29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3006 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

177. mál, veiting prestakalla

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð hér um. Þegar mælt var fyrir þessari till. á dögunum flutti hv. 5. þm. Vestf. hér röggsamlega ræðu, eins og hans var von og vísa, í þessu máli og kom inn á meginkjarna þess, og hef ég í raun og veru þar litlu við að bæta. Það hefði hins vegar verið ákaflega fróðlegt og skemmtilegt að fá hér þann mann sem átti að tala á undan mér með réttu, þ. e. a. s. hv. 3. þm. Vestf., því að hann er flm. að frávísunartill. í raun á þessa till. sem hér liggur fyrir nú til umr., þ. e. a. s. till. um að gengið verði til þjóðaratkvgr. um málið. Það sýnir nú eiginlega best hvernig málatilbúnaðurinn er, að allir aðalforsetar þingsins skuli telja sig knúða til þess að flytja frávísunartill. — óbeina frávísunartill. — varðandi þetta mál, enda verð ég að segja eins og er, að ég hefði kunnað miklu betur við að hlutirnir væru sagðir hreint út og það væri flutt um það frv. á Alþ. að prestskosningar væru afnumdar. (Gripið fram í: Það hefur verið flutt.) Það hefur verið flutt, já, og það er betra að gera það þá bara hreinlega. Ef menn vilja endilega halda þessu þrefi áfram hér og reyna að ná þessu máli fram, þá er miklu réttara að fá úr skorið um vilja þingsins.

Ég minni á það, eins og reyndar var gert af hv. 5. þm. Vestf., varðandi þetta mál, að hér var í fyrra flutt hin ágætasta ræða af hálfu hæstv. utanrrh. sem sýndi ljóslega hver tilgangurinn með þessum tillöguflutningi var, sem sé sá einn í raun, ef hann átti að hafa einhverja þýðingu, að afnema þessar kosningar. Og það er algert sérmál sem menn hafa sínar ákveðnu skoðanir um, hvort eigi að taka þennan rétt af sóknarbörnum eða ekki að velja sér prest. Það er mál sem menn geta vissulega deilt um. En þessi till. um nefnd, sem getur ekki átt að vinna að neinu öðru en þessu afnámi, það er till., sem mér fellur ekki í geð að þurfa að ræða yfirleitt.

Þetta mál hefur verið mikið rætt hér í þinginu og það hefur líka verið mikið rætt af hálfu þeirra sem þykjast sjálfkjörnir til þess að fjalla um þetta mál á Kirkjuþingi meðal þeirra sem þar eru fulltrúar. Þar hefur verið lýst yfir mikilli hneykslun á Alþ. að fara ekki eftir vilja þeirra sem þar hafa gert ályktanir. Og meira að segja hefur það því miður gerst, að sjálfur biskupinn, sem ég met að mörgu leyti mikils, hefur talað um, að aðalmál manna hér hafi verið gjálfur og menn hafi talað um þetta mál af gáleysi og í flimtingum, og haft um það ansi stór orð. Ég vil ekki kannast við það fyrir mitt leyti. Ég hef talað um þetta mál í fullri alvöru.

Það veit ég svo, að ýmislegt af því, sem ég sagði í fyrra um stefnur innan kirkjunnar og þá stefnu sem mér þætti fara að verða um of ríkjandi þar, hefur farið í taugarnar á þeim ágæta manni, herra biskupnum yfir Íslandi. En það gladdi mig sömuleiðis að fyrsti flm. þessarar till. þá og sá, sem situr hér nú sem varaþm. aftur, góðu heilli fyrir þetta mál, skulum við segja, séra Ingiberg Hannesson, hv. þm., hann tók einmitt undir sumt af því sem ég sagði í mínu máli þar um, og ég gladdist yfir því. En ég veit að herra biskupnum hefur illa líkað að á það væri minnt, að um sumt væri kirkjan að færast í afturhaldsátt.

Það myndast miklar sögur um prestskosningar. Ég hef tekið þátt í nokkrum prestskosningum og ég kannast ekki við þessi ósköp sem menn eru alltaf að lýsa í kringum þær. Og ef það er meiningin, eins og mér skilst, að hér eigi að fara út á þá braut að fáir aðilar eigi þarna að velja, þ. e. sóknarnefndir eigi þarna að velja með safnaðarfulltrúum, þá er ég hræddur um að sá klíkuskapur, sem oft hefur verið talað um að ætti sér þarna stað, mundi ekki síður verða mikill í þeim þrönga hópi.

Ég hef hins vegar alveg sérstaka ástæðu fyrir því að vera á móti afnámi prestskosninga, það mun ekki hafa komið fram í mínu máli hér í fyrra.

Það vill svo til — vel til, segi ég, að formæður og forfeður mínir áttu hvað drýgstan hlut að því að því skipulagi var komið á, að ég tel, sem ríkir nú góðu heilli innan kirkjunnar, með uppreisn sinni austur á landi gegn valdi kirkjustjórnarinnar á sínum tíma. Og ég er afar stoltur af því að þetta fólk skyldi þar ganga fram fyrir skjöldu og rjúfa það vald. Ég held að ég þættist ættleri að meiri ef ég færi nú að breyta hér til. Þetta er kannske ein meginástæðan fyrir því að ég er hér á móti, þó ég hafi margar aðrar röksemdir í frammi sem óþarft er e. t. v. að endurtaka.

Ég sagði að það er mikið talað um að það þurfi að losna við prestskosningar vegna ýmissa óheillavænlegra áhrifa sem þeim fylgja. En síðan á engu að síður að velja presta með ákveðnu fyrirkomulagi : með óbeinum kosningum þeirra fulltrúa sem áður hafa verið kjörnir af söfnuðinum. Það væri þá miklu nær, held ég, að þessir aðilar yrðu skipaðir beint af kirkjumrh. með umsögn þá biskups.

Ég ætla ekki að hafa langt mál hér um og hlýt því miður að fara hér af fundi á eftir og harma það, ef þessar umr. halda hér áfram. Vissulega er ástæða til þess að vera viðstaddur þær umr. þó þær megi ekki dragast um of á langinn, svo að menn fái till. sínar í n. — og ekki skal ég hafa þar á móti — og hægt sé að senda þessar till. verulega til umsagnar þeirra aðila sem hér eiga um að fjalla. En ég vildi aðeins koma hér inn á það, að ég tók þátt í sjónvarpsþætti í fyrra um þessi mál — illu heilli, sagði ég á eftir, því sjálfur var ég ekkert hrifinn af þessum sjónvarpsþætti og allra síst vegna þess að hann snerist á allt annan veg og um allt annað efni en átti að vera, eins og menn hafa séð sem á hann horfðu.

En viðbrögðin við þessum sjónvarpsþætti urðu á allt annan veg en ég átti á von. í fyrsta lagi fékk ég það staðfest af mörgum málsmetandi mönnum innan kirkjunnar, sem ég reyndar vissi mætavel, að því færi fjarri að það væri aðeins um persónulegar kosningar að ræða í sambandi við prestskosningar, þar væri óneitanlega enn þá, svo sem eðlilegt er og sjálfsagt að mínu viti, deilt um stefnur.

Ég verð að játa það, að þegar fyrsti guðsmaðurinn hringdi í mig í fyrra, en þeir voru æðimargir, þá fékk ég örlítinn hjartslátt því að ég reiknaði með að nú ætti að fara að taka þennan guðleysingja í karphúsið og skamma hann nú ærlega. En það fór nokkuð á annan veg, því að klerkar eru vitanlega menn kurteisir og fara ekki að hringja í menn til þess að skamma þá. En þeir eiga líka hreinskilni til þess að þakka mönnum fyrir ef þeim hefur líkað vel, og þeir voru undarlega margir sem þökkuðu mér fyrir þennan sjónvarpsþátt, — undarlega margir og skýtur furðulega skökku við í sambandi við þá miklu eindrægni sem sagt er að ríki um að afnema þessar kosningar.

Ég ætla ekki að nefna þessa ágætu menn, það væri alrangt, en þeir voru, eins og ég sagði, undarlega margir, ef það var rétt, sem hér hefur verið haldið fram, að afnám prestskosninga ætti svo alfarið fylgi innan prestastéttarinnar. Þessir menn lágu ekkert á þeirri skoðun sinni að þeir vildu ekki taka völdin úr höndum fólksins. Þeir vildu sem sagt að þessar kosningar héldu áfram. Þeir sögðu að á því fyrirkomulaginu væru vitanlega gallar, alveg eins og við verðum að kynnast því í okkar kosningum til þings. En þeir hikuðu ekki við að fullyrða, að þeir fylgdu því fyrirkomulagi áfram að prestskosningar ættu að vera. Og ég met mikils orð þessara manna, hinna mætustu manna, sem hafa starfað fyrir kirkjuna um áraraðir og áratugi. Ég met orð þeirra mjög mikils og var þeim ákaflega þakklátur, því að þær grunsemdir voru farnar að læðast að mér að kannske væri öll klerkastéttin orðin svona þröngsýn og þau orð, sem ég mælti hér í fyrra um að kirkjan væri að færast í þessa átt, væru enn sannari en ég átti þó von á.

Það var svolítið gaman að kynnast því, hvernig menn vildu láta kjósa æðsta mann kirkjunnar, biskupinn. Hann er kosinn, eins og kunnugt er, af klerkum einum, og það kom mjög skýrt fram hjá þessum mönnum, sem töluðu við mig, að þeir höfðu ekkert við það að athuga að biskupskjör færi fram á annan veg. En þeir menn margir hverjir, sem eru fylgismenn þess að afnema prestskosningar, mér skilst að þeir megi ekki heyra á það minnst að missa þann rétt að kjósa biskup, það komi ekki til nokkurra mála, þar horfi allt öðruvísi við, það séu þeir, hinir einu sönnu fulltrúar, sem það eigi að gera. Ég vona að sú sé ekki raunin á með þann hv. þm. sem situr hér rétt við hliðina á mér, því að það þætti mér lakara ef það væri almenn skoðun þessara aðila.

Ég sem sagt lýsi yfir andstöðu við málið eins og ég veit að það er hugsað, þ. e. a. s. við afnám prestskosninga. Ég geri það af mörgum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja frekar hér. Ég gerði það svo rækilega í fyrra að ég held að ég hafi þar litlu við að bæta. Ég geri það líka vegna forsögu þessa máls sem ég held að fari ekkert á milli mála að hafi orðið íslenskri kirkju og íslenskri kristni til hins mesta gagns á sínum tíma. Ég hygg að fátt eða ekkert hafi orðið kirkjunni til betra lífs, ef menn eru að hugsa um hag hennar á annað borð, heldur en sú frjóa umræða, sem skapaðist út frá þeim öldum sem risu hér rétt fyrir aldamótin síðustu og héldu svo áfram í byrjun þessarar aldar. Og það væri hörmulegt fyrir kirkjuna, — ég tel mig nú engan sérstakan fulltrúa hennar, — en það væri hörmulegt fyrir kirkjuna ef hún sykki aftur niður í eitthvert eintónavæl sem eingöngu snerist í eina átt. Það er vissulega gaman að því, það veit ég að hv. þm. kannast margir við, það er vissulega gaman að fylgjast með þeim skemmtilegu og fjörugu trúmálaumræðum sem hér urðu og hleyptu lífi í allt kirkjulíf fram eftir öllu á þessari öld og það væri miður ef sú umræða koðnaði niður. En ég hygg að einmitt ein meginforsendan fyrir því, að þessir menn standa svo hart fyrir afnámi prestskosninga, sé einmitt að láta þessa starfsemi fara í þann farveg. Þeir vita, held ég, ekki hvað þeir eru að gera þegar þeir fara út í það, því oft er um að ræða eina lífið í söfnuðinum í kringum þessar kosningar, og það er þó alltaf lífsmark, sem þeir ættu að kunna að meta.