15.04.1977
Sameinað þing: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Utanrrh. (Einar Ágúatsson):

Herra forseti. Eins og nú er orðin venja mun ég leitast við að gefa Alþingi skýrslu um utanríkismál, eins og árlega hefur verið gert nú um nokkurt skeið, og geta þá jafnframt um samskipti Íslands við aðr­ar þjóðir, bæði tvíhliða viðskipti og þátttöku í alþjóðastofnunum. Að ósk þm., sem fram kom á síðasta Alþ., er skýrslan heldur fyrr á ferð­inni og með aðeins öðrum hætti en áður hefur tíðkast.

Það er nokkuð síðan þessi skýrsla var lögð fram, og það er ekki mín sök að hún er ekki rædd fyrr, það hafa önnur mál verið þýðingar­meiri hér á hv. Alþ. og hef ég ekkert um það að segja. Mér er það nægilegt að okkur tókst að leggja skýrsluna fram nokkurn veginn á þeim tíma sem um var beðið. Hvenær hún er rædd er svo algerlega á valdi forseta Alþingis.

Með þessari skýrslu hefur nú verið dreift sem fskj. skýrslu fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um síðasta Allsherjarþingið og þess vegna mun ég ekki rekja störf þess í skýrslu minni eins náið og gert hefur verið í fyrri skýrslum. En ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að ræða þessa skýrslu einnig, ef þess kann að verða óskað, og vil aðeins, áður en ég hef ræðnna geta þess, að það hefur orðið blaðsíðu­ruglingur. Á eftir bls. 58 kemur 113, en bls. 59 er svo á eftir nr. 112. Þessu hafa menn eflaust tekið eftir, þeir sem lesið hafa skýrsluna, en svona til fróðleiks öðrum kannske get ég þessa.

Engar breytingar hafa orðið á meginatrið­um íslenskrar utanríkisstefnu, en hún byggist á þátttöku okkar í Sameinuðu þjóðunum, nor­rænni samvinnu, þátttöku okkar í NATO, þátt­töku okkar í stofnunum er fjalla um viðskipta­mál, samskiptum við Efnahagsbandalagið og vinsamlegum samskiptum við allar þjóðir.

Aðalutanríkismál íslendinga undanfarinn aldar­fjórðung hefur verið landhelgismálið. Nú má segja að takmarkinu sé náð með hinni nýju 200 mílna efnahagslögsögu okkar. Ég mun ekki rekja sögu landhelgismálsins, hún er Alþ. vel kunn. Fram undan er nú að nýta auðæfin, sem finnast á þessu efnahagssvæði okkar, á skynsamlegan og arðvænlegan hátt, þannig að fiskurinn verði til frambúðar vaxandi forði fyrir okkur og öðr­um til góðs. Ég mun víkja síðar nokkrum orð­um að hafréttarmálum almennt.

Nú hefur hinn nýi forseti Bandaríkjanna setið við völd í næstum tvo mánuði. Erfitt er að spá hvaða breytingar kunna að verða á utanríkis­stefnu Bandaríkjanna, þó virðist Carter forseti leggja meiri áherslu á mannréttindi eða réttara sagt brot á þeim í samskiptum við aðrar þjóðir og afstöðu Bandaríkjanna til þeirra. Ég tel að fagna beri þessu aukna tilliti til mannúðar og baráttu fyrir mannréttindum, enda er umvöndun hans beint til allra sem gerast brotlegir á þessu sviði, þótt segja megi að þar sem öryggisástæður gegna miklu hlutverki er áhersla aðeins léttari.

Hvaða áhrif þessi stefna kann að hafa á þróun samskipta Bandaríkjanna og Sovétríkjanna er erfitt að segja, en hinir síðarnefndu telja þetta freklega íhlutun í innanlandsmál sín. Höfuðatrið­ið er að samningatilraunir til að takmarka fram­leiðslu kjarnavopna og takmörkun hervæðingar í Mið-Evrópu haldi áfram og beri einhvern árang­ur. Samningar þessir hafa staðið í mörg ár og árangur því miður orðið sáralítill. Vopnafram­leiðslan heldur stöðugt áfram, vopnin verða ægi­legri og ægilegri með hverju árinu. Ísland styð­ur og mun styðja allar þær tilraunir sem gerðar eru á alþjóðavettvangi til að draga úr hernaðar­kapphlaupinu, og ég nefni þar t. d. auka-alls­herjarþing Sameinuðu þjóðanna sem fjalla á um afvopnun og haldið verður á næsta ári.

Í septembermánuði s. 1. lést Mao Tse-tung, formaður, leiðtogi kínversku þjóðarinnar um ára­bil. Með honum hvarf af sjónarsviðinu einhver áhrifamesti og mikilhæfasti stjórnmálamaður aldarinnar. Nokkur átök hafa orðið í Kína eftir dauða hans milli ýmissa afla innan flokksins. Eftir því sem næst verður komist mun ekki verða um miklar stefnubreytingar að ræða í utanríkis­málum þessa mikla ríkis. Stefnan virðist enn byggjast á jafnvægiskenningu í heimsáhrifum, þannig að komi fram breyting í samskiptum við eitt stórveldið kemur fram mótvegandi breyting í samskiptum við hitt eða við ríkjabandalög og ríkjasamstæður. En ég er ekki spámaður og framtíðin verður að skera úr þessu.

Ástandið í Mið-Austurlöndum á s.l. ári ein­kenndist mjög af hinni hörmulegu borgarastyrj­öld í Líbanon, sem nú er nýlega lokið. Samein­uðu þjóðirnar hafa byrjað fjársöfnun til upp­byggingar í Líbanon og hefur Ísland þegar lagt fram 5000 dollara í því skyni. Ástandið í Mið- Austurlöndum hefur undanfarin ár haft mikil áhrif á gang heimsmála. Ísland hefur stutt þá afstöðu Sameinuðu þjóðanna, sem fram kemur í ályktun Öryggisráðsins nr. 242 frá 1967, sem fordæmir töku landssvæðis með hervaldi og hvet­ur til þess að varanlegum og réttlátum friði verði komið á í Mið-Austurlöndum. Ályktun Öryggis­ráðsins kveður á um að Ísraelar hverfi heim frá herteknu svæðunum og að landamæri og stjórn­málalegt sjálfstæði viðkomandi þjóða verði tryggt og viðurkennt til frambúðar. Ályktunin gerir enn fremur ráð fyrir friðhelgi ríkja á svæðinu, rétt­látri lausn á flóttamannavandamálinu og stofnun hlutlausra beita milli deiluaðila.

Margt bendir til þess að deiluaðilar í Mið-Austur­löndum séu nú fúsari en áður til að hefja umr. um friðsamlega lausn deilumála, og standa vonir til að ýmis formsatriði varðandi viðræð­urnar leysist von bráðar.

Ástandið í sunnanverðri Afríku var ofarlega á baugi á árinu 1976. Var fjallað ítarlega um þessi mál á 31. Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, eins og fram kemur í skýrslu fastanefndar Ís­lands. Ísland studdi flestar till., sem fram komu á þinginu og miða að því að koma á meirihluta­stjórn í Suður-Afríku og Rhódesíu og stuðla að fullum mannréttindum þar. Ísland hefur hins vegar ásamt hinum Norðurlöndunum fylgt þeirri stefnu, að leggja beri áherslu á að réttlæti nái fram að ganga í sunnanverðri Afríku án þess að koma þurfi til valdbeitingar eða ófriðar, og hefur jafnan setið hjá um till. á þingum Sameinuðu þjóðanna sem hvetja til valdbeitingar, enda ganga slíkar till. í berhögg við stofnskrá Sameinuðu þjóðanna.

Norðurlöndin hafa fremur kosið að hvetja til pólitískra og efnahagslegra aðgerða til að hafa áhrif á minnihlutastjórn hvítra manna í sunnanverðri Afríku. Á 31. Allsherjarþinginu flutti fastafulltrúi Íslands ræðu um ástandið í Suður-Afríku þar sem fordæmd var harðlega kynþáttastefna stjórnarinnar og ofbeldisverk hennar í Soweto. Jafnframt var lýst yfir stuðn­ingi Íslands við svarta meiri hlutann og hvatt til frekari aðgerða Öryggisráðsins í þessum mál­um.

Augljóst er að ástandið í sunnanverðri Afríku er mjög slæmt og stefnir að meiri háttar átök­um haldi áfram sem nú horfir. Málamiðlunartill. breta og Bandaríkjanna í Rhódesíu og kröfur blökkumanna um stjórnarítök hafa hlotið lítinn hljómgrunn hjá valdhöfum hvítra mann enn sem komið er. Ísland mun halda áfram að styðja alla þá viðleitni í þessu vandamáli sem sam­ræmist stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og felur í sér friðsamlega og réttláta lausn fyrir íbúa þessa heimshluta. Og enn er haldið áfram að reyna að koma á friði í sunnanverðri Afríku, eins og nýjustu fréttir benda til og gerst hefur eftir að þessi skýrsla var samin og lögð fram.

Flestum mun enn í fersku minni ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu sem haldin var á árunum 1973–1975 í Helsinki og Genf. Henni lauk með því að stjórnarleiðtogar hinna 35 þátttökuríkja undirrituðu Helsinki-samþykkt­ina svokölluðu. Þar var m. a birt yfirlýsing um meginreglur, sem þátttökuríkin hétu að fylgja í samskiptum sínum, og lagður nokkur grund­völlur að auknum og frjálsari samskiptum ríkj­anna á ýmsum sviðum. Umdeilt var, þegar sam­þykktin var gerð, hvort eða hver ávinningur væri að henni, og eru skoðanir máske sums staðar skiptar um þetta enn þá. Ég hygg þó að fullreynt sé að rétt spor hafi verið stigið með ráðstefnuhaldi þessu og Helsinki-samþykktinni, að hún hafi þegar orðið til þess að styrkja fram­gang góðra og þarflegra mála. Hinu er þó síst að leyna, að framkvæmd margra þátta samþykkt­arinnar er tæpast hafin eða mjög skammt á veg komin.

Í samræmi við ákvæði Helsinki-samþykktar­innar sjálfrar verður síðar á þessu ári haldinn í Belgrad í Júgóslavíu fundur þar sem væntan­lega mun fást góð yfirsýn yfir hvað áunnist hefur í málefnum sem samþykktin fjallaði um á þeim um það bil tveim árum sem liðin verða frá undirritun hennar. Ég vil taka fram, að ég tel ekki að þessi fundahöld í Belgrad eigi að verða neins konar réttarhöld yfir þátttökuríkj­unum; þar sem reynt verði að draga þau til dóms fyrir það sem kann að hafa skort á fulla fram­kvæmd hinna ýmsu þátta samþykktarinnar. Ekki var raunhæft að búast við öðru en að breytingar í kjölfar hennar tækju nokkurn tíma. Og á ný­afstöðnum utanrrh.-fundi Norðurlanda var þessi skoðun áréttuð. En ég tel mikilvægt að fulltrúar þátttökuríkjanna noti þetta nýja tækifæri sem allra best til þess að leggja í jákvæðum anda á ráðin um frekari aðgerðir á hinum ýmsu svið­um samþykktarinnar. Ekkert lát má verða á við­leitninni til að treysta og bæta sambúð þeirra um allt ólíku ríkja sem hér um ræðir.

Íslendingar hafa svo sem aldrei þurft að gerast aðilar að mannréttindasamþykktinni. Þau hafa verið hér í heiðri höfð, mannréttindin, æðilengi, og sama má raunar segja um mörg önnur ríki Vestur-Evrópu. En sífellt getur gott batnað, og við munum kappkosta að fylgja Hels­inki-samþykktinni út í æsar í þeirri von og trú að aðrir geri slíkt hið sama.

Það, sem athyglisverðast var við síðasta Alls­herjarþing Sameinuðu þjóðanna, var aukinn vilji þátttakenda til að reyna að ná samkomulagi án atkvgr. Andinn virðist annar en á undanförn­um þingum.

Dæmi um þetta var Kóreumálið. Ákveðið var að það skyldi ekki rætt á þinginu þar sem frekari umræður gætu spillt fyrir lausn málsins. Þannig var komið í veg fyrir samþykkt till. sem ganga í berhögg hvor við aðra, eins og fyrir kom á þinginu á undan. Eins var aðgangur ekki eins harður í till. varðandi Mið-Austurlönd og Afríku. Frekari upplýsingar um þingið er að finna í skýrslu fastanefndarinnar sem ég áðan nefndi.

Á þessum síðasta aldarfjórðungi 20. aldarinn­ar stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að mannkynið verður að beita kröftum sínum til að koma í veg fyrir eða draga úr þeirri hættu, að staðbundin smástríð eða vopnuð átök breiðist út og verði að tortímingarstríði. Það verður að hindra frekari útbreiðslu kjarnavopna og aftra því, að geislavirk efni, sem dreift er vegna orku­framleiðslu í öðrum friðsamlegum tilgangi, verði nýtt til vopnaframleiðslu til árása sem leitt gætu til allsherjar kjarnorkuvopnastyrjaldar.

Það er mitt álit að framtíð mannkynsins bygg­ist á því að þessi vandamál leysist. Það er sann­færing mín að Sameinuðu þjóðirnar séu eini vett­vangurinn þar sem mögulegt er að vinna að lausn þessara mála á öllum sviðum. Sameinuðu þjóð­irnar geta bætt ástandið og misræmið á efna­hagssviðinu og barist gegn hungrinu sem nú fell­ir milljónir manna á ári hverju og kemur í veg fyrir að aðrar ótaldar milljónir öðlist fullan and­legan og líkamlegan þroska. Þær geta beitt nýj­ustu vísindaaðferðum við að lækna smitandi sjúkdóma í heiminum. Þær geta opinberað fyrir alheimi, ef mannréttindi eru þverbrotin, og stuðl­að að því að úr því verði bætt. Þær geta dregið úr hættunni á dreifingu kjarnavopna. Þær geta vonandi komið í veg fyrir deilur og vopnuð átök, sem leitt gætu til heimsstyrjaldar. Það er sann­færing mín að Sameinuðu þjóðirnar gætu gert þetta, sáttmálinn, samþykktirnar og stofnanirnar, sem eru verkfærin til að hrinda þessu í fram­kvæmd, eru fyrir hendi. Á vantar aðeins vilja þátttökuríkjanna til að notfæra sér þessi verk­færi til hins ítrasta. Eins og ég sagði í ræðu minni á síðasta Allsherjarþingi: Samtök verða ekki miklu betri en aðilarnir sem mynda þau.

Á s. l. ári voru haldnir í New York tveir fundir Hafréttarráðstefnunnar. Þótt á fundun­um hafi náðst verulegur árangur, sérstaklega hvað snertir auðlindalögsögu strandríkis, eru enn óleyst mörg meiri háttar deilumál. Ekki er því talið að takast muni að ná endanlegu samkomu­lagi á næsta fundi ráðstefnunnar sem hefst í New York 23. maí.

Ágreiningur um valdsvið fyrirhugaðrar Alþjóða­hafsbotnsstofnunar hefur einna mest tafið störf ráðstefnunnar, en í stuttu máli sagt vilja þróunar­löndin að hagnýting auðlinda á svæðinu fyrir utan lögsögu strandríkja fari fram sem mest á vegum hafsbotnsstofnunar, en iðnþróuðu ríkin telja að starfsemi einstakra ríkja og fyrirtækja eigi að vera sem minnst háð yfirráðum stofnun­arinnar. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til mála­miðlunar hefur lítill sem enginn árangur náðst. Það hefur torveldað samkomulag, að margar hliðar fyrirhugaðrar starfsemi hafsbotnsstofnun­arinnar eru ókunnar, en einnig er hér um að kenna skipulagi viðræðnanna sjálfra. Reynt verð­ur að ráða bót á þessu á næsta fundi ráðstefn­unnar, en þar verða fyrstu vikurnar helgaðar viðræðum um alþjóðahafsbotnssvæðið, en í þeim eiga formenn sendinefnda einkum að taka þátt. Fulltrúar hafa einnig verið hvattir til að stofna til óformlegra viðræðna um þessi mál, en nýaf­staðinn er tveggja vikna fundur undir for­mennsku Jens Evensens og lofa niðurstöður góðu um áframhaldandi sáttatilraunir.

Eins og ég gat um hefur verulegur árangur náðst um öll atriði varðandi lögsögu strandríkja. Á fyrri fundinum á s. 1. ári voru ítarlega könnuð drögin að samningi sem formenn nefndanna lögðu fram í lok Genfarfundarins 1974. Á forsendum þessarar könnunar voru gefnir út endurbættir textar. Á seinni fundinum var lögð áhersla á þau mál sem ekki hafði náðst samkomulag um, og má þar nefna m. a. aðgang landluktra ríkja að sjó, réttindi erlendra ríkja í lögsögu strand­ríkis, nánari skilgreiningu landgrunnsins, lausn deilumála, reglur um vísindarannsóknir og ráð­stafanir gegn mengun. Komist var nærri lausn sumra þessara mála, enda hefur atburðarás utan ráðstefnunnar haft sín áhrif. En nú virðist aug­ljóst að ekki verða síðustu skrefin til samkomu­lags stigin fyrr en lausn finnst varðandi alþjóða­hafsbotnssvæðið.

Verkefni íslensku sendinefndarinnar hefur verið að stuðla að heildarsamkomulagi, sem skerði ekki yfirráðaréttinn yfir auðlindum, sem strandríki er ætlaður samkvæmt áður nefndum samningsdrögum. Stefnt er að því að taka þátt í sarmningaumleitunum og fylgjast sem best með öllu sem fram fer á ráðstefnunni, en einkum með þeim atriðum sem varða hagsmunamál ís­lendinga sérstaklega. Þetta er mjög vandasamt verk og í mörg horn að líta. Óhætt er að fullyrða að starf íslensku sendinefndarinnar undanfarin ár hefur heppnast sérlega vel.

Aðgerðir í öryggismálum hafa sem kunnugt er þann höfuðtilgang að tryggja eins og best má verða að þjóð geti búið sjálfstæð í landi sínu við það þjóðskipulag sem hún kýs sér, en þurfi ekki að sæta utanaðkomandi íhlutun. Í ótryggum heimi, þar sem mikill, ég vil segja óheyrilegur vígbúnaður er eitt helsta einkennið og dæmi um yfirgang of mörg, hefur fámennri og vopnlausri þjóð okkar þótt óhjákvæmilegt að vera aðili að varnarbandalagi þeirra ríkja sem svipuðust sjónarmið hafa og við. Sú stað­reynd breytir ekki þeirri ósk okkar og von, að sem allra fyrst náist sá árangur á sviði afvopn­unarmála og umbóta í heiminum að slíkra sér­stakra ráðstafana gerist ekki þörf.

Ég hygg að óþarfi sé að ræða öryggismál frekar hér við þessa umr., þar eð á dagskrá er till. sem væntanlega verður rædd annaðhvort síðar í dag eða þá á seinni fundum og fjallar einmitt um þessi mál sérstaklega. Ég mun því sleppa því að ræða þau meira en orðið er.

Samstarfið innan vébanda Evrópuráðsins á um­liðnu ári var með svipuðum hætti og áður. Einn merkasti viðburður ársins, að því er til Evrópu­ráðsins tók, var sá, að Portúgal öðlaðist fulla aðild að ráðinu og var þar með 19. aðildarríki þess. Gerðist þetta að undangengnum frjálsum kosningum, þeim fyrstu sem farið hafa fram þar í landi um 50 ára skeið með lýðræðislegum hætti. Þar með hafði Portúgal uppfyllt þau skilyrði, sem stofnsamningur Evrópuráðsins og Mannréttindasáttmáli Evrópu setja hverju því ríki, sem öðlast vill aðild að ráðinu, um grund­vallarmannréttindi og lýðræðislega stjórnar­hætti. Var það öllum fyrri aðildarríkjum Evrópu­ráðsins mikið fagnaðarefni að geta boðið Portúgal á þennan hátt velkomið í hóp lýðfrjálsra landa í Evrópu. Á það ekki síst við um Ísland, þar eð Portúgal er einn af stærstu kaupendum íslenskra fiskafurða.

Í júnímánuði 1976 kom hingað til lands fisk­veiðinefnd Ráðgjafarþings Evrópuráðsins, bæði til þess að halda hér einn af sínum reglulegu fundum og til þess að kynna sér fiskveiði- og fiskverndunarmál hér á landi. Meðlimir n. heim­sóttu frystihús og skipasmíðastöð, áttu fund með fiskifræðingum í Hafrannsóknastofnun, fóru í landhelgisflug o. fl. Á síðasta fundi Ráðgjafar­þings Evrópuráðsins var af hálfu n. lögð fram skýrsla um hafréttarmál og vernd auðæfa hafs­ins, og má segja að þar sé mjög hallast að þeirri stefnu sem íslendingar hafa um árabil barist fyrir, bæði að því er tekur til réttinda strand­ríkja til aukinna yfirráða yfir fiskimiðum sín­um og til fiskverndarmála.

Í lok janúarmánaðar s. 1. var vígt nýtt Evrópu­ráðshús í Strasbourg, vegleg og mikil bygging þar sem bæði Evrópuþingið og Ráðgjafarþing Evrópuráðs munu framvegis halda fundi sína, auk ráðherranefndarinnar að sjálfsögðu. Vígslan fór fram á sérstökum hátíðarfundi er forseti Frakklands stjórnaði. Í sömu vikunni hélt ráð­gjafarþingið einn af sínum reglulegu þingfund­um, auk þess sem ráðherranefndin kom saman til fundar og sátu þann fund utanrrh. flestallra aðildarríkja Evrópuráðsins, þ. á m. utanrrh. Íslands. Sú er venja, að formaður eða varafor­maður ráðherranefndarinnar flytji Ráðgjafar­þinginu um þetta leyti árlega skýrslu n. Svo vildi til að þann dag, sem þessi liður var á dag­skrá þingsins, gat hvorki formaður n., sem er utanrrh. Grikklands, né varaformaðurinn, utan­rrh. Írlands, komið því við að vera að heiman. Það kom því í minn hlut að flytja þinginu skýrslu n. Gerði ég það í alllangri ræðu. Fjallaði fyrri hluti hennar að meginefni um störf ráðherra­nefndarinnar á umliðnu ári, en í síðari hluta ræðunnar fjallaði ég aðallega um utanríkismál Íslands, afstöðu þess til ýmissa alþjóðamála, þróunina í fiskveiði- og hafréttarmálum o. s. frv. Þá er ræðunni lauk svaraði ég svo sem venja er fjölda fsp. frá þm. um ýmis mál sem ráð­herranefndin hafði fjallað um og látið til sín taka.

Auk þess, sem hér er getið, undirritaði ég í þess­ari ferð þrjá Evrópusáttmála sem ákveðið hefur verið að Ísland gerist aðili að, en það er Evrópu­samningur um aðgerðir gegn alþjóðlegum hermd­arverkum, Evrópusamningur um réttarstöðu óskil­getinna barna og Evrópusamningur um meðferð og vernd húsdýra.

Svo sem kunnugt er hefur Ísland þegið að­stoð frá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna undanfarin 5 ár, sem nemur um það bil einni millj. dollara. Fé þetta hefur runnið til ýmissa rannsóknarverkefna í iðnaði, landbúnaði og sjáv­arútvegi. Á síðasta aðalfundi Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í sumar var ákveðið að út­hluta Íslandi sömu fjárhæð næstu 5 árin. Ríkis­stj. tók hins vegar þá ákvörðun að afþakka þessa aðstoð á þeirri forsendu, að vanþróuð ríki ættu að hafa forgang að slíkri aðstoð og að rétt þyki að Ísland sé frekar gefandi en þiggjandi að sjóðum Sameinuðu þjóðanna. Fastafulltrúi Ís­lands hjá Sameinuðu þjóðunum afþakkaði form­lega þennan styrk á síðasta Allsherjarþingi sam­takanna. Framlag Íslands til Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er 16 millj. kr. árið 1977, en auk þess greiðir Ísland 80 millj. kr. til Al­þjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) á sama tíma­bili. Sérstakur sjóður um aðstoð Íslands við þró­unarlöndin fær 25 millj. til ráðstöfunar á fjárl. 1977, sem er um það bil helmingi hærri fjárhæð en árið áður. Meiri hluti þeirrar fjárhæðar renn­ur til samnorrænna verkefna í Kenýa og Tanzan­íu.

Sem kunnugt er hvatti Allsherjarþing Sam­einuðu þjóðanna á sínum tíma til þess að hin þróuðu aðildarríki samtakanna létu allt að 0.7% af þjóðarframleiðslu renna til þróunarlandanna.

Ljóst er að auka þarf framlag Íslands til þró­unarlandanna talsvert ef ná á þessu marki, en geta má þess, að Svíþjóð og Noregur eru meðal þeirra fáu þjóða sem nú þegar hafa náð áður­nefndu markmiði. Það hefur verið stefna ís­lendinga að greiða framlög sín beint til viðkom­andi alþjóðastofnana, svo sem UNDP og IDA, þannig að þau komi að sem bestum notum. Ekki hefur verið talið ráðlegt að taka upp ein­hliða aðstoð við þróunarlöndin af Íslands hálfu vegna þess mikla kostnaðar sem stjórn slíkrar aðstoðar hefði í för með sér. Skynsamlegast hefur verið talið að nýta þær stofnanir, sem þegar eru fyrir hendi á alþjóðavettvangi og hafa yfir nauðsynlegri sérþekkingu að ráða. E. t. v. má segja að samnorræna aðstoðin við Afríku­lönd sé undantekning, en í því tilviki höfum við að miklu leyti notið aðstoðar hinna Norður­landanna. Íslenskir sérfræðingar hafa í mörg ár starfað á vegum sérstofnana Sameinuðu þjóð­anna, og má þar sérstaklega nefna sérfræðinga í sjávarútvegi sem starfa á vegum FAO.

Eitt það markverðasta, sem skeði í utanríkis­viðskiptum okkar á árinu 1976, var að bókun nr. 6 við viðskiptasamning Íslands og Efnahags­bandalagsins tók gildi 1. júlí 1976, eftir að sam­komulag hafði tekist í fiskveiðideilunni við Bretland. Tollar á íslenskum sjávarafurðum, sem bókunin náði til, lækkuðu þar með í Efna­hagsbandalagslöndunum um 80%, eins og bókunin hefði tekið gildi um leið og fríverslunarsamn­ingurinn 1. apríl 1973, en síðustu 20% falla niður l. júlí 1977. Tollur á ísfiski og heilfryst­um fiski verður samt ekki alveg afnuminn, held­ur var hann strax 1. júlí 1976 lækkaður úr 15% niður í 3.7% fyrir ísaðan eða heilfrystan þorsk, ýsu og ufsa, en úr 8% niður í 2% fyrir ísaðan eða heilfrystan karfa. Um frekari lækkun verður ekki að ræða. Hins vegar fékkst viðurkenning bresku og dönsku ríkisstj. á því, að þær sjávar­afurðir, svo sem fryst flök og rækja, sem voru tollfrjálsar í Bretlandi og Danmörku á meðan þessi lönd voru í EFTA, skyldu verða tollfrjálsar að nýju þegar í stað.

Eftir að þessi tollfríðindi hafa fengist hefur skapast góð aðstaða fyrir útflutning okkar í mik­ilsverðum markaðslöndum. Má telja hvað snertir opinber afskipti að við stöndum betur að vígi nú með að selja afurðir okkar heldur en nokkru sinni fyrr. Innflutningur á flestum útflutnings­vörum okkar er nú frjáls í helstu markaðslönd­um okkar, og enn fremur hafa tollar að mestu leyti verið afnumdir í EFTA-löndum og EBE- löndum. Í stærsta markaðslandi okkar, Banda­ríkjunum, var tollur á frystri fiskblokk felldur niður samkv. samningum á vegum GATT, sem gerðir voru 1967, en tollur á freðfiskflökum í Bandaríkjunum er nú aðeins um 2% miðað við núverandi verðlag.

Hin alþjóðlega efnahagskreppa, sem fylgdi í kjölfar hinnar gífurlegu verðhækkunar á olíu fyrir þrem árum, hefur haft mikil áhrif á utan­ríkisviðskipti okkar. Á síðasta ári fór þó aftur að rofa til og gætti þess verulega í batnandi vöruskiptajöfnuði okkar. Það er athyglisvert, að þrátt fyrir efnahagsörðugleikana forðuðust flest iðnaðarríki að grípa til innflutningshafta. Efna­hags- og framfarastofnunin (OECD) í París hefur unnið markvisst að því að koma í veg fyrir að einstök lönd taki upp innflutningshöft. Á ráð­herrafundi stofnunarinnar 1974 stóðu aðildarríkin að yfirlýsingu, þar sem þau skuldbundu sig til að grípa ekki til innflutningshafta þar eð slíkar ráðstafanir mundu óhjákvæmilega leiða til gagn­aðgerða og þar af leiðandi aðeins verða til þess að auka efnahagserfiðleikana. Þessi yfirlýsing, sem var gefin til eins árs í senn, hefur tvívegis verið endurnýjuð, síðast á ráðherrafundi OECD-landanna 1976. Er almennt viðurkennt að yfir­lýsingin hafi borið tilætlaðan árangur.

Innan Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) hefur einnig verið unnið að því að vernda og treysta þá fríverslun sem samtökin byggjast á. Af EFTA-löndunum hefur Portúgal átt í mestum erfiðleikum, þar sem landið hefur orðið fyrir miklum áföllum á efnahagssviðinu samtímis miklum stjórnmálasviptingum. Hafa EFTA og einstök aðildarríki þess sýnt mikinn áhuga á vandamálum og baráttu Portúgals fyrir lýðræði og efnahagslegum framförum. Til að styðja þessa viðleitni ákváðu EFTA-löndin að stofna í fyrra sérstakan iðnþróunarsjóð fyrir Portúgal eftir þeirri fyrirmynd sem Norðurlöndin gáfu með stofnun iðnþróunarsjóðs fyrir Ísland þegar við gengum í EFTA árið 1970. Ísland er aðili að portúgalska iðnþróunarsjóðnum og framlag þess er 1% af stofnfénu eða jafnvirði einnar millj. dollara, sem greiðast á 5 árum. Hv. alþm. muna að sjálfsögðu er þeir samþykktu lög þess efnis.

Í ráðgjafarnefnd EFTA, þar sem sitja fulltrúar atvinnulífsins, hafa fulltrúar alþýðusambandanna beitt sér fyrir því, að á vegum EFTA væri tekið upp nánari efnahagssamstarf í því skyni að draga úr atvinnuleysi og verðbólgu. Einnig hafa þessir aðilar mælt með því að samstarf milli EFTA-landanna og Efnahagshandalagsins verði aukið á sviði efnahags- og fjármála með hliðsjón af því, að frá 1. júlí 1977 verði komin á fríverslun, aðal­lega með iðnaðarvörur, á milli 16 ríkja Evrópu. Þessi málefni voru til umr. á sérstökum fundi ráðgjafarnefndarinnar, þar sem mættir voru ráðh. EFTA-landanna, í Stokkhólmi í febr. 1977.

Viðræður á vegum GATT í Genf um tollalækk­anir og afnám annarra viðskiptahamla, sem hóf­ust í Tókíó árið 1973, héldu áfram í fyrra, en þeim hefur lítið miðað áfram hingað til. Þess er vænst að raunhæfar samningaviðræður geti haf­ist fyrir alvöru á þessu ári, en enn þá er óvíst hvenær þeim lýkur. Ísland tekur þátt í þessum viðræðum og hefur nána samvinnu við Finnland, Noreg og Svíþjóð. Hins vegar er það ljóst, að vegna þeirrar hagstæðu aðstöðu, sem Ísland er aðnjótandi hvað snertir tolla á innflutningi í flestum markaðslöndum sínum, er ekki mikils að vænta fyrir það í GATT-viðræðunum Við hljót­um samt, vegna þess hve utanríkisviðskiptin eru þýðingarmikil fyrir okkur, að hafa hag af því að rutt sé úr vegi hindrunum, sem torvelda þróun alþjóðaviðskipta, og fylgt sé ákveðnum reglum um framkvæmd þeirra.

Engir nýir viðskintasamningar voru gerðir á ár­inu 1976, en sameiginlegar nefndir, sem starfa samkv. samningum Íslands við Efnahagsbanda­lagið, Pólland og Tékkóslóvakíu, komu saman til funda til að ræða framkvæmd samninganna og önnur sameiginleg viðskiptamál. Auk þess voru að venju haldnir reglulegir fundir norrænna embættismanna um alþjóðleg viðskipti.

Í mars 1976 var gefinn út forsetaúrskurður um endurskipulagningu á fyrirsvari Íslands gagnvart þeim löndum sem við höfum stjórnmálasam­band við. Var á árinu unnið að því að framfylgja úrskurðinum, en hann hefur í för með sér tölu­verða hagræðingu á störfum ýmissa sendiherra­embætta.

Hin nýja skipan um sendiherra í fjarlægum löndum með aðsetri í Reykjavík kom til fram­kvæmda á s.l. ári. Pétri Thorsteinsson sendi­herra var falið þetta starf og í lok ársins hafði hann heimsótt og afhent trúnaðarbréf sem sendi­herra Íslands í Kína, Japan, Pakistan, Indlandi og Íran. Vann sendiherrann að því að koma á samböndum á ýmsum sviðum í ofangreindum löndum, m. a. að finna heppileg ræðismannsefni, kynna málstað Íslands í landhelgismálinu og kanna möguleika á viðskiptalegum tengslum við ofangreind lönd. Ákveðið er að sendiherrann af­hendi einnig trúnaðarbréf sem sendiherra í Thailandi nú alveg á næstunni. Síðar á þessu ári verður hægt að vega og meta hvernig þessi ráð­stöfun hefur gefist, og mun ég væntanlega geta skýrt Alþ. frá niðurstöðum í næstu skýrslu minni.

Ekki hefur verið stofnað til stjórnmálasam­bands við nein ný lönd frá því ég flutti mína síðustu skýrslu um utanríkismál í apríl í fyrra. Ísland hefur í dag stjórnmálasamband við 60 lönd. Á s. 1. ári var hafinn undirbúningur að stofnun eftirtalinna ræðisskrifstofa: Ankara í Tyrklandi, Bogota í Kólombíu, Seoul í Suður-Kóreu, Fort-Wayne í Indiana-ríki í Bandaríkjun­um og Port Said í Egyptalandi. Ein ræðisskrif­stofa var lögð niður á árinu, það var ræðisskrif­stofan í St. Malo í Frakklandi.

Ég vil vekja athygli á því, að allar ræðisskrif­stofur Íslands erlendis nema aðalræðisskrifstof­an í New York eru undir stjórn ólaunaðra ræðis­manna. Beinn kostnaður við rekstur þessara skrifstofa nam alls um 2 millj. kr. á árinu 1976. Leitun mun vera að jafngagnlegri, en kostnaðar­lítilli þjónustu í þágu íslenska ríkisins. Sú ómet­anlega aðstoð, sem þessar ræðisskrifstofur veita, er því miður allt of lítið kynnt fyrir íslenskum almenningi.

Í dag starfa 168 ræðismenn á 151 skrifstofu að málefnum Íslands, en þessum málefnum má skipta í þrennt: a) Aðstoð við íslendinga erlendis sem eiga í einhverjum vandræðum. b) Margvísleg upplýsingagjöf um Ísland og þjóðina. c) Fyrir­greiðsla varðandi sölu íslenskra afurða.

Í því skyni að viðhalda og auka kynni ræðis­manna á íslenskum málefnum hefur verið ákveðið að efna til ræðismannaráðstefnu í Reykjavík 21.–25. ágúst n. k. Verður þetta önnur ræðismanna­ráðstefna sem utanrrn. gengst fyrir. Sú fyrri var haldin 1971 og gafst mjög vel og var undir­búin af þáv. utanrrh. Emil Jónssyni.

Í viðleitni sinni til að auka upplýsingar um ís­lenskar útflutningsvörur á erlendri grund gaf utanrrn. út á s. 1. ári kynningarbækling um ákveðnar útflutningsvörur. Var höfð samvinna um útgáfuna við viðskrn., Útflutningsmiðstöð iðnaðarins og hlutaðeigandi útflytjendur. Var þessi kynningarbæklingur sendur öllum sendi­ráðum og ræðismannsskrifstofum Íslands. Hefur rn. hug á að halda þessari útgáfustarfsemi sinni áfram með kynningu á fleiri vörutegundum.

Ríkisstj. ákvað á s. 1. sumri að málefni, er varða samskipti Íslands við vestur-íslendinga, heyrðu framvegis undir utanrrn. Var sérstök n. skipuð af rn. í sept. s. 1. til að hafa með höndum þetta mál. Fyrsta verkefni n. hefur verið að styðja við bak útgáfu Lögbergs-Heimskringlu, m. a. með því að hafa milligöngu um ráðningu ritstjóra blaðsins, auk þess sem allhárri peninga­fjárhæð hefur verið ráðstafað til blaðsins.

Í utanríkisþjónustunni starfa í dag alls 82 starfsmenn í rn. og sendiráðum okkar erlendis, þar af 59 sem bundnir eru flutningsskyldu. Em­bættismenn eru alls 39 starfsmenn, fjölgaði um einn í rn. á árinu, en þar hefur starfsmönn­um ekki fjölgað s. 1. 10 ár.

Á s. 1. ári var hafist handa um kaup á íbúðar­húsnæði fyrir varamenn sendiherra, en heimild til slíkra kaupa hafði Alþ. veitt í fjárl. Keypt var húsnæði í New York og London, möguleikar at­hugaðir í Kaupmannahöfn og nú nýverið keypt hús í Stokkhólmi. Það er skoðun mín að stefna beri að því að kaupa húsnæði á sem flestum stöðum erlendis fyrir starfsfólk sendiráðanna ef hagstætt þykir, enda muni slíkar ráðstafanir leiða til sparnaðar þegar fram í sækir, þar sem leigu­greiðslur eru víða erlendis óheyrilega miklar. Fullt samráð hefur verið haft við fjvn. um þessi kaup.

Mér var sem utanrrh. á árinu 1976 boðið í opinberar heimsóknir til Tékkóslóvakíu, Ung­verjalands, Frakklands og Ísraels. Ég heimsótti Tékkóslóvakíu og Ungverjaland í ágústmánuði og Frakkland í desemberbyrjun, en sá mér ekki fært að þiggja boð Ísraels vegna anna. Auk þess sótti ég utanrrh.-fund Norðurlanda í Stokkhólmi í marsmánuði og í Kaupmannahöfn í ágúst. Ég sótti einnig utanrrh.-fund Atlantshafsbandalags­ins í maí og í des. Utanrrh. Póllands kom í opin­bera heimsókn til Íslands í sept. Það skal sér­staklega tekið fram, að ég tel slíkar heimsóknir og sambönd við starfsbræður erlendis mjög gagn­legar, ekki síst hin nánu sambönd við utanrrh. Norðurlandanna.

Svo sem áður greinir er skýrsla um þátttöku okkar í Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fskj. skýrslu þessarar og mun ég því eigi hafa mál mitt lengra, en svara að sjálfsögðu fsp. ef fram koma.

Að endingu vil ég, svo sem venja hefur verið, þakka utanrmn. mjög gott samstarf á liðnu ári.