13.04.1977
Sameinað þing: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

148. mál, bygging nýs þinghúss

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil á sama hátt og síðasti ræðumaður fagna þessari till., að hún skuli vera fram komin. Hún er löngu tímabær. Árið 1972 eða 1973 flutti ég um það till. í borgarstjórn að fela borgarstjóra að hefja við­ræður við forseta Alþ. um að borgarstjórn Reykjavíkur fengi alþingishúsið til umráða sem ráðhús fyrir Reykjavíkurborg, ráðhús höfuðborg­arinnar, með þeim kvöðum að sjálfsögðu að hús­ið yrði varðveitt eins og það er, og þar af leið­andi yrði það nokkurs konar safnhús þótt borgar­stjórn Reykjavíkur notaði það fyrir æðstu stjórn höfuðborgarinnar og aðsetur fyrir listaverk borgarinnar o. fl. um leið, sem sagt að varðveita það sem menningarverðmæti samtímis að það yrði ráðhús Reykjavíkur. Í þessari till. kom fram hugmynd um að byggt yrði yfir Alþ. frá grunni á nýjum og fallegum stað, og í þessari till. kom fram sú hugmynd að nýtt þinghús yrði reist við Rauðavatn, því ég álít að við Rauðavatn, þar sem er nægilegt opið og óbyggt svæði, væru margs konar möguleikar um fallegt umhverfi fyrir Al­þingi og þinghús. En þá yrði þar byggt hús sem svaraði kröfu tímans. Og ég gerði þá ráð fyrir að Alþ. yrði skipað tveim deildum, en ekki bara Sþ. Það dettur náttúrlega engum í hug að leggja niður Ed.

Á þeim tíma gerði ég mér ferð til þáv. forseta Sþ., sem var Eysteinn Jónsson, og ræddi þetta mál við hann. En hann taldi sig andvígan hug­mynd minni og sagði að hann mundi beita sér fyrir því að n. skilaði áliti sem fyrst um upp­byggingu á starfsaðstöðu Alþ. hér á þessum stað og þá með viðbótarbyggingum. Mér fannst, áður en ég gekk á fund Eysteins Jónssonar, þessi hugmynd hans vera afleit og mundi skemma hér umhverfið, en eftir að ég talaði við Eystein fannst mér hugmynd hans ekki svo afleit þegar allt væri tekið til. En ég er smám saman að sveigj­ast inn á þá braut aftur, að það sé ekki rétt að hlaða kvosina hér í miðborginni meira en þegar er orðið, en eins og við vitum eru þrengslin hér í miðborg höfuðborgarinnar það mikil að ekki er á það bætandi. Við höfum hér í kvosinni Landsbanka Íslands, sem dregur að sér gríðar­lega mikinn fjölda af fólki, Útvegsbankann líka, sem eru einu gjaldeyrisbankarnir. Við höfum Seðlabanka Íslands sem er sístækkandi bákn og nýbúið að opna hér í stórhýsi við hliðina á Alþ. nýja skrifstofuaðstöðu. Við höfum tollstjóra­embættið, við höfum skattstjórann, Póst og síma, borgarskrifstofurnar, Gjaldheimtuna og margt fleira sem dregur mikla umferð inn í kvosina. Þar fyrir utan höfum við sambandið á milli nýju hafnarinnar og gömlu hafnarinnar sem gerir þetta allt miklu erfiðara. Því hallast ég meira og meira að því aftur að nýtt alþingishús eigi að rísa utan við miðborgina, eins og hún er núna, en að sjálfsögðu vita menn að kvosin, þó hún sé kölluð miðborg, er langt frá því að vera miðsvæðis á borgarsvæðinu.

Ef ekki liggur fyrir tillaga um staðsetningu þinghúss, sem ég hélt nú að til væri, þarf að taka slíka ákvörðun nú þegar. Til viðbótar ákvörðun um hvar og hvernig þinghús eigi að vera liggur ekki heldur fyrir hvort Alþ. verður skipað eins og það er í dag eða ekki. Á meðan er til lítils að vera að tala um nokkra byggingu. Eru menn með það í huga að flytja till. nú um breytingu á Alþ. sjálfu? Finnst hv. alþm. að þinghús til að hýsa Alþ., eins og það er í dag, ekki vera til umr.? Ég held að það verði ekki sú breyting á skipun Alþingis, a. m. k. ekki það fljótt, að það verði hægt að taka fyrstu skóflu­stunguna 1981, ef á að bíða eftir ákvörðunum í tveimur eða þremur samhangandi málum.

Ég vildi gjarnan að það yrði tekin ákvörðun um það fljótlega, hvort byggja á nýtt hús á nýj­um stað eða hvort það á að fara að þeirri hug­mynd, sem ég fyrst heyrði hjá Eysteini Jónssyni, fyrrv. forseta Sþ., að byggja við þetta hús hér. En hvort sem verður gert, þá er engin ástæða til þess að vera ekki búinn að byggja á 100 ára afmælinu. Ég held við verðum að hrista af okkur það sleifarlag, að við þurfum með nýjustu tækni að vera miklu lengur, mörgum árum lengur að reisa nýtt þinghús heldur en t. d. tók að byggja þetta alþingishús, og að vera með einhverja sýnd­armennsku, táknræna skóflustungutöku á l00 ára afmæli, og láta svo byggingu draslast áfram í hægagangi er engum til sóma.

Ef aftur á móti á að byggja við þetta hús á þessum stað, þá er engin ástæða til að taka nokkra skóflustungu. Við eigum þá bara að taka viðbygginguna í notkun 1981. Þetta hús var byggt, að ég man rétt, á tveimur árum eða skemmri tíma, og er sagt sérstaklega frá því, hve menn lögðu hart að sér í einhverjum versta vetrar­kulda, sem þá hafði þekkst; að ljúka við húsið. Og því var lokið á réttum tíma og jafnvel fyrr en gert var ráð fyrir.

Sem sagt, ég hallast frekar að því að byggja upp nýtt hús annars staðar og gera það þannig úr garði að það svari kröfum tímans, miðað við Alþ. eins og það er í dag. Ef aftur á móti það nær ekki fram að ganga verði ákvörðun a. m. k. tekin innan nokkurra vikna, þannig að viðbygging, ef úr verður hér á þessum stað, verði tilbúin án nokkurrar skóflustungusýndarmennsku til notk­unar fyrir Alþingi 1981.