14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3122 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson):

Herra for­seti. Það var hv. 5. þm. Vesturl. sem efaðist um að ég væri fær um að gegna formennsku í iðnn. Alveg skal ég nú fyrirgefa hv. þm. þessi ummæli með tilliti til þess að maðurinn var í æsingi og ekki sjálfrátt um hvað hann sagði. Það verður að fyrirgefast. Það verður líka að fyrirgefast þó að sami hv. þm. geri bréf Heil­brigðiseftirlitsins og orð rn. og ráðh. að mínum orðum. Hv. þm. sagði að ég hefði fullyrt að það væri nauðsynlegt að hafa þetta sem trúnað­armál, enda þótt ég hafi skýrt frá því að það væri prentað á bréfið að það ætti að vera trún­aðarmál. Ég hef talið að hv. 5. þm. Vesturl. kynni skil á því, ef hann fengi bréf sem væri merkt trúnaðarmál, að hann teldi alveg nauð­synlegt að fara með það sem slíkt þangað til hann væri leystur undan því, og það gat enginn nema hæstv. heilbrrh. ákveðið hvort þessi orð, sem prentuð eru á umrætt bréf, skyldu gilda áfram eða hvort þau skyldu ekki gilda áfram. Hæstv. ráðh. hefur ákveðið að þetta skuli ekki lengur vera trúnaðarmál og þá er það ekki leng­ur trúnaðarmál. En ég upplýsti hér í dag, að þrátt fyrir það að þetta væri trúnaðarmál, þá ættu þm. aðgang að þessari skýrslu, og þess vegna lánaði ég hv. 3. þm. Reykv. bókina svo að hann og hans flokksbræður gætu kynnt sér hana.

En það er nú ekki meira um þetta. Ég hef alltaf haft talsverðar mætur á hv. 5. þm. Vesturl., en mér þykir leiðinlegt þegar hann hrekkur upp af standinum, eins og stundum er sagt, og missir alveg glóruna í einhverjum æsingi af því að frv. til 1. um verksmiðju á Grundartanga er til umr. Þessi hv. þm. talar alveg þvert gegn vilja kjós­enda sinna, sem vilja fá þessa verksmiðju.

Iðnn. þessarar hv. d. hefur haft til meðferð­ar frv. á þskj. 187 um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. N. hefur haldið marga fundi um málið og fengið til sín ýmsa aðila sem gefið hafa hald­góðar upplýsingar og umsagnir um fyrirhugaða verksmiðju. Komið hafa til viðræðu í n. aðilar frá eftirtöldum stofnunum: Náttúruverndarráiði, Líffræðistofnuninni, Heilbrigðiseftirliti ríkisins, Vita- og hafnamálaskrifstofunni, Járnblendifélag­inu, Orkustofnun og Landsvirkjun. Enn fremur mættu á fundum hjá n. forstöðumaður Þjóðhags­stofnunar og fulltrúi hans, ráðuneytisstjórinn í iðnrn., ritari viðræðunefndar um orkufrekan iðnað, formaður verkalýðsfélagsins á Akranesi og stjórnarmaður frá verkalýðsfélaginu á Hval­fjarðarströnd, ásamt oddvita Skilmannahrepps. Voru umsagnir þessara aðila jákvæðar.

Um fyrirhugaða járnblendiverksmiðju hefur mikið verið rætt og ritað frá því að málið kom fyrst á dagskrá. Hafa skoðanir manna verið nokkuð skiptar, eins og oft vill verða þegar um nýjungar og stórmál er að ræða. Iðnn. hv. d. hef­ur leitast við að kynna sér fyrr og síðar allt sem snertir stofnkostnað og rekstur járnblendi­verksmiðju eins og frv. á þskj. 187 gerir ráð fyr­ir með því að ræða við sérfróða menn og lesa það sem fáanlegt er um verksmiðjur af þeirri gerð, sem hér um ræðir.

Alþm. munu minnast þess, að þetta mál hefur áður verið til umr. á hv. Alþ. Í aprílmánuði 1975 voru sett lög um að ríkisstj. skyldi beita sér fyrir stofnun hlutafélags í því skyni að koma á fót járnblendiverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði. Fyrirhugað var að reisa verksmiðjuna í samvinnu við bandarískt fyrirtæki, Union Car­bide Corporation. Með þeim aðila stofnaði rík­isstj. Íslenska járnblendifélagið hf. í aprílmán­uði 1975. Eignarhluti íslendinga var 55%, en eignarhluti Union Carbide 45%. Union Carbide gekk úr félaginu á s.l. sumri, en ríkisstj. yfir­tók hlut þess í Járnblendifélaginu. Um það samdist að Union Carbide greiddi íslendingum 850 millj. kr. vegna samstarfsslitanna. Var upp­hæðin miðuð við að ríkissjóður yrði skaðlaus vegna ýmiss konar kostnaðar við undirbúning fyrirtækisins svo og Landsvirkjun vegna seink­unar á orkusölu. Viðræður voru teknar upp við norska fyrirtækið Elkem-Spigerverket um aðild að Járnblendifélaginu. Samningar tókust og hafa þeir verið undirritaðir af Íslands hálfu með fyrirvara um samþykkt Alþ. á frv. því sem hér er til umr. og iðnn. hefur fjallað um.

Samningar við Elkem-Spigerverket eru í flest­um atriðum svipaðir þeim samningum sem áður voru gerðir við Union Carbide. Þau frávik, sem gerð hafa verið frá fyrri samningum, eru til bóta og hagstæðari fyrir íslendinga eins og fram kemur í grg. með frv. Stofnkostnaður verksmiðj­unnar er áætlaður 447 millj. norskra kr. á verð­lagi ársins 1978. Hefur áætlaður kostnaður því hækkað um 71 millj. norskra kr. frá árinu 1974. Valda því verðhækkanir, kaupgjaldshækkanir og nákvæmari áætlanir en fyrir voru. Áætluð árs­framleiðsla er 50 þús. smál. af kísiljárni, en var í eldri áætlun 47 þús. lestir. Tekjuverð er nú áætlað 3405 kr. norskar pr. tonn fob., en 3294 norskar kr. í eldri áætlun, hvort tveggja miðað við verðlag ársins 1978. Þessi áætlun er byggð á áætlun Elkems um skilaverð til norskra kísiljárnsframleiðenda. Miðað við að markaðs­ástand færist í eðlilegt horf telur Elkem að reikna megi með 2900 norskum kr. 1977 í skila­verð og 3405 norskum kr. 1978. Í grg. frá Þjóð­hagsstofnun, dags. 19. febr. s.l., segir m. a.:

„Þótt þessar verðforsendur um markaðshækk­un kunni að virðast bjartsýnar er þess að geta, að álits um verðforsendur þessar hefur m. a. verið leitað hjá sænska järnkontoret sem telur þær fremur varkárar.“

Árstekjur fyrirtækisins á skilaverði eru nú taldar 170.2 millj. norskra kr. á verðlagi ársins 1978, miðað við 154.8 millj. norskra kr. áður og hafa þær því hækkað í áætluninni um 15.4 millj. norskra kr. eða um 10% vegna meiri framleiðslu og hækkaðs verðlags.

Markaðshorfur fyrir stál og þar með kísiljárn eru almennt taldar fremur góðar. Er reiknað með 4% ársvexti stál- og kísilframleiðslu næstu árin. En markaðurinn hefur oft verið sveiflu­kenndur vegna breytinga á eftirspurn.

Gert er ráð fyrir að norska sölufélagið Fesil annist sölu á framleiðslu verksmiðjunnar á Grundartanga. Sölukostnaður fyrirtækisins reyndist vera árið 1975 2.85% af söluverði fram­leiðslunnar. Markaðshlutdeild Fesils í Evrópu er 35% á kísiljárnsmarkaðinum. Árið 1974 nam heildarsala Fesils 280 þús. tonnum, en þar af fóru 210 þús. tonn á Evrópumarkað.

Elkem hefur trausta stöðu í kísiljárnsfram­leiðslu og vel skipulagða söluaðstöðu.

Elkem framleiðir bræðsluofna fyrir kísiljárns­verksmiðjur og mun sjá um smíði á ofnum í verksmiðjuna á Grundartanga fyrir sambærilegt verð og áður samdist um eftir útboð við fyrir­tæki á Ítalíu.

Rafskaut mun verksmiðjan kaupa frá Elkem á venjulegu markaðsverði.

Hráefni til verksmiðjunnar verður keypt á frjálsum markaði, þar sem verð er hagstæðast. Ákveðið er að breyta öðrum ofni kísilverk­smiðjunnar á Grundartanga þannig, að fram­leiða megi aðra járnblenditegund ef henta þykir. Hefur sú ákvörðun orðið til þess að vekja áhuga norðmanna á samstarfi við íslendinga, þar sem umrædd breyting er talin mjög þýðingarmikil fyrir öruggan rekstur og betri afkomu verk­smiðjunnar.

Í grg. til iðnn. segir Þjóðhagsstofnun um markaðshorfur:

„Í heild verður að telja markaðsforsendur traustar vegna samvinnn við Elkem, og er það einnig álit hlutlausra aðila, sem leitað hefur verið til um þetta efni, eins og nefnt er hér að framan. En hagur fyrirtækisins er vitaskuld mjög háður því að hagvöxtur glæðist á ný í iðnaðarlöndum Vestur-Evrópu á næstu árum.“

Sala framleiðslunnar frá járnblendiverksmiðj­unni er betur tryggð nú en áður var, miðað við samninga við Union Carbide. Í sölusamningnum felst það mikilvæga atriði, að nýting fram­leiðslugeta íslensku veksmiðjunnar verður aldrei lakari en í verksmiðjum Elkems í Nor­egi. Sölukostnaður er lægri samkv. núverandi samningi en áður. Kveðið er svo á að verksmiðja Járnblendifélagsins fái aldrei minni söluumsetn­ingu hlutfallslega en um er að ræða hjá verk­smiðjum Elkems á hverjum tíma. Jafnframt verður tryggt að Járnblendifélagið fái ávallt sama nettó-fob-verð fyrir framleiðslu sína og verksmiðjur Elkems miðað við sömu vöru. Þó verður tekið tillit til hugsanlegs mismunar á flutningskostnaði frá Íslandi og Noregi, en að öðru leyti verður framkvæmd verðjöfnun á flutnings- og sölukostnaði milli aðilanna. Þess er rétt að geta, að verði framleiðsla verksmiðj­unnar seld til Ameríku, eins og fyrirhugað er að einhverju leyti, verður flutningskostnaður lægri á þann markað frá Íslandi heldur en frá norsku verksmiðjunni.

Fyrir söluaðstoð og ábyrgð mun íslenska verk­smiðjan greiða 40 norskar kr. sem samsvarar 1.2% af áætluðu byrjunarsöluverði, en mun fara hlutfallslega lækkandi þegar tímar líða.

Gildistími sölusamnings verður nú 20 ár frá því að starfræksla hefst, en í samningunum við Union Carbide var gengið út frá 15 ára gildis­tíma.

Ráðgert er að Elkem selji Járnblendifélaginu í byrjun tæknikunnáttu á sams konar grund­velli og Union Carbide og þá fyrir sömu þóknun í hlutabréfum, þ. e. 3.2 millj. dollara. Jafnframt mun Elkem veita félaginu samfellda tækniþjón­ustu við verksmiðjureksturinn á svipuðum grund­velli og um samdist við Union Garbide og fá fyrir það sömu þóknun, þ. e. 3% af andvirði seldrar framleiðslu. Gildistími samningsins um þessa aðstoð er óbreyttur, þ. e. 15 ár frá því að starfræksla hefst.

Elkem mun láta í té verkfræðiaðstoð með um­sjón og byggingu verksmiðjunnar og verður hún greidd eftir venjulegum tímatöxtum fyrir slíka þjónustu. Innlendum verkfræðistofum verður hins vegar falið að sjá um hönnun og eftirlit með byggingu verksmiðjunnar undir umsjón Elkems að eins miklu leyti og frekast er kostur.

Orkustofnun og Landsvirkjun hafa haft orku­sölusamninginn til athugunar. Er talið, að samn­ingurinn sé hagstæður fyrir Landsvirkjun, sér­staklega vegna sölu á afgangsorku og mikils nýtingartíma. Miðað er við að orkusala Lands­virkjunar til Járnblendifélagsins og skipti milli forgangs- og afgangsorku verði söm að umfangi og vera átti samkv. rammasamningi þeim er gerður var áður milli aðilanna. Líkur eru þó til að salan verði heldur meiri í reynd. Hins vegar verður óhjákvæmilega nokkur seinkun á byrjun rafmagnsafhendingar til verksmiðjunnar vegna þeirrar frestunar sem orðin er á bygg­ingarframkvæmdum við hana. Er nú miðað við að fyrri bræðsluofninn geti tekið við rafmagni í árslok 1978 eða ársbyrjun 1979. Það er sem næst ári síðar en ráðgert var við stofnun Járn­blendifélagsins. Síðari ofninn verður tilbúinn á tímabilinu júlí-sept. 1979 eða í síðasta lagi í ársbyrjun 1980 samkv. nánari ákvörðun. Samið hefur verið við Landsvirkjun um bætur fyrir það tjón sem búast má við vegna þessarar breyt­ingar á samningnum.

Að því er varðar rafmagnsverð til verksmiðj­unnar er nú ráð fyrir því gert að upphaflegt orkuverð í Bandaríkjamillum á kwst. sé 6.6 mill meðalverð fyrstu árin og haldist óbreytt sem lágmarksverð, en núverandi verðhækkunarreglur rafmagnssamningsins verði felldar niður og í stað þeirra verði tekið upp nýtt orkuverð í norskum aurum er komi til greiðslu þegar í byrjun og sæti síðan leiðréttingu fimmta hvert úr eftir sömu reglum og var til orkufreks iðn­aðar í Noregi eftir samningum gerðum samkv. reglum norsku ríkisrafveitnanna frá 1962–1972. Jafnframt fari greiðslur fyrir orku fram í norsk­um kr. í stað Bandaríkjadollara. Orkuverð þetta er 3.5 norskir aurar á kwst., samsvarar ca. 6.61 mill meðalverði, og er sem næst hið sama og taka mun gildi í Noregi samkv. áður greindum reglum hinn 1. júlí 1977. Frá og með 1. júlí 1982 mun Járnblendifélagið greiða 0.5 norska aura, sem samsvarar ca. 0.94 mill, til viðbótar þessu verði, en sú viðbót mun ekki sæta verðhækkun á samningstímanum. Með þessu fyrirkomulagi um skýrari reglur varðandi hækkun orkuverðs vegna verðlagsbreytinga munu tekjur Landsvirkj­unar af orkusölunni hækka verulega frá nú­gildandi samningi á fyrstu starfsárum verk­smiðjunnar, en væntanlega verða nokkru lægri á síðustu árum samningstímans. Samkv. áætl­unum Landsvirkjunar munu heildartekjurnar yfir samningstímann ekki vera lægri en orðið hefði eftir samningnum óbreyttum. Gildistími raf­magnssamningsins verður 20 ár frá fyrsta af­hendingardegi rafmagns eins og áður var um samið.

Í samningnum verða og sömu endurskoðunar­ákvæði og áður ef til breytinga kemur á meiri háttar forsendum um orkuverð. Loks er gert ráð fyrir því, að aðilar taki upp viðræður um það áður en 15 ár eru liðin af samningstíman­um, hvort framlengja skuli samninginn og á hvaða grundvelli.

Í öllum samningsdrögum og samningum um orkuverð járnblendiverksmiðjunnar hefur verið gert ráð fyrir að rafmagnið hækkaði í takt við hækkanir á raforkuverði til orkufreks iðnaðar í Noregi. Eftirtalið sýnir samanburð á verði fyrstu fjögur starfsár verksmiðjunnar eins og það hefur verið sett fram í samningsdrögum og samning­um:

Forgangsorkuverð, bandarísk mill á kwst., samningsdrög 1974: 1. og 2. ár 7 mill, 3. og 4. ár einnig 7 mill, samningur 1975: 1. og 2. ár 9.5 mill, 3. og 4. ár 10 mill, samningsbreyting í des. 1976: 1.–4. ár 10.8 mill.

Í samningnum eru eftirtalin ákvæði varðandi sölu á afgangsorku auk verðákvæðisins:

Hæsta sala 306 gwst. á ári, meðalsala 244 stund­ir á ári fyrir samningstímann, minnsta sala á einu ári 122 gwst. og minnsta sala á samfelldu fjögurra ára tímabili 183.5 gwst. á ári.

Þessi ákvæði eru nauðsynleg fyrir Landsvirkj­un og gefa mikið svigrúm við afhendingu af­gangsorkunnar.

Verð á forgangsorku er 202 aurar fram til 1982, meðalverð 3.5 norskir aurar eða 126 aurar kwst. með núv. gengi, en afgangsorka 51 eyrir kwst.

Hagnaður Landsvirkjunar er mestur af löng­um nýtingartíma á forgangsorku auk sölu á mikilli afgangsorku. Samkv. orkuspá er talið að Sigölduvirkjun verði fullnýtt 1981–1982, en þá er reiknað með að virkjun Hrauneyjafoss verði komin í gagnið. Útreikningar sýna að Lands­virkjun hagnast vel á orkusölu til járnblendi­verksmiðjunnar með því verði sem um er samið. Stundum er því haldið fram að Landsvirkjun hafi skaðast á því að selja raforku til stóriðju, þ. e. álverksmiðjunnar í Straumsvík. Hafa sumir sett upp hneykslunarsvip og talað um ráðleysi í því sambandi að selja raforku á kostnaðarverði. Menn gera sér ekki alltaf grein fyrir því, að það, sem kallað er kostnaðarverð, getur talist hagstætt verð fyrir seljandann ef allir kostn­aðarliðir eru nægilega ríflega reiknaðir og fram­leiðsluverð er réttilega fundið. Ef virkjun, sem ætlað er að endast í a. m. k. 75 ár, er afskrifuð á 25 árum og fyrningin yfir þann tíma er reikn­uð með í orkuverðinu, er hagnaðurinn augljós. Landsvirkjun hefur hagnast verulega á orku­sölu til álverksmiðjunnar. Kemur það glöggt fram í greinargerð framkvæmdastjóra og yfir­verkfræðings Landsvirkjunar til iðnn., dags. 16. f. m., þar sem segir m. a.:

„Um síðustu áramót hafa tekjur Landsvirkj­unar frá ÍSAL þegar greitt niður meira en helm­ing áfallinnar greiðslubyrði vegna stofn- og rekstrarkostnaðar Þjórsárvirkja, og í árslok 1994 hafa sömu tekjur á um 25 ára tímabili fullnægt greiðslubyrði þessari svo til að fullu, enda þótt ÍSAL nýti aðeins 60% af afli Búrfellsvirkjunar. Dæmið er í rauninni enn hagstæðara en þetta, því að Þórisvatnsmiðlun nýtist jafnt fyrir Sig­ölduvirkjun og Hrauneyjafossvirkjun og einnig hluti háspennulínanna og spennistöðvarinnar við Geitháls, en ekki er tekið tillit til þess að fram­an. Enn má ekki gleyma því, að virkjanir mala gull eftir að lán vegna þeirra hafa verið greidd upp.“

Framangreindar staðreyndir sýna ótvírætt hve hagur Landsvirkjunar er stór í rafmagnssöl­unni til ÍSALs. Það er augljóst að almenningur hefur hagnast mjög á því að stórvirkjun var gerð í Þjórsá og að markaður fékkst strax fyrir mestan hluta orkunnar. Þess má geta að vand­fundið mun lægra heildsöluverð til almennings í Vestur-Evrópu en hjá Landsvirkjun, kr. 2.46 á kwst. 1976, að Noregi undanskildum, enda var þar byrjað snemma á virkjunum fyrir stóriðju.

Með tilkomu álversins í Straumsvík fékkst markaður fyrir raforku frá stórvirkjun. Ef orku­frekur notandi væri ekki fyrir hendi hefði ekki verið unnt að virkja Búrfell á hagkvæmasta hátt. Þá hefði orkan verið mun dýrari til almenn­ingsnota en hún nú er. Það er blekking þegar því er haldið fram að orkan sé niðurgreidd til álversins í Straumsvík og almennir notendur gjaldi fyrir það. Heildsöluverð á raforku frá Landsvirkjun var 1976 2.46 kwst, og er það lægra en víðast hvar annars staðar í nágranna­löndunum.

Hátt smásöluverð frá hinum ýmsu rafveitum verður ekki rakið til álverksmiðjunnar. Dreif­ingarkostnaður orkunnar hér á landi er mjög mikill. Þá má á það minna að söluskattur, verð­jöfnunargjald, tollar og flutningsgjöld nema allt að 40% af því verði sem notandinn greiðir.

Heildsöluverð frá Landsvirkjun til rafveitnanna er lágt vegna þess að virkjað er á hagkvæman hátt. Áður en ráðist var í virkjun við Búrfell og samningar lágu fyrir um greiðslu álversins fyrir orkuna var sýnt fram á með ítarlegum útreikningum að orkan yrði allt að 60% dýrari til almenningsnota án álverksmiðju heldur en með álverksmiðju, og reynslan hefur sýnt að upphaflegir útreikningar voru réttir. Á s.l. ári voru samningarnir við svisslendinga endurskoð­aðir og orkuverðið hækkað verulega.

Með lögum um Landsvirkjun 1965 var stigið mikilvægt framfaraspor. Landsvirkjun hefur haft forgöngu um hönnun virkjana í Þjórsá: virkjun við Búrfell 210 mw., virkjun við Sig­öldu 160 mw. og virkjun við Hrauneyjafoss 210 mw. Allar þessar virkjanir eru mjög stórar á íslenskan mælikvarða. Þær eru hagkvæmar m. a. vegna stærðarinnar.

Þeir, sem eru fyrir fram á móti allri stóriðju, telja, að samningarnir við Suisse Aluminium hafi verið í alla staði óhagstæðir og til tjóns fyrir þjóðina. Þetta er að sjálfsögðu öfugmæli sem stangast á við staðreyndir. Álverksmiðjan tók til starfa haustið 1969. Á þessum stutta starfstíma verksmiðjunnar hafa íslendingar fengið greitt fyrir orkusölu, vinnulaun og þjón­ustu við fyrirtækið 24 þús. millj. kr. eða 24 milljarða kr. í erlendum gjaldeyri. Við verk­smiðjuna vinna 500–600 manns fyrir góðum tekjum. Auk orkugjaldsins greiðir verksmiðjan framleiðslugjald, 20 dollara á tonn, sem fer bækkandi eftir verði á áli. Framleiðslugjaldið er greitt þótt taprekstur sé hjá verksmiðjunni. Þannig er hagur Íslands miklu betur tryggður með þessu fyrirkomulagi heldur en gæti verið með því að verksmiðjunni væri gert að greiða skatta samkv. skattalögum, eins og önnur fyrir­tæki gera. Álverksmiðjan stendur undir öllum erlendum lánum vegna virkjunarinnar við Búr­fell. Þannig verður fyrsta stórvirkjun landsins skuldlaus eign eftir tiltölulega stuttan tíma vegna greiðslna álverksmiðjunnar. Álverksmiðj­an er styrk stoð í atvinnulífi íslendinga og gefur þjóðinni árlega miklar gjaldeyristekjur.

Sjávarútvegurinn er stór þáttur í þjóðarbú­skapnum. Miklar vonir eru bundnar við hann, ekki síst eftir sigurinn í landhelgismálinu. En sjávarútvegurinn einn nægir ekki. Fjölþættur iðnaður, smærri og stærri, landbúnaður, sam­göngur, verslun og ferðamannaþjónusta munu einnig gegna mikilvægu hlutverki í efnahagslífi þjóðarinnar. Fjölbreytni atvinnulífsins veitir öryggi og eykur möguleika á bættum þjóðarhag. Þess vegna er brýn nauðsyn að auka fjölbreytni í iðnaði og stuðla með því að atvinnuöryggi og vaxandi framleiðslu. Orkuverð til járnblendiverk­smiðjunnar er hærra samkv. samningnum en til álverksmiðjunnar. Stafar það af því, að verðlag hefur hækkað allt efni, vélar og vinnulaun til Sigölduvirkjunar. Sigölduvirkjun er af þeim ástæðum dýrari en virkjunin við Búrfell sem lokið var við 1969.

Líklegt má telja að járnblendiverksmiðjan gefi góðar tekjur í þjóðarbúið þegar fram líða stund­ir. Þess gerist vissulega þörf þótt allt verði gert sem unnt er til þess að efla aðra atvinnuvegi í landinu. Það hefur verið á það minnst að arð­gjöf verksmiðjunnar sé helst til lítil, og má það til sanns vegar færa, sérstaklega þegar verð á framleiðslunni er í öldudal.

Gerður hefur verið útreikningur á arðsemi fyrirtækisins, sem að sjálfsögðu er háð verðlagi á framleiðslunni, fyrir árið 1985 með framleiðslu­verði 1978 og öðrum kostnaðarliðum miðað við það ár. Þá er gert ráð fyrir að sölutekjurnar verði 50 þús. tonn á 170 millj. kr. Hráefniskaup: kvarts 13 millj., koks 25 millj., kol 8 millj., járn 5 millj., rafskaut 6 millj., annað 1 millj. Þessir liðir samtals 58 millj. Raforka 18 millj. Hafnar­gjöld og annar breytilegur framleiðslukostnaður 5 millj. Fastur framleiðslukostnaður: vinnulaun 11 millj., stjórnun, skrifstofukostnaður og við­hald 10 millj. Tækniþóknun o. fl. 7 millj. Verð­jöfnunargjald 2 millj. Vextir 24 millj. Afskriftir 28 millj. Þetta gerir samtals í gjöld 163 millj. og er þá eftir hreinn hagnaður 7 millj. norskra kr. eftir að fyrirtækið hefur verið afskrifað um 28 millj. norskra kr. Þetta er áætlun Elkems sem byggist á reynslu þeirra í rekstri sams konar verksmiðju.

Það kemur m. a. fram, að sé áætlun Járnblendi­félagsins óbreytt færð til fasts verðlags ársins 1978, þ. e. verðbreytingar bæði á tekju- og kostn­aðarliðum reiknaður frá, verður árleg arðsemi Járnblendifélagsins 9.9% án kostnaðar við hafn­ar- og vegagerð, en 9.7% að þeim kostnaði með­töldum. Þess ber að geta, að í útreikningum um áætlaða arðsemi er reiknað með 28 millj. kr. norskra kr. í afskriftum, hreinn hagnaður fyrir beina skatta er talinn vera 7 millj. norskra kr. árið 1985 á verðlagi ársins 1978 samanborið við 36.3 millj. norskra kr. í eldri áætlun. Þetta kem­ur til af því að kostnaðaráætlun nú er mun var­kárari en áður var. Má m. a. nefna að nú er reiknað með að 150 manns vinni við verksmiðj­una, en aðeins 115 í fyrri áætlun.

Þjóðhagsstofnun hefur metið þjóðhagstærð fyr­irtækisins og segir m. a.:

„Útflutningstekjur í heild miðað við verðlag og meðalgengi ársins 1976 eru áætlaðar 5050 millj. ísl. kr. eða tæplega 7% af heildarvöru­útflutningi 1976 og er þetta svipað hlutfall og áður var reiknað. Vinnsluvirði fyrirtækisins, sem sýnir framlag þess til þjóðartekna og líta má á sem þá virðisaukningu sem á sér stað við fram­leiðsluna, er í meðalári á verðlagi ársins 1976 áætlað 2400 millj. ísl. kr. eða 1.3% af vergum þjóðartekjum 1976. Sem hlutfall af fob-verð­mæti er vinnsluvirðið 47–48%, sem er líklega nokkru hærra en frá álverksmiðjunni, en tals­vert lægra en t. d. í sjávarútvegi. Að viðbættu raforkuverði hækkar vinnsluvirði í 3050 millj. ísl. kr. eða 1.6% af þjóðartekjum og rúmlega 60% af heildartekjum, sem er sennilega talsvert hærra en í álverksmiðjunni.“

Enn fremur segir Þjóðhagsstofnun: „Helstu niðurstöður þessara aths. eru þær, að í saman­burði við fyrri samninga séu áætlanir um stofn­un og rekstur fyrirtækisins mun traustari en áður. Á þetta einkum við um stofnkostnaðar- og rekstrarkostnaðaráætlanir, um sölu- og markaðs­mál og fjáröflun til byggingar verksmiðjunnar. Hins vegar sýna núverandi áætlanir minni arð­semi en þær fyrri, enda sennilega mun varkár­ari en þær áætlanir sem gerðar voru í samvinnu við Union Carbide. Mest áhætta virðist bundin forsendum um þróun markaðsverðs, þótt hún sé almennt talin verða svipuð því sem þessar áætl­anir gera ráð fyrir.“

Gert er ráð fyrir að höfn í Grundartanga og endurbætur á vegi muni kosta 400–500 millj. kr. Spurt hefur verið um hvort þörf sé á því að gera nýja höfn svo nærri Akraneshöfn. Áður en því er svarað þarf að gera sér grein fyrir því, hve mikið flutningskostnaður mundi aukast ef Akraneshöfn yrði notuð í stað Grundartanga­hafnar. Einnig má reikna með miklum fram­kvæmdum við Akraneshöfn til þess að hún gæti annað öllum flutningum til og frá verksmiðjunni. Einnig þyrfti geymslurými á hafnarsvæðinu á Akranesi til þess að ferma mætti skip og af­ferma á skemmri tíma en landflutningarnir taka. Vegakerfið um 8 km leið yrði að byggja upp að nýju til þess að það þyldi álagið sem yrði mjög mikið, eða 56 ferðir á dag í 300 daga á ári með 14 tonna farm í hverri ferð. Framleiðsla til útflutnings er 50 þús. smál. og auk þess 185 þús. tonn af hráefni. Sementsverksmiðjan flytur líparit úr Hvalfirði og greiddi í fyrra um 7 kr. fyrir hvern tonnkm. Sé þessi kostnaður hækkað­ur um 30% vegna verðhækkana yrði flutnings­kostnaður á ári til og frá verksmiðjunni 68 millj. kr. Það, sem hér hefur verið talið, styður þá skoðun að rétt sé að gera tiltölulega ódýra höfn við Grundartanga. Hún mun hafa miklar tekjur, sérstaklega þegar frá líður. Hafnargjöld skulu vera þau sömu og gilda í Reykjavíkurhöfn.

Ríkissjóður keypti um 80 hektara af landi úr jörðinni Klafastöðum í Skilmannahreppi og greiddi fyrir það 13.2 millj. kr., þar af 5 millj. kr. fyrir hafnaraðstöðuna. Samkv. drögum að lóðasamningi leigir ríkissjóður íslenska járn­blendifélaginu tæplega 13 hektara af þessu landi og er árleg leiga fyrir það 1 millj. 236 þús. kr., sem hækkar fyrst í samræmi við vísitölu bygg­ingarkostnaðar, en síðar í samræmi við húsa­leiguvísitölu iðnaðarhúsnæðis.

Í samningnum við Union Carbide hafði ekki verið gengið frá fjármögnun járnblendiverksmiðj­unnar, en segja má að það hafi nú verið gert að mestu leyti. Hefur lánssamningur verið undir­ritaður við Norræna fjárfestingarbankann um rétt til lántöku að upphæð 200 millj. norskra kr. Lán þetta yrði tryggt með veði í verksmiðjunni án ábyrgðar eignaraðila. Viðræður við Export Finans í Noregi eru vel á veg komnar um við­bótarlán. Liggur fyrir í höfuðatriðum hvernig verksmiðjan verður fjármögnuð og hvaða kröfur lánveitendur koma til með að setja. Fjármögn­un verksmiðjunnar er fyrirhuguð þannig: Hluta­fé 24 millj. dollara, sama sem 127 millj. norskra kr., hluthafalán 44 millj. kr., stofnlán til langs tíma 200 millj. kr., lán frá framleiðendum 120 millj. kr., rekstrarlán 30 millj. kr., samtals 525 millj. norskra kr. Má því segja að fjármögnun fyrirtækisins sé nú að fullu tryggð.

Norræni fjárfestingarbankinn hefur lýst yfir trausti sínu á fyrirhugaðri járnblendi­verksmiðju á Grundartanga með því að veita stórlán til framkvæmdanna án sérstakrar ábyrgðar eignar­aðila. Er málum því betur borgið nú en áður var í fyrirhuguðu samstarfi við Union Carbide, þar sem fjárútvegun til verksmiðjunnar var ó­leyst að mestu þegar samstarfsslit urðu. Virðist ástæða til þess að ætla að það hafi valdið slit­um í samstarfi fremur en sú lækkun sem varð á kísiljárni á heimsmarkaði í ársbyrjun 1976. Stjórnendur Union Garbide hafa lengi þekkt verðsveiflur á þessari framleiðslu og jafnan kunnað ráð við þeim vanda sem af þeim hefur hlotist.

Eins og áður hefur verið vikið að verða full­komnustu hreinsitæki sett upp í verksmiðjunni. Ryki frá verksmiðjunni verður safnað saman og það sett í köggla. Rykið frá járnblendiverk­smiðjunni í Kristiansand í Noregi er notað í sement og hefur það gefist vel. Tilraunir eru nú gerðar í sementsverksmiðjunni á Akranesi með það í huga að nota rykkögglana frá verk­smiðjunni á Grundartanga í sement. Standa vonir til að það megi takast hér með eins góð­um árangri og í Noregi. Kæmi það þá í stað líparíts sem nú er flutt úr Hvalfirði til sements­verksmiðjunnar.

Þegar frv. til 1. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði var til umr. í hv. Alþ. 1975 lá ekki fyrir starfsleyfi frá heilbrrn. fyrir verksmiðj­unni. Eigi að síður var frv. samþykkt í trausti þess að nægilega ákveðin skilyrði fyrir meng­unarvörnum og heilbrigðisháttum yrðu sett í starfsleyfið áður en verksmiðjan tæki til starfa. En nú liggur starfsleyfi fyrir í samræmi við lög og ströngustu reglur þegar lagafrv. um verksmiðjuna er til meðferðar á Alþ. Málið er því hvað þetta snertir miklu betur undirbúið en áður var. Bestu hreinsitæki verða sett upp í verksmiðjunni áður en framleiðsla hefst. Með starfsleyfi heilbrrn. eru skilyrði sett fyrir full­komnustu mengunarvörnum. Það er trygging fyr­ir fullkomnum mengunarvörnum innan og utan verksmiðjunnar að samkomulag um starfsleyfið er milli rn. og Heilbrigðiseftirlits ríkisins.

Fyrirtækið mun vinna að fyrirbyggjandi heil­brigðisþjónustu og slysavörnum, sérstaklega með hliðsjón af hugsanlegum atvinnusjúkdómum. Unnið verður að þessum málum í samvinnu við samstarfsnefnd vinnuveitenda og verkafólks. Nauðsyn ber til að vel verði fylgst með starfs­aðstöðu þeirra sem í verksmiðjunni vinna.

Það er þakkarvert að heilbrrn. hefur að fengn­um till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins og með að­stoð landlæknis sett þau skilyrði fyrir starfs­leyfi verksmiðjunnar sem að mestu gagni mega koma.

Margir fagna því að aukið samstarf er tekið upp milli íslendinga og norðmanna. Elkem- Spigerverket hefur mikinn áhuga á samstarfi í fyrirhuguðum verksmiðjurekstri. Norðmenn hafa langa reynslu í framleiðslu járnblendis, hagnýt­ingu þess og sölu í mörgum þjóðlöndum.Verð­sveiflur í framleiðslunni á heimsmarkaði valda því að öðru hverju koma mögur ár í rekstri slíkr­ar verksmiðju. Þannig mætti ætla að árið 1976 hefði verksmiðjan á Grundartanga tæplega skil­að nægilegum hagnaði fyrir ríflegum afskrift­um, eins og venjulega er reiknað með í norsk­um járnblendiverksmiðjum. En á árinu 1976 var mikil lægð í verði járnblendis, eins og kunnugt er. Reynslan hefur sýnt að verðlagið hækkar á ný og rekstraraðstaðan breytist til batnaðar. Þannig hafa norsku verksmiðjunnar efnast og staðið af sér mögru árin. Með tilkomu járnblendi­verksmiðjunnar verður flutt inn í landið tækni­þekking sem íslendingar ættu að njóta góðs af þegar tímar líða. Beinn og óbeinn hagnaður ætti því að verða af fyrirtækinu ef rétt er að málum staðið.

Hér að framan hefur verið drepið á hagnað­inn af orkusölunni til verksmiðjunnar. Einnig þær tekjur, sem koma inn fyrir vinnu og þjón­ustu. Framleiðsla járnblendiverksmiðjunnar fer öll á erlendan markað og hún mun því gefa allmiklar gjaldeyristekjur í þjóðarbúið.

Stóriðja hér á landi getur ekki komið í stað annarra atvinnugreina, heldur aðeins til viðbótar því sem fyrir er. Stóriðja í samstarfi við út­lendinga er út af fyrir sig ekkert takmark í ís­lensku atvinnulífi og kemur því aðeins til greina að skilyrði séu heppileg og framkvæmdin teljist að vel athuguðu máli þjóðhagslega hagkvæm. Áhætta fylgir öllum atvinnurekstri og þá einnig stóriðju. Talið er að álverksmiðjan í Straumsvík hafi verið rekin með talsverðum halla sum árin, en hagnaður á öðrum árum hafi unnið upp tap mögru áranna. Þegar miklar verðsveiflur eru á framleiðslunni getur árleg rekstrarútkoma orð­ið mjög misjöfn. Þetta er flestum kunnugt gegn­um árin hér á landi úr sjávarútvegi og fleiri atvinnugreinum.

Stóriðja hér á landi í samstarfi við útlendinga á sér ekki langa sögu, enda virðast umr. um þau mál vera mjög viðkvæmar og tilfinninga­ríkar. Íslendingar búa við heilnæmt loftslag og eru enn næstum lausir við mengun og óhollustu í andrúmsloftinu. Sjálfsagt er að vernda þau góðu skilyrði, sem þjóðin býr við, og læra af reynslu annarra hvernig best verði komist hjá öllum mistökum. Umræður og ákvarðanataka í mikilsverðum málum mega ekki stjórnast af tilfinningum einum, heldur miklu frekar af raun­sæi og skynsemi. Stóriðja er talsverð hér á landi nú þegar. Má t. d. nefna sementsverksmiðju, áburðarverksmiðju, kísilgúrverksmiðju, fisk­mjölsverksmiðjur, álverksmiðju, frystiiðnað sjávarafurða, skipasmíðar o.fl. Nú á allra síð­ustu tímum hefur tækni og þekking aukist nægi­lega mikið til þess að nú er unnt að koma við fullkomnum mengunarvörnum í hvers konar iðn­rekstri.

Íslendingar hljóta að setja sér það takmark að tryggja atvinnuöryggi, góð lífskjör þjóðinni til handa með efnahagslegu jafnvægi, aukinni framleiðslu og hagstæðum greiðslujöfnuði við útlönd. Hér á landi eru miklar vonir bundnar við iðnaðinn. Líklegt má telja, að iðnaðurinn geti tekið við miklum hluta af fólksfjölgun­inni í landinu. Það verður því að halda áfram uppbyggingu í fjölþættum iðnaði. Mörg smáfyr­irtæki geta vissulega náð tilganginum og góð­um árangri ekki síður en þau stóru ef rétt er á málum haldið. Óhjákvæmilegt er að flytja inn margvísleg hráefni til iðnaðarframleiðslunnar. En í landinu eru einnig mörg efni sem vinna mætti úr. Má m. a. nefna endurvinnsluiðnað sem gæti orðið arðbær, vinnslu innlendra jarð­efna, betri nýtingu og aukna vinnslu búvara og hvers konar sjávarafla.

Ísland er ríkt land af ýmsum náttúruauðæf­um. Á því ríður mest að þjóðin eigi þess kost að hagnýta möguleikana á skynsamlegan hátt. Það verður verkefni ríkisstj. og Alþ. næstu ár að leggja traustan grunn að verkmenntun, tækni og hagnýtingu landsins gæða og hafsins um­hverfis landið. Þau verkefni eru mikilvæg og tækifærin til þess að vinna að þeim vekja vissu­lega bjartsýni um þróttmikið atvinnulíf og batnandi efnahag þjóðarinnar í framtíðinni.

Herra forseti. Frv. til 1. um járnblendiverk­smiðju á Grundartanga er þáttur í því að efla atvinnu og auka framleiðslu þjóðarbúsins. Iðnn. var ekki sammála um afgreiðslu málsins. Hv. 3. þm. Reykv., Sigurður Magnússon, skilar sér­áliti og leggur til að frv. verði fellt. Hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, hefur svipaða af­stöðu til frv. og skilar einnig séráliti. En fimm alþm., Ingólfur Jónsson, Benedikt Gröndal, Þór­arinn Þórarinsson, Pétur Sigurðsson og Lárus Jónsson, leggja til að frv. verði samþ. eins og fram kemur í nál. meiri hl. iðnn. á þskj. 455.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni.