14.04.1977
Efri deild: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3097 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

216. mál, innlend lyfjaframleiðsla

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef ásamt þeim hv. þm. Stefáni Jónssyni, Ragnari Arnalds og Geir Gunnarssyni borið fram till. til þál. um eflingu innlendrar lyfjaframleiðslu, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta undirbúa frv. á þá lund, að innlend lyfjafram­leiðsla njóti forgangs umfram innflutt lyf, sé hún fyllilega samkeppnisfær.

Að því leyti sem innlend lyf eru talin jafngóð erlendum, verði læknum lögð viss skylda á herð­ar að nýta þau umfram hin erlendu lyf.

Jafnframt verði stuðlað að fjölbreyttari lyfja­framleiðslu en nú er.“

Ég vil fyrst vitna í grg. okkar með þessari till., en þar segir að miklar umr. um verðmis­mun erlendra og innlendra lyfja hafi vakið at­hygli og ýmsar spurningar, ljóst sé að svör fáist ekki né úrbætur nema með nákvæmri athugun færustu aðila og ótvírætt þarf sú athugun að fara fram og ráðstafanir í kjölfar hennar. Æski­legt hlýtur að teljast að lyf séu sem ódýrust, og þegar margfaldur verðmismunur kemur fram, þá er von að krafist sé skýringa og aðgerða. Þrátt fyrir það að fram kemur, að innlend lyf, jafngild hinum erlendu að áhrifum, eru í sumum tilfell­um margfalt ódýrari, eru erlendu lyfin flutt inn og á þau vísa e. t. v. jafnmikið eða meira. Þá er von að við sé staldrað og þess krafist að vissar lágmarksráðstafanir séu gerðar. Hér er svo vitn­að í tvö viðamikil frv. um lyfjaframleiðslu og sölu sem lögð voru fram í tíð vinstri stjórnar­innar og ég tel að núv. ríkisstj. hafi svæft megin­hugmyndir þeirra frv. og því sé róttækra kerfis­breytinga síður en svo að vænta, lágmarkskrafan hljóti hins vegar að vera sú sem þessi till. gerir ráð fyrir, annars vegar að innlend lyfjafram­leiðsla njóti forgangs, einkum þar sem hún er fyllilega samkeppnisfær við erlenda framleiðslu, og hins vegar að læknum sé gert að miða lyf­seðlaútgáfu við það, að öðru jöfnu að innlend lyf sitji í fyrirrúmi þar sem þau gefa jafngóðan árangur og þau erlendu.

Við segjum í grg. að hér sé um það mikilvægt atriði fyrir sjúklinga, sjúkratryggingar, innlenda lyfjaframleiðslu og þjóðarhag í raun að ræða, að þess verði að krefjast að ýtrustu ráðstafanir séu gerðar í þá átt sem till. gerir ráð fyrir. Það er rétt að taka það fram, það kom í ljós þegar frv. var lagt fram í vetur um nokkrar breyting­ar á lyfsölulögum, að endurskoðun væri í gangi á lyfsölulögunum almennt og fyrsti áfangi þeirra væri það frv. sem þá kom fram. Það er vonandi að sú endurskoðun sé hún í gangi af fullri alvöru, leiði til jákvæðrar niðurstöðu hvað þetta snertir. En þessar breytingar, sem við komum fram hér í vetur, voru að mínu viti ekki veiga­miklar, en þó taldar engu að síður nauðsynlegar og hafði ég ekkert við þær þá að athuga.

Við lentum í nokkrum vanda með form þess­arar till. Það kom til mála að láta fara fram rannsókn á þessu máli. Um þetta höfðu orðið mikil blaðaskrif og miklar umr. Það bar mjög hér á milli hjá mönnum. Klögumálin gengu á víxl og vissulega ástæða til þess að fá úr skorið um réttmæti ýmissa staðhæfinga sem komu fram varðandi þessa framleiðslu. Niðurstaðan hjá okk­ur varð hins vegar sú að flytja hér almenna till., sem beindist að þessum tveim megin­atrið­um, samtvinnuðum þó. Við gerum okkur þó engu að síður ljóst, að það erfiðasta í þessu og viðkvæm­asta jafnframt væri varðandi læknana um vissa skyldu sem lögð yrði á herðar þeirra að nýta þessi innlendu lyf umfram hin erlendu. Nú er það svo, að heilbrigðisyfirvöld leggja læknum ýmsar skyldur á herðar með reglugerðum t. d. og vel mætti hugsa sér það í því formi. Það er auðvitað alltaf spurning um það hversu vel menn fara eftir slíkum reglugerðar­ákvæðum, og auðvitað er misjafnt hvað reglugerðarákvæðin eru ákveðin eða hvort þau eru það almenns eðlis að menn þurfi jafnvel ekki svo mjög eftir þeim að fara. En við fundum þó ekki aðra leið til þess en að einhver viss skylda ætti hér að koma til.

Ég gæti rakið dæmi hér um af persónulegri reynslu varðandi þetta atriði í því læknishéraði þar sem ég bý. Þar er skipt um lækna allþétt, og ég veit um sjúkling þar sem notar allmikil lyf. Þessi sjúklingur notaði dýrt lyf við sínum sjúkdómi, erlent dýrt lyf. En allt í einu kom svo staðgengill héraðslæknisins skamman tíma, kvað ekkert vit vera í því að þessi sjúklingur notaði þetta lyf, sem væri um það bil þrisvar sinnum dýrara en jafngott innlent lyf og fullkomlega jafn-árangursríkt, það hefði lengi verið til, það væri ekki því til að dreifa. Síðan hefur þessi sjúkl­ingur verið með þetta innlenda lyf og það gefist fullkomlega jafnvel og það erlenda sem áður hafði verið notað. Ég fullyrði að þetta skipti mjög miklu máli fyrir viðkomandi sjúkling, sem þurfti svo mjög á þessum lyfjum að halda, og raunar fleiri. En við gerum okkur það ljóst, flm., að hér er um erfiðasta og viðkvæmasta þátt máls­ins að ræða og þarf ábyggilega vel að honum að huga, áður en sett er viss regla um það sem við förum hér fram á.

Ég vitnaði í lagafrv. sem lögð voru fram á sín­um tíma af vinstri stjórninni. Annað þeirra var lagt einu sinni fram. Það var greinilegt að það var ekki vilji meiri hl. þingsins að það færi í gegn, þ. e. a. s. frv. til 1. um Lyfjastofnun ríkis­ins. En með leyfi hæstv. forseta átti hér að vera um að ræða „Lyfjastofnun ríkisins eða ríkis­stofnun með sjálfstæðan fjárhag og reiknings­hald sem lýtur sérstakri stjórn samkv. lögum þessum undir yfirstjórn heilbrrh.“ — „Hlutverk og markmið Lyfjastofnunar ríkisins er að annast innflutning, útflutning og heildsölu lyfja og skyldra vara og stuðla að hagsýnni notkun þeirra. Í því skyni skal stofnunin m. a.:

1. Flytja inn hráefni og umbúðir til lyfjagerð­ar, sérlyf, eiturefni og hættuleg efni, hjúkrunar- og sjúkragögn og aðrar skyldar vörur sem lyfja­búðir og sjúkrahús samkv. eðli slíkra stofnana selja eða nota.

2. Selja í heildsölu vörur sem taldar eru í lið 1 og auk þess innlenda framleiðslu sömu vöru.

3. Annast útflutning á lyfjum.

4. Vinna með stöðugum athugunum gegn hvers konar óhóflegri notkun lyfja og stuðla að hag­sýni í lyfjanotkun meðal almennings og á sjúkra­húsum.

5. Safna og vinna úr upplýsingum varðandi lyfjanotkun í samráði við heilbrn.

6. Stuðla með fjárframlögum í mennta- og rannsóknaskyni að framförum í lyfjafræði, lyfja­framleiðslu og skyldum greinum.“

Hér var sem sé um veigamikið frv, að ræða og vandasamt um leið og viðkvæmt einnig, og það voru hinir færustu menn sem það höfðu samið. En fyrir þessu var greinilega ekki meiri hluti hér á þingi.

En um hitt frv., sem tvívegis var lagt fram, náðist hins vegar allmikil samstaða þótt ekki næðist það í gegn, en það var um lyfjafram­leiðslu. Í aths. með því frv. sagði, með leyfi hæstv. forseta, að það frv. hafi verið samið að meginefni af n. til að gera till. á grundvelli stefnumarks þáv. ríkisstj, um að endurskipu­leggja lyfjaverslunina með því að tengja hana við heilbrigðisþjónustuna og setja hana undir félagslega stjórn. Að öðru leyti er vísað til mjög nákvæmrar grg. sem við fengum þá í þn. og kynntum okkur nokkuð, grg. dr. Kjartans Jó­hannssonar um lyfjasölu og lyfjagerð, sem var unnin fyrir heilbr.- og trn. Tilgangur þessa fyr­irtækis átti að vera annars vegar sá, að starf­rækja meiri háttar lyfjaframleiðslu samkv. lög­giltri lyfjaskrá og löggiltum lyfsalasöfnum og lyfjaforskriftum og í öðru lagi að stunda til­raunir og rannsóknir með það fyrir augum að framleiða sérlyf. Og einn kaflinn fjallaði sér­staklega um verðlagningu lyfjaframleiðslu, þar sem sagði að það skyldi ávallt vera kostnaðar­verð með hæfilegu tilliti til rannsókna- og þró­unarkostnaðar. Og í aths. sagði einmitt, að það hefðu farið fram nokkrar undirbúningsviðræður við Pharmaco hf. um hugsanlegt lyfjaframleiðslu­fyrirtæki sem væri þó að meiri hl. til í eigu ríkisins.

Þetta voru þau frv. sem er vitnað til í grg., ég taldi rétt að minnast hér á, og þau koma reyndar í ýmsum atriðum verulega inn á það sama og er talað um í till., þó í öðru formi og víðtækara sé. Ég skal ekki dvelja við það eða vekja upp deilur um þessi frv., þau eru liðin tíð. En við afgreiddum þetta frv. um lyfjafram­leiðslu hér frá okkur í Ed. og tel ég að það hefði orðið til mikilla bóta ef það hefði orðið að lög­um. En auðvitað er hægt að nefna ýmsar smærri breytingar, sem eru eflaust mögulegar enn þá. Ég get nefnt þar alveg sérstaklega lyfjaskrán­inguna sem dæmi. En það telja vísir menn að sé okkur mjög til baga, að lyf eru nú skráð til 20 ára, en á Norðurlöndunum, í nágrannalöndum okkar, er um að ræða miklu skemmri tíma, allt niður í 5 ár. Þessi regla um 20 ára skráningar­tímann stendur í raun og veru í vegi fyrir því að hægt sé að knýja niður verð á lyfjum. Það er hins vegar hægt að neita auðvitað um frekari hækkanir.

Það er rétt að vitna í hlutföllin í lyfjanotkun hér á landi, þ. e. a. s. annars vegar þau erlendu og hins vegar þau innlendu. Magnið hefur haldist mjög svipað frá 1970 til 1975, þ. e. a. s. um 33% bæði árin. En hvað verðmæti snertir, þá hefur þróunin orðið sú að 1970 voru um 28% af lyfjun­um innlend lyfjaframleiðsla, en á árinu 1975 aftur um 23%, hafði sem sagt farið niður um 5%, og er þar sumpart um að kenna sífellt dýrari er­lendum lyfjum sem komu á markaðinn, en ekki beinlínis því að innlend lyfjaframleiðsla hafi svo mjög dregist saman.

En aðalumr., sem urðu hvatinn að þessari till., voru um hinn mikla verðmismun. Á hon­um voru ýmsar skýringar og ég vil ekki dæma um réttmæti þeirra til eða frá. En aðeins sem dæmi um þennan verðmismun í sambandi við sama magn, þá er rétt að nefna dæmið um ró­andi lyf sem er mjög algengt og er mjög mikið notað, þar sem hið innlenda, sá skammtur sem miðað er við, kostaði 335 kr., en hið erlenda, sem hefur nákvæmlega sams konar verkun, kostar í öðru tilfellinu 2193 kr. og í hinu tilfellinu 2190 kr. Hér er vitanlega um gersamlega óeðlilegan mismun að ræða sem jafnvel þessar greinar, sem um þetta voru skrifaðar, hafa ekki skýrt fyrir mér að neinu leyti. Hins vegar nefni ég svo dæmi um glákulyf, innlent lyf sem kostar 695 kr., danskt sem kostar 1194 kr. og bandarískt sem kostar 2296 kr. sömu skammt­ar. Hér er líka um gífurlegan mismun að ræða og svo mikinn vegna þess að hér er að áliti fær­ustu manna um nákvæmlega jafn-árangursrík lyf að ræða. Þessi verðmismunur fær engan veg­inn staðist.

Það eru ýmsir þröskuldar hér í vegi, og við gerum okkur það fullljóst. Við vitum t, d. að þróun læknavísindanna er mjög ör, og það á eins við um lyfjaframleiðsluna. Mörg ný lyf eru að ryðja sér til rúms, og það er vitanlega engin leið að framleiða þau hér þegar. Okkur vantar t. d. til þess tækni, mjög fullkomna oft og sér­hæfða, sem þarf til þessarar framleiðslu. Þessi framleiðsla er háð einkaleyfum, sem eru mjög dýr og ekki mögulegt að fá undanþágu frá þeim og svo koma ýmsar hömlur aðrar þar til og þessi lyf fást því ekki til almennrar framleiðslu, og sömuleiðis er hráefnið, sem í þessi lyf er notað, oft ekki auðfengið. Allt þetta leggst á eitt með það, að það er ekki hægt þegar í stað eða fljót­lega að taka til við framleiðslu hér á nýjum er­lendum lyfjum og er það afar skiljanlegt. En auð­vitað er svo um mikinn meginhluta algengra lyfja, að það á að vera hægt að framleiða þau hér og við eigum tvímælalaust mjög færa aðila á þessu sviði. Þá starfsemi þarf því sannarlega að styrkja og að því beinist till. okkar. Ég hef meira að segja heyrt hinn ágætasta lækni hafa þau orð hér um, að við ættum jafnvel að innleiða bann við innflutningi rándýrra lyfja ef jafngóð lyf væru fyrir hendi hér. Ekki viljum við ganga svo langt e. t. v. Þó kann það að koma til álita. Ég virði a. m. k. orð þessa ágæta manns mikils, og hann viðhafði þau einmitt í því sambandi að það þyrfti þá ekki að ganga eins hart fram í því að leggja einhverja vissa skyldu á herðar lækn­anna. En auðvitað verður þá að vera fullkomlega úr því skorið — og á það leggjum við áherslu — fullkomlega úr því skorið að hér sé um jafngóð og jafnárangursrík lyf að ræða. Við viljum ekki að það verði flanað að neinu í því efni.

En miklar umr. og mikil blaðaskrif hér um hafa orðið til þess, að þetta mál hefur komist á hreyfingu. Úr sannleiksgildi þess verðmis­munar, sem hefur hér mest verið ræddur, verður að fást skorið, og innlend lyfjaframleiðsla á ekki síður en önnur framleiðsla íslensk að hafa for­gang, alveg sérstaklega þar sem hún er jafngóð hinni erlendu, og þá er jafnsjálfsagt að tryggja það með vissum aðgerðum. Þegar kemur að svona veigamiklum þætti eins og lyfjum, þá ætti gróða­sjónarmið a. m. k. að hverfa, svo mikil samfé­lagsleg nauðsyn er okkur á því að lyfjafram­leiðsla sé sem best, en jafnframt sem ódýrust og hagkvæmust. Ekki ætti heldur á okkur að standa á þessu mikla ári iðnaðarins og innlendrar framleiðslu að gefa þessu verkefni gaum, eink­anlega þegar upplýst er að e. t. v. sé ekki allt með felldu hjá okkur um verð á ýmsu því sem við erum að flytja inn af þessu tagi. Það er a. m. k. von okkar flm. að við endurskoðun þá, sem sögð er vera í gangi, verði fullt tillit tekið til meginsjónarmiða þessarar tillögu.

Ég held að ég hafi ekki lengri framsögu hér um. Till. skýrir sig sjálf. Ég hef vitnað í þá þætti hennar sem ég tel vera vandasama og við­kvæma og þurfi að skoða vel. En aðalatriðið er þó sú mikla umr. sem hér hefur orðið um hinn óeðlilega verðmismun, sem við getum ekki látið fram hjá okkur fara alveg þegjandi og þurfum vissulega að huga að.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. æskja þess, að till. verði vísað til hv. heilbr.- og trn.