14.04.1977
Efri deild: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3089 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

213. mál, Skálholtsskóli

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir í öllum aðalatriðum ummæli hv. þm. Helga F. Seljans um frv., sem hér liggur fyrir, og vildi aðeins bæta við örfáum orðum.

Ég er einu af þeim fjölmörgu mönnum, hygg ég, að ég megi segja, sem hafa velgt með sér þá von að lýðháskólahugmyndin gamla yrði endur­vakin með nýjum rökum og færð til þess horfs, sem hæfir nútímaaðstæðum á landi hér. Ég er þeirrar skoðunar að lýðháskólakerfið gæti verið okkur ákaflega gagnlegt, lýðháskólafyrirkomu­lagið, e. t. v. fyrst og fremst til þess að þvinga mætti fram gegnum lýðháskólana þær breytingar sem ég tel að gera þurfi á hinu almenna skóla­kerfi landsins.

Íslendingar fengu aldrei sitt skólakerfi, hafa ekki fengið það enn í dag, — skólakerfi sem fengi að þróast að íslenskum þjóðháttum og nátt­úrufari þessa lands og atvinnuháttum. Skóla­kerfið var flutt inn til Íslands frá Danmörk á sínum tíma, íslenska skólakerfið. Til Danmerkur hafi það flust frá þýsku furstadæmunum og virtist falla mjög vel að dönskum þjóðháttum og staðháttum eins og fleira það sem þýskt er. Hér fékk það ekki að þróast í samræmi við ís­lenska menningu eða þjóðhætti eða náttúrufar þessa lands eða atvinnuhætti, heldur var það járnbent í því formi sem það var flutt inn.

Við umr. um þetta frv. vil ég nú ekki eyða mjög löngum tíma í að rökstyðsa þann grun minn að þetta innflutta, harða, erlenda skólakerfi, sem hefur steinrunnið á landi hér, hafi valdið okkur mjög miklu félagslegu, pólitísku og efnahags­legu tjóni. Þau rök mun ég færa fram síðar í sambandi við mál sem slíkt heyrir meira en þetta frv. sem hér liggur fyrir.

Ég tel að það væri meiri þörf fyrir löggjöf um lýðháskóla almennt heldur en fyrir þetta frv., þótt frv. um lýðháskólann í Skálholti gæti orðið fyrsta skrefið í þá átt. En þá blasir sú hætta við, að löggjöf um lýðháskólann í Skálholti, sem rek­inn er við sérstakar aðstæður og með öðrum hætti en við getum búist við að lýðháskólar verði reknir hér á landi yfirleitt, kynni e. t. v. að marka stefnuna í þeirri löggjöf sem síðar yrði sett, að þarna yrði smíðaður rammi utan um aðra íslenska lýðháskóla sem rísa kunna og þá rammi sem ekki hæfir heim.

Hv. 2. þm. Vesturl. minnti á þann sess sem Skálholtsstaður hlaut í vitund þjóðarinnar að fornu. Ég held að þessi sögulega upprifjun sé góð, nákvæmlega í þessu sambandi. En við þurf­um einnig að huga að þeim sess sem Skálholts­staður hefur hlotið í vitund þjóðarinnar hin síðari árin einnig. Söguleg stoð lýðháskólans í Skálholti er síður en svo tengd eingöngu við dýrð þessa staðar. Saga Skálholtsstaðar í niðurlæg­ingu og eymd, óskanlegri eymd og niðurlæg­ingu, er einnig löng. Ég hygg ég fari með rétt mál, að upphaf lýðháskólans í Skálholti, sem hér er fjallað um, hafi raunverulega verið vandræði sem aðstandendur Skálholtsfélagsins voru komn­ir í með mannvirki sem reist voru í Skálholti í því skyni að stuðla að því að þar kæmist aftur upp biskupssetur.

Það má vera okkur öllum í fersku minni, að félagsskapur upphófst á landi hér sem vann að hví að endurreisa biskupsstól í Skálholti og núv. biskup Íslands var einn af forvígsmönnum þess félagsskapar. Málið hlaut allgóðan byr, einkum meðal þeirra manna sem aðgang höfðu að dálitl­um fjárráðum, og ég hygg að stuðningur almenn­ings við hugmyndina um biskupssetur í Skálholti hafi fyrst og fremst verið úti um byggðir lands­ins, meðal þess fólks sem vildi færa vald frá Reykjavík, svo kirkjulegt sem veraldlegt, að svo miklu leyti sem hægt væri. En um vakningu var ekki að ræða í sambandi við endurreisn Skál­holtsstaðar. Svo þegar að því kom að reist höfðu verið þarna nokkur húsakynni, þ. á m. vegleg kirkja, og úrslit fengust í því að biskupinn yfir Íslandi, sem var nú forustumaður Skálholts­félagsins, vildi ekki setjast að sem biskup í Skál­holti, þá blasti við mönnum það vandamál, hvern­ig nýta ætti þessi mannvirki og þau verðmæti, sem höfðu safnast saman á Skálholtsstað hinum nýja, með einhverjum þeim hætti að þetta yrði okkur ekki til skammar, það sem búið var að gera þarna, eða öllu heldur ekki til vansæmdar umfram það sem þegar var orðið. Og þarna var tekin ákvörðun, sem ég vona svo sannarlega að muni ekki valda auknum vonbrigðum, að reisa þarna skóla þar sem í vetur munu hafa setið, eins og hæstv. menntmrh. sagði, 20 nemendur.

Hæstv. ráðh. fór nú svona á léttu tölti yfir þau atriði sem hann drap á varðandi árangurinn sem hann kvaðst hafa fylgst með af starfi skól­ans og taldi góðan og í átt við það sem að væri stefnt. Vegna þess, hversu hæstv. menntmrh. er mætur maður, tel ég þessa óljósu yfirlýsingu hafa nokkurt gildi. En gjarnan hefði ég viljað að hann hefði gert örlitla grein fyrir áttinni, sem að er stefnt þarna, og hann hefði einnig sagt okkur frá því í hverju árangurinn — hinn góði árangur — hefði komið fram. Alþ. hefur veitt skólanum stuðning, eins og hæstv, ráðh. gat um, 7 millj. kr. á ári í stofnkostnað. En ég hefði einnig viljað að hæstv. ráðh. hefði sagt okkur frá því, hversu mikill sá stuðningur hefði verið sem skólinn hefði fengið frá almenningi, sem hann sagði að stutt hefði skólann og veitt honum styrk, hversu hár hluti af stofnkostnaði skólans hefði komið frá almenningi, sem sagt, hann hefði farið dálítið nákvæmar út í þessi atriði sem lúta að stuðningi Alþ., hvernig hann var til kominn, að hve miklu leyti hann var til kominn vegna þess að það hefði verið álit Alþ. að hér væri um að ræða nauðsynlegan skóla sem eðli­legt væri að starfaði í Skálholti með þessum hætti, eða hvort Alþ. tók þarna að sér, eins og stundum áður, að reyna að hjálpa þeim ágætu höfðingjum, sem stóðu að stofnun skólans, til þess að klóra dálítið í bakkann.

Ég þekki nemendur, sem stundað hafa nám við lýðháskólann í Skálholti, tvo ágætismenn unga sem ég hef fullkomna ástæðu til þess að taka mark á. Báðir báru þeir skólanum vel sög­una. Og ég hef þóst verða þess var í fari þessara ungu manna, af því að ég þekkti þá fyrir skóla­gönguna og hef haft talsverð kynni af þeim eftir hana líka, að þeir hafi haft gott af verunni í lýðháskólanum í Skálholti. Það sannar e. t. v. ekki neitt. Sennilega hefðu þeir haft gott af veru í einhverjum öðrum skóla líka. En þó hef ég grun um það, að báðir þessir piltar hafi komið þarna frá lýðháskólanum í Skálholti með örlítið meira víðsýni og kannske heilbrigðari viðhorf til skólanáms almennt heldur en gengur og gerist. Sem sagt, ég dæmi bara út frá þessum tveimur tilfellum. Ég held að skólinn hafi gert gagn, a. m. k. áreiðanlega ekki ógagn.

En ég tel það ákaflega vafasamt að við eigum að samþykkja hér sérstakt lagafrv. um lýðhá­skóla í Skálholti. Ég hefði viljað að fyrir Alþ. væri lagt frv. til 1. um lýðháskóla almennt. Og svo loks þetta, svo að ég víki nokkuð í sömu átt og hv. þm. Helgi Seljan: Ég tel önnur verk­efni í bili hvað lagasetningu snertir miklu brýnni heldur en setningu laga um lýðháskóla í Skál­holti.