29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3010 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

177. mál, veiting prestakalla

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég mun ekki flytja langa ræðu á þessum kvöldfundi, en tel þó rétt að segja örfá orð um þetta mál.

Það væri að vísu freistandi að ræða nokkuð við hv. síðasta ræðumann, þann sem talaði á síðdegisfundinum, hv. 7. landsk. þm., Helga Seljan. Ég sagði honum áður en fundi var frestað í dag, að ég mundi hafa gaman af að spjalla dálítið við hann út af ræðuflutningi hans, en hann mun nú vera farinn í Austurveg með kvöldinu, kominn austur í Grímsnes, svo það er ekki ástæða til að svara honum mörgum orðum. Þó vil ég benda á að hann rökstuddi andstöðu sína gegn þessari þáltill. með því að vitna til afstöðu náinna frænda sinna á Austurlandi og ættingja og forfeðra að langfeðgatali og taldi sig ekki mega með nokkru móti bregða út af þeirri afstöðu sem þeir hefðu haft til þessara eða svipaðra mála. Er það sannarlega gott þegar menn fara svo nærgætnum höndum um afstöðu forfeðra sinna og frænda til slíkra mála. En hv. 7. landsk. þm. féll í þá sömu gröf og aðrir sem andmælt hafa þessari till. til þál. Hann talaði gegn henni á þeim grundveili eða eins og það væri till. um að leggja niður prestskosningar. Þetta er algjörlega rangt. Þessi till. fjallar einungis um að kjósa n. úr hópi okkar þm., 7 manna n., til að endurskoða lög um veitingu prestakalla sem orðin eru 60 ára gömul. Þetta hefur margoft verið tekið fram, en virðist með engu móti komast til skila hjá hv. andstæðingum þessarar till. En eins og segir í grg. og rökstuðningi með till. hefur þeirri skoðun stöðugt vaxið fylgi meðal leikra sem lærða, að tímabært sé að endurskoða þessi lög miðað við breyttar Þjóðfélagsaðstæður.

Því hefur verið haldið fram við þessa umr., að flm. till. héldu áfram að sigla undir flösku flaggi því að þeir stefndu beint að afnámi prestskosninga í landinu, þeir ætluðu sér að svipta hinn almenna borgara landsins rétti til að velja sér sálusorgara og fleira af þessu tagi. Þessu og engu öðru vilja þeir menn trúa. Ég tal að þessi n., ef kjörin verður, sem ætlað er að endurskoða þessi gömlu lög, geti haft tiltölulega mjög frjálsar hendur, og það er alls ekki hægt að fullyrða að niðurstaða hennar verði endilega sú að afnema prestskosningar. En það er ekki heldur nauðsynlegt að þær þurfi að vera með því gamla sniði sem núgildandi lög mæla fyrir um. Það hefur verið sagt um þessi lög, að þau fjölluðu einungis um framkvæmd við kosninguna sjálfa. Menn hafa leiðst út í það að lesa lögin upp grein fyrir grein og dvalist þá kímileitir við orðalag þessara gömlu laga um það, hvernig menn eigi að bera sig að því að hvolfa úr kjörkössum, og annað eftir því. En það sjá þó allir menn, sem vilja lesa þau lög með opnum augum, að þeir þurfa ekki að lesa nema 1. gr. til að sjá að hún er stefnumarkandi á þann veg að þessi skýring þeirra, að lögin fjalli einungis um kosninguna sjálfa og framkvæmd hennar á kjördegi, fær ekki staðist.

Það hefur verið bent á að kirkjuþing hafi oft eða a. m. k. fjórum sinnum mælt með því að láta endurskoða þessi gömlu lög, og prestar landsins hafa oft látið þennan vilja sinn í ljós. Prestastefnur hafa gefið yfirlýsingar eða gert samþykktir um þessi mál og héraðsfundir og svo mætti lengi telja.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þessa till. nú. En aðalröksemd mín er sú, að ég viðurkenni að vísu að Kirkjuþing er ekki sett til þess að segja Alþ. fyrir verkum, það er fjarri öllu lagi. En hins vegar verðum við að taka tillit til samþykkta Kirkjuþings, og í því efni vil ég leyfa mér að vitna í 14. gr. laga um Kirkjuþing, en þau lög eru nr. 43 frá 3. júní 1957. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kirkjuþing hefur ráðgjafaratkvæði og tillögurétt um öll þau mál er kirkjur, klerkastétt og söfnuði landsins varða og heyra undir verksvið löggjafarvaldsins eða sæta forsetaúrskurði.“

Þetta tel ég svo skýrt og skorinort að hv. Alþ. geti með engu móti skorast undan því að taka afstöðu til ályktana sem Kirkjuþing gerir svo til einróma hvað eftir annað.

Ég vil aðeins geta þess til gamans, þegar menn eru að tala um það, siðast núna hæstv. forsetar þings okkar, að það sé ekki hægt að láta ályktanir Kirkjuþings velkjast fyrir hina háa Alþingi þing eftir þing, það verði að vísa því máli undir dóm alþjóðar, og í því sambandi benda þeir á hvað þetta mál hefur oft borið á góma í sölum Alþingis á síðustu árum, — af þessu tilefni vil ég geta þess svona til fróðleiks, að það gekk alls ekki hljóðalaust að fá lög um Kirkjuþing samþ. Þau voru líka flutt á þingi hvað eftir annað. Ég held að frv. til l. um Kirkjuþing hafi fyrst verið flutt á Alþingi skömmu eftir síðustu aldamót. Þá voru flm. séra Árni Jónsson á Skútustöðum o. fl. Það náði ekki fram að ganga, lá lengi í þagnargildi. Síðan mun það hafa verið á árunum — ja, líklega 1940–1950, að Magnús Jónsson prófessor flytur frv. til l. um Kirkjuþing. Enn þá fær það ekki náð fyrir augum alþm. og dagar uppi. Mál um sama efni er síðan flutt af menntmn. Ed. 1956 — í þriðja sinn. Það nær ekki fram að ganga. Loks er það flutt af sömu n. árið 1957 og verður að lögum á því ári. Ég leit að gamni mínu í grg., sem fylgdi því frv. árið 1057, og ætla að lofa ykkur að heyra tvær-þrjár setningar úr þeirri grg., með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m. a.:

„Kirkjuþing fyrir hina íslensku þjóðkirkju hefur verið áhugamál prestastéttarinnar um hálfrar aldar skeið.“ Og síðar í grg.: „Um gagnsemi þessa frv. fyrir kirkjuna ætti ekki að þurfa að fara mörgum orðum. Það liggur í augum uppi. Kirkjuþing er kirkjunnar mönnum ekki síður nauðsynlegt en t. d. bændum og sjávarútvegsmönnum fyrir sitt leyti þeirra þing. Mætti fastlega gera ráð fyrir því, að þegar fengin væri reynsla af starfi Kirkjuþings mundu menn engan veginn vilja án þess vera, enda er þess að vænta að með líðandi árum mundi vaxa festa og þróttur í starfi þess.“

Þessi fáu orð, þessar setningar, sýna m. a. hvað prestastéttin lagði mikið upp úr því að fá frv. um Kirkjuþing samþ., en á Kirkjuþingi fjalla lærðir sem leikir fulltrúar, sem áhuga hafa á málefnum kirkjunnar, um hennar mál.

Ég ætla að láta þessi fáu orð nægja, um leið og ég vænti þess að þessi till. fái skjóta og greiða leið í gegnum þingið. Það er í raun og veru það eina sem ég sem meðflm. þessarar till. fer fram á. Ég segi fyrir mig, að ég legg ekki höfuðáherslu á að afnema prestskosningar heldur fá lögin endurskoðuð. Ég legg áherslu á að vilji Kirkjuþings sé tekinn til greina, eins og ég hef reynt að rökstyðja hér í þessum orðum, og ég legg áherslu á að það verði ekki reynt að bregða fæti fyrir þessa till. með málþófi þegar við fyrri umr., heldur að málið fái greiða og þinglega meðferð.