29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3025 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

177. mál, veiting prestakalla

Ingiberg J. Hannesson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið úr því sem komið er, og sjálfsagt er ekki ástæða til þess að eyða öllu meira púðri á hv. þm. Karvel Pálmason út af þessu máli. En ég vildi aðeins árétta tvö eða þrjú atriði, sem komu fram í máli hans, og leiðrétta.

Það er eiginlega undarlegt með nefndan þm., að hann virðist ekki geta skilið að þeir menn, sem standa að flutningi þessarar till., vilja breytingar. Það hefur enginn af flm. farið dult með þetta. Þetta ætti hv. þm. að vera löngu ljóst og þarf ekki að eyða frekari orðum að því. Þarna er á ferðinni einhver meinloka sem hann virðist ekki geta losnað við.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan, að það er staðreynd að það er mikil óánægja innan kirkjunnar með það fyrirkomulag sem verið hefur um veitingu prestakalla, þ. e. a. s. almennar prestskosningar. Og það er jafnljóst mál að þetta hefur verið lagt fyrir söfnuðina í landinu á undanförnum árum, þetta hefur verið lagt fyrir safnaðarfundi og fyrir héraðsfundi í prófastsdæmunum. Auðvitað eru ekki allir á einu máli um þetta. Því hefur aldrei verið haldið fram. Skoðanir eru misjafnar. En það er mikill meiri hluti manna, sem um þetta hafa fjallað, fylgjandi því að breytt verði til og almennar prestskosningar afnumdar. Hvað svo á að koma í staðinn, það er einmitt hlutverk þeirrar n., sem þáltill. gerir ráð fyrir að verði skipuð, að gera tillögur um það. Það er einmitt hlutverk hennar að fjalla um það, hvað geti komið í staðinn fyrir þetta fyrirkomulag ef það verður ofan á að breyta til. Og það hafa komið fram ýmsir möguleikar hér í kvöld, sem ég þarf ekki að fara að rekja nánar.

En ég vil aðeins koma inn á það sem menn kalla kjörmannafyrirkomulag, þ. e. a. s. að sóknarnefndarmenn og safnaðarfulltrúar kjósi prest ásamt viðkomandi prófasti, eins og gert er ráð fyrir í fyrri frv. sem um þetta hafa verið flutt hér á Alþ. Mér er eiginlega ráðgáta hvað það er sem menn óttast svo í sambandi við hugsanlegt fyrirkomulag í há átt. Hvaða aðferð er notuð í sambandi við ráðningu kennara t. d.? Vita menn og þá einnig hv. þm. Karvel Pálmason hvaða aðferð þar er notuð? Hann er sjálfur kennari. Er þar ekki nokkurs konar kjörmannafyrirkomulag á ferðinni? Ég veit ekki betur en að skólanefndarmenn fjalli um umsóknir kennara og mæli svo með vissum umsóknum til ráðh. sem síðan veitir stöðuna. Jú, auðvitað verða stundum deilur út af slíkum veitingum, það er mér ljóst. Það er aldrei hægt að gera svo að öllum líki.

En sem betur fer er það ekki mjög algengt. Það heyrir frekar til undantekninganna heldur en hitt, að menn þurfi að deila um slíkar veitingar, og ég hef ekki nokkra ástæðu til þess að ætla að slíkt þyrfti frekar að vera í sambandi við veitingu prestsembætta þó að starf prestsins sé annars eðlis heldur en starf kennarans, þá þarf það samt sem áður ekki að verða til þess að þetta fyrirkomulag notist ekki. Við þurfum líka að hafa t. d. ekki síður góðan lækni í okkar þjónustu. Hvernig er hans embætti veitt? Er það ekki ráðh. sem skipar lækna? Þannig gætum við haldið áfram að telja ótal starfsstéttir, og við endum alltaf á þessari sömu spurningu: Af hverju þarf þessi skipan að gilda um presta eina?

Og í framhaldi af þessu fer hv. þm. Karvel Pálmason að velta fyrir sér spurningunni um það, hvort ekki beri að íhuga það um leið að kjósa presta til ákveðins tíma, við skulum segja 5 eða 10 ára. Ég væri því ekki mótfallinn út af fyrir sig, að slíkt væri athugað, ef við höldum okkur við þá hugmynd yfirleitt að kjósa presta.

Ég ætla nú ekki að fara út í það sem hann drap á einnig um kosningu biskupa. Ég veit að það yrði efni í margar ræður fyrir hv. þm. Karvel Pálmason hér á Alþ. ef það ætti að fara að fjalla um kosningu biskupa, og ég ætla ekki að fara að innleiða þær umr. hér eða víkja að því. Við skulum halda okkur við þetta efni.

Það er hægt að vitna í gamlar tímaritsgreinar um þessi mál eins og önnur og við gætum gert það endalaust, bæði með og á móti. Ég held að við vinnum ekkert á því. Það eru skiptar skoðanir um þetta mál í prestastétt líka. Ég hef aldrei legið á því í mínum málflutningi um þetta mál. En hitt er augljóst, að stór hluti prestastéttarinnar er mótfallinn núverandi kosningafyrirkomulagi. Það get ég fullyrt, þó að það séu ýmsir klerkar sem vilja halda þessu og þá einkum þeir eldri.

Ég vænti þess, að við ræðum þessi mál, eða þeir, sem þá verða á hv. Alþ., ræði þessi mál þegar niðurstaða liggur fyrir af starfi þeirrar n. sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir að verði kosin. Fyrr er í raun og veru ekki tímabært að ræða þetta í einstökum atriðum, þó að ekki sé hægt að komast hjá því að svara ýmsum atriðum í þessu sambandi sem komið hafa hér fram. Ég vænti þess að hv. Alþ. afgreiði þetta mál og þm. sameinist um að koma því það fljótt áfram, þar sem liðið er á þingtímann, að það geti hlotið afgreiðslu þegar á þessu þingi.