13.04.1977
Sameinað þing: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3076 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

148. mál, bygging nýs þinghúss

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það kann að stafa af því að ég er, eins og hv, þm. Benedikt Gröndal orðaði það, einn af hinum yngri alþm., að ég hef ekki sannfærst um það, að þetta virðu­lega hús rúmi ekki starfsemi Alþingis. Ég er hér um bil alveg viss um að húsrýmið — eða skortur á því — hefur ekki staðið löggjafarstarfsemi Alþ. fyrir þrifum. Ég held að aðkallandi störf Alþ. og kannske þá síður sæmd þess muni sprengja af því þetta húsnæði á næstu árum. E. t. v. kann ástæðan fyrir því, að n. sú, sem hv. þm. Stein­grímur Hermannsson minntist á áðan að hefði ekki skilað störfum, hefur ekki gert það enn þá, — e. t. v. er ástæðan sú, að n. hafi komist að þeirri niðurstöðu, að alþingishúsið, þetta fallega grásteinshús, rúmi enn þá vitsmuni alþm. og tími sé kannske til þess kominn að þeir fari að hug­leiða það dálítið, hvort ekki sé meira en mögu­legt að hugsa talsvert skýrt í litlu húsnæði.

Mér finnst alveg fráleitt að alþm. eyði nú tíma eða þreki í umr. um smíði nýs alþingishúss. Ef það er í raun og veru svo þröngt um hv. albm. sem sumir þeirra vilja vera að láta, þá eru nátt­úrlega tiltækar miklu ódýrari ráðstafanir til þess að tryggja nægilegt húsrými fyrir þá, — ódýrari ráðstafanir en þær að stækka húsið, — það liggur í augum uppi.

Ég hef ekki enn verið sannfærður um það, að það, sem áfátt kann að vera starfsemi Alþ., stafi af húsnæðisskorti. Og því fer víðs fjarri að ég hafi verið sannfærður um það, að þessi aldna, virðu­lega stofnun muni aukast svo að visku og náð við stækkað húsrými, að það komi til greina að við förum að leggja fé í smíði nýs alþingishúss um sinn.