28.10.1976
Sameinað þing: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

1. mál, fjárlög 1977

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Nú liggja fyrir nákvæmari en áður niðurstöðutölur um afkomu ríkissjóðs árið 1975, fyrsta árið sem núv. ríkisstj. bar ábyrgð á fjárl. Afkoman er afleit og verri en áður var vitað. Greiðsluafkoma reynist óhagstæð um 5 milljarða 774 millj. kr. Rekstrarhalli reyndist vera 7 milljarðar 533 millj, kr. Halli þessi nemur sem sagt sem næst sjöunda hluta heildartekna á árinu.

Í fjárlagaræðu sinni sagði hæstv. fjmrh. að þessi herfilega afkoma ætti fyrst og fremst rót sína að rekja til tveggja meginorsaka; annars vegar verðbólgunnar, sem geisað hefur, en hins vegar nefndi hann og ræddi upplýsingaskort um þróunina í fjármálum ríkisins eftir því sem fjárlagaárinu vatt fram. Það er alveg greinilegt á þessum tölum að eftirlit og aðhald hafa brugðist, og það verður að skrifast á reikning hæstv. ráðh., að hann skuli ekki hafa gert sér fyrr en varð grein fyrir þeim veilum í eftirlitskerfi með ríkisútgjöldum sem hann kveðst hafa varið kröftum sínum til að bæta úr.

Vonandi reynist afkoman á yfirstandandi ári, 1976, ekki jafnslæm hvað rekstrarafkomu snertir og 1975. En fjárl. ársins 1976 hafa í raun og veru þegar verið brotin upp eftir að frá þeim átti að vera gengið. Í maí s.l. vor voru þýðingarmiklir liðir þeirra teknir til endurskoðunar og breytinga að frumkvæði hæstv. ríkisstj. og fyrir atbeina hæstv. fjmrh. Við tekjuhlið var bætt 6 milljörðum 220 millj. kr. og við gjaldahlið 6 milljörðum 680 millj. Nú kemur í ljós í ræðu hæstv. ráðh. að enn hefur endurskoðun farið fram og gjaldhækkun bætist enn við sem nemur 2.5 milljörðum og tekjuhækkun áætluð enn 2 milljarðar og 400 millj.

Að sjálfsögðu eiga sér stað hreytingar í árferði eins og hjá okkur ríkir og við fjármálaþróun eins og hér á sér stað — eðlilegar breytingar vegna breyttra launataxta og breytts verðlags á aðföngum. En ljóst er af aths., sem fylgja því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir, að einnig er um að ræða stórar veilur í sjálfu ríkiskerfinu sem leiða má rök að því að valdi óþarflega háum útgjöldum til mjög stórra fjárlagaliða, einmitt sumum þeim líðum sem mest hafa farið fram úr áætlun og þar sem brýn er þörf á breyttri skipan. Stærstur þessara liða er sjúkratryggingakostnaðurinn. Um hann er fjallað í aths. við fjárlagafrv. og segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Kostnaður af sjúkratryggingum hefur vaxið ört. Útgjöld til heilbrigðismála hafa vaxið jafnt og þétt, þótt afturkipps hafi gætt í framleiðslu og tekjum þjóðarinnar. Mikils er um vert, að þessi mikilvæga þjónustugrein lúti traustri og ábyrgri fjármálastjórn. Ríkisstj. hyggst koma breyttri skipan á fjármál og skiptingu kostnaðar af sjúkratryggingum sem hafi það meginmarkmið að samhæfa betur stjórnaraðild og fjárhagslega ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni í landinu. Í þessu frv. hefur verið stigið það skref, að áætlaður kostnaður af ríkisspítölunum verði færður í A-hluta fjárlaga, og er þá reiknað með því að ríkið kosti stofnanir þessar að öllu leyti. Hins vegar hefur í B-hluta verið reiknað með því að sveitarfélögin greiði hluta sinn af heildarkostnaði sjúkratrygginga skv. gildandi reglum og jafnframt verði 1 milljarður og 200 millj. kr. af kostnaðinum bornar af fjáröflun sem samsvari núverandi 1% sjúkratryggingagjaldi af útsvarsstofni. Í frv. er ekki tekin afstaða til þess, hvort þessi fjáröflun verði á vegum ríkisins eða sveitarfélaga, enda hlýtur sú ákvörðun að biða niðurstöðu viðræðna sem áformaðar eru um fjárhagslegt skipulag sjúkratrygginganna og skiptingu kostnaðar af þeim milli ríkis og sveitarfélaga. Þá virðist einnig brýnt í þessu sambandi að endurskoða reglur um þátttöku hins opinbera í kostnaði af hinum ýmsu þáttum heilbrigðisþjónustunnar. Áður en endanlega afgreiðsla fjárlagafrv. fer fram mun heilbr: og trmrh. leggja fram till. um nauðsynlegar breytingar á tryggingalöggjöf sem tryggi fyrirhugaða nýskipan.“

Svo mörg eru þau orð í aths. fjárlagafrv. Í þeim koma fram ýmsar mjög athyglisverðar upplýsingar. Ég get svo sannarlega tekið undir margt af því, t.d. að samhæfa þurfi betur stjórnaraðild og fjárhagslega ábyrgð í heilbrigðisþjónustunni. Á þetta var rækilega bent í tillöguflutningi tveggja lækna úr þingliði stjórnarfl. á síðasta þingi. Þörfin á úrbótum á þessu sviði hefur því verið ljós um alllangt skeið. Enn er málum svo háttað að biða verður — til þess að gera hér fyrstu úrbætur annars vegar niðurstöðu af viðræðunum um skiptingu gjalda milli ríkis og sveitarfélaga og hins vegar flutnings heiIbrrh. á frv. um breytta tryggingalöggjöf. Þetta er síður en svo einsdæmi um mjög þýðingarmikla liði í þessu fjárlagafrv. og sýnir að í rauninni er það á þýðingarmiklum sviðum ekki nema hálfkarað, þar er ekki gengið svo frá málum að einu sinni geti enst næsta fjárlagaár, hvað þá til lengri frambúðar.

Annað dæmi af þessu tagi eru útflutningsuppbæturnar. Við afgreiðslu síðustu fjárlaga, fyrir þetta ár, var uppi ásetningur um að breyta fyrirkomulagi þeirra. En þetta hefur dregist og dregst enn, og enn eru tölur um framlög til útflutningsuppbótanna settar í fjárlagafrv. með fyrirvara í aths. að þær séu miðaðar við að þessar breyt., sem áttu að koma fyrir yfirstandandi fjárlagaár, en komu ekki, eigi nú að koma áður en næsta fjárlagaár hefst. Og enn langar mig — með leyfi hæstv. forseta — að vitna lítillega í aths. með fjárlagafrv. Þar segir um þessar uppbætur:

„Þessar uppbætur hækka mjög verulega eða um 910 millj, kr., sem er rösklega tvöföldun. Ástæðan er sú, að aðgerðir til að draga úr greiðslum skv. þessu uppbótakerfi sem stefnt var að á árinu og fjárlagaáætlun 1976 miðaðist við, hafa ekki enn þá náð fram að ganga. Þær 1800 millj. kr., sem hér eru áætlaðar, nema um 80% af hámarksverðábyrgð ríkissjóðs á árinu.“

Og enn — með leyfi hæstv. forseta — segir um sama efni á öðrum stað í þessum aths.: „Áætlun um þessar uppbætur er 1800 millj. kr.,

sem er 910 millj. kr. hækkun frá fjárl. 1976. Ljóst var við afgreiðslu fjárlaganna að sú fjárhæð mundi ekki nægja að óbreyttum lögum og reglum, og var ætlunin að endurskoðun færi fram á uppbótakerfinu á árinu. Sú endurskoðun hefur hins vegar ekki farið fram við gerð þessa fjárlagafrv. og er því óleystur vandi af þessum sökum á árinu 1976. Miðað við fullnýtingu verðábyrgðar á árinu 1977 má ætla að 2200 millj. kr. þyrfti að greiða úr ríkissjóði á því ári. Eru útflutningsuppbætur þannig áætlaðar 400 millj. kr. lægri en nemur fullri nýtingu 10% verðábyrgðarinnar á árinu 1977, en stefnt er að endurskoðun á uppbótakerfinu og á þeirri forsendu er áætlunin gerð.“

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, er lagaákvæði um útflutningsuppbæturnar að finna í lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Þau lög hafa lengi verið í endurskoðun sem hefur dregist von úr viti, og er vonandi a.m.k. að endurskoðun þessa ákvæðis geti átt sér stað það fljótt að traustari grunnur komist undir áætlanir fjárlaga í þessu efni heldur en verið hefur nú tvö ár í röð a.m.k. Þörfin á slíkri endurskoðun er enn brýnni þegar haft er í buga annað sem segir í aths. við fjárlagafrv., sem sé að breyting á þessum lagaákvæðum sé forsenda þess að við útflutning á landbúnaðarafurðum séu nýttir þeir markaðir sem hagstæðastir eru á hverjum tíma, og hlýtur slíkt að teljast afar þýðingarmikið atriði.

Í þriðja fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. er gert ráð fyrir hækkun frá gildandi fjárl. úr 59 milljörðum kr. í rúma 83 milljarða eða nánar tiltekið 41.2%. Fram kemur að meðaltalsverðlagshækkun milli þessara ára er sögð í forsendum frv. 33% og taxtahækkun launa 37.7%. Það er því ljóst að heildarhækkunin er 8.2% meiri en verðlagshreytingarnar skammta. Það er því mjög ofsagt hjá hæstv. fjmrh, að þess sé gætt að halda gjaldaaukningu innan marka líklegrar aukningar þjóðarframleiðslu á næsta ári, en sú aukning er talin geta orðíð milli 1 og 2%. Það er einnig ljóst og er viðurkennt í ræðu hæstv. ráðh. og aths. með fjárlagafrv. hans, að dregið er úr opinberum framkvæmdum og á sumum sviðum standa þær í stað. Útgjaldaaukningin, sem er greinilega mun meiri en fyrirsjáanleg kostnaðarhækkun, er því á rekstrarliðum ríkiskerfisins.

Til þess að koma nú saman fjárl. hefur ríkisstj. orðið að leggja til að framlengt verði 18% vörugjaldið. Það var viðurkennt, þegar þetta gjald var á lagt í upphafi, að það væri tekjustofn af því tagi að hann gæti aðeins átt rétt á sér til bráðabirgða. Skv. þessu var við afgreiðslu síðustu fjárl. stefnt að því að lækka vörugjaldið og láta það fjara út. En þegar fjárl. voru brotin upp í maí var það í staðinn hækkað í 18% og nú er ætlunin að framlengja svo hátt vörugjald út árið 1977. Slík ráðabreytni er varhugaverð, svo ekki sé meira sagt, að hafa svo óheppilegt gjald til langframa. Gjaldheimta þessi nemur 5.6 milljörðum kr. skv. áætlun um næsta ár. Þetta er verðbólguaukandi gjald, og sjálfur hæstv. fjmrh. viðurkenndi í ræðu sinni að það væri óheppilegur gjaldstofn. Þar tæpti hann á punktsköttum svokölluðum í staðinn, en ekkert kom fram í ræðu hans, svo ég yrði var við, um raunhæfan undirbúning að því að aflétta þessari óheppilegu gjaldheimtu.

Eins og ég vék að áður, er það áberandi hve þess gætir að þýðingarmikil atriði fjárlagafrv. fyrir árið 1977 eru í rauninni ákaflega óákveðin og fljótandi. Það eru boðuð frv. um þýðingarmikla málaflokka sem áhrif hafa á fjárlagagerð, og frá þessum málum verður því að ganga áður en endanleg fjárlagaafgreiðsla getur átt sér stað. Af slíkum málum vil ég nefna tollskrá, tryggingalög vegna sjúkratrygginga, breyttar reglur um ríkisábyrgðir, ákvæði framleiðsluráðslaga um útflutningsuppbætur og síðast en ekki síst skattalögin.

Ríkisstj. verður að reka trippin betur en hingað til ef hún ætlar að koma öllum þessum málum og fjárlagafrv. af fyrir þinghlé. Breytingin, sem hæstv. ríkisstj. hefur boðað á skattalögum, er tvímælalaust þýðingarmest af þessum málum sem eiga að fylgja fjárlagafrv. Hæstv. fjmrh. hefur nú boðað skattalagabreytingar og endurskoðun skattalaga tvívegis. Nú bólar loks á því barni, og vonandi verður kollhríðin ekki löng. Ég tel augljóst að breytingar þær, sem hæstv. ráðh. tæpti á, séu á þeim atriðum skattalaga sem mest standa til bóta, en best er að geyma frekari umsögn uns frv, liggur fyrir. En það tel ég að öllum megi vera ljóst, að ef ekki verður gerður rækilegur uppskurður á skattakerfinu á þessu þingi vofir yfir sprenging á því sviði.

Þess verður að krefjast af hæstv. fjmrh. og öðrum hæstv. ráðh., sem hlut eiga að máli, að ekki verði dráttur úr þessu á því að frv., sem eiga að ganga fyrir fjárl. í afgreiðslu, sjái dagsins ljós. Hingað til hefur aðeins eitt slíkt frv., frv. hæstv. dómsmrh. um rannsóknarlögreglu ríkisins og fylgifrv. þess, komið fyrir þingið. Verði úr þessu dráttur á því að hin frv., sem fjmrh. hefur boðað fyrir ríkisstj. hönd, verði lögð fram, er stefnt beint í málaflækju og óviðunandi vinnubrögð á þessu þingi. Ég skora því á hæstv. ráðh. og ríkisstj. að sjá svo um að mál þessi komi sem fyrst til meðferðar Alþingis.