29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2993 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

167. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki segja mörg orð til viðbótar við það sem tveir síðustu ræðumenn hafa hér sagt á undan. Ég vildi aðeins koma hér upp til þess að þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir flutning þessarar till. og lýsa því yfir að ég mun veita henni fyrir mitt leyti brautargengi. Ég vil sérstaklega taka það fram, að ég er sammála honum um að það þarf að kanna vissa þætti án þess að það sé endilega verið að kanna alla hluti um allt land á sama tíma og ég tel, að þarna sé einn rannsóknar- og könnunarþáttur sem þurfi nauðsynlega að sinna.

Það hefur orðið í auknum mæli að áætlunarflugvélarnar til Ísafjarðar, sem er ein fjölfarnasta flugleið í innanlandsfluginu, hafa þurft að lenda á Þingeyri, en þangað er æðidrjúgur spölur frá Ísafirði. Vegna þvervinds á völlinn er oft og tíðum ekki hægt að lenda þótt ágætisveður sé að öðru leyti til flugs. Ef rannsókn leiddi í ljós að það væri hægt að koma upp í Holti í Önundarfirði — eða hv. þm. sögðu utan við Flateyri, ég ætla að það sé eigi að síður innan við Flateyri, — ef þar væri hægt að koma á varaflugvelli, þá lengdist akstursleiðin frá Ísafirði á flugvöll ekki nema sem nemur um 20 mínútna akstri og er þar geysilega mikill munur á eða þurfa að fara alla leið til Þingeyrar. Við finnum best fyrir því á sumrum, þegar Flugfélagið heldur uppi tveimur flugferðum á dag til Ísafjarðar, hver munur er á slíkri þjónustu eða eins dags ferðum á vetrum þegar skammdegið leyfir ekki nema eitt flug.

Ég tel sem sagt að það sé mjög þýðingarmikið að þessi könnun fari fram, þannig að við höfum niðurstöður af henni þegar kemur til ákvörðunar um frekari framkvæmdir á þessu sviði.