14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3140 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

201. mál, tónmenntafræðsla í grunnskóla

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég held að ég noti tækifærið og segi örfá orð um þetta mál fyrst það er hér á dagskrá öðru sinni.

Ég er meðflm. að till. þessari til þál. um tón­menntarfræðslu í grunnskóla á þskj. 403. Þegar till. þessi kom til umr. hér í hv. þd. fyrir páska flutti hv. 1. flm., 9. landsk. þm., framsöguræðu með hefðbundnum hætti þar sem till. var rædd og skýrð í meginatriðum. Þá talaði og hv. 5. þm. Vesturl. Ég sé að hann er nú ekki í sínu sæti, en læt samt þessi fáu orð falla, sem snúa að honum, eigi að síður. Ræða hans birtist í Þjóðviljanum í gær, að ég ætla, og málflutning­ur hans snerist mikið upp í það að bera saman þessa till., sem hér er til umr., og till., sem flutt var á Alþ. og samþ. sem þál. 29. apríl 1974. Í umræddri Þjóðviljagrein kemst hann þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir því að enginn þeirra fjögurra þm., sem að þessari till. standa, virðist hafa vitað um þál. frá 1974.“ Taldi hann í raun­inni óþarft að vísa þessari till. til n., hvað þá heldur meira.

Nú er það svo að iðulega verður ágreiningur um það, hver eigi fyrstu hugmynd eða frum­kvæði að ákveðnu máli. Skal ekki gert lítið úr framlagi hv. 7. landsk. til þessa málefnis. Ég man að vísu ekki hvort hann var 7. eða 6. landsk. þm. á þeim tíma sem hann flutti svipaða till. Þó að listamenn ýmsir afli fanga til verka sinna með margvíslegu móti þarf ekki að vera um neitt syndsamlegt athæfi að ræða. Höfundur að hug­verki á að vísu eignarrétt á því, þó með þeim takmörkunum sem greinir í gildandi höfunda­lögum. En svipaðar hugmyndir kunna að kvikna í hugskoti tveggja manna eða fleiri um svipað leyti. Það eru ekki ýkjamörg ár síðan sungið var hérlendis eitthvað á þessa leið „Ertu frónsk eða frönsk dómínó?“ Og sama lagið getur verið útsett með ýmsum hætti, þannig að um höfundar­rétt verði að ræða á ákveðinni útsendingu. Verst er þegar öndvegisverk, hvort sem þau eru á sviði tónlistar eða öðrum sviðum, eru tekin og færð í allt annan búning, jafnvel skrumskæld frá sinni upphaflegu mynd.

Á undanförnum árum og áratugum hefur mikill fjöldi þáltill. verið fluttur hér á hinu háa Alþ. Þær eru að sjálfsögðu mjög misjafnar að gæðum og áhrifum. Sumir telja þær gagns­litlar, jafnvel tímasóun að flytja þáltill. og ræða þær. En almennt hafa þm. viljað eiga og reka þennan hugmynda- eða hugsjónabanka sinn, ef svo má að orði komast, láta gamminn geisa öðru hvoru. Það er ekki alltaf að þessar till. séu í hnitmiðuðu formi eða allt flutt á hnitmiðaðan hátt, heldur eru till. þessar oft og iðulega ná­skyldar að efni og orðfæri þegar betur er að gáð. Sumum efnum er margoft hreyft í lítt breyttu formi. Önnur ber á góma aðeins einu sinni. Ég held t. d. að þáltill. um samræmingu á leturborð­um ritvéla hafi aðeins verið flutt einu sinni. Á hinn bóginn hafa margar þáltill. verið fluttar um heyverkun og heyverkunaraðferðir o. s. frv., hver annarri lík.

Það má segja náttúrlega, að þessi till. okkar flm. sé ekki ýkja-frumleg, en eigi að síður snert­ir hún mjög mikilvægan vettvang mennta- og fræðslumála og því má segja að að því leyti sé góð vísa aldrei of oft kveðin. Ég vek sérstaka athygli á þeirri setningu í till. þar sem segir að hugað verði sérstaklega að því, hvernig tengja megi starf sérstakra tónlistarskóla, þar sem þeir eru fyrir, við tónmenntarfræðslu grunnskólanna. Þetta er að vísu meginverkefni við að fást. Þetta er að vísu meginverkefni við að fást. Þetta er ekki ósvipað því, að ég tel að leggja þurfi mikla áherslu á að tengja saman eða kenna skóla­nemendum að nota og nýta almenningsbókasöfn sér til fróðleiks og aukins þroska. Það er ekki ósvipað þegar rætt er um þátt tónlistarinnar í almennri fræðslu og á hinn bóginn hina sérstöku tónlistarskóla.

Það má segja að á undanförnum árum hafi ýmislegt þokast í rétta átt í þessum efnum. Það mun hafa verið fyrir tveimur árum eða svo að samþykkt voru á Alþ. lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Þar var kveðið svo á eitthvað á þá leið, að ríkið greiði launakostnað skólastjóra og kennara til hálfs á móti sveit­arfélöum. Framlag ríkisins nemur á fjárl. 1977 155.4 millj. kr. til tónlistarfræðslu utan grunn­skólans, þ. e. a. s. til hinna ýmsu tónlistarskóla víðs vegar um landið. Hér er vissulega um mik­ilsverðan stuðning að ræða við tónlistarlíf í landinu og hefur víða komið að góðum notum. Ég get minnt á það, þar sem ég þekki best til á Vesturlandi, að þar er það svo — að vísu hefur starfað í Stykkishólmi tónlistarskóli frá 1964 með miklum ágætum, en hins vegar er ekki lengra síðan en líklega eitt eða tvö ár að tónlistar­skólar tóku til starfa í þéttbýlinu á Snæfells­nesi, bæði í Grundarfirði, í Ólafsvík og á Hellis­sandi. Nú starfa tónlistarskólar á öllum þessum stöðum. Það er mikill áhugi á þessari starfsemi og hún er í miklum blóma eins og stendur. Tón­listarskóli fyrir Dalasýslu tók til starfa á s. l. hausti. Allt er þetta allmerkilegt og vert að virða það sem vel hefur verið gert í þessum málum.

Þar sem ekki er fjölmenni í hv. deild ætla ég ekki að fara mörgum orðum í viðbót um þessa till., þó að ég vildi segja um hana örfá orð. En ég leyfi mér samt að segja að lokum, að þó að í þessari till. sé e. t. v. fátt eitt sagt sem ekki hefur verið áður sagt eða sviðsett af einhverjum öðrum, þá hygg ég að hún geti haft nokkurt gildi. Ég man að hv. 5. þm. Vesturl. sagði m. a. í sinni ræðu að sjaldan væri góð vísa of oft kveðin, og er það orð að sönnu. Ítrekun og endur­tekning er ávallt eða mjög oft nauðsynleg að vissu marki. Góð mál ná sjaldnast samþykki alveg fyrirhafnarlaust. Verði þessi þáltill. til þess að vekja fleiri en áður til umhugsunar um þau sannindi, að iðkun og þekking á söng og tónmennt sé æskilegur og sjálfsagður þáttur í menntun og menningarlífi alls almennings, fólksins í landinu, og e. t. v. til þess að efla óþvingaðan og eðlilegan söng í skólum, þá er nokkrum árangri náð og til einhvers unnið að mínum dómi.