29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2968 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hér hafa verið teknar upp umr. um einn af ríkisbönkunum, Útvegsbankann, og sagt frá því að orðrómur væri á kreiki hér í borginni sem gæti skaðað þennan banka eða veikt traust hans, og til þess í rauninni að reyna að hnekkja þessum orðrómi hafa þessar umr. orðið hér að þessu sinni, skilst mér. Í máli hæstv. viðskrh. og bankamrh. hefur komið fram, að Útvegsbankinn hafi átt og eigi í nokkrum erfiðleikum og hann hafi m. a. leitað til ráðh. í þeim efnum og málið hafi síðan komið til Seðlabankans. Ég tók eftir því að hæstv. bankamrh. greindi hér frá tveimur ástæðum fyrir því að þessi ríkisbanki ætti nú í nokkrum erfiðleikum. Annars vegar var sú ástæða, að bankinn þyrfti að þjóna aðalatvinnuvegi landsmanna, sjávarútvegi, í mjög ríkum mæli og í svo ríkum mæli að hann ætti þar fullt í fangi með að leysa sín verkefni af hendi. Hins vegar væri það, að það væri nokkurn veginn ljóst að bankinn hefði lent í vissum erfiðleikum vegna eldgossins í Vestmannaeyjum og afleiðinganna af því. Ég býst við því að þetta sé hvort tveggja rétt hjá hæstv. ráðh., að vissa tímabundna erfiðleika hjá Útvegsbankanum megi rekja að nokkru til þessa. Hitt er auðvitað rétt og sjálfsagt að taka hér undir og undirstrika, að Útvegsbankinn sem ríkisbanki er jafnöruggur banki jafnt fyrir fyrirtæki og stofnanir sem einstaklinga í landinu og aðrir ríkisbankar, á því leikur auðvitað enginn vafi. Útvegsbankinn er líka eignalega séð vel stæður banki. En hann getur auðvitað eigi að síður lent í erfiðleikum sem hér hefur einmilt verið minnst á.

Ég tók eftir því líka, að hæstv. bankamrh. sagði að það væri nú til athugunar að greiða úr vandamálum bankans með ýmsu móti, m. a. hefði Seðlabankinn gert það nokkuð og gerði, og þar að auki væri það til athugunar að létta af Útvegsbankanum ýmsum þeim verkefnum sem hann hefur þurft að sinna að undanförnu. Ég vil einmitt í tilefni af þessu segja það, án þess að ég geri ráð fyrir að hér fari fram mjög almennar umr. um þetta mál á þessu stigi málsins, að ég er á þeirri skoðun, sem hér hefur m. a. komið fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni á nokkuð annan hátt en ég hefði viljað láta það koma fram, að sú fyrirgreiðsla, sem átt hefur sér stað bæði við þennan banka og fleiri í vissum tilfellum frá hálfu Seðlabankans, sé mjög vafasöm fyrirgreiðsla og ekki af því tagi sem dugir.

Ég tók svo eftir að málshefjandi hér, sem er bankaráðsmaður í Útvegsbankanum, segði að á s. l. ári hafi bankinn greitt í vexti til Seðlabankans 30.6% að meðaltali. Síðar var sagt hér í umr. að vextir hefðu verið á milli 30 og 40%. Það skiptir mig í rauninni ekki aðalmáli hvort er nákvæmara, en ég tel nokkurn veginn fullvíst að bankinn hafi þurft að borga Seðlabankanum fyrir fyrirgreiðslu um og yfir 30% vexti. Það kunna að vera nokkrar ástæður til þess að Seðlabankinn setur upp reglur um það sem almennt er kallað að beita refsivöxtum gagnvart bönkum og aðilum sem fara út fyrir settar reglur. Það geta verið viss rök fyrir því að slíkum reglum sé beitt. En vitanlega er ekki hægt að flokka þetta á neinn hátt undir það að leysa þann vanda sem hér er um að ræða hjá þessum ríkisbanka. Ef hlutfall Útvegsbankans er stærra en hann fær ráðið við með góðu móti í þjónustu við einn aðalatvinnuveg landsins, sjávarútveg, ef hlutfall Útvegsbankans er stærra en hann ræður við með góðu móti í þessum efnum og ef þessi ríkisbanki hefur þurft að taka á sig vanda m. a. vegna áfallanna í Vestmannaeyjum á sínum tíma og það hefur sett hann í vanda, þá þarf að mæta þessu á allt annan hátt heldur en að leita til Seðlabankans og geta fengið á sig refsivexti þar. Í slíkum tilfellum getur eitt af tvennu komið til greina. Það hefur verið rætt um hér áður að sameina þennan banka öðrum bönkum, t. d. öðrum ríkisbanka, og gera einn miklu víðfeðmari og sterkari banka sem getur miklu betur tekið á sig viss vandamál. Ef það tekst ekki, þá er auðvitað enginn vafi á því, og það er það sem ég vil leggja áherslu á í þessum efnum, að þá beri ríkinu sjálfu skylda til að efla ríkisbanka sinn, Útvegsbankann í þessu tilfelli, umfram það sem nú er, styrkja hann að fjármagni til þess að hann geti rekið þá þjónustu við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar sem talin er eðlileg. Ef bankareksturinn er að öllu öðru leyti eðlilegur og góður, þá þarf vitanlega að leysa vandamál bankans á þennan hátt. Ég vil segja það, að ég hef enga trú á þeirri lausn að ætla, eins og sagt er, að létta af bankanum tilteknum verkefnum og færa yfir til annarra. Ég er á þeirri skoðun að bankinn muni ekki leysa nein vandamál með þeim hætti, heldur haldi vandinn áfram. Sem sagt, varðandi hugsanlegar ráðstafanir segi ég það, að ríkinu ber skylda til að efla þennan banka sinn fjárhagslega frá því sem nú er, færa til hans fjármagn, ekki með neinum refsivöxtum, — refsivextirnir eiga að gilda um allt annað í sambandi við hinn almenna rekstur bankanna, — til þess að bankinn geti staðið undir þeim verkefnum sem honum eru ætluð og hann er að glíma við.

En að öðru leyti verð ég að segja það, að það var ekki meining mín að fara að taka hér þátt í almennum efnahagslegum umr. eða ræða hér um stefnuna í peningamálum, sem ríkjandi er hér, og vaxtapólitíkina. Það verður eflaust gert við annað tækifæri en þetta. En ég vildi bætast í hóp annarra sem undirstrika það að Útvegsbankinn er öruggur banki, hann er jafnöruggur og allir aðrir bankar, hann er efnahagslega sterkur banki eignalega séð. Hann á í vissum vanda sem her að leysa, ef ekki með sameiningu við aðra banka þannig að við fáum öðruvísi lagaða heild, þá her að færa fjármagn til þessarar stofnunar svo að hún geti sinnt verkefnum sínum eðlilega. Þegar síðan þessum málum hefur verið kippt í lag, þá er auðvitað sjálfsagt að beita sömu reglum við þann banka og aðra banka að því leyti til sem rétt þykir að hafa refsivaxtaaðferðir um hönd. En hitt er auðvitað augljóst mál, að það er rétt sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði hér, að það verður engum banka og engu fyrirtæki bjargað með því að það fái aðstoð upp á 30 eða 40% vexti, ekki einu sinni þó að það verði klipin af þeim mörg fyrirtæki og þau færð til annarra. Slíkt getur ekki gengið til lengdar.

Ég fyrir mitt leyti óska ekki eftir neinu framhaldi þessara umr. En ég vil gjarnan eiga minn þátt í því að hafa áhrif á lausn þessa máls, af því að ég álít að hér sé um að ræða ekki aðeins mál sem varðar Útvegsbankann, heldur mál sem varðar þýðingarmikinn hluta af atvinnurekstrinum í landinu.