28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2953 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég segi nú eins og hv. þm. Pálmi Jónsson, að ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr. hér í dag og í kvöld, en ég vil þó sérstaklega taka undir það sem hann sagði varðandi yfirlýsingu ráðh. og varðandi þá yfirlýsingu sem varaformaður fjvn. gaf á nefndarfundi um hugsanlegar breytingar varðandi endurskoðun á vegáætlun á næsta ári. Ég tel að þar sem engin prósenturegla er í gildi varðandi úthlutun til stofnbrauta, þá sé sú úthlutun eða sú skipting, sem þegar liggur fyrir, ekki á nokkurn hátt stefnumarkandi varðandi það fé sem kynni að verða til ráðstöfunar til viðbótar. Það, sem gerði að ég kom hér upp, voru ræður þeirra 3. og 5. þm. Vestf., og ég vil taka undir það, að það er á ýmsan hátt ákaflega hæpið að bera saman prósentutölur eða upphæðir.

Það er rétt, sem hv. 3. þm. Vestf. sagði, ef við reiknum þetta í prósentutölum, það er alveg hárrétt. En það eru líka réttar tölur sem hv. 5. þm. Vestf. var að lesa upp. Hann las upp tölur og hann nefndi 413 millj. á einu ári. En hver er skýringin? Skýringin er sú, að þá var gert sérstakt átak, þá var boðið út 80 millj. kr. lán vegna Djúpáætlunar og það er í þessari tölu. Þess vegna vil ég halda því fram að á árunum 1975 og 1976 séu þetta nokkuð sambærilegar upphæðir og þær voru áður.

Ef við lítum yfir listann yfir framkvæmdir 1965–76, þá vil ég leyfa mér að nefna hér aðeins dæmi um hversu fáránlegt það er að ætla að miða við einhverja ákveðna prósentu frá ári til árs án tillits til þess hvort um einhver stærri verkefni er að ræða eða ekki.

Ég lít hér aðeins á hámark og lágmark í Reykjaneskjördæmi, sem er hæst yfir þetta tímabil. Mér sýnist að það fari alla leið úr 2.96% eða rétt um 3% á árinu 1968 upp í 53% þegar hæst er, þ. e. á árinu 1965, og annað árið, sem er hæst, er 1970 með yfir 50% af öllu framkvæmdafé sem fer til vega á landinu. Það hlýtur náttúrlega að leiða til þess,. að þar að kemur að ástand vega er orðið allt annað þar en í öðrum kjördæmum sem minna hafa fengið.

Það kemur mér t. d. dálítið á óvart líka, þegar ég lít á Norðurl. e., að 1967 eru prósentutölurnar þar 21.6% og 1968 er það 18.6%. En hvað skyldi það vera mikið næstu tvö ár miðað við þetta yfirlit sem við höfum? Ég sé ekki betur en það sé 5.4% og 4.8%.

Það er alveg hárrétt að við erum með lægra hlutfall núna í heild en við vorum með í fyrra á Vestfjörðum. Það hefur verið minnst hér á brýr í sambandi við það. Við fengum tiltölulega góðan hlut í fyrra. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég telji sjálfur að hér sé um eðlilega og sanngjarna skiptingu að ræða, en ég segi það, að slíkar tölur í prósentum hljóta að breytast á milli ára, og ef við í dag værum ekki á sama hátt reiðubúnir til þess að standa að tímabundnum verkefnum í öðrum kjördæmum, þá ættum við erfiðara með að krefjast þess að fá verulegt fjármagn til að sinna síðar þeim stórverkefnum sem okkar bíða. Og ég held að það verði ekki beðið í mörg ár eftir því, að það verði tekist á við einmitt ýmis þau stórverkefni sem hér hafa verið nefnd í kvöld, svo sem tengingu Djúpvegar, svo sem Breiðadalsheiði, Botnsheiði og tengingu af Patreksfjarðarsvæðinu við aðalvegakerfi landsins.