aðeins að nefna till. þá sem hv. þm. Friðjón Þórðarson mælti fyrir í kvöld. Ég hef leyfi til að flytja það hér, að fjvn. mælir með því að till. þessi verði samþykkt. Hún hefði vel átt heima með öðrum brtt. sem fluttar eru af fjvn., en féll niður.

Herra forseti. Ég ætla ekki að dvelja miklu lengur við þetta mál að sinni. Mér finnst gæta nokkurs misskilnings þegar það hefur komið fram, — m. a. held ég að það hafi komið fram í sjónvarpinu í kvöld, — að þær 200 millj. sem eru fluttar til á vegáætlun yfir á framkvæmdir séu allar teknar af verkfræðilegum undirbúningi. Það er raunar ekki. Það er tekið af nokkrum þáttum, eins og rakið hefur verið. Mér er ákaflega vel ljóst að allur slíkur tilflutningur sem þessi getur mjög orkað tvímælis. Hins vegar fæ ég ekki skilið að það þurfi samt endilega að minnka ostbitann. Ég held að sá þáttur röksemdafærslunnar sé hæpinn hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, að þetta fé í sjálfu sér minnki við það að vera flutt á milli þessara tveggja þátta. Það vex að vísu ekkert af því heldur, en ætli það geri ekki um það bil hvorugt.

Það hefur verið, eins og ég sagði áðan, rætt talsvert um vinnubrögð fjvn. Ég held að það hafi nú verið mjög algeng vinnubrögð, að þegar þurft hefur að taka lokaákvarðanir um mikilsverð mál sem ekki hefur verið fullkomin eining um, þá hafi yfirleitt stjórnarflokkar orðið að axla þá byrði að taka slíkar ákvarðanir og standa við þær, bera þær fram, koma þeim fram, jafnvel þó að allir hafi ekki endilega verið ánægðir. Þetta er raunar það sem hefur gerst við þá vegáætlun sem hér er til umr. nú.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.