29.10.1976
Sameinað þing: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í samræmi við það athyglisverða atriði, sem deilt hefur verið um nú, er athyglisvert að lesa saman íslenska og enska textann í 10. gr. samningsins. Það segir nefnilega í íslenska textanum, að eftir að samningurinn fellur úr gildi muni „bresk skip aðeins stunda veiðar á því svæði, sem greint er í hinni íslensku reglugerð frá 15. júlí 1975, í samræmi við það sem samþykkt kann að verða af Íslands hálfu“. Nú má alltaf deila um blæbrigði á þýðingum, en ég held að það sé ekki nákvæmt að nota orðið „kann að verða“. Í enska textanum stendur: “only to the extent provided for in arrangements agreed with the Government of Iceland“. Ég mundi þýða þetta: „aðeins að því marki sem ákveðið verður í samningum við ríkisstj. Íslands.“ Þarna er ekkert „kann að verða“, — „í samningum“ stendur í enska samningnum. Það skyldi þó ekki vera að það sé verið að nota hér alkunna diplómatíska kúnst, að þýða svona lauslega í trausti þess að allur þorri þeirra, sem um samningana fjalla, láti sér nægja að lesa samninginn á öðru málinu? Mér finnst að enski textinn sé miklu ákveðnari: „samningum við ríkisstj. Íslands“, en þar stendur hvergi „kann“ í samningnum: „sem samþykkt kann að verða.“ (Gripið fram í: Í því felst viðurkenningin.) Í þessum breska texta er slegið föstu að það verði samningar við íslenska ríkið, þar stendur ekki að það kunni að verða. Það er aðalatriðið. (Gripið fram í: Viðurkenning á samningsréttinum.) Það þarf enga sérstaka samninga um viðurkenningu á samningsrétti milli ríkja sem hafa diplómatískt samband. Þessi aths. hv. þm. er algerlega út í hött. (Gripið fram í: Til hvers er þá verið að semja?) Það var verið að semja til þess að bjarga andliti breska heimsveldisins, svo að það geti hörfað með breska flotann frá ströndum Íslands án þess að skömm þess yrði meiri en hún hafði orðið. Það var búið að viðurkenna alþjóðlega 200 mílur svo sterklega að allir í kringum okkur töldu sjálfsagt að á þessum tíma gæti hver sem er fært út. Eftir var aðeins að finna leið til þess að bretar gætu kallað flota sinn heim þannig að bresk stjórnvöld gætu staðist það stjórnmálalega með utanrrh. frá Grímsby og þannig að menn eins og Callaghan, sem voru búnir að vera grjótharðir í samningum við okkur, töpuðu ekki andlitinu allt of illilega. Þetta eru milliríkjaviðskipti.

Ég tel að við höfum að vissu leyti tapað þarna síðustu orrustunni, af því að við þurftum að borga til þess að losna við ofbeldið. En hitt er alveg rétt, að hvenær sem við teljum eða framtíðin telur sögulega að barátta fyrir 200 mílna útfærslunni hafi verið lokið, þá er stór sigur unninn, þá er sögulegur atburður kominn fram. Við skulum greina á milli þess, hvaða einstakt atriði í baráttunni það er sem snýr málunum þannig við að eftir það er okkar sigur vís. Látum sagnfræðingana um að dæma á hvaða augnabliki það verður. Það getur alveg eins verið að sagan segi: Þegar stíflan mikla á Hafréttarráðstefnunni brast og Mexíkó; Bandaríkin og Kanada tilkynntu að þau ætluðu að færa út í 200 mílur, þá var málinu raunar lokið. Eftir það var ekkert annað eftir fyrir þjóðir eins og okkur heldur en að hugsa um hvernig við gætum unnið friðinn sem fylgir í kjölfarið. Það er það sem er okkar vandamál. Ætli bretar kannist ekki við þau vandamál að vinna stríð, en eiga erfitt með að vinna friðinn á eftir.

Ég ætla ekki að lengja þetta mál. Ég vil ítreka það, sem ég hef áður sagt, að það er tilgangslaust að vera að reyna að draga hæstv. ráðh. inn í umr. um það sem fram undan er. En ekki heyrði ég betur í hádegisfréttum en að enn væri tilkynnt og borinn fyrir því, að ég hygg, danski fulltrúinn hjá Efnahagsbandalaginu í Brüssel, að viðræður við íslendinga yrðu mér heyrðist hann segja 3. næsta mánaðar, í miðri næstu viku. Það er e.t.v. athyglisvert, eins og útlitið er, að í þessum sömu hádegisfréttum í dag var sagt frá því, að Financial Times í London talaði um að nú gæti alveg eins stefnt út í nýtt þorskastríð. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti, en ég vona að ég fari rétt með að þetta hafi verið í hádegisfréttunum.