14.04.1977
Efri deild: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3102 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

216. mál, innlend lyfjaframleiðsla

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Þar sem till. fer í n. sem ég sit í, þá mun ég ekki vera marg­orður. Ég held að það sé fullkomin nauðsyn á því að ræða þessi mál og taka þessa till. til gaumgæfilegrar athugunar. En þetta mál um lyf og lyfjasölu er að sjálfsögðu mjög vandmeðfarið, því að hér stendur: „Að því leyti sem innlend lyf eru talin jafngóð erlendum.“ Það er kannske þarna sem vandinn skapast strax. Hver er kominn til með að fullyrða að innlend lyf séu jafngóð erlendu lyfjunum, og það er á þessu sem oft hef­ur strandað um notagildið. Lyf eru svo sérstaks eðlis að það er mjög mikils virði að öryggi sé um þeirra gæði. Í mörgum tilfellum er innlend framleiðsla jafngóð og erlend. En hitt er svo annað mál, að margir læknar telja sig vera í meira öryggi ef þeir gefa lyf frá viðurkenndum, gömlum framleiðslufyrirtækjum erlendum, — lyf sem búið er að reyna í fjöldamörg ár. Og það hefur komið fyrir að lyf, sem hafa verið í notkun árum saman, — ég tek það fram: ekki innlend, heldur erlend, — þau hafa svo ekki reynst jafngóð eða saklaus og sagt var að þau væru þegar til kom, og af því hefur hlotist mik­ill skaði. En eitt er víst: Innlenda lyfjafram­leiðslu þarf að auka, og ég veit ekki betur en starfandi séu aðilar einmitt að þessum málum sem hafa það í huga að auka til muna framleiðslu á innlendum lyfjum. En vandinn er líka sá, að nýir lyfjaflokkar eru jafnan að koma og lyfja­flokkar sem kannske eru lítið notaðir hér á landi, varla til þess fallnir að hefja framleiðslu fyrir þá litlu notkun sem er í okkar landi. Eins og ég tók fram áðan, þá er oft svo erfitt að fullyrða um notagildið að margir sérfræðingar veigra sér við að fullyrða að ódýra lyfið sé jafngott og það upprunalega. Venjan er sú, að þessi upprunalegu lyf, sem eru dýrust, eru lyf sem eru byggð á vissum framleiðslurétti og handhafar hans nota sér aðstöðu sína tiltekinn árafjölda á meðan verið er að ná upp kostnaði við lyfið áður en það komst á framleiðslustig.

Ég held að það sé ósköp erfitt að fyrirskipa læknum hvaða lyf þeir eigi að nota. Hitt er svo annað mál, að án efa er mikil nauðsyn á því að fram fari miklum mun meiri kynningarstarfsemi um lyf innan læknafélaganna heldur en hingað til hefur verið gert, og að sjálfsögðu, ef það er talið öruggt að innlend lyf séu jafngóð erlend­um, þá skuli nota þau frekar en þau erlendu. Það finnst mér algerlega sjálfsagt, enda veit ég ekki annað en þekkt sjúkrahús og okkar ágætu læknar margir noti innlendu lyfin miklu frekar en þau erlendu ef þeir eru nokkuð öruggir um að það sé sami gæðaflokkur.

Ég viðurkenni að þetta hefur komið nokkru meira til skoðunar núna síðustu árin vegna þess að í tíð vinstri stjórnarinnar var gerð sú breyt­ing á, að nú kostar lyfið til sjúklings jafnmikið hvort sem verðmæti þess er við skulum segja 2000 kr. eða 200 kr. eða 500 kr., þannig að þeir borga sama verð fyrir lyf á einum lyfseðli hvert sem magnið er. Þetta veldur einhverju um það, að það eru gefnir stærri skammtar nú heldur en áður var, og má segja að þetta hafi bæði kosti og galla. En nokkuð mun vera um að það séu gefnir óeðlilega stórir skammtar til þess að fyrir­byggja, skulum við segja, að fólk utan af landi þurfi að leita til læknis aftur aðeins til þess að fá nýja uppáskrift.