14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3104 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

Umræður utan dagskrár

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til þess að kveðja mér hljóðs um fundar­sköp og ræða þá málsmeðferð sem ætlunin er að viðhafa um frv. það um járnblendiverksmiðju á Grundartanga sem er á dagskrá deildarinnar í dag. En þannig er háttað að mikilvægt gagn í máli þessu, þ. e. a. s. umsögn Heilbrigðiseftir­lits ríkisins um starfsleyfi verksmiðjunnar, fékk ég ekki afhent fyrr en nú í morgun á fundi iðnn. þrátt fyrir ítrekaðar óskir mínar um að fá tæki­færi til að kynna mér umsögn þess áður en málið kæmi til umræðu. Vil ég hér og nú koma þeirri ósk á framfæri við forseta að umr. um þetta mál verði frestað og málið tekið út af dag­skrá fundarins í dag.

Iðnn. Nd. hefur reyndar fyrir allnokkru lokið meginvinnu sinni við athugun frv. þessa. Þó hafði hún ákveðið að bíða með frágang nál. þar til starfsleyfi verksmiðjunnar væri komið frá heil­brrn., en starfsleyfi þetta skal gefa út skv. lög­um og í því eru fyrirtækinu sett skilyrði um mengunarvarnir og almenna heilsugæslu. Segir í reglugerð um þetta, að áður en starfsleyfi skuli gefið út skuli rn. óska umsagnar Heilbrigðiseftir­lits ríkisins um gerð þess.

Fulltrúar Heilbrigðiseftirlits ríkisins sendu frá sér til heilbrrn. nákvæma og ítarlega umsögn um gerð starfsleyfis þegar í janúar, en við gerð umsagnar sinnar höfðu þeir m. a. samráð við Náttúruverndarráð, einkum um það er við kæmi ytri mengun frá verksmiðjunni. Kom þetta fram í viðræðum iðnn. við fulltrúa þessara aðila. Eftir fund n. með fulltrúum Heilbrigðiseftirlits ríkis­ins gerði ég ítrekaðar tilraunir til að fá umsögn þessa um starfsleyfi afhenta, en ég áleit að þekk­ing og skilningur á tillögum Heilbrigðiseftirlits ríkisins væru forsenda þess að ég gæti fjallað með eðlilegum hætti um starfsleyfið er það kæmi fram. En þrátt fyrir ítrekanir fékkst umsögnin ekki afhent og mér á hinn bóginn tjáð að um­sögnin yrði afhent er starfsleyfið væri afgreitt frá rn. Sætti ég mig við þessa afgreiðslu máls­ins, en sagði hins vegar hv. form. iðnn. d. að vegna þessa óskaði ég eftir því að tveir eða þrír dagar gæfust til þess að skoða starfsleyfið, eftir að það hefði verið fram lagt, og gerði þá ráð fyrir því að skoða mætti það með hliðsjón af tillögum Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Svo sem kunnugt er hefur nú starfsleyfi þetta um verk­smiðjuna verið afgreitt og mér var afhent það miðvikudaginn 6. þ. m. eða skömmu fyrir páska. Þá brá hins vegar svo við, að umsögn Heil­brigðiseftirlits ríkisins fékkst ekki afhent þrátt fyrir endurítrekun af minni hálfu og mér borin þau skilaboð heilbrrn., að umsögnin yrði einungis afhent formönnum iðnn. Alþ. sem trúnaðarmál.

Ljóst var því að ekkert tækifæri mundi gefast yfir páskana til að kanna nákvæmlega með til­liti til umsagnar Heilbrigðiseftirlits ríkisins starfsleyfi verksmiðjunnar, en búið var að ákveða að málið kæmi til umr. á Alþ. strax að loknu páskaleyfi þm. Jafnframt var ljóst að formaður iðnn. ætlaði ekki að halda sérstakan fund í n. til að fjalla um starfsleyfið, enda hafði hann sagt mér að slíkt væri óþarfi, meiri hl. n. væri búinn að skrifa undir nál. hvort sem væri og án þess að starfsleyfið hefði þá verið fram komið eða að þessir aðilar hefðu getað kynnt sér umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Gat hann þess t. d. sérstaklega við mig að Þórarinn Þórarinsson, hv. þm. og annar fulltrúi Framsfl. í n., hefði skrifað undir meirihlutaálit n. undir þessum kringum­stæðum, og verð ég að segja að vinnubrögð meiri hl. í þessu máli komu mér kynlega fyrir sjónir og geta þau varla talist þingleg. Af þess­um sökum hef ég m. a. ekki getað lokið gerð minnihlutaálits og er það önnur ástæða þess að ég fer fram á frestun umr. um mál þetta.

Ég vil líka taka það fram, að þótt mér sé nú, svo kynlegt sem það er, afhent umsögn Heilbrigð­iseftirlits ríkisins sem trúnaðarmál, tel ég að ekki beri að túlka það svo að mér sé ekki heimilt að gera að umræðuefni hér í þingsölum þau atriði starfsleyfisins og umsagnarinnar þar sem greini­legt ósamræmi ríkir á milli ákvæða. Annað væri fullkomlega óeðlilegt og einræðisleg vinnubrögð í fyllsta máta. En beiðni þessi, að með um­sögnina skuli fara sem trúnaðarmál, er komin frá heilbr.- og trmrn. og væri fróðlegt að viðkom­andi ráðh. gæfi á því skýringu hvers vegna svo skuli með fara.

Ég sé strax við fyrsta yfirlit umsagnarinnar að ákvæði starfsleyfisins og umsagnarinnar stangast herfilega á í ýmsum atriðum, einkum þeim er varða mengunarvarnir við iðjuverið í þeim tilfellum er hreinsibúnaður bilar. Í till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins var gert ráð fyrir nær tafarlausri stöðvun á framleiðslu verksmiðj­unnar undir slíkum kringumstæðum vegna þeirr­ar mengunarhættu sem fylgir rekstri hennar við slíkar aðstæður. Í starfsleyfinu er verulega dreg­ið úr þessum kröfum og í raun gert ráð fyrir að rekstur hennar sé heimilaður þrátt fyrir bil­anir hreinsitækja meðan viðgerð stendur yfir. Í till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins var og gert ráð fyrir að áður en til rekstrar verksmiðjunnar kæmi skyldi fyrirtækið gera áætlun um viðhald og eft­irlit hreinsitækjanna og aðgerðir í bilunartilfell­um og væri slík áætlun háð samþykki Heilbrigðis­eftirlits ríkisins. Í starfsleyfinu er hins vegar einungis gert ráð fyrir að fyrirtækið geri slíka áætlun sem lögð verði fyrir Heilbrigðiseftir­lit ríkisins til kynningar, og er vitaskuld mikill munur hér á. Ljóst er því við fyrstu skoðun að í veigamiklum atriðum er brugðið frá umsögn og till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins um mengunar­varnir í Grundartangaverksmiðjunni.

Ég tel að það sé kominn tími til þess að stjórn­völd virði og meti á réttan hátt till. og ráðgjöf íslenskra vísindamanna og eftirlitsaðila í heil­brigðisvörnum á vinnustöðum og þá ekki síst í stóriðjuverum, svo sem dæmi sanna í Straums­vík og í Kísiliðjunni við Mývatn. Það verður ekki lengur þolað að umsagnir þessara aðila séu snið­gengnar svo sem verið hefur. Ég vil einnig minna á að nú er í fyrsta skipti verið að gefa út starfs­leyfi til stóriðju á Íslandi eftir setningu reglu­gerðar nr. 164/1972, um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og annarra hættulegra efna, þar sem kostur er á að fjalla um starfsleyfið áður en endanleg ákvörðun er tekin um fram­kvæmdir. Því er víst að starfsleyfi þetta, ef frv. verður samþ. hér á Alþ., verður raunverulegur prófsteinn á kröfur íslendinga til mengunarvarna í slíkum fyrirtækjum og skapar fordæmi í fram­tíðinni. Mikilvægt er því að flana ekki að neinu nú við umr. og ákvörðun þessa máls.

Vil ég að lokum ítreka ósk mína um að umr. um mál þetta verði frestað og það verði tekið út af dagskrá deildarinnar í dag.