13.04.1977
Sameinað þing: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3080 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

148. mál, bygging nýs þinghúss

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég segi eins og hv. seinasti ræðumaður, að ég skal ekki lengja þessa umr. mikið, en vildi gjarnan að það kæmi fram, að ég álít að hér sé hreyft nauðsynjamáli. Aðstaða Alþ. og þeirrar starfsemi, sem Alþ. þarfnast, er að mínu mati alls ekki fullnægjandi og þarf úrbóta við, og hefur raunar verið farið um það mörgum orðum af þeim hv. þm. sem talað hafa í málinu.

Mér finnst, að kjarni þessa máls komi fram í grg. þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Það er tilgangur þessarar till. að taka ákvörðun um staðarval og hefja fljótlega undirbúning nýrr­ar byggingar. Er sjálfsagt að láta fara fram samkeppni um gerð hússins og umhverfi þess.“ Ég er alveg sammála um þann tilgang, sem felst í þessum setningum, og finnst það forvitnismál að fá að sjá, eftir að slíkt útboð eða samkeppni hefur farið fram, hvernig arkitektar og bygg­ingarmenn gætu hugsað sér að leysa framtíðar­húsnæðisþörf og aðstöðu Alþ. hér á þessum stað og í umhverfi hans. Þess vegna hefði ég talið að það væri nægjanlegt, og ég vil beina því til þeirrar n. sem fær þetta mál til meðferðar, að stytta svolítið till., t. d. þannig að segja: „Alþ. ályktar að fela forsetum þingsins að hrinda af stað undirbúningi undir nýbyggingu fyrir Al­þingi“ — setja punkt þarna á eftir og sleppa „vestan við núverandi þinghús“ og halda síðan áfram: „Verði efnt til samkeppni um bygginguna og umhverfi hennar“ — og sleppa „og stefnt að því að fyrsta skóflustunga verði tekin á 100 ára afmæli alþingishússins 1981“ — þó ég sé út af fyrir sig alls ekkert andvígur því.