28.10.1976
Sameinað þing: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

1. mál, fjárlög 1977

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð. Ég vil aðeins vekja athygli á því sem hæstv. fjmrh. las hér upp sem afsökun og staðfesti um leið gagnrýni okkar á ríkisbúskapnum undanfarin ár. Hann reyndi að finna út að svo kynni að fara að nú, vegna mjög raunhæfra talna í þessu frv., yrði mismunur til hækkunar sérstaklega lítill. En ræða hans var að verulegu leyti til að sanna það að frá fjárl. til raunhæfs ríkisreiknings, eins og hann lægi fyrir eftir á, hefði átt sér stað gífurleg hækkun. Og það hefur einmitt verið kjarni í okkar gagnrýni, a.m.k. minni gagnrýni, að fjárl. væru ekki raunhæf þegar þau færu í afgreiðslu. Ég gæti flett upp æ ofan í æ þessu til staðfestingar, en ég ætla ekki að gera það, því að hæstv. ráðh. undirstrikaði þetta mjög svo í þessari ræðu sinni.

Þess er að vænta að vegna bætts skipulags í ríkisbúskapnum getum við gengið út frá því að þetta frv. sé raunhæfara en verið hefur í mörg ár, og það vil ég sérstaklega þakka. Ég vona að orð ráðh., þeirra beggja sem hér hafa talað, séu rétt í þessu efni. Þá er til mikils að vinna að hafa gert þetta átak, það mun hjálpa öllum.

Ég hef talað um það áður, og beini ég orðum mínum til hæstv. samgrh, og raunar líka til fjmrh., að verð á bilum á Íslandi í dag, — ja, það má nú eiginlega nota það orð, það er geggjað, það er hreinlega geggjað, það er svo vitlaust. Og ég hef æ ofan í æ sagt það, að ég er tilbúinn að lækka það verulega og hef aldrei farið leynt með það. Ég veit ekki hvort nokkur annar þm. hefur þorað að stynja því upp, en ég hef alltaf sagt að það megi lækka um þriðjung. En á móti skal ég taka það á mig að standa að verulegri bensínhækkun, því að þegar venjulegur bíll kostar mikið á 3. millj. kr. í dag, þá er þetta svo geggjuð tala að það er skömm að henni — hreinlega skömm að henni. En það er ekkert því til fyrirstöðu að hafa bensínverðið 10–15 kr. hærra og menn borgi fyrir eyðsluna. Það er öllum frjálst að eyða peningum í þá áttina.

Ég vil því beina því til hæstv. samgrh., sem viðurkenndi að vegamálin eru í vandræðum, að leita liðsinnis allra þm. í þessu efni og viðurkenna það, að það verði að lækka bílana og það verulega, en taka nægilegt fjármagn í gegnum eyðsluna. Ég trúi ekki öðru en hann fengi árangur í þessu efni, því að ég er honum sammála um að fjármagn í vegagerð er of lítið. En það næst ekki inn með því að eltast við innkaupin á bílunum með eins gífurlegri skattheimtu og nú hefur átt sér stað undanfarið. Það er miklu skynsamlegri leið að hafa innflutning á bílum sem jafnastan. Sennilega þarf innflutningur á bílum að vera kringum 7000 á ári svo að vit sé í. Við náum því engan veginn nema lækka verð á bílum eða tollana á bílum, en taka nægilegt fjármagn inn í gegnum eyðsluna. Ég skal styðja hæstv. samgrh. í því. Og ef fjmrh. óttast sinn þátt í því að verða hallloka, þá mættum við gjarnan ræða saman um úrbætur í því efni, vegna þess að ég tel að hér stefni í rétta átt í því efni.

Ég skal svo, herra forseti, ekki tefja þessar umr. lengur, því að menn gerast hér svangir og margir eru farnir að metta magann og þá líklega ríkissjóð um leið, og hef þessi orð ekki fleiri.