29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2981 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

181. mál, landbúnaðaráætlanir

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans. Mér er fyllilega ljóst að áætlanir sem þessar hafa tiltölulega lítið gildi án þess að fjármagni sé varið til þess að framkvæma þær og til þess að fylgja eftir þeim breytingum sem þarf að gera á aðstöðu fólksins til búskaparhátta í þeim héruðum sem þær ná til. Þetta er vitaskuld ljóst og þá um leið jafnljóst að þar geta ekki allir orðið fremstir í röð. Ég verð hins vegar að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með það, um leið og ég hlýddi á þá upptalningu sem hæstv. ráðh. fór hér með, að þau svæði, sem ég hef hér spurt sérstaklega um, Vatnsnes og Skagi, eru harla neðarlega á blaði í áliti landbúnaðaráætlananefndar.

Það eru orðin, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, 2–3 ár síðan þessi mál komust á dagskrá í þeim héruðum sem hér um ræðir með fjölmennum fundum og almennum samþykktum. Og ég verð að játa þá fákunnáttu mína og það eftirtektarleysi mitt, að ég hafði ekki heyrt um að fyrirætlanir væru uppi um sérstakar áætlanir t. d. fyrir Mýrar í Mýrarsýslu fyrr en ég heyrði það við setningu Búnaðarþings og svo aftur nú.

Ég skal ekki á þessu stigi fara að dæma um það á nokkurn hátt hvaða landssvæði eigi að hafa þarna forgang. En ég lít svo til að þær byggðir, sem ég hef hér minnt á, séu harla veikar hvað búsetu snertir og það megi mikið vera ef ýmsar aðrar byggðir séu þar veikari. Ég get sagt t. d. að í frumgögnum, sem varða athugun á Vatnsnessvæðinu, kemur í ljós að í Þverárhreppi og Kirkjuhvammshreppi er túnstærð mjög lítil Í Þverárhreppi sést að á 6 jörðum er túnstærð innan við 10 ha., á 16 jörðum á milli 10 og 20 ha. og aðeins á 11 jörðum túnstærð yfir 20 ha. Í Kirkjuhvammshreppi er ástandið enn lakara. Þar er túnstærð á 11 jörðum innan við 10 ha. og á 19 jörðum á milli 10 og 20 ha., en aðeins á 8 jörðum yfir 20 ha. Þetta eitt út af fyrir sig bendir til þess, að þarna sé verulegra úrbóta þörf. Víst er þetta þó ekki einhlítur mælikvarði. Hitt held ég að skipti kannske enn þá meira máli, hve mikið fámenni er á hverju heimili í þessum byggðum. Þarna eru þó að ýmsu leyti landkostir góðir. Má nefna t. d. að vestan á Vatnsnesi eru sauðlönd mjög góð og landkostir eru einnig góðir á Skaga. En fámenni byggðanna, einangrun þeirra í félagslegu tilliti, erfiðar samgöngur, ekki síst á Skagasvæðinu, eru þess valdandi að byggðir þessar eru ákaflega veilar og getur svo farið að það megi ekki mikið út af bregða svo að ekki hljótist stórskaði af.

Það er ekki ástæða til þess að bæta við þetta mörgum orðum. Ég vil aðeins segja það, að ég tel að það skipti verulegu máli, þar sem svo stendur á sem í þessum byggðum, að það fólk, sem treyst hefur á að einhverra aðgerða væri að vænta á komandi árum, sjái fyrir með nokkuð sterkum líkum hvenær röðin kemur að því. Og miðað við þá röðun, sem hér kom fram hjá hæstv. ráðh., er ekki með nokkrum hætti hægt að sjá hve langur tími muni líða þangað til kemur að því að hafist verði handa á þessum tilteknu svæðum, svo að ég fæ ekki séð að í svari hæstv. ráðh. hafi komið fram nokkur hughreysting til þess fólks sem þarna á hlut að máli. Þetta vil ég láta hér koma fram og vonast eftir því að við getum á komandi árum varið meira fjármagni til þessara landbúnaðaráætlana og um leið styrkt þá byggð sem við teljum í sameiningu að nauðsynlegt sé að halda við sem viðast í okkar góða landi.