30.03.1977
Neðri deild: 64. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

144. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Hér er um mál að ræða sem talsvert hefur verið rætt hér á Alþ. að undanförnu, svo það er kannske ekki þörf á því að hafa um málið mjög langa umr. Ég hygg að öll meginatriði þessa máls hafi komið fram. En ég vil þó gera hér með nokkrum orðum grein fyrir afstöðu minni til þessa máls.

Við afgreiðslu fjárl. fyrir síðustu áramót var það einn liður í þeirri fjárlagaafgreiðslu af hálfu stuðningsflokka ríkisstj. að breyta gildandi lögum, sem höfðu verið hér um nokkurn tíma, varðandi greiðslu á svonefndum olíustyrk til þess að draga úr kyndingarkostnaði í íbúðum þeirra sem verða að hita upp íbúðir sínar með olíu.

Það skipulag hafði verið á um þessi mál frá því 1. mars 1974, að innheimt hafði verið eitt söluskattsstig sem aukagjald á alla landsmenn í því skyni að því yrði varið til þess að lækka kyndingarkostnað hjá þeim sem verða að hita upp íbúðir sínar með olíu. Þegar lög um þetta efni voru upphaflega sett var gert sérstakt samkomulag við fulltrúa launþegasamtakanna, seint á árinu 1973, um að þeir sættu sig við, að þetta gjald yrði lagt á, vegna þess að upp hafði komið þessi sérstaki vandi, að nokkur hluti landsmanna fékk á sig þessi stórauknu útgjöld í sambandi við upphitun íbúðarhúsa, en aðrir landsmenn, einkum þeir sem bjuggu við hitaveituaðstöðu, sluppu að mestu við þessi auknu útgjöld sem þá voru að skella á með olíuverðhækkun.

Á fyrsta framkvæmdaárinu, frá 1. mars 1974 til jafnlengdar á árinu 1975, má segja að það hafi í öllum aðalatriðum verið farið með framkvæmd þessara laga eins og til stóð, þ. e. a. s. fénu, sem var innheimt, var úthlutað til þeirra aðila sem lög ákváðu, til þeirra sem höfðu orðið fyrir aukaútgjöldum vegna olíuverðshækkunar. En svo var tekin upp breyting, og það var þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Þá var farið að klípa af þessu gjaldi og var síðan skotið inn viðbótarákvæðum í lögin um að leggja að vísu gjaldið á áfram, en taka nokkurn hluta af gjaldinu og láta renna í Orkusjóð til þess að mæta þeim kostnaði sem áður hafði legið á Orkusjóði í sambandi við rannsóknir varðandi hitaveituframkvæmdir. Þannig var dregið úr styrk til þeirra, sem verða að hita hús sín upp með olíu, frá því sem lögin gerðu ráð fyrir. Þessu hefur verið haldið áfram í tíð núv. stjórnar og náði hámarki við afgreiðslu fjárl. um síðustu áramót, þegar ákveðið var að ríkissjóður tæki til sín gjaldið sem heild, — þetta eina söluskattsstig, sem lagt hafði verið á í þessu skyni, skyldi allt renna í ríkissjóð, þá áætlað í kringum 1700 millj. kr. á ársgrundveili, en hins vegar skyldu um 700 millj. eða nánar tiltekið 698 millj. af þessu gjaldi áfram renna til þeirra sem höfðu notið olíustyrks í þessum efnum, en 1000 millj. kr. — 1 milljarður — af gjaldinu skyldu renna beint í ríkissjóð, en hann taka síðan að sér að fjármagna Orkusjóð til þeirra framkvæmda sem hann hefur með höndum.

Ég hef marglýst því yfir hér í umr. um þetta mál áður, að ég hef verið og er algjörlega andvígur þessari framkvæmd á lögunum og tel að þarna hafi verið hreinlega svikin gefin loforð bæði þeirra, sem stóðu að því að setja þessi lög, og þeirra, sem rætt var sérstaklega við þegar löggjöfin var sett. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að það er Framsfl. að mínum dómi sem ber höfuðábyrgð á því að svona hefur verið staðið að þessari framkvæmd. Það var ráðh. Framsfl., viðskrh., sem tók að sér framkvæmdina og byrjaði á því að sveigja til þessa framkvæmd á þennan hátt og beitti sér síðan að sjálfsögðu fyrir því hér á Alþ. að lögunum var breytt á þennan hátt stig af stigi. Það fer auðvitað ekkert á milli mála að með þessari breytingu hefur verið stórlega dregið úr þeim stuðningi sem átti að veita til þeirra sem þarna áttu erfiðasta aðstöðu og olíustyrkurinn, sem er veittur t. d. nú eða ráðgert er að veita á þessu ári, er hlutfallslega miklu lakari miðað við verðlag nú en hann var þegar lögin voru sett, svo það hefur beinlínis verið dregið úr þessum styrk. En ekki nóg með það. Auðvitað var eðli málsins þannig að styrkurinn átti hlutfallslega að aukast eftir því sem tekjurnar urðu meiri, sem aflað var í þessu skyni, og þeir urðu færri, sem svona stóð á fyrir, að þurfa að njóta þessa styrks. En þetta hefur sem sagt allt orðið á annan veg. Inn í þetta mál hefur verið blandað því sem hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., sem hér var að tala á undan mér, hv. þm. Tómas Árnason, ræddi nokkuð um, — því hefur verið blandað saman við þetta mál, að það væri unnið að því að koma upp fleiri hitaveitum í landinu en áður og það sé gagnlegt mál og nauðsynlegt mál. Það hefur auðvitað aldrei verið hér á Alþ. nokkur minnsti ágreiningur um það manna á milli eða flokka á milli, að rétt væri að greiða götu þeirra sem ynnu að því að koma upp fleiri hitaveitum, aðstoða þá með lántökum og á annan hátt að koma upp sínum mannvirkjum þeim til góða. En það voru auðvitað engin rök til fyrir því, að það ætti að skylda þá, sem bjuggu við erfiðasta aðstöðu í þessum efnum, þá, sem þurftu nú að standa undir mestum kyndingarkostnaði í íbúðum sínum, til þess að leggja fram fé til að koma upp hitaveitum annars staðar. Það var í eðli sínu rangt og alveg gagnstætt þeim lögum sem í gildi voru um þetta efni. Ef átti að leggja fram alveg sérstakt framlag til þeirra sem voru að ráðast í hitaveituframkvæmdir og losa sig út úr vandanum, ef átti að leggja þeim alveg sérstakt framlag af opinberu fé, þá átti auðvitað að leggja það á ríkisheildina alla, en ekki að klípa það af þeim takmarkaða styrk sem til var og ætlaður hafði verið með lögum allt öðrum aðilum.

Þessi framkvæmd stefnunnar hefur auðvitað bitnað mjög misjafnlega á landsmönnum. Það eru til landsfjórðungar eins og t.d. Austfirðingafjórðungur þar sem ekki er ein einasta hitaveita til og allir verða að búa við það svo til að þurfa að hita upp íbúðir sínar með því að kaupa dýra olíu. Þeir, sem svona stendur á fyrir, hafa auðvitað orðið harðast úti í þessum efnum í sambandi við þessa framkvæmd stefnunnar. Svipað er að segja t. d. um vestfirðinga sem njóta hitaveitna að mjög litlu leyti. En hvað um það, svona hefur verið staðið að þessum málum á kostnað þessara aðila fremur en allra annarra.

Á það hefur einnig verið bent í þessum umr., að svo er komið með þessa gjaldtöku að hún er í sjálfu sér að verða hreinn skrípaleikur. Þegar lagt er eitt söluskattsstig á alla landsmenn, einnig þá sem verða að nota olíu til þess að hita upp íbúðarhús sín, og þessi gjaldtaka nemur í kringum 1700 millj. kr. á ári, þá kemur í ljós að þeir, sem eiga að njóta þessa styrks, það er talið að þeir greiði af þessum 1700 millj., bara í beinu hlutfalli við höfðatöluregluna, þá borgi þeir 550–600 millj. kr., en eiga að fá 698 millj. kr. greiddar til baka. Þetta getur maður sagt að sé byggðastefna í lagi í höndunum á Framsfl. Þarna tekst honum nú aldeilis upp, að leggja þennan skatt á á þennan hátt og færa mönnum svo hinn bitann og auðvitað biðja um tilheyrandi þakklæti út á allt saman. Auðvitað er þetta orðið hreint hneyksli, og þessi skatttaka er ekki lengur vegna þessara aðila. Það mætti leggja þennan skatt niður þess vegna. Hann er lagður á undir fölskum forsendum, eins og komið er. Hér er um svo lítinn styrk að ræða, þ. e. þegar nettógreiðslan er talin, að það er ekki umtalsvert.

Ég legg áherslu á að framkvæmdir í hitaveitu málum í landinu koma þessu olíustyrksmáli ekkert við. Það hefði aldrei átt að leggja á þetta sérstaka gjald til þess að styrkja hitaveituframkvæmdir. Það var lagt á í allt öðru skyni. Og ég verð að segja það, að ég met hitaveiturnar líka þannig að það séu fyrirtæki út af fyrir sig sem sjálfsagt sé að ráðast i. Það þarf að útvega þeim, sem þar eiga hlut að máli, stofnfé til framkvæmdanna með lántöku, og síðan borga þessi fyrirtæki sig sjálf. Sú hefur reynslan verið. Í nokkrum tilfellum hefur það verið svo, að ríkissjóður hefur komið þarna til líka, eins og t.d. gagnvart Suðurnesjum, þar sem ákveðið er að ríkissjóður sé 40% eignaraðili að hitaveituframkvæmdunum við Svartsengi á móti 60% hjá heimamönnum. Það er öðruvísi staðið þar að heldur en hjá þeim sem búa við það vandamál sem skapaðist við olíuverðshækkunina.

Ég tók eftir því, að hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., Tómas Árnason, lét orð að því liggja, að það væri ekki hægt að taka mjög hátíðlega till. okkar alþb.-manna um aukin útgjöld ríkissjóðs sem fælust í okkar till. Við legðum slíkar till. fram svo að segja daglega án þess að benda á það hvaða tekjur ríkissjóður ætti að fá í staðinn. Jú, menn hafa nú reynt að nota svona röksemdir áður, en þær hafa ekki reynst mjög haldbærar. Í fyrsta lagi er nú það, að það liggur auðvitað ljóst fyrir að við alþb.-menn höfum verið og erum óánægðir með ýmsar ákvarðanir um útgjöld ríkissjóðs. Það fer t. d. ekkert á milli mála, að við erum andvígir því að ríkissjóður sé að leggja frá sér beint fjármagn til framkvæmdanna á Grundartanga. Við viljum gjarnan ráðstafa þeim fjármunum, sem þangað eiga að fara í beinu framlagi af hálfu ríkisins, á annan veg. Það þarf vitanlega ekki að endurtaka þetta við hverja till. sem flutt er um að ráðstafa fjármunum ríkisins á annan veg en gert hefur verið. Við höfum einnig bent á það, að við teljum enga ástæðu til þess, eins og sakir standa, að gera ráð fyrir því í fjárhagsuppsetningu hins opinbera að borga niður á þessu ári skuldir ríkisins við Seðlabankann um 2000 millj. kr. eða 2 milljarða. Það er ekkert heilagt að hafa það á þennan hátt, þó að meiri hl. hér á Alþ. hafi ákveðið fyrir sitt leyti að hann vilji hafa þennan hátt á. Við höfum vitanlega leyfi til að flytja okkar till. um að ráðstafa þessum fjármunum á annan veg.

Hægt er vitanlega að nefna hér margt fleira. Við erum t. d. á þeirri skoðun og höfum margsinnis sett fram það álit okkar, að það ætti að lækka vextina í landinu. Slík lækkun á vöxtum mundi stórkostlega draga úr útgjöldum ríkissjóðs á fjárl., þar sem skv. fjárl. eru vaxtagreiðslur ríkisins nú orðið reiknaðar nærri 9 þús. millj. kr. Það er vitanlega ekkert heilagt að hafa þennan hátt á. Og hægt væri að sjálfsögðu að nefna hér miklu fleiri og stærri líði þar sem ágreiningur er á milli okkar í minni hl. og hinna, sem eru í meiri hl., um hvernig eigi að ráðstafa tekjum ríkisins.

Hv. þm. nefndi hér m. a. nokkrar till. okkar, og það var býsna athyglisvert hvað hann nefndi. Hann nefndi að í gær hefðum við m. a. flutt till. um það, að u. þ. b. helmingur af söluskatti af bensíni, sem rennur í ríkissjóð, yrði látinn renna í Vegasjóð til vegaframkvæmda. Það er rétt. Þessi upphæð nemur skv. áætlun í kringum 725 millj. kr. En við erum bara á þessari skoðun. Hún hefur reyndar komið æðioft fram í Tímanum líka. Og það er merkilegt ef það hefur farið fram hjá hv. þm., það sem stendur í Tímanum um þetta efni, að það sé engin sanngirni í því að hafa þann hátt á til frambúðar að ríkissjóður beinlínis græði í tekjum á hverri hækkun sem verður úti í heimi á verðlagi á bensíni og olíu. En ríkissjóður hefur blátt áfram skóflað inn tekjum að undanförnu, auknum tekjum, með því að leggja 20% söluskatt á útsöluverðið, stórhækkandi verð á olíu og bensíni. Ef einhver á að njóta þessa skatts, þá eru það fyrst og fremst vegaframkvæmdirnar í landinu. Og þó að Framsfl. sé kannske ekki tilbúinn til þess allur að samþ. nú í dag að það verði gerð breyting á þessu, þá mætti segja mér að hann færi nú að hugsa sig um, þegar fer að nálgast kosningar, hvort hann eigi ekki að taka upp þessa till.

Hv. þm. minntist einnig á að það væri komin till. hér fram frá alþb.-mönnum um að aflétta söluskatti á kjöti og það gæti jafnvel numið um 2000 millj. kr. Jú, það er rétt. Þetta er bara sama till. sem Tíminn er að skrifa um svo að segja daglega og bændasamtökin gera samþykktir um á öllum sínum fundum nú um þetta leyti. Það er kannske jafn-óguðlegt af þeirra hálfu að nefna þetta. En sannleikurinn er sá, að það borgar sig að falla frá því að leggja söluskatt á kjötið. Það eru ekki einhliða útgjöld hjá ríkissjóði. Það hefur líka áhrif á reksturinn á öðrum grundvelli. Það miðar að því að lækka vísitöluna. Það miðar að því að lækka útgjöld ríkisins í formi launa. Hið háa verð, sem er á kjötvörunum, kemur að sjálfsögðu inn í vísitölu og hefur áhrif á hinar miklu launagreiðslur á vegum ríkisins og ýmis önnur útgjöld.

Till. um að fella niður söluskatt á kjöti og eins á rafmagni miða hvorar tveggja að því að reyna að draga nokkuð úr hinni margumtöluðu dýrtíð. Þar er líka um ráðstöfun að ræða sem ég hygg að verði horfið að síðar, þó að það sé ekki til nægilegur meiri hl. fyrir þessari till. enn hér á Alþingi.

Þetta er vitanlega ekki aðalatriði þessa máls, því að í sjálfu sér snýr þetta mál við á allt annan veg en hv. þm. Tómas Árnason lagði það upp í sínu tali. Hér er nefnilega um það að ræða, hvort við eigum að halda okkur við að þeir eigi að eiga þær tekjur, sem hér er um að ræða, sem voru lagðar á landsmenn þeirra vegna, hvort þeir eigi að fá að halda þessum tekjum eða hvort ríkið á að fá að hirða þær.

Það er rétt að ég hef flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 416, en þar er gert ráð fyrir að inn í frv. verði tekið það ákvæði, að 3/4 úr söluskattsstigi skuli ganga til þess að lækka kyndingarkostnaðinn hjá þeim sem verða að búa við það áfram að þurfa að hita upp húsnæði sitt með olíu. Og það er rétt, þetta getur þýtt í kringum 1200–1250 millj. kr. miðað við 12 mánuði, og þar er um talsvert verulega hækkun að ræða frá því sem gert er nú ráð fyrir skv. fjárl., að greiða í þessu skyni í kringum 700 millj. kr. En þó að farið yrði að þessu leyti að minni till., þá er enginn vafi á því að áfram verður eftir allmikill vandi hjá þeim sem þurfa að nota olíu til upphitunar húsa sinna. Þeir verða áfram að búa við miklu lakari kjör í þessum efnum en hinir, sem geta notið hitaveitna eða hitað upp hús sín með rafmagni. Það er enginn vafi á að þeir mundu áfram búa við lakari kjör.

Ég álít að löggjöf um þessi efni eigi að fela þetta í sér, að það sé ákveðið, eins og áður hafði verið, a. m. k. tiltekinn hluti af þessu gjaldi — ég hef ekki viljað fara hærra en upp í 3/4 úr söluskattsstigi — yrði markaður í þessu skyni, og það tel ég í rauninni vera algjört lágmark.

Ég skal svo ekki efna til frekari umr. um þetta atriði. Eins og ég hef sagt hér áður hefur þetta verið rætt svo ítarlega hér, að það er auðvitað öllum ljóst um hvað ágreiningurinn stendur í þessum efnum, hvort á að mæta vanda þeirra, sem þarna standa í mestum vanda, á fastmótaðri hátt og að meira leyti en gert er skv. þessu frv. eða hvort á að halda áfram að draga úr stuðningi við þessa aðila, eins og því miður hefur verið stefnan nú um nokkurt árabil. Ég er andvígur þeirri stefnu og af því flyt ég þessa brtt. og geri þá grein fyrir mínu máli sem ég hef þegar gert.