14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3133 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. 1. minni hl. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef gefið út nál. sem minni hl. í iðnn. og í þessu áliti mínu legg ég til í lokin að frv. verði fellt. Ég tel að svo margt hafi gerst í þessu máli síðan það var til umfjöllunar fyrir tveimur árum að ástæða sé til þess að undir­strika andstöðu mína gegn málinu enn frekar en kann að hafa verið reyndin þá, en þá tók ég ekki þátt í atkvgr. og lét þannig í ljós and­stöðu mína við málið.

Ég veit að margir hv. þm. eru í miklum vafa um ágæti þessa máls og það af ýmsum ástæðum. M. a. held ég að fæstum þyki trúlegt að þetta fyrirtæki sé jafnarðvænlegt eða það sé jafnmikið gróðafyrirtæki og hefur verið látið í veðri vaka. Eins held ég að augu manna séu að opnast fyrir þeirri hættu sem fylgir vaxandi íhlutun útlend­inga í atvinnu- og viðskiptalíf íslendinga. En það er einmitt sú hætta sem ég vil undirstrika hvað mest í sambandi við þetta mál.

Þetta mál er engan veginn nýtt hér á Alþ. Það eru tvö ár síðan Alþ. samþykkti lög um járnblendiverksmiðju þar sem segir í upphafs­grein laganna að ríkisstj. skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags sem reisi og reki þess háttar verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði og skuli heimilt að kveðja hlutafélagið Union Carbide Corporation í New York til samvinnu um stofnun eða starfsemi verksmiðjunnar. Þessi lög voru samþ. 26. apríl 1975. Tveimur dögum síðar, eða 28. apríl 1975, var stofnað Íslenska járnblendifé­lagið hf. með þátttöku íslenska ríkisins og hins bandaríska fyrirtækis, sem segir í lögunum, Union Carbide Corporation. Hér fór því allt eins og fyrirskrifað var. M. a. var svo frágengið, eins og lögin ákváðu, að íslendingar ættu meiri hluta hlutafjár og hefðu því meiri hl. í stjórn félags­ins, a. m. k. að formi til. En margt fer öðru­vísi en ætlað er. Blekið var varla þornað á undir­skriftum undir stofnsamninginn um Járnblendi­félagið þegar stjórnendur Union Carbide tóku að sýna tregðu í samvinnu, enda gerðust þau tíð­indi mót von hinna bjartsýnu áhugamanna um þessa starfsemi að markaður fyrir kísiljárn tók að þrengjast á árinu 1975 og verðfall var yfir­vofandi og skall raunar á. Og enn er kísilmark­aðurinn „veikur“ eins og segir í álitsgerð Þjóð­hagsstofnunar sem er dags. 19. febr. 1977.

Viðskiptum Union Carbide við íslenska ríkið lauk með því að þetta félag bar fram ósk um að mega draga sig út úr járnblendifyrirtækinu, og urðu íslendingar við þeirri ósk, enda greiddi Union Carbide miklar skaðabætur fyrir þetta brotthvarf sitt eða um 850 millj. ísl. kr. Ekki virðist minnsti vafi á því, enda er það raunar í ljós leitt í grg. fyrir þessu frv., að Union Carbide keypti sig laust vegna vantrúar á arð­semi járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Þessi auðhringur valdi þann kost að greiða fast lausn­argjald einu sinni fyrir allt í stað þess að bera þá byrði sem óviss framtíð kynni að leggja á starfsemina á Grundartanga. Af tvennu illu vildi fyrirtækið frekar kaupa sig laust við föstu gjaldi en að spila í þessu kísiljárnhappdrætti upp á von og óvon næstu 15–20 árin.

Vissulega segja þessi viðskipti við Union Carbide sína sögu. Fyrst og fremst má af henni ráða að járnblendiverksmiðja sem þessi er áhættufyrirtæki og af þeim sökum ekki eftir­sóknarvert fyrirtæki fyrir íslendinga. Hún sýnir einnig hversu samningar við alþjóðlega auðhringi og önnur erlend gróðafélög eru haldnir ef á reynir, og þá er rétt að hafa það hugfast að samningurinn við Union Carbide var auðvitað ekkert einkamál eins ráðh., heldur má segja að Alþ. sjálft hafi verið beinn aðili að honum vegna lagasetningar sinnar um málið. Þarf Alþ. að vera betur á verði en hingað til um val samn­ingsaðila á vegum ríkisstj. og fylgjast betur með ferli og efni þeirra mála sem fyrir það eru lögð.

Hvað snertir járnblendimálið sérstaklega, þá sýnir ferill þess frá því að lögin voru samþykkt í apríl 1975 að rök þau, sem flutt voru til stuðn­ings því, voru afar hæpin og raunar röng í veigamiklum atriðum. A. m. k. er víst að rekstrar­áhættan reyndist miklu meiri en talið var. Það hefur sýnt sig að markaður getur brugðist skydilega fyrir framleiðsluvörur svona fyrir­tækis og verðsveiflur eru tíðar.

Og nú hefur járnblendimálið tekið nokkuð nýja stefnu. Það er hafinn nýr þáttur í sögu þessa máls sem er þegar orðin nokkuð löng. Þessi nýi þáttur málsins birtist í frv. því sem nú er til meðferðar á Alþ. og verið hefur í sér­stakri athugun hjá iðnn. undanfarnar vikur og mánuði. Það má segja um þetta frv., að það sé í flestu líkt lögunum frá 1975 sem nú er víst ætl­unin að nema úr gildi. Það vekur að vísu at­hygli að nafn hins nýja viðsemjanda, Elkem- Spigerverket, er aldrei nefnt í texta frv., svo sem er þó í 2. gr. laga nr. 10 19 75, þar sem í hlut á Union Carbide. Eins og 2. gr. frv. er orð­uð, má ætla að heimild til vals á viðsemjanda sé rýmri en er í lögum nr. 10/1975, þannig að hún þurfi ekki endilega að vera bundin við Elkem-Spigerverket. En úr því að ætlunin er að stofna til sameignar um járnblendiverksmiðjuna við Elkem-Spigerverket, þá sýnist eðlilegast að nafn þess hefði verið nefnt í texta frv.

Röksemdir í grg. fyrir þessu máli eru í aðal­atriðum mjög á sama veg og fyrir tveimur ár­um. Mikið traust er borið til hins norska við­semjanda með tilliti til reynslu hans í við­skiptum og stórrekstri af ýmsu tagi, og söm var trúin á Union Carbide fyrr. Spá um rekstraraf­komu fyrirtækisins lofar góðu um arðsemi þess að áliti þeirra sem samið hafa grg., og orðrétt segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Um arðsemisáætlunina í heild má segja að hún er byggð á traustari grunni en sú fyrri.“

Það er ástæða til þess að staldra við þessi orð.

Hér munu engar brigður bornar á ágæti Elkem-Spigerverkets út af fyrir sig, því að það er án efa traust fyrirtæki sem býr yfir mikilli við­skiptareynslu. En trúlega er nú þetta fyrirtæki ekki rekið sem góðgerðarfélag frekar en títt er um auðhringi yfirleitt, og þarf ekki að fara í grafgötur um að Elkem-Spigerverket vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn, og gildir þá einu hvert þjóðerni þess er. Það er varla meira en stigs­munur á norskum og bandarískum auðhringum, en enginn eðlismunur. Að svo komnu máli er einungis hægt að láta í ljós von um það, að nú­verandi viðsemjandi reynist orðheldnari en hinn fyrri, ef svo fer að þetta frv. verður að lögum. Það er illt til þess að hugsa ef Alþ. yrði að nýju niðurlægt með því að viðsemjandi hlypist frá skyldum sínum í þessum málum. Þó að ég gefi ekkert slíkt í skyn hvað varðar Elkem-Spigerverket, þá eru viðskiptin við Union Carbide-auðhringinn slík, að þau ættu að vera Alþ. viðvörun um að áhætta fylgir sameignar­samningum við fyrirtæki sem lúta siðaboðum fjárgróðans. Það, sem einu sinni hefur gerst, getur endurtekið sig.

Hvað snertir svo arðsemi hinnar fyrirhug­uðu verksmiðju, þá er hæpið að halda því ákaft fram að arðsemin sé reist á traustari grunni nú en áður. Arðsemisáætlunin er enn sem fyrr spá mörg ár fram í tímann. Sumar mikilvægustu forsendur fyrir spánni eru ákaflega óvissar, einkum markaðshorfur og markaðsverð. Í fskj. I með frv., sem er dags. 18, nóv. 1976, þar sem fjallað er um markaðshorfur og sölu, segir svo, með leyfi hæstv. forseta, en grg. þessa mun Járnblendifélagið hafa samið:

„Mikill samdráttur varð á stálmarkaðinum á árinu 1975 og var hann í lágmarki í ágúst-sept. það ár. Síðan hefur orðið verulegur bati þó enn vanti talsvert á að framleiðslan hafi náð sama magni og árið 1974. Á síðustu mánuðum“ — og þá er átt við árið 1976 — „á síðustu mánuðum hefur aftur gætt samdráttar á stálmarkaðinum. Verð á kísiljárni hefur fylgt þessari þróun. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægum og e. t. v. nokkuð hikandi bata á næstu ársfjórðungum.“

Þessi tilvitnuðu orð stjórnar Íslenska járn­blendifélagsins minna á þá staðreynd, að heims­markaðsverð á kísiljárni hefur „sveiflast mikið“ á undanförnum árum, svo að notað sé orðalag Þjóðhagsstofnunar, og þau rifja upp minning­arnar um það, að þegar járnblendimálið var lagt fyrir Alþ. á þinginu 1974–1975, þá ríkti bjart­sýni um sölu kísiljárns, en sú bjartsýni hvarf fyrr en nokkurn varði. Útlitið í markaðsmál­unum 1975 leiddi til þess að Union Carbide greiddi stórfé fyrir að verða undanþegið þeirri áhættu sem verðfall kísiljárns hlaut að hafa í för með sér.

Mín skoðun er sú, að arðsemisáætlun Íslenska járnblendifélagsins sé býsna völt ef tekið er til­lit til reynslu síðustu ára að því er varðar verð­lag á kísiljárni og markaðshorfur í sambandi við þá vöru. Ef áætlun Íslenska járnblendifé­lagsins á að standast þarf að verða mikil breyt­ing á ástandi þessara mála frá því sem verið hefur undanfarin ár. Það glæðir að vísu vonir manna um sambúðina við Elkem-Spigerverket að fyrirtæki þetta er tengdara kísiljárnsframleiðslu og sölu þess í Evrópu en Union Carbide. Má því ætla að norska fyrirtækið sýni fulla alvöru í samstarfinu þótt á móti kunni að blása. Hitt er óvarlegt, að treysta þeim spádómi, sem nú er birtur Alþ., að hagnaðarkúrfan stefni alltaf upp á við í 17 1/2 ár.

Einn er sá ókostur stóriðju eða orkufreks iðn­aðar, ef menn vilja heldur nota það nafn, að stóriðjunni fylgir margs konar mengun og önn­ur skaðsemd fyrir nánasta umhverfi sem haft getur áhrif á lífríki náttúrunnar og einnig á heilsufar manna. Járnblendiverksmiðja er engin undantekning í þessu efni. Henni fylgir mengun innanhúss og utan. Hér er um að ræða ákaflega óaðlaðandi vinnustað þar sem starfsmenn eiga von á því að vera með vitin full af ryki og öðrum óþverra, þar sem hávaði og hiti og alls konar titringur í vélum þrúgar menn daglangt og enginn veit raunar nema bráðdrepandi eitur­gufur, eins og kolsýrlingur, seytli inn í skrokk á mönnum í meiri eða minni mæli. Því miður er hvergi að finna nákvæma grg. um hollustuhætti á vinnustað járnblendiverksmiðjunnar í þeim aths. og fskj. sem dreift hefur verið með þessu þingmáli sem borið er þó fram í annað sinn á tveimur árum. Má það furðulegt heita þegar þess er gætt, að vitneskja manna um hvers kyns mengunarhættu hefur vaxið mjög á síðustu ár­um. Í fskj., I með frv., sem er samið af stjórn Járnblendifélagsins, er að vísu kafli um um­hverfismál, þar sem segir að mikil áhersla hafi ætíð verið lögð á umhverfisvernd í sambandi við rekstur járnblendiverksmiðjunnar. Segir að af hálfu Járnblendifélagsins sé fyrirhugað að verk­smiðjan verði búin öllum þeim bestu mengun­arvörnum sem völ sé á. Ég skal ekki vefengja það, að fullur vilji liggi á bak við þessi orð. A. m. k. er ég sannfærður um, að íslenskir stjórn­endur verksmiðjunnar og eins hæstv. iðnrh. séu fúsir til að verða við ítrustu kröfum í þessu efni, og þá er auðvitað bæði átt við þá mengun, sem utanhúss er, og hina innri mengun, þ. e. þá mengun sem er innanhúss í verksmiðjunni og hefur m. a. bein áhrif á heilsu og líðan starfs­manna. Mér er til efs að menn hafi leitt hug­ann nægilega að innanhússmenguninni og þeim atvinnusjúkdómum sem fylgt geta störfum í verksmiðju af þessu tagi, svo sem eins og kísil­veiki sem er mjög hættulegur og slæmur lungna­sjúkdómur.

Það kom fram á fundi iðnn. með forstöðumanni Heilbrigðiseftirlitsins, að það ætti að vera hægt að koma í veg fyrir mengunaráhrif ef öllum kröfum eftirlitsins er fullnægt. Í því sambandi skiptir tæknileg uppbygging inni í verksmiðj­unni líklega höfuðmáli. Ef á að takast að eyða mengun og gera þessa verksmiðju að nokkurn veginn skaplegum vinnustað, þá verður að vinna að því að eyðing mengunarinnar eigi sér stað „þar sem upptök hennar eru,“ eins og ég held að ég hafi orðrétt eftir forstöðumanni Heilbrigðis­eftirlitsins á fundi með okkur í iðnn. Sannleik­urinn er sá, að menn hafa allt of lítið leitt hug­ann að heilsufari starfsfólks í verksmiðjum af þessu tagi. Nóg er nú samt, þó að íslendingar láti glepjast af áróðrinum fyrir gróðanum af þess háttar verksmiðjum, þó að þeir geri sig ekki seka um að láta eins og þessir vinnustaðir séu óskaðlegir mannlegri heilsu. Nær væri að menn gerðu sér grein fyrir þeim sannleika, að allar þessar stórverksmiðjur eru hættulegar heilsu manna og með afbrigðum óaðlaðandi vinnustaðir.

Þær skýrslur, sem nú liggja fyrir um mengun­aráhrif álbræðslunnar í Straumsvík og kísiliðj­unnar í Mývatnssveit, ættu að vera viðvörun um aðgát í sambandi við nýjar verksmiðjur af sama eða svipuðu tagi. Því miður verður ekki séð af grg. eða fskj. með þessu máli að forráðamenn járnblendiverksmiðjunnar séu nægilega vel á verði í þessum efnum. Öll framsetning þessa máls er í þeim anda að gylla fjárhagslegan og þjóðhagslegan ávinning fyrirtækisins, en varla orði eytt að manneskjulegu umhverfi starfs­fólksins eða mannsæmandi vinnuaðbúnaði né heldur öryggismálum og heilbrigðisþjónustu í þrengri merkingu.

Við undirbúning þessa máls hafa forsvarsmenn þess sýnt ótrúlega lítinn áhuga á mengunarmál­um og aðbúð á vinnustað, enda vitanlegt að sá dráttur, sem verið hefur á því að þetta mál kæmi til 2. umr. í þessari hv. d., stafaði af ágreiningi um mengunarvarnir og hollustuhætti. Þó að ég hafi ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér orðalag starfsleyfis né skriflega grg. Heilbrigðis­eftirlitsins og umsögn um þetta atriði vegna þess hversu seint það barst mér í hendur fyrir þennan fund, þá er aðeins eftir að vona að ítr­ustu kröfum sé fullnægt loks þegar málið er komið á þetta stig. En um það atriði eins og annað, sem snertir þetta mál, hef ég allan fyrir­vara og bíð þess eins að reynslan skeri úr um það.

Auðvitað hefði verið æskilegt að geta rætt frekar við forstöðumann Heilbrigðiseftirlitsins um málið eftir að starfsleyfið var gefið. En ég segi eins og er, að mér finnst það ekkert aðal­atriði. Ég treysti öllum þessum málatilbúnaði mjög varlega og er á móti málinu af margvís­legum ástæðum. Það mundi ekki breyta lokaaf­stöðu minni í þessu máli þótt ég fengi fulla vissu um að öllum mengunarvörnum væri fylgt í samræmi við ítrustu kröfur Heilbrigðiseftir­litsins. Raunar fæ ég ekki betur skilið af ræðu, sem hæstv. heilbrrh. hélt hér í dag utan dag­skrár, — ég fæ ekki betur skilið en það vanti talsvert á að ítrustu kröfum sé hlítt í sambandi við veitingu starfsleyfisins, a. m. k. hvað snertir vinnslu verksmiðjunnar á meðan hreinsun á sér stað í mengunarvarnartækjunum. Og þetta kem­ur mér satt að segja ekkert á óvart. Því miður er ótalmargt sem bendir til lítils áhuga Járn­blendifélagsins og Elkem-Spigerverkets á því að koma við fyllstu mengunarvörnum. Við vitum af gamalli og nýrri reynslu að stóriðjufyrirtæki reyna með öllum ráðum að aka sér undan skyld­um í mengunarvörnum. Það kemur mér því ekk­ert á óvart í þessu efni.

Ég hef orðið var þeirrar skoðunar margra hv. alþm. og fleiri að það sé óraunhæft að standa gegn samþykkt þessa frv. eins og nú er komið. Menn segja sem svo, að Alþ. hafi tekið stefnu í þessu máli með lögum um járnblendiverksmiðju fyrir tveimur árum og því sé ekki hægt að snúa við þótt mikilvægar forsendur hafi brostið, svo sem eins og höfuðforsendan, sem var það að Union Carbide sagði sig úr Járnblendifélaginu. Ég geri mér fyllilega grein fyrir þeim vanda, sem við er að stríða, og viðurkenni að það er ekki auðhlaupið að því að hverfa frá ákvörðun­um sem teknar hafa verið. Að vísu hefur ekkert það gerst í framkvæmdum við sjálfa verksmiðju­bygginguna og aðrar framkvæmdir á verksmiðju­svæðinu sem gerir það örðugt í sjálfu sér að hætta við verkið. Það, sem í margra augum gerir það erfitt að hætta við járnblendiverksmiðjuna, er allt annað. Ástæðan er sú, að á þessu máli hef­ur verið haldið með sérstökum hætti af hálfu ís­lenskra stjórnvalda. Ástæðan er sú, að stórt og mikið raforkuver hefur verið reist svo að segja algerlega á þeirri forsendu að sett yrði á laggirnar erlent stóriðjufyrirtæki til þess að nýta bróður­partinn af framleiðslu þessa orkuvers. Sigöldu­virkjunin er grundvölluð á þeirri hugsjón að tengja skuli saman og gera óaðskiljanlegar bygg­ingu raforkuvera annars vegar og útlenda stór­iðju hins vegar.

Ég veit að margir, sem þegar hafa áttað sig á hættunni af áframhaldandi stóriðju­uppbyggingu, telja sér samt ekki fært að ganga gegn járn­blendiverksmiðjunni af ótta við að það rekist á hagsmuni Landsvirkjunar og Sigölduvirkjunar. En eins og ég segi, þá var ráðist í byggingu Sig­ölduvirkjunar út frá þeirri forsendu að komið yrði á fót stóriðjufyrirtæki til raforkukaupa frá Sigöldu. Það er líka vitað að mjög margir af ráðamönnum þjóðarinnar, bæði meðal stjórnmála­manna og embættismanna, eru ákafir stuðnings­menn þeirrar grundvallar­hugsunar í raforku­málum að tengja saman byggingu orkuvera og stóriðju­framkvæmdir. En eins og augljóst má vera, þá þýðir þetta í reynd að við neyðumst til að leita útlendra auðhringa um uppbyggingu atvinnufyrirtækja í landinu í hvert skipti sem ráðist er í virkjun til raforkuframleiðslu. Þessi stefna réð öllu í sambandi við Búrfellsvirkjun á sínum tíma, og þá var gengið svo langt að út­lendur auðhringur, Alusuisse, fékk að reisa stór­iðjufyrirtæki hér á landi án þess að íslendingar ættu nokkuð í fyrirtækinu. Og þessi stefna var ráðandi í sambandi við Sigölduvirkjun, og svo virðist einnig vera varðandi Hrauneyjafoss­virkjun, sem er næst á óskalista Landsvirkjunar. Og hvar verður numið staðar á þessari leið? Að mínum dómi er fyrir löngu kominn tími til þess að spyrna við fótum gegn þessari stefnu í raforkumálum sem hlýtur óhjákvæmilega að leiða okkur lengra og lengra út á þá braut að útlend­ingar ráði stórum hluta atvinnu- og viðskipta­lífs í landinu. Það er m. a. þetta atriði sem mig langar mjög til þess að hv. frsm. meiri hl. iðnn. og formaður iðnn., hv. þm. Ingólfur Jónsson, fari að reyna að skilja.

Hv. frsm. meiri hl. gerði raforkuverð að um­ræðuefni og varði enn samninginn milli Lands­virkjunar og Alusuisse á sinni tíð, orkusölu­samninginn, og hann hélt því enn þá fram að íslendingar hefðu haft mikinn hagnað af við­skiptunum við Alusuisse og þetta hefði verið góð­ur samningur. En um þetta hlýt ég að verða hv. þm. Ingólfi Jónssyni algerlega ósammála. Raforkusamningurinn við Alusuisse var af ýms­um ástæðum mjög gallaður, og það sést raunar miklu betur nú eftir 11 ár heldur en sjá mátti fyrir við gerð hans, og þetta hygg ég að margir muni viðurkenna sem þó studdu þennan samn­ing á sínum tíma, því að það er stundum svo að menn sjá ekki langt fram í tímann og er ekkert við því að segja. En það er hart þegar menn geta ekki séð að sér eftir mörg ár eða áratugi og viðurkennt mistök sín. Ég tel sem sagt, þvert ofan í það sem hv. þm. Ingólfur Jónsson var að segja í ræðu sinni, að raforkusamningurinn við Alusuisse hafi verið óhagkvæmur og hann sé vissulega víti til varnaðar, og þannig held ég að menn hugsi í reynd þó að þeir segi annað. Og eins er með orkusöluna til járnblendiverk­smiðjunnar nú. Þar er verðið miklu lægra en gerist t. d. í Noregi, og þannig endurtekur sig a. m. k. að nokkru leyti sagan frá 1966.

Þegar þetta mál var til meðferðar hér í d. fyrir tveimur árum, þá gerði ég ýmsar og nokkuð ítar­legar aths. við frv. um járnblendiverksmiðju og taldi málið ekki nógu vel undirbúið, hvernig sem á væri litið, út frá fjárhagslegu sjónarmiði séð. Mér þótti þá allt of mikil bjartsýni ríkja varð­andi arðsemi fyrirtækisins, auk þess sem hagnað­arvonin í sambandi við þessa stóriðju byggðist á gífurlegum fríðindum sem fyrirtækinu eru veitt, bæði að því er varðar stofnkostnað og rekstur, þannig að ekki er í neinu samræmi við það sem almennt gildir um fyrirgreiðslu við iðnaðaruppbyggingu. Endanleg afstaða mín til málsins þá var sú, að ég lýsti yfir því í ræðu hér sem nm. í iðnn., að ég treysti mér ekki til þess að mæla með samþykkt frv., og ég tók ekki þátt í atkvgr. um málið þá. Ég tel að þeir hlutir hafi gerst í þessu máli síðan það var til um­fjöllunar fyrir tveimur árum, að ástæða sé til enn meiri andstöðu við málið. Ég hef því gefið út minnihlutaálit sem felur í sér till. um að frv. verði fellt.