28.10.1976
Sameinað þing: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

1. mál, fjárlög 1977

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Skáldið Steinn Steinarr sagði eitt sinn í kvæði sínu þegar hann hafði fengið skáldalaun: „Eitthvað er breytt, annaðhvort ég eða þjóðin.“

Þetta sama mætti ég taka mér í munn nú þegar fjárlagafrv. er hér til 1. umr. á hv. Alþ. og útlit er fyrir að það muni taka 4–5 klukkutíma að ræða það, því ég minnist þess þegar ég lagði það hér fram á Alþ., þá tók það að minnsta kosti 4 daga. Hins vegar hefur það nú komið fram, sem ég mun koma að síðar, að ýmsir þeir spádómar, sem þá voru hafðir uppi, þykja nú ekki hafa verið eins raunhæfir og þeir voru þá taldir og ekki síst af þeim sem fordæmdu mest.

Það er ekki nema eðlilegt að um fjárlög sé rætt nokkuð mikið, og ég hef sjálfur talið að það væri óheppileg sú breyting, sem gerð var á þingsköpum Alþingis, að færa þessar umr. frá því að alþjóð gæti fylgst með. Mitt mat var það og studdist það við reynslu, að þjóðin hafði áhuga á því að fylgjast með 1. umr, fjárlaga, fá skýrslu hæstv. fjmrh. og hlusta á það. En það er nú liðin tíð. því var breytt með síðustu breytingum á þingsköpum.

Það er svo með þetta fjárlagafrv. eins og önnur, ég hef víst áður notað þá samlíkingu hér á hv. Alþ. og geri það samt enn, að öll útgjöld eru góð einstök fyrir sig. Það er afskaplega gott og þægilegt að geta leyst úr einstökum málum, hvort það er á sviði framkvæmda, félagsmála, launamála eða í öðrum atriðum. En þegar tölurnar eru svo teknar og lagðar saman í heild og út kemur niðurstaða fjárlaga, þá er þetta orðið vont mál, og þannig fer einnig um þetta fjárlagafrv. Það er vont mál sem heildarmál. En hv. þm. og mér einnig finnst vanta á ýmis góð mál sem betur þyrfti að vinna að heldur en hér er gert með þessu fjárlagafrv., þrátt fyrir þessa vondu niðurstöðu sem talað er um.

Ef hv. þm. virða fyrir sér fjárlagafrv. eins og það er og taka yfirlitið á bls. 139 í frv., sem ég vil vekja athygli á, með leyfi hæstv. forseta, þá sjá þeir að heilbrigðis- og tryggingamálin eru fyrirferðarmest í útgjöldum fjárlaganna eða taka 1/3 af heildarútgjöldum þeirra. Þar næst koma menntamálin sem taka tæp 16% og samgöngumál 10%, þó of lítið sé þar að gert, og aðrir málaflokkar eru þar fyrirferðarminni: viðskiptamálin 7% og allt niður í tæpt 1%. Á þessu sjáum við að í hlut tveggja stærstu málaflokkanna fellur meira en helmingur af öllum útgjöldum fjárlaga. Það eru heilbrigðisog tryggingamálin og menntamálin. Þetta er augljóst þeim sem vilja líta á þessi mál með raunsæi og meta þau út frá því.

Nú vil ég segja það um þetta fjárlagafrv., að það er von mín og þeirra annarra sem komið hafa nálægt því að vinna að því að undirbúa það, að tölur í fjárlagafrv. séu á ýmsan hátt raunhæfari en áður hefur verið. Það vita allir, sem hafa unnið að fjárlagagerð, og allir hv. þm., sem það hafa gert, að auðvitað eru flestar tölur fjárlaga áætlunartölur sem geta breyst við þær ytri aðstæður sem verða á fjárlagaárinu. Nú var reynt að gera eins vel og hægt var á frumstigi málsins, að áætla þessar tölur sem næst því sem menn halda, eins og reyndar hefur áður verið gert. En þó vil ég segja, þó ég eigi þar sjálfur hlut að máli, að ýmsir málaflokkar hafa nú verið teknir til sérstakrar athugunar í sambandi við áætlun sem ekki hefur verið gerð eins nákvæmlega áður. Þar vil ég t.d. nefna að ástæðan fyrir hækkun til landbúnaðarmála, hún liggur m.a. í því, að nú er gert ráð fyrir því að í útgjöld vegna ræktunarlaga og annarra slíkra laga sé tekin með sú verðhækkun sem alltaf hefur verið tekin með við greiðslu. Hún er áætluð inn í þetta fjárlagafrv. og reynt að byggja á því sem þekkt er um framkvæmdirnar á yfirstandandi ári. Þetta tek ég sem dæmi um það, að ég tel betur að unnið, og tek það fram, að ég tel sjálfan mig ekki neina undantekningu um það, að auðvitað fóru mín fjárlög eins og annarra fram úr áætlun. Þetta mun hins vegar ekki tryggja það að fjárlög geti ekki farið fram úr áætlun á næsta ári, og þau eiga eftir að taka breytingum í meðferð í hv. fjvn. eins og fyrr. Það eru margar ástæður sem eru þess valdandi að breytingar verða á fjárlögunum, og ekki hvað síst hefur verðbólgan í okkar landi haft þar mikið að segja, frá því að fjárlög hafa verið afgreidd og þar til ríkisreikningur hefur verið gerður. Það er því hvernig tekst til með verðbólguna sem mun hafa veruleg áhrif á þessi mál á árinu 1977, fjárlagagerðina annars vegar og ríkisreikning hins vegar.

Ég vil hins vegar segja það í sambandi við þá málaflokka, sem ég vil vekja athygli á, að það er afskaplega langt frá því að ég sé ánægður með fjárveitingar til vegamála. Því fer mjög fjarri, þó að þetta yrði niðurstaða innan ríkisstj. Mál þetta verður betur athugað, en það þarf miklu betur þar að gera ef vel á til að takast. Ég vil hins vegar taka það fram, að ég tel að það hafi betur verið staðið að hafnamálunum. Ég tel að verulega hafi áunnist í hafnamálum tvö síðustu árin, og með þeirri hafnaáætlun, sem nú er verið að vinna að, þá held ég að að fjórum árum liðnum verði okkur búið að takast verulega í framkvæmdum hafnamála, ef miðað er við þær aðstæður sem þá verða fyrir hendi. Hitt dettur mér ekki í hug, að framtíðin beri ekki í skauti sér aukin verkefni og breytingu á útvegi, eins og hún hefur gert til þessa, og þá sé að taka því. En ýmislegt hefur verið gott gert. Og þó að reikna megi hlutfallstölu niður á þeim tíma sem unnið hefur verið að stærstu hafnargerð á Íslandi, sem hefur ein tekið meira en allar hafnirnar tóku áður, þegar hún fellur niður, eins og Þorlákshöfn fellur niður á árinu 1977, þá þarf engan að undra þó að hlutfallið lækki þegar það er haft í huga. En það er að því leyti ekki réttur samanburður, vegna þess að við verðum með ekkert eins stórt verkefni á næsta ári og við erum með á þessu ári og s.l. ári. Á þessu vil ég vekja athygli.

Annars skal ég ekki fara að fara út í það að ræða þessa þætti öllu meira, en vil þó vekja athygli á því, að það eru málefni auk vegamálanna sem ég hef brennandi áhuga á og tel að við þurfum einhvern veginn að leita að leiðum og verðum að leita að leiðum á þessu þingi til þess að leysa, og það eru heyöflunarmálin, bæði heyverkunin og heykögglaverksmiðjurnar. Allt þetta eru mál sem mikið ríður á að Alþingi það, sem nú situr, geti leyst, svo að hægt verði að halda áfram við framkvæmdir þar um.

Ég ætla mér nú ekki að fara mikið út í deiluatriði, og að því sem snýr að hæstv. fjmrh., þá er hann alveg maður til þess að standa fyrir sínu í viðureigninni við hinn orðhvata hv. 8. landsk. þm., og allra síst ætla ég nú að reyna að fara að keppa við hann í stóryrðum eða öðrum töktum sem orðhvötum tilheyra, enda væri það fyrir fram tapaður leikur.

Út af því, sem þessi hv. þm. sagði um tilstofnun hjónabandsins, eins og hann orðaði það, í sambandi við myndun þessarar hæstv. ríkisstj., þá er það nú venjulega svo, þegar hjónabönd verða til, að þá eru einhverjir aðilar, sem standa fyrir utan, sem hefðu kosið að ná til þess að taka þátt í hjónabandsstofnuninni með öðrum hvorum aðilanum, en ekki bara vera ánægður með að þeir hefðu náð saman. Og venjulega verða hjónabönd ekki giftudrjúg nema þeir aðilar, sem til þeirra stofna, séu af fleiri en þessum tveimur eftirsóttir, sem sagt þriðja aðilanum líka. Og það mátti heyra á upphafi og endi ræðu hv. 8. landsk. þm. að þar var það til staðar, sorgin yfir því að hafa ekki tekið þátt í hjónabandinu.

Út af því, sem hv. þm. sagði um fjárlagastjórnina á árunum 1972–1974, þá gleymdist þeim ágæta þm. það, að á þeim árum voru gerðar veigamiklar breytingar á fjárlagakerfinu og uppbyggingu þess. Árið 1972 var t.d. breytt veruleg verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þá var ríkið látið taka að sér tryggingarnar og lögregluna í landinu. Það tilheyrði þá ríkinu í útgjöldum þetta hvort tveggja, en hafði tengst sveitarfélögunum að nokkru áður. Þetta gerði það að verkum og fleira þess háttar, að fjárlagafrv. hækkaði þá verulega miðað við það sem þá var.

Ég vil líka minna á það, sem ég vil undirstrika í sambandi við þetta fjárlagafrv., og ég vil taka undir það með hæstv. fjmrh. að stefnt er að því að vegáætlun verði lögð fram og helst afgreidd jafnhliða þessu fjárlagafrv. Það var einmitt á þessum árum, árið 1974, þá var byrjað á því að sameina lánsfjáráætlunina að nokkru leyti, að því er sneri að ríkinu beint, og fjárlögin. Þetta hefur svo farið í vöxt, og með hverju ári, sem að hefur verið unnið, hefur verið reynt að festa þetta meira í formi. Í fyrra voru teknir inn stofnlánasjóðirnir, og nú er stefnt að því að festa þetta algerlega í formi, að þetta fari saman. Þetta er að minni hyggju mjög skynsamleg og nauðsynleg stefna í efnahagsmálum. Ég tel að þau ár, sem fyrrv. ríkisstj. vann að þessum málum, hafi hún farið inn á rétta leið í þessum efnum. Það má svo auðvitað deila um einstaka þætti í framkvæmd þeirrar ríkisstj. eins og annarra ríkisstj., og það er ekki laust við að maður verði hálffeiminn þegar hv. 8. landsk. þm, ætlar að fara eins og að hálfgæla við þetta. Þá er maður hræddur um að maður hafi ekki verið á réttri leið. En verulega hafði áunnist og það hefur haldið áfram hjá núv. ríkisstj. Það er enginn að afsaka það eða fela það, að það hefur tekist svo til með fjármál ríkissjóðs eins og menn hefðu óskað, það er fjarri því. Þessi ríkisstj. hefur ekkert verið að veigra sér við að játa það, að hún hefði viljað láta þar betur til takast heldur en til hefur tekist. Og að því er stefnt með þessu fjárlagafrv.

Ég vil líka segja í tilefni af því, sem kom fram hjá hv. 8. landsk. þm., sem er nú því miður ekki hér nærstaddur, — en ég tala nú svo sjaldan orðið á hv. Alþ. að það verður að fyrirgefa mér þó að ég tali þegar hann er fjarstaddur, — að fyrrv, ríkisstj. tók alveg við þeim samningum eða framkvæmdi alveg þá samninga sem ríkisstj. á undan henni hafði gert, þó að í andstöðu við hana væri, í sambandi við EFTA. Allar tollalækkanirnar, sem voru í samningunum við EFTA, voru gerðar við fjárlagaafgreiðsluna haustið 1974. Það var að vísu ekkert álitlegt að gera það, og má segja að það hafi orkað tvímælis af mér sem fjmrh. að telja að það ætti að gerast fyrst mér tókst ekki jafnhliða að tryggja tekjur á móti, eins og gert var ráð fyrir þegar EFTA-samningarnir voru afgreiddir. Ég gerði mér vonir um að það mundi takast að ná þessu, og ég hafði fullkomna ástæðu til þess að ætla að ég ætti örugga breytingu á söluskatti ef ég næði samkomulagi við stéttasamtökin þar um. Fyrir því taldi ég mig hafa haft fyrirheit frá forustumönnum annars stjórnarandstöðuflokksins þá, Alþfl. Mér urðu það því veruleg vonbrigði þegar það tókst ekki nema að takmörkuðu leyti. En þó var orðið við því, sem stéttarfélögin fóru þá fram á, að breyta tekjuskattinum. Þau töldu sér hag í því og þau voru höfð með í ráðum í sambandi við það.

Um skattamálin ætla ég ekki að fara að ræða hér að sinni því að þau verða rædd síðar og þá gefst tækifæri til þess. Ég fagna þeim yfirlýsingum sem hæstv. forsrh. gaf í stefnuræðunni og hæstv. fjmrh. nú í fjárlagaræðunni, þar sem hann kom inn á veigamikil atriði sem ég tel nauðsyn bera til að koma í framkvæmd. Á þeim árum, sem ég fór með þessi mál, var unnið sleitulaust að skattamálum, og þá kom það í ljós sem fyrr að hér er um mikið verk að ræða og mikið verk að vinna. Við hv. 2. þm. Austurl. komum sem ráðh. að því máli, þegar verið var að breyta lögunum, sem gert var 1972. En okkur var það öllum ljóst, sem að því unnum. að skattamál eru flóknari mál og erfiðari mál en svo, að það væri hægt að gera allt á þeim tíma sem þá var til umráða, enda var ætlunin að halda áfram og það hefur verið gert. Verulega var búið að vinna að þeim málum þegar stjórnarskiptin urðu, og því hefur verið haldið áfram.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. hefur virðisaukaskatturinn ekki í nágrannalöndum okkar reynst eins vel og skyldi. En það er mér alveg fullkomlega ljóst, að hjá því verður ekki komist að við verðum að búa þannig bæði að okkar einstaklingum og atvinnuvegum að þeir geti reiknað með að hafa ekki verri skattaaðstöðu heldur en menn í nágrannalöndunum. Og það er líka ljóst að beinir skattar hér eru miklu lægri en á Norðurlöndunum. Hins vegar eru sumir skattar á sviði atvinnumála ekki eins hagstæðir, sérstaklega í iðnaði, og virðisaukaskatturinn hefur að dómi iðnrekenda reynst betur, en veilur hafa í honum fundist.

Ég sé að hv. 8. landsk. þm. er ekki svo fjarri mér sem ég hugði. Þá vil ég bæta því við, vegna þess að við getum rætt það þegar skattamálin verða hér til umr., út af t.d. ræðum sem foringjar Alþfl. fluttu í útvarpsumr. síðustu, að þá held ég að þeir hv. þm. hafi alveg gleymt því að lesa skattalögin frá 1965 og 1971 sem þeir stóðu að. Og ef skattalögin, sem voru afgr. 1972, eru borin saman við skattalögin frá 19 71, þá gengu skattalögin írá 1972 skemmra í átt frá því, sem þeir deildu þar mest á, heldur en skattalögin frá 1971. Hitt er allt annað mál, eins og ég sagði áðan, að því verki, sem þar var unnið að, er ekki lokið og hefur verið unnið að síðan, og það er von okkar að okkur takist á yfirstandandi þingi að leysa þetta mál. Ég hef sjálfur þá persónulegu skoðun að það eigi í sambandi við tekjuskattinn að hverfa meira inn á leið brúttóskatts, eins og gert var með útsvörunum, og láta skattafrádráttinn heldur eiga sér stað í sambandi við álagninguna.

Ég er sannfærður um að það eru undanþágurnar og aftur undanþágurnar sem skapa verulegan hluta af veilunum í okkar skattakerfi, og eftir því sem þeim fækkar, eftir því verða skattalögin nær því að vera rétt. Hitt dettur mér ekki í hug, að skattalög verði nokkurn tíma þannig að allir segi að þau séu réttlát. Þá held ég að þau væru nú heldur af verri gerðinni ef svo væri, enda kviði ég því ekki. En hitt er rétt, að það ber brýna nauðsyn til þess, eins og hér hefur verið lýst yfir, að taka skattamálin til verulegra og raunhæfra og róttækra breytinga, sem ég líka geri ráð fyrir að verði gert á þessu þingi og vona að hv. þm. standi að því að koma þeirri breytingu í gegn, því að brýna nauðsyn ber til þess. Það er ekki nokkur vafi að skattar nú eru orðnir of miklir launaskattar, miðað við það sem raunverulegt er.

Þetta mun ég nú láta nægja um þetta ágæta fjárlagafrv., því að það hefur, eins og ég sagði um önnur fjárlagafrv., einkenni þess að sinna illa einstökum góðum málum, en vera allt of hátt að niðurstöðutölum til.