29.10.1976
Sameinað þing: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég hef setið og hlýtt á umr. um landhelgissamningana við breta, sem hér eru til umr., og reynt að gera mér heildarmynd af því hvaða stefnu þessar umr. hafa tekið.

Mér sýnist það einkennandi við umr. og málflutning þeirra stjórnarandstæðinga, sem tekið hafa til máls, að það eru einkum þrjú atriði sem þeir hafa lagt mesta áherslu á: Í fyrsta lagi að ræða um það sem menn hafa hér kallað formhlið málsins, að átelja það að málið var ekki lagt fyrir Alþ. strax í sumar að afloknum samningum. Í öðru lagi að blanda mjög saman þessu máli, þessum samningum og væntanlegum samningum í framtíðinni. Og í þriðja lagi er það, sem hefur vakið nokkra undrun hjá mér, hvaða álit stjórnarandstæðingar hafa á því meginatriði samninganna, hvort um sé að ræða viðurkenningu af hálfu breta eða ekki.

Varðandi fyrsta atriðið, þá hafa hæstv. ráðh. gert því mjög glögg skil. Það er kannske rétt að benda á það að samningarnir sem slíkir komu ýmsum á óvart, og ég skal ekki um það dæma hvað hefði verið ákveðið um áframhaldandi þingsetu ef menn hefðu séð það fyrir, þegar þingi var að ljúka, að samningar mundu takast á þann veg sem raun varð innan skamms tíma. En það, sem mér finnst skera úr um nauðsyn á því að kalla saman þing í slíkum tilvíkum sem þessu, er fyrst og fremst hvort það leikur vafi á því að um meiri hluta þings sé að ræða varðandi stuðning við samningana. Það hefur verið bent á það í umr, að það hefur verið fjallað um málið í utanrmn. Alþ. Það hefur verið fjallað um málið í landhelgisnefnd allra flokka og það hefur verið fjallað um málið í þingflokkum stjórnarflokkanna þar sem sitja 42 alþm. Það var því alveg ljóst þegar eftir samningsgerðina að það var enginn vafi á því að það væri mikill meiri hl. fyrir því á Alþ. að staðfesta samningana. Þess vegna finnst mér, af þeirri ástæðu og með hlíðsjón af því sem gerst hefur og er orðin þó nokkur þingvenja í svipuðum tilfellum, að það hafi ekki borið neina brýna nauðsyn til þess að kalla þingið saman þá, heldur að leggja samningana fyrir þing nú í haust. En mér sýnist að hv. stjórnarandstæðingar hafi tilhneigingu til þess að ræða mikið um þennan þátt málsins og miklu minna um efni samningsins sjálfs, þó að þeir hafi lýst afstöðu sinni, mér til mikillar undrunar, til viðurkenningarákvæða samningsins varðandi útfærsluna.

Menn deila um það, hvort í þessum samningi felist viðurkenning af hálfu breta. Menn þurfa ekki að deila um það að hún er ekki formleg. Það hefur enginn deilt um það, ekki er um formlega viðurkenningu að ræða eða staðfestingu af hálfu breta. Það, sem hér er um að ræða, er hvort í samningnum felist efnislega viðurkenning af þeirra hálfu, að þeir skuldbinda sig til þess að veiða ekki innan íslenskrar 200 mílna fiskveiðilögsögu nema til komi samþykki íslendinga. Það er kjarni málsins. Samningurinn hefur verið lesinn og sérstaklega þessi ákvæði og það marglesin. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir að samningurinn fellur úr gildi, munu bresk skip aðeins stunda veiðar á því svæði sem greint er í hinni íslensku reglugerð frá 15. júlí 1975, í samræmi við bað, sem samþykkt kann að verða af Íslands hálfu.“

Þetta er samþykkt í bréfi sem utanrrh, breta sendir utanrrh. íslendinga. Þarf nokkur maður að vera í vafa um það, að í þessu felist loforð og samningur um viðurkenningu af hálfu breta í því efni, að þeir ætli sér ekki að veiða hér nema með samþykki íslensku ríkisstj.? Ég lít svo á að það sé enginn greiði við íslendinga og íslenska hagsmuni að halda því fram hér á Alþ. eða annars staðar að það felist ekki viðurkenning í þessum orðum samningsins. Það getur verið að bretum þyki gott að geta vitnað til þess að stjórnmálamenn hér á Íslandi haldi því fram að hér sé ekki um að ræða viðurkenningu. En ég fæ ekki séð að slíkur málflutningur sé í þágu íslenskra hagsmuna. Það finnst mér af og frá. Mig minnir að hv. þm. Magnús T. Ólafsson hafi á fundi í utanrmn, sagt eitthvað á þá leið, að hann vildi ekki deila um staðreyndir sem hann talaði um, þ.e.a.s. það atriði að í þessum samningi fælist viðurkenning varðandi það að bretar skuldbyndu sig með samningnum til þess að veiða ekki innan 200 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland nema samþykki íslensku ríkisstj. kæmi til. Það hefur því vakið furðu mína að menn skuli halda því fram að ekki sé hér um efnislega viðurkenningu að ræða og ef bretar tækju til veiða innan 200 mílnanna, þá væri ekki um að ræða brot á samningi sem þeir hefðu gert við íslendinga.

Að sjálfsögðu er þessi efnislega viðurkenning, sem er svo óumdeilanleg að skýrara verður vart að orði kveðið í íslensku máli, finnst mér, — að sjálfsögðu er þessi viðurkenning kjarni þessa máls, kjarni samninganna.

Hvað sem líður hugsanlegum samningum í framtíðinni, þá er þetta mál, eins og það er lagt hér fyrir hv. Alþ., þannig vaxið að kjarni þess er að minni hyggju þessi, að hér er um að ræða stórkostlegan atburð í íslenskri stjórnmálasögu, þ.e.a.s. að seinasta þjóðin, sem hefur þverskallast við að virða okkar útfærslu í 200 mílur í verki, bretar, skuldbindur sig með samningum til þess héðan í frá, þ.e.a.s. eftir 1. des., að virða þessi fiskveiðimörk. (StJ: Það kemur í ljós 1. des.) Það kemur í ljós 1. des. að sjálfsögðu. Ég skal ekki setja fram neina spádóma í því efni. En aðalatriðið er þetta, að bretar hafa með samningsgerð skuldbundið sig til þess að veiða ekki hér nema með okkar samþykki. Það er kjarni málsins. Ef þeir gera það, þá brjóta þeir þetta samkomulag. Ég skal ekki spá neinu um bað. Ég trúi því ekki að óreyndu máli að til þess komi.

Það er í sjálfu sér langhandhægast að vísa til skrifa breskra blaða, frétta í breskum fjölmiðlum af lyktum málsins, til þess að sýna fram á það að vitanlega litu bretar svo á og sögðu það í blöðum, í sjónvarpi, í útvarpi og alls staðar, að þeir hefðu tapað málinu, eins og þeir orðuðu það, þeir hefðu tapað landhelgisdeilunni við íslendinga. Og í hverju felst tapið? Tapið felst vitanlega í því, að þeir hafa viðurkennt okkar 200 mílna útfærslu. Í því felst tapið.

Það hefur verið bent á það áður í þessum umr. að bretar séu sjálfir að færa út í 200 mílur. Seinustu fréttir, sem ég heyrði í dag í útvarpi, voru bær að samkomulag væri að nást um það að Efnahagsbandalagsríkin öll ætluðu að færa út í 200 mílur, þannig að það er í raun og veru hreinlega stimplun á þennan samning að því leyti til og staðfesting. Það er því alls engin deila um það lengur að viðurkenna okkar 200 mílna útfærslu.

Það hefur verið rætt talsvert um ýmis önnur atriði málsins, og það hafa komið fram upplýsingar um það hvað hefur verið að gerast á íslenskum miðum undanfarandi ár. Ég ætla að nefna nokkrar tölur, þær eru ekki nýjar, en aðeins til glöggvunar.

Á árinu 1975 voru þorskveiðar við Ísland á þessa leið: Íslendingar veiddu sjálfir 267 þús. tonn, bretar um 95 þús. og aðrar þjóðir 23 þús. tonn eða samtals 385 þús, tonn. Til samanburðar má geta þess, að árið 1933 voru veiddar 538 þús. smálestir af þorski á Íslandsmiðum. Íslendingar veiddu 247 þús. smálestir, og útlendingar 291 þús. smálestir, hér um bil 300 þús. smál. af þorski. Árið 1953, sem var metveiðiár, veiddust 547 þús. smál. af þorski við Ísland og íslendingar veiddu 267 þús. smál., en útlendingar 284 þús. smál. Og árið 1971 veiddust 453 þús. smál. og þá veiddu íslendingar 250 þús. lestir, en útlendingar 203 þús. lestir. Það þarf ekki annað en bera þetta saman við þann afla sem sennilegt er að útlendingar veiði á þessu ári hér við Ísland. Ég skal ekki nefna neina ákveðna tölu í því efni, menn tala um 60 þús. tonn. En það er sýnilegt, að það er smáræði samanboríð við 200–300 þús. tonn sem útlendingar veiddu hér af þorski, að því er vitað er um, mjög mörg ár, þannig að hér er auðvitað um að ræða stórkostlegan ávinning fyrir okkur íslendinga í þessu máli þótt ekki sé á annað lítið.

Það hefur verið rætt mikið um það í þessum umr. hvað tæki við. Ég er þeirrar skoðunar, og það hefur raunar komið fram í mínu máli, að það sé þýðingarmikið að íslendingar séu sammála um að þessi samningur sem slíkur þýði og þýði ekkert annað heldur en það, að bretar skuldbindi sig til þess að veiða ekki innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar gegn vilja íslendinga. Ég tel það nokkurs virði og átel það að menn skuli halda öðru fram. Þegar kemur að því að menn ræði við aðrar þjóðir um fiskveiðiréttindi innan 200 mílnanna, þá er þetta höfuðatriði. Okkar staða er allt önnur en hún hefur áður verið í slíkum viðræðum, vegna þess að ef við segjum nei, þá eru bretar að brjóta á okkur samninga sem þeir hafa nýlega gert, ef þeir þrátt fyrir það taka til veiða innan 200 mílna fiskveiðilögsögu.

Þegar íslendingar færðu út sína fiskveiðilögsögu, þá hafa þeir gert það með dálitið mismunandi hætti allar götur frá því að lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins voru sett 1948 og til og með útfærslunnar í 50 mílur 1971, þá byggðu íslendingar fyrst og fremst á landgrunnskenningunni, því þó að 50 mílurnar næðu að vísu alllangt út fyrir landgrunnið á stöku stað, þá var þar þó í meginatriðum fylgt landgrunninu. En aftur á móti útfærslan, þegar hún er gerð í 200 mílur. þá er hún grundvölluð á dálítið annan hátt, þ.e.a.s. hún er byggð á ákvæðum frv. þess til l. um þjóðarétt varðandi fiskveiðilögsögu eða efnahagslögsögu, sem liggur fyrir Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Meginatriði þess frv. er í fyrsta lagi að efnahagslögsaga skuli vera 200 mílur, í öðru lagi að strandríki skuli ákveða það sjálft hversu mikið skuli veiða af tilteknum fisktegundum innan efnahagslögsögunnar og í þriðja lagi að strandríki skuli einnig ákveða sjálft hversu mikið það telji sig geta veitt af því leyfilega magni sem það sjálft ákveður að þolanlegt sé að veiða. Þetta þýðir auðvitað það og það er öllum ljóst, eins og kom raunar fram hjá hv. 2. þm. Austurl., í ræðu hans hér áðan, — þetta þýðir auðvitað það, að ef við höfum fisktegundir innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar sem eru miklu meiri að magni til en við getum sjálfir veitt, þá hefur enginn dregið dul á það að við erum til viðræðu við aðrar þjóðir um veiðar. Það er ljóst. En þetta þýðir einnig það, að ef við höfum ekki veiðimagn sem við teljum að sé í það miklum mæli að óhætt sé að ganga á stofninn, þá getum við ekki leyft slíkar veiðar. Það er ljóst. Jafnframt þessu, eins og komið hefur fram hjá ýmsum hv. þm. og ráðh., kemur til álita hvort við höfum ávinning af því að versla við aðrar þjóðir, hvort við höfum ávinning af því að leyfa þeim veiðiheimildir innan okkar 200 mílna marka gegn því að við fáum að veiða innan þeirra 200 mílna marka aðrar fisktegundir eða sömu. Þetta álít ég að eigi að koma til álíta þegar við förum að ræða við aðrar þjóðir um fiskveiðiheimildir þeim til handa innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar.

Það eru ýmis fleiri smærri atriði að sjálfsögðu sem varða útfærslu á þessu samkomulagi. En ég vil að lokum segja það, að mér finnst, og það finnst mörgum fleirum, að þessi samningur, sem efnislega skuldbindur breta til þess að veiða ekki innan 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslands nema með okkar samþykki, hann sé stórkostlegur atburður í okkar atvinnusögu og í okkar stjórnmálasögu. Það hlýtur að vera stórkostlegur atburður í okkar stjórnmálasögu að við erum búnir að vinna einkarétt á fiskveiðum innan 200 mílna. Og þetta er að verða staðfest sem þjóðaréttur, a.m.k. hér í kringum okkur, eftir að aðildarríki Efnahagsbandalags Evrópu hafa ákveðið að færa út í 200 mílur. Þess vegna er þessi atburður stórkostlegur atburður. Og ég álít að það sé meginatriði í þessu máli þegar menn ganga til umr., hvort sem það verður yfir kaffibolla eða á einhvern annan hátt, við aðrar þjóðir um fiskveiðiréttindi, að muna það, að við getum sagt nei, við höfum rétt til þess að segja nei, vegna þess að aðrar þjóðir hafa skuldbundið sig til þess að virða það og sérstaklega þá sú þjóð sem við höfum átt í mestum erjum og erfiðleikum við í sambandi við fiskveiðar hér við land.