14.04.1977
Efri deild: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3087 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

213. mál, Skálholtsskóli

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er nú kannske ekki aðallega þetta frv. sem mig langar til þess að ræða örfáum orðum hér. Ég hefði frem­ur kosið að hæstv. ráðh. hefði mælt hér fyrir öðru frv. en þarfara, þrátt fyrir það að ég telji um margt eðlilegt að þessum skóla séu sett ákveðin lög.

Ég veit ekki enn þá um beina afstöðu mína til þessa frv., hef ekki gert það upp við mig fyllilega. Ég tel hins vegar eðlilegt að svona skóli sé hér starfandi. Ég veit að það er margt gott um hann að segja. Þar hefur farsæll skólamaður haldið um stjórn og heidur þar um stjórn, og ég hygg að þær spurnir, sem ég hef haft þar af, gefi nokkuð góða mynd af skólastarfinu. Þær eru já­kvæðar, þær spurnir. Hins vegar vakna ýmsar spurningar varðandi svona skóla, reyndar eins og aðra þá skóla sem eru með þetta miklum ríkisstuðningi, en engu að síður sjálfseignar­stofnanir með sinni sjálfstæðu stjórn. Ég tel t. d. að þegar við erum að setja lög um þennan skóla, þó eðli hans sé eðli lýðháskólans og eðli frjáls náms, þá beri að huga að því e. t. v. hvort ekki eigi á einhvern hátt að tengja hina almennu deild betur við hið almenna skólakerfi í landinu, þ. e. a. s. almennu deildina, sem segir hér að veiti al­menna framhaldsmenntun þeim sem að loknu skyldunámi eða litlu síðar hafa horfið úr skóla, en vilja taka þráðinn upp að nýju. Þetta hygg ég að þyrfti að athuga betur að þessi deild yrði þá í beinni og nánari tengslum við hið almenna skólanám í landinu. En hitt er svo annað og eðli­legt, að um hinar valfrjálsu deildir og eins sjálfs­námið og rannsóknarstörfin gildi annað. En ég geri auðvitað líka athugasemd við það nokkra, þegar þessi skóli, sem nú er gerður að ríkisskóla að miklu leyti, rekstrarkostnaður hans skal greiddur að fullu, annar en rekstrarkostnaður heimavistar sem greiðist 80%, og stofnkostnaður­inn 80% og hið sama um heimavist, að þá tel ég það vitanlega orka tvímælis að þeir aðilar, sem nú eru í skólanefndinni, eigi þar allir sæti áfram, heldur verði þar eitthvað meiri hlutdeild frá hálfu menntmrn. en þarna er ráð fyrir gert. En þarna eru sem sagt menn eftir tilnefningu kirkju­ráðs, Sambands ísl. sveitarfélaga, Kvenfélaga­sambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Skálholtsskólafélagsins. Þetta eru allt saman ágætir aðilar vitanlega. En ég held að það þurfi samt að huga að því, þegar svona breyting er gerð, að skólastjórnin skuli skipuð með einhverj­um öðrum hætti.

Hvort sá ágæti maður, sem þarna ræður nú ríkjum, og þeir, sem á eftir honum koma, verða nefndir rektorar eða ekki læt ég mig litlu skipta. Það fylgir því viss fordild að vísu að hafa þetta nafn á, en ég geri ekki ágreining út af því út af fyrir sig.

En aðalástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs út af þessu var einmitt það frv. sem ég sakna enn frá hæstv. menntmrh., en það er frv. um samræmdan framhaldsskóla eða frv. um framhaldsskólanámið almennt. Hér var í fyrra á ferðinni, eins og hæstv. ráðh. gat um, frv. um viðskiptamenntunina, bæði um Verslunarskól­ann og Samvinnuskólann og stóraukna hlutdeild ríkisins í þeim skólum báðum. Nú er komið að Skálholtsskóla og ríkið tekur hann að sér að mestu leyti, og þá er eðlilegt að menn fari að spyrja um verknámsskólana okkar, iðnskólana, sem enn þá búa við miklu lakari hlut en þær sjálfseignarstofnanir sem hér er um að ræða. Verður að vænta þess, að í framhaldi af þessu, — hefði auðvitað átt að ganga á undan, — en í framhaldi af þessu a. m. k. kæmu iðnskólarnir með fulla kostnaðarhluttöku ríkissjóðs í bæði rekstrar- og stofnkostnaði.

Ég hef á undanförnum þingum flutt þáltill. um að frv. um framhaldsskólastigið almennt yrði lagt fram. Ég hef ekki séð ástæðu til þess nú á þessu þingi af þeirri einföldu ástæðu, að í haust var boðað frv. um framhaldsskólamenntunina og eftir því hef ég svo sannarlega beðið. Hæstv. ráðh. lagði fram frv. til mikilla bóta og rýmkunar varðandi fjölbrautaskólana og ber að þakka það. Það var mjög til bóta, en fer þó engu að síður enn þá eftir því hvaða námsbrautir eru innan fjölbrautaskólans. Verknámsbrautirnar almennt eru þess vegna enn þá niðri á 50%, eins og iðn­skólarnir og verknámsskólarnir sjálfir eru í dag. Ég held að það sé varla unnt að taka þessi mál svona eitt af öðru út úr án þess að taka öll mál­in í samhengi, og ég vænti þess fastlega og spyrst hér með fyrir um það, hvort fyrir þinglokin a. m. k. verði ekki örugglega lagt fram þetta frv. um framhaldsskólamenntunina, þar sem ég vænti þess að hlutur verknámsskólanna verði gerður jafn hinum bóklegu. Auðvitað vitum við að það frv. nær ekki fram að ganga á þessu þingi, en það verði a. m. k. sýnt núna og við sjáum það þá á næsta þingi í þeim búningi að það megi fara í gegn á næsta þingi, því á því er ábyggilega miklu brýnni þörf og ríkari heldur en að koma í gegn þessu frv. og sömuleiðis þefm frv. sem hér fóru í gegn í fyrra um viðskiptamenntunina.