14.04.1977
Efri deild: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3085 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

213. mál, Skálholtsskóli

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um Skálholtsskóla. Eins og kunnugt er hefur um hríð starfað skóli í Skálholti. Hann var reistur fyrir forgöngu þjóð­kirkjunnar og Skálholtsfélagsins. Áhugasamir að­ilar á Norðurlöndum veittu mjög mikilsverðan fjárstuðning við byggingu skólans og svo einnig ríkissjóður sem hefur lagt fram fé á fjárl. nú um nokkur undanfarin ár sem stofnkostnað. Núna s. l. ár var þetta framlag 6 millj. kr.

Skálholtsskóli hefur frá upphafi starfað með líku sniði og lýðháskólarnir á Norðurlöndunum hinum. Vísir að slíkri starfsemi var hér upp kom­inn í landinu áður, þar sem voru héraðsskólarnir. En eftir að þeir voru felldir inn í hið almenna skólakerfi hefur ekki verið völ á hliðstæðri skólagöngu hérlendis eins og kostur er á Norður­löndunum.

Með flutningi þessa frv. er stefnt að því að setja löggjöf um Skálholtsskóla. Starfsemin yrði með alveg sama sniði og áður. Lagt er til að ríkissjóður veiti skólanum fjárstuðning í sama mæli og Samvinnuskólinn og Verslunarskólinn njóta nú samkvæmt nýrri löggjöf um viðskipta­fræðslu. Ákvæðin um hluttöku ríkissjóðs í kostn­aði við Skálholtsskóla í þessu frv. eru sniðin eftir þeirri löggjöf.

Skólinn verður hins vegar sjálfseignarstofnun eins og raunar fyrrnefndu skólarnir og ber kirkju­ráð ábyrgð á fjárreiðum hans, eins og segir í 8. gr. frv. Í frv. er ákvæði um stjórn skólans og í 8. gr. er kveðið á um hversu ráðstafa skuli hús­næði hans ef skólahald yrði lagt niður.

Ég held ég láti hjá líða að flytja langa eða ítarlega framsöguræðu um þetta mál, en vísa til frv., ég held að það hljóti að teljast mjög ein­falt að gerð og nokkuð ljóst í framsetningu líka.

Skálholtsskóli hefur starfað í nær 5 ár. Aðsókn hefur verið mikil, og bendir það til þess að stofn­un þessa skóla sé ekki að ófyrirsynju, en orðin af brýnni þörf, — þörf sem um langa hríð hefur verið reynt að mæta í nálægum löndum á líkan hátt og hér er lagt til. Ég hef aðeins leitast við að fylgjast með árangri af starfi þessa skóla í gegnum árin, og mér virðist að hann sé mjög góður og sé nánast í fyllsta samræmi við það sem að var stefnt með stofnun skólans af forvígis­mönnum hans.

Eins og áður segir hefur Alþ. að undanförnu veitt skólanum verulegan fjárstuðning á fjárl., allt upp í 7 millj. kr. á ári, má segja, þegar það var mest. Kostnaður ríkissjóðs af rekstri, miðað við ákvæði frv. og miðað við þann rekstrarkostn­að sem orðið hefur að undanförnu við skólann, sem ekki er fjölmennur, rétt um 20 nemendur, mundi ekki nema öllu hærri upphæð en veitt hefur verið í fjárlögum sem stofnkostnaður að undanförnu. Hagsýslustofnunin hefur kannað þá hlið málsins og þingnefnd verða að venju sendar niðurstöður hennar.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, herra forseti, en vil árétta það, sem segir í aths. með frv., að þar sem bæði Alþ. og almenningur hafa veitt skólan­um stuðning á þann hátt, sem ég hef — þó mjög lauslega — drepið á, þá virðist eðlilegt að setja löggjöf um starfsemi stofnunarinnar.

Ég vil svo leggja til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn.