29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2983 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

195. mál, leigu- og söluíbúðir á vegum sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Fyrsta spurningin er á þessa leið: Hve margar íbúðir af leigu- og söluíbúðum á vegum sveitarfélaga voru fullgerðar 1. jan. 1977? — Svarið er: 175 íbúðir.

2. spurningin: Hve margar ófullgerðar íbúðir voru í smíðum á sama tíma. — Svarið er: 115 íbúðir.

3. Hve mörg leyfi hafa verið veitt til smíði nýrra íbúða á þessu ári og hve margar umsóknir þar að lútandi hafa borist? — Svarið er, að húsnæðismálastjórn hefur samþykkt leyfi til byggingar 118 íbúða á þessu ári. Fyrir húsnæðismálastjórn liggur tillaga um leyfi til byggingar 26 íbúða til viðbótar sem gert er ráð fyrir að verði samþ. Samtals er hér um að ræða 144 íbúðir og vantar þá enn 6 upp á að fullnægt sé ákvæði laganna um 150 íbúðir á ári, og geng ég út frá því að það verði gert. Umsóknir hafa borist um byggingu 337 íbúða.