29.03.1977
Sameinað þing: 70. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Bærinn Hvammur stendur undir Tindastól, og þar er gamalt prestssetur og kirkja. Neðan við þennan bæ fellur á sú sem hér er gerð till. um að brúa, Laxá, og brúin á að kosta 14 millj. kr. Þannig háttar til á þessum stað að vegurinn, sem liggur yfir þessa brú, liggur ekki að öðrum bæjum, a. m. k. getur ekki komið öðrum bæjum að gagni, ekki fyrr en þá einhvern tíma síðar meir. Í Hvammi hefur lengi búið einn maður, þ. e. a. s. presturinn í sókninni, og þetta er sem sagt brú fyrir prestinn, en hann hefur fram að þessu aðeins haft göngubrú. Þetta er að sjálfsögðu gott og fagurt. Gallinn er bara sá að presturinn er fluttur á Sauðárkrók.

Á næsta bæ búa systkin og þau hafa fengið heimild til þess að nýta þessa eyðijörð. Þau vilja fá þessa brú og gera sér reyndar von um það að vegur verði lagður á milli þeirra bæjar og Hvamms, þ. e. tveggja km leið, en á meðan nota þau annan og heldur lélegan veg. En sveitin í heild er áfram einangruð meira en flestar aðrar sveitir á landinu vegna þess að Laxárheiði er lokuð á vetrum. Fyrir utan þessi systkin og prestinn, sem fluttur er á Sauðárkrók, veit ég ekki um neinn skagfirðing sem telur þetta vera á meðal brýnna verkefna í vegamálum, annan en hæstv. dómsmrh. Hann vill ólmur fá þessa brú hvað sem tautar og raular. (Dómsmrh.: Hann er líka kirkjumrh.) Já, hann er líka kirkjumrh., og hann veit sem er, að sumir aðrir hafa fengið sína brú og hann vill náttúrlega ekki vera minni maður.

En upp af Valadalsheiði er önnur brú. Hún er á þjóðleiðinni milli Norðurlands og Suðurlands. (Gripið fram í: Ég hef aldrei heyrt hana nefnda.) Upp af Vatnsskarði er þessi brú. Hún er á þjóðleiðinni milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar. Og þetta er gömul brú, þetta er ein elsta brúin á norðurleiðinni. Hún er komin á sjötugsaldur. Hún kostar lítið meira en brúin prestsins, en hún hefur ekki fengist endurbyggð nú ár eftir ár vegna þess að það eru engir peningar til. Þó er þetta alkunn slysagildra fyrir þá 300–400 bíla sem aka daglega að sumrinu yfir þessa brú. En hún á sem sagt að bíða enn um sinn meðan verið er að byggja brú fyrir eyðijörð. Þetta er sýnishorn um vinnubrögð sem ekki á að þola. Þess vegna hef ég flutt þessa till. og þess vegna segi ég já.