29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2993 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

179. mál, mengunarvarnir og heilbrigðisgæsla í álverinu í Straumsvík

Flm. (Sigurður Magnússon) :

Herra forseti. Það er alkunna að í hinum tæknivæddu iðnaðarlöndum er iðnaðarmengun viða mjög alvarlegt vandamál. en við uppbyggingu stóriðjuvera í þessum löndum fyrr á öldinni var mengunarvandamálum lítill gaumur gefinn. Nú hin síðari ár hafa þessar þjóðir hins vegar í auknum mæli gert sér grein fyrir hinum skaðlegu áhrifum mengunarinnar á allt lífríki, jafnt gróður, dýr og menn, og í þessum löndum er því nú viða verið að reyna að draga úr eituráhrifum stóriðjunnar með endurbótum á tækjabúnaði í verksmiðjum og með setningu strangra starfsleyfa fyrir slíkan iðnað. Tilvera gamalla iðjuvera, sem ekki eru hönnuð fyrir nýtískuhreinsibúnað, mun þó tefja mikið alla viðleitni til endurbóta í iðnaðarlöndum þessum því að í lagasetningu um mengunarvarnir og heilbrigðishætti er víða tekið mikið tillit til erfiðleika þeirra við að endurnýja tækjabúnað sinn. Þessar þjóðir munu því í mengunarvörnum sínum hugsa sér að snúa þróuninni við í áföngum.

Aðstaða okkar íslendinga í þessum efnum er allt önnur. Stóriðjuver eru sem betur fer ekki mörg né gömul hér á Íslandi og áhrif iðnaðarmengunar því tiltölulega nýtt fyrirbæri. Við glímum ekki við vanda iðnaðarþjóðanna að eiga mörg stóriðjufyrirtæki sem breyta þarf frá grunni til að gera þau starfhæf miðað við nútímakröfur um mengunarvarnir. Ísland hefur því í þessum efnum mikla sérstöðu. Sérstaða okkar byggist og á því, að lífríki landsins er miklu viðkvæmara fyrir áhrifum mengunar, t. d. flúormengunar, en lífríki flestra annarra þjóða vegna þess að jarðvegur hér er fremur súr og kalkfátækur, auk þess sem land okkar býr við óhagstæð veðurskilyrði. Af þessum sökum getur mengunarlöggjöf, sem telst framfarasinnuð víða erlendis, verið ófullnægjandi við íslenskar aðstæður. Góðar venjur í öðrum löndum geta reynst vera ónógar hér.

Á þessar staðreyndir hefur oft verið minnst, svo sem við umr. um lagasetningu um álverið í Straumsvík á sínum tíma, en þá vöruðu þm. Alþb. alvarlega við áhrifum mengunar frá álverinu úr því að engar kröfur voru gerðar um það í samningunum við ÍSAL að sett væru upp hreinsitæki í verksmiðjunni þegar í upphafi.

Þannig vakti Alfreð Gíslason læknir og þáv. þm. Alþb. sérstaklega athygli á þeirri hættu sem starfsfólki álversins væri búin vegna ryks og flúormengunar og hann taldi að leiða mundi til ýmissa hættulegra atvinnusjúkdóma, m. a. á slímhimnur líkamans og á lungu og öndunarfæri. Einnig varaði hann við flúoreitrun eða flúorósis, sem væri hægfara sjúkdómur og mjög þekktur erlendis í sambandi við verksmiðjurekstur, en sjúkdómur þessi lýsti sér einkum í sérkennilegum breytingum á beinum líkamans og bandvef. Jafnframt því sem varað var við þessum sjúkdómum var varað við mengunarhættu fyrir allt lífríkið í umhverfi bræðslunnar sem gæti leitt af þeirri flúormengun, sem frá henni kæmi, og hefði slæm áhrif jafnt á gróður sem dýralíf.

Þessum aðvörunarorðum þm. Alþb. var ekki sinnt, og í samningunum við ÍSAL var ekki gert ráð fyrir uppsetningu hreinsitækja þrátt fyrir að á þessum árum væru slík hreinsitæki komin upp við flestar nýrri verksmiðjur erlendis, svo sem í Noregi.

Sama hefur einnig komið fram nú nýverið í skýrslu Heilbrigðiseftirlits ríkisins, þar sem þeir segja að eftir að hafa gert könnun á framleiðsluháttum og mengunarvörnum í milli 60 og 70 verksmiðjum í ýmsum löndum sé niðurstaða Heilbrigðiseftirlitsins sú, að engin af þessum verksmiðjum búi við slíkt öryggisleysi sem álverksmiðjan í Straumsvík.

En þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir þær staðreyndir, að slík hreinsitæki væru orðin algeng viða erlendis um það leyti sem samningarnir voru gerðir, var sem íslenskir ráðamenn tryðu þá fullyrðingum fulltrúa auðhringsins um þarfleysi slíkra mengunarvarna, svo sem ummæli þeirra frá þessum tíma bera glöggt vitni um.

Þannig segir t. d. þáv. iðnrh. í viðreisnarstjórninni í svari við fyrirspurn hér á Alþ. í mars 1967, með leyfi forseta:

„Þannig hefur verið vitað, frá því fyrst var farið að ræða um byggingu álverksmiðju hér á landi, að viss mengun gæti stafað frá rekstri hennar, aðallega vegna uppgufunar á flúorvetni frá bræðsluofnum hennar. Má segja að þetta sé sú eina tegund mengunar sem orð sé á gerandi í sambandi við fyrirhugaða álbræðslu í Straumsvík. Eins og nánar verður vikið að hér á eftir, er full ástæða til þess að ætla að flúormengunin muni ekki skapa teljandi vandamál í sambandi við vinnu verkamannanna og annarra í verksmiðjunni sjálfri þar sem loftræsting í bræðsluofnum hennar og önnur vinnsluskilyrði verða góð.“

Það var af þessum ástæðum sem stjórnvöld töldu ekki ástæðu til þess á þessum tíma að gera neinar verulegar athuganir á þeirri hættu, sem starfsfólki verksmiðjunnar væri búin, og gengu ekki nægilega tryggilega frá þessu í samningunum við auðfélagið. Samningamenn þess sögðu hinum íslensku ráðamönnum að engin veruleg vandamál mundu skapast á þessu sviði vegna þess að loftræsting í bræðsluofnum og vinnuskilyrði væru góð. Hins vegar segir þessi sami ráðh. að ríkisstj. hafi athugað meira hvaða áhrif mengunin gæti haft í umhverfi bræðslunnar, þ. e. a. s. á gróður og dýralíf. Um þær niðurstöður segir ráðh. í svari við sömu fyrirspurn orðrétt:

„Í þessu sambandi skiptir það að sjálfsögðu miklu máli hvar álbræðslunni er valinn staður. Það hefur frá upphafi verið ljóst, að álbræðsla ÍSALs yrði mjög vel staðsett í Straumsvík í þessu tilliti. Hún mun standa þar á opnu svæði þar sem ríkjandi vindátt er á haf út og gróður í næsta nágrenni mjög takmarkaður og yfirleitt ekki af þeim tegundum sem taldar eru sérstaklega viðkvæmar fyrir mengun af völdum flúors.“

Segir ráðh., að þetta hafi komið skýrt fram, væntanlega hjá fulltrúum hinna erlendu samningamanna, strax á fyrsta stigi víðræðnanna. En þá var, segir svo ráðh. siðar, talið að staðsetning verksmiðjunnar ein saman væri nægileg trygging fyrir því, að ekki þyrfti rykhreinsun, þ. e. a. s. ef bræðslan yrði staðsett í Straumsvík.

Þessi ummæli sýna vel þann einfeldnishátt og þann ákafa sem einkenndi allar gerðir þeirra stjórnmálaflokka sem stóðu að samningunum um álverið á sínum tíma, þ. e. a. s. Sjálfstfl. og Alþfl. Engum aðvörunarorðum var sinnt, hvorki frá þm. Alþb. frá íslenskum vísindamönnum né nokkrum öðrum þeim sem þá vöruðu við þessu, heldur var gleypt við öllum fullyrðingum svissnesku auðherranna. Undirlægjuháttur einkenndi því þennan þátt samningagerðarinnar eins og reyndar samninginn allan. Allt var sett að veði til að þóknast hinum erlendu herrum og til að sanna fyrir þjóðinni gildi hinnar erlendu stóriðju: raforkan, heilsa íslenskra verkamanna og gróður og önnur náttúra umhverfis verksmiðjuna. Það var skákað í því skjóli að engin teljandi vandamál hlytust af, nóg væri líka af raforkunni og verkafólkið gekk um atvinnulaust og gróðurríkið hvort sem var takmarkað í nágrenni verksmiðjunnar.

En reynslan er ólygnust, hún talar sínu máli, og hún hefur sannað að það var ekki ástæðulaust að óttast mengunaráhrif frá álverinu, eins og haldið var fram af þm. Alþfl. og Sjálfstfl. á sínum tíma. Það hefur sannast að það var óþarfa greiðasemi við auðhringinn að spara honum þann kostnað að setja upp hreinsitæki í verksmiðjunni strax í upphafi: Allar rannsóknir og skýrslur opinberra aðila jafnt sem annarra styðja þetta, m. a. nú síðast skýrsla heilbrrh. sem hann gaf Alþ. á dögunum og byggð er að mestu á umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins, sem raunar framkvæmdi þessa rannsókn eftir kröfu verkalýðsfélaganna.

Í skýrslunni kemur fram að margir vinnustaðir í álverinu séu heilsuspillandi vegna ryks og mengaðs lofts og einkum skaðlegir fyrir öndunarfæri starfsmanna, og eru þær niðurstöður mjög í anda þess, sem Alfreð Gíslason læknir spúði á sínum tíma. Kemur fram í skýrslu heilbrrh. að 7 af 8, sem veikst hafa í álverinu, hafi verið kallaðir til viðtals og sjúkrasaga þeirra könnuð og hafi komið í ljós að allir hafi þessir menn verið einkennalausir við læknisskoðun eftir að þeir hófu störf hjá fyrirtækinu. Niðurstöður rannsókna sýndu að allir þessir menn voru með sjúkdóma í öndunarfærum, sem í sumum tilfellum voru mjög slæmir, og haldnir miklu sleni og þreytu að vinnu lokinni. Jafnframt segir í niðurstöðum rannsókna á þessum starfsmönnum, að mengað andrúmsloft á vinnustöðum þessara manna sé orsök sjúkdómstilfella þeirra og sjúkdómar þeirra eigi að flokkast undir atvinnusjúkdóma. Rannsóknir á flúormagni í þvagi starfsmanna álversins benda og til þess, að veruleg hætta sé á flúoreitrun meðal þeirra, þar sem fundist hefur flúormagn í sólarhringsþvagi allt upp í 3.2 mg í lítra, en miðað er við 4.8 sem hættumörk á 18 klst., enda hefur það skýrt komið fram, að heilbrigðisyfirvöld, svo sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins, telja að aðstæður í Straumsvík séu þannig að hætta sé á atvinnusjúkdómum. Við þetta má svo bæta, að komið hefur fram á blaðamannafundi, er trúnaðarmenn starfsfólksins í Straumsvík héldu nýlega og reyndar líka fulltrúar verkalýðsfélaganna sem eiga samninga við ÍSAL, að vitað væri um mörg fleiri tilfelli veikinda en þau 8 sem um er að ræða í ofannefndri skýrslu, þar sem starfsmenn hafi annaðhvort orðið að hætta að fullu störfum í álverinu að ráði læknis eða reynt að breyta um störf.

Heyrnarmælingar hafa einnig verið gerðar í álverinu, m. a. í febr. 1974, framkvæmdar af heyrnardeild Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík. Framkvæmdar voru mælingar á 117 starfsmönnum og reyndust 97 hafa skerta heyrn og þar af 30 með verulegt heyrnartap. Segir að niðurstöður mælinganna bendi til óeðlilegrar tíðni heyrnartaps hjá starfsmönnum fyrirtækisins.

Asbestnotkun fyrirtækisins er einnig talin verulega hættuleg, en rannsóknir á síðustu árum erlendis hafa sannað að samband er á milli rykmengunar frá asbesti og vissra tegunda krabbameins. Starfsemi með asbest í iðnaði hefur þannig verið sett undir sérstakt eftirlit viða erlendis, svo sem í Svíþjóð þar sem komið hafa upp tugir þúsunda veikindatilfeila af þessum sökum. Svo virðist sem fyllsta gáleysis hafi gætt í sambandi við meðferð þessara efna í álverinu. Trassaskapur þess og virðingarleysi fyrir íslenskum hagsmunum kemur líka vel fram í þeim umgengnisvenjum sem fyrirtækið hefur tamið sér við að fjarlægja margs konar hættuleg úrgangsefni, svo sem kerbrot og önnur skaðleg úrgangsefni, en þessum efnum hefur oftsinnis verið mokað í hraungjótur í nágrenni álversins eða á öskuhauga hafnfirðinga án þess að lágmarksaðgæsla væri viðhöfð. Þessir umgengnishættir bera náttúrlega vitni þeim hroka sem forstöðumenn álversins telja sig geta beitt í umgengni við íslendinga, jafnt yfirvöld sem almenning.

Þannig mætti halda áfram að rekja heilbrigðisrannsóknir sem gerðar hafa verið á starfsfólki álversins, og ber þar allt að sama brunni. Þannig hefur t. d. Heilbrigðiseftirlit ríkisins nýlega sent frá sér mjög vandaða grg. um þessi mái sem birt hefur verið í a. m. k. sumum dagblaðanna að mestu leyti, og er þess vegna ekki ástæða til þess að rekja hana hér, þar sem gera verður ráð fyrir að þm. hafi meira og minna kynnt sér hana. Ég tel þó rétt að víkja hér að nokkrum atriðum í þessari grg., þó einkum að einu atriði. Þegar í henni er búið að telja upp ýmsa þá vinnustaði í álverinu sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins telur að hafi heilsuspillandi þætti eða vinnuaðstæður, þá eru upp taldir ýmsir þeir helstu sjúkdómar sem komið geta upp vegna ofangreindrar mengunar eða ástands á ofangreindum stöðum. Og þar eru nefndir margir alvarlegir sjúkdómar, eins og húðkrabbamein, exem og útbrot og brunasár sem dæmi um húðsjúkdóma. Það eru nefndir sjúkdómar eins og lungnakrabbamein, brjósthimnu- og lífhimnukrabbamein og ýmsar óeðlilegar bandvefsmyndanir, berkjuþrengsli, bæði bráðir sjúkdómar af þeim sökum og eins langvinnir með lungnakvefi, ýmiss konar erting í slímhúð og öndunarfærum, krabbamein í nefholi og lungum, krabbamein í nýrum, þvagrás og þvagfærum og ýmsir beinsjúkdómar, svo eitthvað sé nefnt.

Eftir að þetta hefur verið upp talið í skýrslu Heilbrigðiseftirlits ríkisins segir, að af þessari upptalningu sjáist að nær ekkert líffæri eða líffærakerfi sé óhult vegna mengunar við slíkan verksmiðjurekstur.

Og síðan segir: Eru þá nokkrir þessara sjúkdóma algengari við álbræðslu heldur en annað verksmiðjustarf eða aðra verksmiðjustarfsemi? Svarið er jákvætt, og eru það fyrst og fremst vissir sjúkdómar í berkjum og lungum, flúorósis, sem taldir eru einkennandi atvinnusjúkdómar við álbræðslu.

Þessar skýrslur og heilbrigðisathuganir tel ég ekki ástæðu til að rekja frekar hér, svo mikið sem þær hafa verið í fréttum undanfarið. En það er ljóst á öllu þessu að vinnuskilyrði í álverinu er stórskaðleg heilsu þess starfsfólks sem þar vinnur, og reynslan hefur sýnt að fullyrðingar auðhringsins á sínum tíma og hinna innlendu samningamanna um góð vinnuskilyrði hafa reynst orðin tóm.

En hvernig er þá ástandið hvað viðkemur hinni ytri mengun frá álverinu, hvað segir reynslan okkur í því efni? Og þá er rétt að geta þess fyrst, að þrátt fyrir loforð stjórnvalda við upphaf samningagerðarinnar við ÍSAL, að stöðugt yrði fylgst með flúormengun frá álverinu og að íslensk yfirvöld mundu alltaf hafa tiltækar upplýsingar til að meta aðstæður í Straumsvík, hefjast opinberar rannsóknir ekki fyrr en með starfi flúornefndarinnar 1971, eftir miklar umr. og gagnrýni og eftir að sýnt hafði verið fram á að mikil flúormengun væri í gróðri í nágrenni verksmiðjunnar. Má í því sambandi minna á rannsóknir Ingólfs Davíðssonar grasafræðings á trjágróðri í Hafnarfirði sumarið 1970, en hann sá þá sýnilegar skemmdir á blöðum furu og hlyntrjáa og reynis. Mældi hann flúorinnihald furu 19 ppm, en þetta er eining sem notuð er við slíkar mælingar, hlyns 49 ppm og reynis 50 ppm.

Flúornefndin hefur í upphafi þessa árs skilað frá sér skýrslu um rannsóknir sínar, en skýrsla þessi nær til ársins 1975. En niðurstöður af starfi nefndarinnar lágu fyrir þegar á sumrinu 1976 og má segja að það gegni hinni mestu furðu að þessi skýrsla skyldi ekki hafa verið opinberuð fyrr. Þótt skýrslan sé ekki nægilega nákvæm, þannig sýnir hún ekki hámark og lágmark flúormagns við sýnitökur á sama svæði, og þótt reynt sé að gera sem minnst úr niðurstöðum hennar, ber hún þó þess glöggt vitni að veruleg aukning flúormengunar er í nágrenni við álverið þannig að viða er flúormagn komið langt yfir hættumörk.

Í töflu, sem merkt er III í umræddri skýrslu, eru t. d. bornar saman mælingar á flúormagni í grasi og heyi á nokkrum mælistöðum, og kemur þar fram mikil aukning flúormagns milli áranna 1973 og 1975. Á svæði, sem merkt er I og er í 3–41/2 km fjarlægð frá álverinu, er flúorinnihald í grasi 1973 31 ppm, en 1975 40 ppm. Á sama svæði er flúormagn í heyi 1973 34 ppm, en 1975 57 ppm.

Í töflu IV í þessari skýrslu eru birtar niðurstöður mælinga á flúormagni í laufi og barri og kemur fram að mikil aukning er á fluormagni í þessum gróðri. Þannig er flúoraukningin í laufi á svæði I milli áranna 1968 og 1975 mjög veruleg eða úr 3.8 ppm í 38 ppm, og í barri á sama tíma og sama svæði úr 2 6 ppm í 13 ppm. Hæsta flúormagn í einstöku sýni á þessu svæði er í birkilaufi 1975 67 ppm. Á belti III, sem er í 6:5-15 km fjarlægð frá álverinu, er flúormagn í laufi 1968 3.1 ppm, en vex upp í 38 ppm við mælingar 1975. Og í barri á sama svæði er vöxturinn á þessu tímabili úr 2 ppm í 8 ppm.

Í skýrslunni eru líka birtar mælingar á flúormagni í rigningarvatni og er veruleg aukning á flúormengun í því, svo sem við Dysjar, sem er einn mælistaðurinn, en það mældist 1975 tæplega 80 ppm.

Fram kemur í skýrslunni að vindáttir hafa mikil áhrif á flúormengun á einstökum sýnitökustöðum. Þannig er mest mengun í norður og norðaustur frá álverinu, svo sem við Dysjar og við Reykjavíkurflugvöll, en þar mun væntanlega vera átt við Öskjuhlíðina og sýni tekin í gróðrinum þar í Öskjuhliðinni. En þessara tveggja staða er sérstaklega getið í skýrslunni um svæði, þar sem mengun sé komin á mjög alvarlegt stig.

Rannsóknir hafa einnig farið fram á flúormagni í beinum dýra í nágrenni álversins og hafa í þeim fundist sjúkdómseinkenni flúorósis eða flúoreitrunar og yfirleitt miklu meira flúormagn en almennt gerist á Íslandi. Einkum er þetta hátt í beinum eldri dýra og styður þær kenningar að áhrif flúormengunar aukist með tímanum. Og þess má geta, að þessar rannsóknir hafa sýnt meira flúormagn í beinum dýra allt vestur í Borgarfjörð en eðlilegt getur talist miðað við aðstæður á Íslandi.

Ljóst er af þessum rannsóknum, sem skýrslan birtir, að veruleg hætta stafar nú þegar af flúormengun á lífríki í nágrenni verksmiðjunnar og áhrifanna er þegar farið að gæta, sem fyrr segir, bæði í Reykjavík og jafnvel vestur í Borgarfjörð. Víst er að eituráhrifin fara sífellt vaxandi með hverju ári sem líður, ekki síst vegna þess að verksmiðjan hefur sífellt verið að stækka og auka framleiðslu sína jafnt á áli sem á flúoreitri. Og enn er fyrirhuguð stækkun. Vísindamönnum ber reyndar ekki saman um hvar setja skuli hættumörk í þessu sambandi, enda fer það t. d. á gróðri eftir tegundum. Eins hefur verið bent á að erlendar reglur um þetta eigi varla við á Íslandi vegna þess, hve jarðvegur hér sé kalklítill, en við slík skilyrði eru hættuáhrif flúorsins miklu meiri. Áhrif á dýr fara t. d. eftir aldri og næringu. Í Noregi eru hættumörk talin vera um 30 ppm í þurrfóðri hjá mjólkurkúm, og almennt eru erlendir vísindamenn á því, að hættumörkin séu 30–40 ppm í heyi sem ársmeðaltal.

Mér virðist því að niðurstöður skýrslunnar bendi allar til verulegs hættuástands þar sem þessi flúoreitrun hefur viða mælst langt fyrir ofan þessi mörk, og verður því ekki lengur þolað að verksmiðjan sé án hreinsitækja, þótt ljóst sé að jafnvel með slíkum búnaði verði ekki girt fyrir mengunarhættu frá álverinu og vegna þess fullkomlega ábyrgðarlaust að huga enn einu sinni að stækkun hennar. Ég tel að þessar skýrslur flúornefndarinnar eigi að birta almenningi og reyndar alþm., auk þess sem unnið verði áfram að rannsóknum á þessu sviði, rannsóknarstöðum fjölgað, sýnitökustöðum fjölgað og skýrslur gefnar um einstakar mælingar. En ljóst er af öllu, að kenning sú, sem fyrrum iðnrh. og núv. hv. þm. Jóhann Hafstein hélt fram við gerð samningsins við ÍSAL um staðsetningu verksmiðjunnar, að staðsetning verksmiðjunnar ein saman gerði reykhreinsun óþarfa, hefur ekki staðist reynslu tímans.

Ég hef nú hér stuttlega rakið mengunarsögu álversins í Straumsvík, minnt á gagnrýni Alþb. við upphaf samninganna, fullyrðingar ráðamanna þá um skaðsemi mengunar frá álbræðslunni og gert stuttlega grein fyrir þeim rannsóknum sem fram hafa farið á heilbrigðisháttum þar suður frá. En mig langar nú að rekja nokkuð þá raunasögu sem afskiptasaga opinberra aðila vegna mengunarvarnanna í álverinu hefur verið. Saga þessi er saga svika og aftur svika af hendi forráðamanna álversins. Segja má að fyrstu opinberu afskiptin hefjist eftir tilkomu reglugerðar nr. 164 1972 er Magnús Kjartansson setti í ráðherratíð sinni, en hún fjallar um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna og var sett með stoð í lögum nr. 85 frá 1968. En í framhaldi af setningu hennar beittu heilbrigðisyfirvöld sér fyrst fyrir því að álverið yrði gert að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar, þ. e. a. s. að sótt yrði um starfsleyfi samkv. henni. En í 6. gr. reglugerðarinnar frá 1972 segir að verksmiðjur og iðjuver, er starfi við gildistöku reglugerðarinnar og falli undir ákvæði 1. gr., sbr. 2. gr., skuli innan þriggja mánaða frá gildistöku reglugerðarinnar senda Heilbrigðiseftirliti ríkisins gögn þau, er um ræðir í 5. gr., og óska starfsleyfis.

Hinn 31. okt. 1972 sendi Íslenska álfélagið rn. bréf þar sem tekið er fram, að réttarstaða ÍSALs og Suisse Aluminium fari eftir ákvæðum aðalsamnings milli ríkisstj. Íslands og Alusuisse, sbr. lög nr. 76 1966, ef ágreiningur rís um málefni. Í niðurlagi bréfsins tekur ÍSAL þó fram að félagið sé reiðubúið til þess að gera allar eðlilegar ráðstafanir til þess að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri verksmiðjunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði, en um slíkt hafði verið kveðið á í upphaflegum samningi frá 1966. Hér lofaði ÍSAL sem sagt endurbótum, en gaf jafnframt í skyn, að ef samkomulag næðist ekki við stjórnvöld hefði félagið rétt til að skjóta máli sínu til erlends gerðardóms, og vitnar þar í upphaflega samninginn milli viðreisnarstjórnarinnar og Alusuisse. Þetta orðalag verður náttúrlega ekki skilið öðruvísi en sem dulbúin hótun um að leggja málið í erlendan dóm ef íslenskir ráðamenn vilja ekki fylgja skoðunum álversins eftir í einu og öllu um nauðsynlegar mengunarráðstafanir. En sem kunnugt er er í þessum samningi hið fráleita ákvæði sem undanþiggur álverið að mestu íslenskum lögum og mikið hefur verið gagnrýnt. Íslensk stjórnvöld hafa þó aldrei, hvorki fyrr eða síðar, túlkað samninginn þannig að álverið væri undanþegið íslenskum lögum um heilbrigðishætti og mengunarvarnir vegna þeirra ákvæða sem eru í 13. gr. samningsins, en þar segir að ÍSAL verði að byggja, reka og útbúa bræðsluna og halda henni við í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti og skal í þeim efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana sem ábyrgar eru á framkvæmd á slíkum reglum. Þetta vil ég undirstrika, að eftir öllum þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um þetta mál, hafa íslensk stjórnvöld hvorki fyrr né síðar túlkað þessi ákvæði samningsins eins og forstöðumenn álversins vilja gera.

Þetta bréf frá 31. okt. 1972 leit heilbrrn. á sem umsókn um starfsleyfi og sendi það til umsagnar Heilbrigðiseftirliti ríkisins. Heilbrigðiseftirlit ríkisins gerði þá mikla úttekt á þessum málum suður í Straumsvík og skilaði langri grg. um það til rn. sem of langt mál yrði að rekja hér, en í lokaorðum þessarar skýrslu segir:

„Heilbrigðiseftirlit ríkisins telur óhjákvæmilegt að setja upp hreinsitæki við álverið í Straumsvík er taki megnið af flúorsamböndum úr ræstilofti verksmiðjunnar þannig að komið verði í veg fyrir frekari flúormengun í umhverfi og þar með skemmdir á gróðri og hugsanlegt heilsutjón á mönnum og dýrum. Ályktun þessi er í fullu samræmi við samþykkt heilbrigðisráðs Hafnarfjarðar og álit borgarlæknisins í Beykjavík. Ályktun þessi er einnig í fullu samræmi við ráðstafanir sem þykja sjálfsagfar annars staðar í heiminum þar sem álframleiðsla fer fram. Stoðum undir þessa ályktun renna sérstaklega rannsóknir skaðleysismarkanefndar svo og upplýsingar Suisse Aluminium, Zürich, um flúormagn í ræstilofti. Ályktunin getur einnig samrýmst rannsóknum flúornefndarinnar á gróðri, svo langt sem þær ná. Og síðast en ekki síst er ályktunin í samræmi við álit sérfræðinga í Noregi og Finnlandi á flúorþoli plantna er við misjöfn veðurskilyrði búa á norðlægum slóðum. Framkvæmd þessa máls þolir enga bið umfram það sem tæknileg vandamál gera nauðsynlegt. Heilbrigðiseftirlit ríkisins er tæplega fært um að meta hugsanlegan frest uns framkvæmdum ætti að geta verið lokið, en ef ekki einhver sérstök tæknileg vandamál verkfróðum mönnum augljós skjóta upp kollinum ætti framkvæmdafresturinn tæplega að þurfa að vera lengri en 4–6 mánuðir. Lengri frestur væri a. m. k. mjög óæskilegur.“

Undir þetta bréf frá Heilbrigðiseftirlitinu til rn. skrifar Baldur Johnsen, þáv. forstöðumaður þessarar stofnunar.

Hinn 28. mars 1973 sendir íslenska álfélagið síðan rn. bréf þar sem staðfest er að félagið muni setja upp hreinsitæki í Straumsvík og verði verkinu hraðað og unnið í samráði við Heilbrigðiseftirlit ríkisins, en nokkrum dögum áður lauk uppsetningu tilraunahreinsitækja í samvinnu við Jón Þórðarson, íslenskan mann sem þá vann að uppfinningu slíkra tækja, og stóðu yfir tilraunir með þessi tæki er bréfið var skrifað. Rúmu ári síðar skrifar heilbrrn. íslenska álfélaginu aftur bréf og segir þar, að þar sem í ljós hafi komið að tilraunir þær með nýja gerð hreinsitækja, sem rætt hafi verið um í bréfinu frá 27. mars 1973, hafi ekki borið þann árangur sem vænst var, telji rn. óhjákvæmilegt að nú þegar verði hafist handa um uppsetningu hreinsitækja í samræmi við fyrirmæli í bréfi frá því í jan. 1973, og er minnt á staðfestingu ÍSALs um að svo yrði gert. Ítrekað er í bréfi þessu að gera verði þessar ráðstafanir í fullu samráði við Heilbrigðiseftirlit ríkisins og að verkinu verði lokið innan 0 mánaða.

Í okt. sama ár svarar íslenska álfélagið bréfi þessu og fellst á skoðun rn., hvað viðkemur árangri tilraunatækjanna og ítrekar fyrri yfirlýsingar sínar um að hreinsitæki verði sett upp og verkinu hraðað.

Eins og þau bréfaskipti bera með sér, er ég hef hér vitnað til er ljóst að afskipti Heilbrigðiseftirlits ríkisins af mengunarmálum í Straumsvík hefjast raunar ekki fyrr en með setningu reglugerðar nr. 164 um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og annarra hættulegra efna sem áður var á minnst. Reglugerð þessi var sett í tíð vinstri stjórnar með stoð í eldri lögum. Á grundvelli hennar er álverið krafið umsóknar um starfsleyfi og sett undir umsjón og eftirlit Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Athugun Heilbrigðiseftirlitsins leiðir til þess, að heilbrrn. krefst uppsetningar hreinsitækja í verksmiðjunni, og er sú krafa samþ. af hálfu Íslenska álfélagsins sem hafði þá nokkru áður hafið tilraunir með íslensk tilraunatæki til rykhreinsunar, en samkomulag virðist hafa verið um að biða eftir niðurstöðum þeirra tilrauna. Eftir að þær sýna neikvæðar niðurstöður er krafa rn. síðan ítrekuð og veittur hálfs árs frestur til þess að koma fyrir nýjum tækjum. Síðan þetta gerðist eru liðin um það bil 21/2 ár, frá því að gagnsleysi þessara tilraunatækja lá fyrir og ítrekuð loforð voru gefin um uppsetningu nýrra hreinsitækja, en ekkert hefur bólað á efndum. Óhjákæmilegt er því að gagnrýna stjórnvöld alvarlega að hafa ekki knúið á um efndir í þessum efnum af hendi álversins, og sérstaklega ber reyndar að gagnrýna að í millitíðinni hefur verið gerður nýr samningur við ÍSAL um stækkun álversins án þess að í þann viðaukasamning væru settar skýrar kröfur um uppsetningu hreinsitækja og tekinn af allur vafi um að Íslenska álfélagið bæri að fylgja heilbrigðisreglugerðum og lögum á Íslandi og undirstrikaður skilningur og túlkun íslenskra stjórnvalda á eldri samningum um þetta efni.

En ríkisstj. sá ekki ástæðu til þess að gera þetta þrátt fyrir fengna reynslu og þrátt fyrir kröfur þm. Alþb. hér á Alþ. og þrátt fyrir skýlausar kröfur Náttúruverndarráðs og heilbrigðisyfirvalda. Stjórnvöld geta ekki skotið sér á bak við það, að þeim hafi ekki verið kunnugt um afstöðu þessara opinberu stofnana. Í því sambandi vil ég lesa hér upp bréf sem Eyjólfur Sæmundsson verkfræðingur hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins skrifar Íslenska álfélaginu 15. ágúst 1975, en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Að höfðu samráði við Náttúruverndarráð og heilbrigðismálaráð Hafnarfjarðar mun Heilbrigðiseftirlit ríkisins gera eftirfarandi kröfur í sambandi við fyrirhugaðan hreinsibúnað við álverið:

1. Að heildarflúormengun frá verksmiðjunni verði eins lítil og unnt er og alls ekki meiri en sem svarar 1 kg flúors (loftkenndum og í ryki) á tonn af framleiddu áli miðað við ársmeðaltal.

2. Að heildarrykmengun frá verksmiðjunni verði eins lítil og unnt er og ekki meiri en sem svarar 2 1/2 kg af ryki á tonn af framleiddu áli.

3. Byggingu hreinsibúnaðar verði þannig hagað, að taka megi hann í notkun í áföngum fyrir sífellt stærri hluta keranna. Hreinsun á lofti frá öllum kerum í samræmi við 1. og 2. lið verði komið í gagnið fyrir 1978.

l. Öll hugsanleg stækkun álversins í Straumsvik verði háð skilyrðum reglugerðar 164/1972 um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna.

Enn fremur mun Heilbrigðiseftirlit ríkisins beita sér gegn því að frekari stækkun álversins verði leyfð fyrr en hreinsibúnaður hefur verið tekinn í notkun fyrir meginhluta keranna og sönnuð hefur verið hæfni hans. Kröfur um hreinsibúnað og mengunarvörn fyrir hugsanlega stækkun álversins verði metnar í samræmi við þær aðstæður í tækniþróun hreinsibúnaðar og starfshátta við álframleiðslu, sem þá kunna að ríkja, svo og með tilliti til þess, hvort frekari stækkun álversins í Straumsvík komi yfirleitt til greina.“

Eins og ég gat um áðan ritar undir þetta bréf Eyjólfur Sæmundsson verkfræðingur hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins. Vilji þeirra aðila, sem kemur fram í þessu bréfi og að þessu erindi standa og skrifa álverinu um það, var algjörlega hundsaður.

Þeir aðilar, sem lögum samkvæmt eiga að annast eftirlit með mengunarvörnum og heilbrigðisháttum á vinnustöðum á Íslandi, vilji þeirra er hundsaður. Og hverjar eru afleiðingarnar þegar íslensk stjórnvöld sýna slíkum stofnunum ríkisins og starfsmönnum þeirra lítilsvirðingu og virðast afgreiða umsagnir þeirra sem markleysu, — stofnunum íslenska ríkisins sem okkur ber fyrst og fremst að styrkja og efla, — stofnunum sem hafa verið í áralöngum slag við auðfélagið í Straumsvík um nauðsynlegar mengunarvarnir og um að það fylgi íslenskum lögum? Jú, slíkt tómlæti stjórnvalda ýtir undir dólgshátt og frekju forráðamanna álversins sem nú leyfa sér jafnvel að vefengja vísindalegar niðurstöður þessara stofnana og telja umsagnir þeirra um aðstæður í Straumsvík sprottnar af pólitískum ofstæki einu saman. Þegar svo er komið, þá segi ég: Mælirinn er fullur og það er kominn tími til þess að Alþ. grípi í taumana og kveði slíkan hroka niður.

Eins og komið er nú skiptir það því mestu máli að mynda hér á Alþ. samstöðu til að knýja á framkvæmd þeirra loforða, sem álverið gaf í tíð vinstri stjórnarinnar um uppsetningu fullkomnustu hreinsitækja, og láta ekki lengur málið drabbast áfram. Ég fagna því að ýmsir, sem áður voru linir og framtakslitlir í þessu máli, hafa nú gert sér grein fyrir þeirri hættu sem að steðjar í sambandi við mengun frá álverinu, og ég efast reyndar ekki um að hér á Alþ. sé mikill meiri hluti fyrir að leiða þetta mái til farsælla lykta. Í því sambandi mætti einnig minna á fjölmargar samþykktir félagasamtaka, sérstaklega nú á síðustu mánuðum og vikum, og einnig kannske nýlega skoðanakönnun sem dagblað hér í borginni lét framkvæma, þar sem var haft samband við 300 manns eftir sérstakri úrtaksaðferð. Niðurstöður þeirrar skoðanakönnunar sýna glöggt að vilji fólksins er ótvíræður í þessu efni. En reynslan af samskiptunum við forráðamenn álversins er hins vegar slík, að ég tel fulla ástæðu til þess að Alþ. láti álit sitt í ljós, svo ekki fari á milli mála hver vilji þess er. Því er í þáltill. þessari lagt til að ríkisstj. tryggi uppsetningu fullkomnustu hreinsitækja sem dragi úr innri sem ytri mengun og verði álverinu veittur ársfrestur til að koma slíkum tækjum fyrir. Sá frestur, sem þar er gert ráð fyrir, er verulega miklu rýmri en sá er áður hefur verið veittur af yfirvöldum, sbr. þau bréf heilbrigðisyfirvalda er ég hef hér vitnað til. Alþ. verður á hinn bóginn að hafna algjörlega þeirri staðhæfingu forstöðumanna álversins að veita þurfi þeim 31/2 árs til 4 ára frest til uppsetningar slíkra tækja, en ætla má fullvíst að eigendur álversins hyggist með svo löngum framkvæmdatíma dreifa þeim kostnaði, er fylgir endurhótum, á nokkurra ára tímabil. En oft hefur komið fram í máli þeirra um þetta efni að nauðsynleg útgjöld vegna tækjabúnaðar við uppsetningu hreinsitækja yrðu erfiður kostnaðarauki fyrir álverið. Þetta geta íslensk yfirvöld ekki tekið marktækt þegar sýnt er að mengun í álverinu er komin á mjög alvarlegt stig. Undir slíkum kringumstæðum er ekkert svigrúm til eftirgjafar. Aukin mengunaráhrif munu hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar, og jafnvel má ætla að ekki sé langt að bíða þess, að flúorosis eða flúoreitrunar verði farið að gæta hjá fólki sem býr eða starfar í nágrenni við bræðsluna.

Þáltill. þessi gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. tryggi setningu ákveðinna starfsreglna til að tryggja sem best framkvæmd heilsugæslu í álverinu, og að reglum um öryggismál og hollustuhætti sé framfylgt þar suður frá og að tryggður sé réttur starfsfólksins til að hafa áhrif á þetta eftirlit og framkvæmd þess. Kemur þetta fram í 2., 3. og 4. tölulið þáltill., þar sem kveðið er á um sérstaka heilsugæslustöð undir umsjón heilsugæslulæknis, starf sérstaks heilbrigðis- og öryggismálafulltrúa kjörins af starfsfólki og skipun sérstakrar starfsnefndar um heilbrigðis- og öryggismál, þar sem starfsfólkið eigi fulltrúa til jafns við verksmiðjufélagið, en oddamaðurinn verði heilsugæslulæknir.

Öll eru þessi ákvæði sett fram vegna þeirrar reynslu er fengist hefur. Og eins hefur komið fram bæði frá heilbrigðisyfirvöldum og starfsfólkinu í álverinu að mikið vanti á reglubundna heilsugæslu og að eftirlit í þessum efnum sé nægilega gott. Reglur þessar eru líka mjög líkar þeim sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur lagt til að giltu í járnblendiverksmiðjunni uppi á Grundartanga, þannig að ætla má víst að þær samrýmist kröfum þeirrar stofnunar. Einnig er hvað varðar sum þessara atriða beinlínis kveðið á um slíkt eða líkar reglur í settum reglugerðum um heilbrigðismál. Ákvæði þessi eru einnig mjög í samræmi við kröfur verkalýðsfélaganna sem aðild eiga að samningum suður í Straumsvík.

Að lokum er í þáltill. kveðið á um að samið skuli við ÍSAL um greiðslu alls kostnaðar af mengunarrannsóknum sem nauðsynlegt er að framkvæma að mati heilbrigðisyfirvalda, en komið hefur fram bæði hjá forsvarsmönnum Heilbrigðiseftirlits ríkisins og hjá heilbrrh. að fjárskortur hamli mjög starfsemi Heilbrigðiseftirlits ríkisins, m. a. við rannsóknir í Straumsvík. En flm. telja sjálfsagt að álverið sjálft greiði fyrir þessum rannsóknum svo sem það verður að greiða fyrir uppsetningu hreinsitækja og almennri heilbrigðisgæslu, enda ljóst samkv. lögum að þeir sjálfir eiga að tryggja að heilbrigðis- og mengunarreglum sé fylgt og að fyllsta öryggis sé gætt, en forsendur slíks eru vitaskuld reglubundnar rannsóknir á mengunaráhrifum verksmiðjunnar.

Það þarf ekki að ítreka það hér hvernig fjárhag Heilbrigðiseftirlitsins er varið. En úr því ég er að nefna það hér, þá minntist ég þess að fyrir nokkrum dögum barst hér inn á borð okkar þm. skýrsla um heilbrigðismál í Kísiliðjunni við Mývatn sem er saman tekin af landlæknisembætti og Heilbrigðiseftirliti ríkisins. Í inngangi nokkurs konar eða yfirliti með þessari skýrslu er aðeins komið inn á þann fjárskort sem hamli mjög starfsemi Heilbrigðiseftirlits ríkisins, og í lokaorðum þessa yfirlits eða inngangs segir m. a. um rannsóknir í Kísiliðjunni, að ónógur tækjabúnaður og lítil fjárráð hafi gert það að verkum að mælinganiðurstöður séu ekki jafnnákvæmar og verið gæti. Og síðar segir þar að Heilbrigðiseftirlit ríkisins hafi ekki yfir nauðsynlegum sýnitökutækjum að ráða. Tækin voru fengin að láni hjá einstaklingum fyrir tilstilli persónulegra sambanda. Þannig er nú ástatt málefnum og tækjakosti þeirra stofnana í þjóðfélaginu sem með þessum málum eiga að fylgjast — mengunarmálum.

En ég vil aðeins að lokum draga saman í nokkur orð meginatriði máls míns og segja: Rykmengun á vinnustöðum í álverinu hefur nú þegar í mörgum tilfellum valdið atvinnusjúkdómum. Flúormagn, sem mælt hefur verið í þvagi starfsmanna, sýnir að flúoreitrun hjá sumum starfsmönnum er að nálgast hættumörk. En bent hefur verið á að afleiðingar flúoreitrunar á líkamann geta valdið mjög alvarlegum sjúkdómum í beinum og liðamótum. Flúormengun í gróðri og öðru lífríki í umhverfi verksmiðjunnar í Hafnarfirði og allt til Reykjavíkur er sums staðar komin upp fyrir hættumörk þegar á árinu 1975 með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir gróður, dýr og menn, sem á þessum svæðum búa. Krafan um uppsetningu fullkomnustu hreinsitækja hlýtur því að vera skilyrðislaus og án tafar, enda er það samdóma álit allra heilbrigðisstofnana og Náttúruverndarráðs. Forsvarsmenn álversins hafa árum saman vikið sér undan því að efna það loforð, er þeir gáfu í tíð vinstri stjórnarinnar um uppsetningu hreinsitækja, og brotið þannig ákvæði í upphaflegu samningunum um heilbrigðisvarnir. Þeir hafa vefengt niðurstöðu rannsókna íslenskra eftirlitsaðila og borið á þá pólitískt ofstæki og krafist tilslökunar á reglum er þeir hafa mótað um mengunarvarnir. Þeir hafa m. a. óskað eftir því að tekið væri tillit til þess við setningu reglna um hreinsibúnað að verksmiðjan væri gömul og því kostnaðarsamt að breyta kerum hennar, og í því sambandi minnt á að aðrar reglur giltu viða erlendis um gamlar verksmiðjur.

Á þessar úrtölur geta íslenskir aðilar ekki hlustað. Krefjast verður að fylgt sé kröfum íslenskra heilbrigðisaðila sem falin er framkvæmd á reglum og lögum um heilbrigði og mengun á vinnustöðum, og fráleitt er að gefa neitt eftir um mengunarvarnir þrátt fyrir það að verksmiðjan sé nokkurra ára og þrátt fyrir það að nauðsynlegar breytingar verði auðfélaginu kostnaðarsamar. Ekki má heldur leyfa félaginu að dreifa framkvæmdum við uppsetningu hreinsitækja á 3–4 ár, eins og farið hefur verið fram á, til þess að létta þeim kostnaðarbyrðina. Hafði ég reyndar sérstaklega hugsað mér að spyrja heilbrrh. — og vonaðist til að hann yrði viðstaddur þessa umr. um afstöðu íslenskra stjórnvalda nú til þessarar kröfugerðar af hendi álversins. Krafa okkar er að vita afstöðu þeirra. Enginn ráðh. er hér í salnum þessa stundina, og það kann að vera að þeir hafi ekki áhuga á að hlýða á þetta mál, enda orðið viðkvæmt. En sem sagt, reynslan hefur sýnt að Íslenska álfélagið hefur hundsað vilja opinberra aðila og margsvíkið gefin fyrirheit og jafnvel haft í hótunum um að leggja málið undir úrskurð erlends dómstóls ef ekki náist samkomulag um lausn málsins. Því er nauðsynlegt einmitt nú að Alþ. láti vilja sinn í ljós og knýi þannig á um efndir þeirra loforða er álfélagið hefur getið. Og það er trú og von okkar flm. þessarar till. að hér á Alþ. sé sá meiri hl. sem þarf til þess að þessi till. fáist samþykkt og að málinu verði kippt í lag.