30.03.1977
Efri deild: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

146. mál, tékkar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég tel það á misskilningi byggt hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni að tala um dómsvald hjá bönkunum í þessum efnum. Það er ekki og hefur ekki verið. Hins vegar var það svo, að Seðlabankinn tók að sér að innheimta eða reyna að innheimta þá tékka sem innstæða reyndist ekki vera fyrir. Það má orða það þannig, að hann hafi tekið að sér fyrir viðskiptabankana að reyna að innheimta þá tékka sem var framvísað án þess að innstæða væri fyrir hendi.

Það eru í tékkalögunum ákveðnar reglur um hvað á að greiða þegar tékki lendir í vanskilum, alveg eins og þar er ákvæði um hvað á að greiða eða hvað bætist við víxilfjárhæð þegar víxill lendir í vanskilum. En það má vera að Seðlabankinn hafi innheimt frekari þóknun eða vexti. En þá áttu þeir, sem þar höfðu gerst brotlegir eða hafði orðið á í þessu sambandi, um það að velja að gera upp við Seðlabankann eða að það var sent til dómstólanna. Það er sannast að segja að það voru orðin stórkostleg vandræði að því hvílíkur fjöldi tékka var sendur til dómstólanna, náði ekki nokkurri átt og nær ekki nokkurri átt að vera að láta dómstóla sitja yfir því að reyna að boða menn, ná í menn og eltast við menn út af einhverjum innstæðulausum tékkum sem þeir borga aldrei og verður aldrei neinum lögum þannig yfir komið. Þetta er misnotkun að mínum dómi á starfskröftum dómstólanna. Þess vegna er það einn liðurinn í þessum breyttu reglum, sem teknar hafa verið upp nú með samkomulagi bankanna, að Seðlabankinn hverfur út úr þessu kerfi sem innheimtustofnun. Það reynir hver viðskiptabanki að innheimta þá tékka sem hann getur, og eru settar ýtarlegri reglur um það og gert ráð fyrir því, að það kveði miklu minna að því en áður að það þurfi að senda þessi plögg, ef ég má svo að orði komast, til dómstóla. En þó verður auðvitað aldrei hjá því komist, og þá auðvitað allra helst ef um beina glæpsamlega notkun þeirra er að tefla, þessi skjöl hafi verið notuð í auðgunartilgangi, þá hlýtur það auðvitað alltaf að koma til dómstólanna.

Það var athugað í þeirri samstarfsnefnd, sem um þetta fjallaði og þessar reglur samdi, hvort það væri ekki rétt að setja enn þá strangari reglur í þessu efni, þ. e. a. s. hvort ekki væri rétt að leggja enn þá ríkari ábyrgð á viðskiptabankana, á þann banka sem hefur látið viðskiptamanni sínum í té ávísanahefti eða tékkhefti, hvort það væri ekki rétt að láta viðskiptabankann hreinlega bera ábyrgð á sínum viðskiptavini og hann yrði að greiða tékka ef innstæða reyndist ekki vera fyrir hendi. Það varð ekki samkomulag um það og var látið sitja við þessar reglur sem settar voru og eru að höfuðefni sjálfsagt þær, að viðskiptabankinn á að taka að sér innheimtu sumra tékka, ef svo má segja, og ætti þess vegna miklu sjaldnar en áður að koma til þess að leita þyrfti til dómstóla út af þessu. En auk þess eru auðvitað reglurnar þær efnislega, að það á að reyna að girða fyrir að þeir menn fái í hendur svona ávísanablöð sem ekki hafa þeirra not eða ekki er trúandi til þess. Fyrir slíkt er auðvitað ómögulegt að girða með öllu fyrir fram, en það er þó eitt höfuðatriðið.

Hv. síðasti ræðumaður gat þess, að það væri nauðsynlegt að hafa þessar ávísanir til notkunar við verslun og í öllu viðskiptalífi, og það er auðvitað alveg rétt. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni væri það auðvitað spor aftur á bak ef þyrfti að hverfa frá nauðsynlegri notkun þessara ávísana. En sannleikurinn er sá, að ég hygg að sú misnotkun eða þau mistök, sem hafa átt sér stað í sambandi við notkun tékka, séu ekki fyrst og fremst hjá versluninni. Ég hygg að það séu frekar einstök undantekningartilfelli og þá bundið við einstaka aðila á því sviði. Ég held að misnotkunin eigi sér og hafi átt sér stað miklu frekar bara vegna þess að það hafi í raun og veru allt of margir fengið þetta í hendur. Það hefur hver sem er og getur hver sem er svo að segja fengið í hendur ávísanahefti. Það getur verið þægilegt auðvitað að geta fengið tékkhefti upp á vasann og greitt kannske kaffibolla þar sem maður kemur með tékka, en það er ekki alveg nauðsynlegt. En ég held að það sé miklu frekar að í þess háttar viðskiptum og hjá þess háttar mönnum hafi misnotkun átt sér stað.

En það, sem segja má um þetta frv. og í framhaldi af því sem hv. þm. spurðist fyrir um, er þetta, að þarna er eiginlega refsing lögð við vissu formlegu broti sem er fólgið í þeim athöfnum sem lýst er í þessu frv. En þegar um alvarlegri brot er að tefla, þar sem auðgunartilgangur liggur á bak við og annað því um líkt, þá fer það eftir sem áður eftir ákvæðum almennra hegningarlaga.