14.04.1977
Efri deild: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3088 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

213. mál, Skálholtsskóli

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Örfá orð, herra forseti. Það voru nokkrar athugasemdir í ræðu hv. síðasta ræðumanns varðandi gerð þessa frv.

Annars vegar er hugsanleg þörf á auknum tengslum almennu deildarinnar við skólakerfið í landinu. Það er vissulega atriði sem er skoðunar­vert, og á Norðurlöndum hefur verið ýmis gangur á þessu og lýðháskólarnir starfað í mismunandi nánum tengslum við hið almenna skólakerfi. En ég hygg að það sé hæpið að setja inn í lögin sjálf, ef þetta frv. verður að lögum, öllu nán­ari ákæði um þetta, en eðlilegra að skipa því með reglugerð.

Svo er það um skipun skólanefndar, að þar væri eðlilegt að ríkið hefði meiri hlutdeild. Þetta er líka atriði sem menn geta og hljóta að velta fyrir sér og geta verið skiptar skoðanir um. En til skýringar hvers vegna þetta er sett upp í frv. á þann hátt sem þar er gert, þá er það gert með hliðsjón af því að þessum skóla er ætlað að hafa nokkuð mikla sérstöðu. Hann fellur ekki inn í kerfið, honum er ætlað að hafa nokkuð mikla sérstöðu og meira frjálsræði en hinum almenna skola er ætlað. Því er skólanefnd skipuð þetta mörgum aðilum sem ekki eru beint tilnefndir af stjórnarvöldum.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. um frv um fram­haldsskólann, þá get ég svarað því að frv. er nú í prentun. Það var áður búið að setja það. Eftir að sú n., sem að þessu máli hefur unnið, hafði skilað því til rn. var það tekið í skoðun á venju­legan hátt hjá fjárlaga- og hagsýslustofnun. Það tók verulegan tíma. En nú er sem sagt búið að setja prentun í fullan gang. Það ætti að koma úr prentun strax eftir helgi og verður þá flutt á Alþ. til kynningar, eins og hv. þm. sagði. Auðvitað er öllum ljóst að það er ekki hugsanlegt að slíkt mál verði afgreitt á einu þingi og satt að segja ekki til þess ætlast af rn. Þvert á móti mun nú, um leið og málið verður lagt fyrir Alþ., frv. verða sent mjög mörgum aðilum til skoðunar og umsagnar, og er þá hugsun rn. sú, að síðan yrði reynt að skoða umsagnir og ábendingar, meta þær og fella inn í eftir því sem ástæða þætti til, áður en frv. verður flutt að nýju.

Það kemur örlítill misskilningur fram í því þegar minnst er á iðnskólana, að þeir eru náttúr­lega kostaðir af opinberu fé að öllu leyti þó sveitarfélögin geri það að hálfu. Ég er alveg sammála um — og það hefur komið fram þáltill. í þá stefnu — að samræma beri þennan kostnað á framhaldsskólastiginu þannig að ríkið og sveit­arfélögin, hvernig svo sem sú skipting yrði þeirra í milli, þá yrði jafnt hlutfall hvert sem um væri að ræða svokallaða verknámsskóla eða bóknáms­skóla. M. a. með tilliti til þessarar þáltill. svo og umr., sem fram hafa farið um þetta, þá vona ég að sú stefna, sem kemur fram í frv., að koma á fullu samræmi í þessu, mæti hér nánast engri andspyrnu, heldur þvert á móti verði menn nú ásáttir um þetta. Hitt er svo framkvæmdaatriði, hvernig skiptingin verður á milli ríkis og sveit­arfélaga.