30.03.1977
Efri deild: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3040 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

146. mál, tékkar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan beina spurningu til hæstv. ráðh. vegna þess að mér er ekki alveg ljóst hvað hér er á ferðinni. Spurningin er í framhaldi af því sem stendur í 1. gr., hún hefst á þessum orðum: „Refsa skal með sektum eða allt að þriggja mánaða fangelsi nema þyngri refsing liggi við samkv. almennum hegningarlögum.“ Ég hef staðið í þeirri meiningu að bankarnir hafi hingað til tekið sér ákveðið dómsvald, sem vafasamt er að þeir geti gert. Svo kemur spurningin: Er það ætlunin með þessu frv. að lögfesta dómsvald til handa bönkunum? Í 1. gr. stendur: „Krafa um opinbera ákæru skal borin fram af handhafa tékka.“ En er, áður en til ákæru kemur, verið að gefa bönkunum vald til að refsa á einhvern hátt, annaðhvort með sektarvöxtum eða sektum eða farið fram á þriggja mánaða fangelsi, en ef álitið er að brotið sé það stórt að það þurfi að þyngja refsinguna frá því, þá skuli farið eftir almennum hegningarlögum? Ég verð að segja að ég hefði fagnað því að fá þetta frv. til fjh.- og viðskn. þar sem ég á sæti. Þar hefði ég getað komið fram þeim óskum þeirra aðila sem hvað mest nota tékkaviðskipti við bankana, þ. e. verslunaraðila eða allrar atvinnustarfsemi í landinu, sem notar ávísanir miklu meira en almenningur gerir þó að tékkanotkun sé mjög almenn hér á landi. Því hefði ég heldur viljað fá þetta frv. í fjh.- og viðskn. En ég fer þess hér á leit við hæstv. forseta, að hann komi því áleiðis til allshn., ef málinu verður vísað þangað, að umsagnar verði leitað til aðila vinnumarkaðarins.