15.04.1977
Sameinað þing: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3181 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Mig langar að fá að segja hér nokkur orð í tilefni af þeim umr. sem fram hafa farið um skýrslu þá er ég áðan flutti. Ég harma það, eins og hv. 2. landsk. þm., hversu fáir þm. hafa sýnt þessum málum þann áhuga að vera við­staddir umr. í dag. Hann kennir það því að skýrsla mín sé svo léleg og leiðinleg að menn hafi ekki áhuga á þessum málum. En ég vil benda á það, að þm. hljóta að hafa gert sér grein fyrir því að formaður Alþfl. mundi taka til máls, og það hefði þó átt að draga þá að þó að þeim leiddist sjálf skýrslan. Ég ætla að tala um nokkur þau atriði sem fram hafa komið í umr.

Menn hafa yfirleitt verið sammála um að mannréttindi ætti að ræða og við ættum að vera mjög ákveðnir og harðskeyttir í fylgi okkar við réttindabaráttu ýmissa minnihlutahópa. Hv. 2. landsk. þm. lét orð að því liggja að ég hefði verið allmiklu linari í mínum málflutningi held­ur en frú Söder, utanrrh. Svía, sem kom hing­að fyrir nokkrum dögum. Það má vel vera að ég hafi sagt eitthvað minna þá heldur en hún. En ég vil benda hv. þm. á það, að 20. sept. 1976 hélt ég ræðu á þingi Sameinuðu þjóðanna og hún er prentuð sem fskj. með skýrslu um þátt­töku Íslands í 31. Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þar er á bls. 5 mjög ákveðið undir­strikað að Sameinuðu þjóðirnar ættu stöðugt mjög sterklega að berjast gegn misrétti gagn­vart minni hlutum hvar sem væri í veröldinni. Og ég eins og ég sagði í minni upphaflegu ræðu, þá varð það úr að þessu sinni að birta ekki í skýrslunni það sem gerst hafði á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ég treysti því að þm. hafi lesið það, þeir sem áhuga hafa, og ég segi fyrir mitt leyti, að ég skammast mín ekkert fyrir þá frammistöðu að þessu leyti. Ég held að Íslendingar hafi, eins og atkvgr. munu sýna þegar farið er yfir það, ekki sýnt þessum málum minni áhuga né stuðning heldur en ýmsar aðrar Norðurlandaþjóðir, og ég bendi á það að við höfum haft samstöðu ævinlega með einhverri Norðurlandaþjóð. Þær hafa skipst nokk­uð, en við höfum ávallt fylgt einhverri þeirra eða verið samferða kannske öllu frekar.

Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. 2. landsk. þm., að það vantar ýmislegt í þessa skýrslu sem hefði gjarnan mátt vera þar. Ég ber ekki á móti því. Það er alltaf svo að það þarf að velja og hafna, og það má segja að þarna hefðu ýmis mál mátt vera sem ekki eru og hefði mátt fjalla ítarlegar um ýmis mál sem þarna eru. Hann nefndi sum þeirra. Ég ætla ekki að fara að halda uppi neinum deilum við hann um hversu langt hefði átt að ganga í ýmsum skýrslum og skilgreiningum á mála­flokkum.

Ég sagði í minni ræðu að ég teldi landhelgis­málið svo kunnugt þm. og svo margrætt og það síðast í haust, þegar samningarnir, sem gerðir voru í Osló í vor, voru til staðfestinga hér, að það væri tæpast þörf á því að rifja það upp. Enu fremur minnist ég umr. hér utan dagskrár um það, hvað fram undan væri í viðskiptum okkar eða samskiptum við Efnahagsbandalag Evrópu, og ég sá ekki ástæðu til þess að þreyta þm. á því að endurtaka það sem ég þá sagði.

Nú er það auðvitað rétt að kringumstæður breytast nokkuð frá degi til dags kannske og þess vegna gæti verið ástæða til þess að rifja upp eitthvað af því sem áður hefur verið sagt. Ég ber ekki á móti því. Og ég vil t. d. í tilefni af fsp. hv. 3. þm. Reykn. endurtaka það og undir­strika, að það, sem ég hef áður sagt um þau efni, er óbreytt. Ég tel ekki að eins og sakir standa sé ástæða eða aðstæður kannske öllu frekar til þess að gera gagnkvæman fiskveiði­samning við þessar þjóðir. Hins vegar hef ég haldið því fram og geri enn og mun gera, að við ættum að taka upp viðræður við þessar þjóðir um fiskverndarsamning, því að ég held að fiskvernd á þessum miðum, sem liggja saman, sé öllum aðilum til góðs. Ég geri mér fyllilega vonir um að sá dagur komi og það vonandi fyrr en síðar, að við getum gert gagnkvæman fiskveiði­samning, og mér er alveg sama hvernig þetta verður lagt út. Þetta er mín skoðun og ég mun standa við hana, en endurtek sem sagt, að ég tel að eins og sakir standa séu þessar aðstæður ekki fyrir hendi. Þess vegna er það, að þó að ég telji þessar aðstæður ekki fyrir hendi, þá hef ég verið fylgismaður þess að rætt væri við full­trúa Efnahagsbandalagsins um fiskverndarmál.

Hv. 2. landsk. þm. gagnrýndi það að almenni kaflinn væri ekki nægilega ítarlegur, og það var líka gert í fyrra. En ég minni á það, að það var í fyrsta skipti í fyrra sem þó var reynt að gera einhverja grein fyrir stöðu stjórnmála í heiminum. Það höfðu verið fluttar hér nokkr­ar skýrslur, bæði af mér og fyrirrennara mínum, og slík tilraun hafði ekki verið gerð. En þegar hún er gerð, þá er fundið að því að hún sé ófullkomin. En mjór kann að verða mikils vísir, og eftirkomendur mínir í starfi ættu þá vænt­anlega að bæta um betur, þar sem ég hef þó reynt að byrja, og gera þennan kafla að enn meira atriði í skýrslunni heldur en hann kannske er. Og viðurkenna má að hann mætti vera fullkomnari. Ég skal ekki bera neitt á móti því.

Helstu atriði varnarmála á að ræða, sagði hv. 2. landsk. þm. og gagnrýndi það, að ég hefði sagt hér eitthvað á þá leið, að ég mundi koma að þeim málum betur þegar till., sem hér hefur verið lögð fram yrði til umr. Ég vísa til þess kafla sem í skýrslunni er og saminn var áður en þessi till. kom fram, og ég hefði að sjálfsögðu verið fús til að ræða hann ef ég hefði ekki talið það tvíverknað að ræða þessi mál á tveim fundum og um tvö mál.

Skuldasöfnun við útlönd er geigvænleg og ég er eins hræddur við hana og hv. 2. landsk. þm. En ég taldi og tel að skuldasöfnun við útlönd sé mál viðskrn., en ekki þess rn. þar sem ég starfa, og þess vegna hefur það ekki verið nefnt í þeirri skýrslu sem ég hef hér gefið. Ég hef leitast við að fara ekki yfir á verksvið annarra ráðh. nú fremur en endranær, held ég mér sé óhætt að segja, í mínu starfi, og ég mun ekki gera það. En samt vil ég út af þessum ummæl­um segja það, að það er auðvitað ekki sama í hvað lán eru tekin, og það er ekkert óeðlilegt að tekin séu lán til þess að framlengja lán. Það er oft gert að fremlengja víxla og framlengja lántökur. Við vitum það allir, sem hér erum inni, að lánamarkaðurinn hefur verið þröngur og það hefur verið mjög erfitt að fá löng lán. Lán, sem fengist hafa upp á síðkastið, hafa sjaldn­ast verið lengri en til 8 ára. Er hægt að búast við því eða ætlast til þess að þau fyrirtæki eða mannvirki, sem reist hafa verið fyrir lánsfé til 8 ára, séu þannig búin að bera sig að þau standi undir því að greiða öll lán upp? Ég held það ekki. Ég held t. d. að það væri mjög ósann­gjarnt að ætlast til þess að Sigalda væri búin að borga sín lán. Þar var byrjað að framleiða rafmagn á skírdag og það í mjög smáum stíl. Eins er það með skipin. Þau þurfa auðvitað tíma til þess að ná niður því fjármagni sem til þeirra hefur verið tekið að láni. Mér finnst ekkert óeðlilegt að það séu tekin lán til þess að framlengja önnur lán, enda hefur það oft verið gert, hygg ég. En það er rétt, að það eru tekin lán til þess að reisa mannvirki sem á að rísa á Grundartanga og ýmsir eru misjafnlega sáttir við, skulum við segja, svo að ég segi nú ekki of mikið. Mér er ekki kunnugt um afstöðu hv. 2. landsk. þm. til þess mannvirkis, en ef hann vill fella þá lántöku niður, þá er það náttúrlega sjónarmið út af fyrir sig.

Í sambandi við kaflann um mannréttindin langar mig í fyrsta lagi að geta þess, að í sam­eiginlegri yfirlýsingu utanrrh. Norðurlanda á fundi, sem haldinn var hér í Reykjavík 23. mars, er minnst á þessi mál og undirstrikað að öll þessi 5 Norðurlönd séu sama sinnis og verið hefur um afstöðu til mannréttinda og þess, hversu illa gengur víða að framfylgja þeim í dag. Og við vorum þar ekki neinir dragbítar, Íslendingar. Við vorum fyllilega sammála því að þetta ætti að vera svona og við ættum að leggja höfuðáherslu á að berjast fyrir mann­réttindum, að sjálfsögðu fyrst og fremst þar sem þau eru fótum troðin.

Að því er snertir samninga þá um mannrétt­indamál sem hv. 3. landsk. þm. vék að, þá vil ég geta þess að hér er um þrjá samninga að ræða og Ísland er þegar aðili eins þeirra, en unnið hefur verið að því að við gerðumst að­ilar að hinum tveim líka. Hafa þeir að undan­förnu verið í sérfræðilegri athugun hjá einum af prófessorum háskólans. Má búast við að hægt verði að ganga frá aðild að þeim á næstunni og ég tek fram að ég óska þess að svo megi verða.

Ég vil þá víkja örfáum orðum að aðstoð Ís­lands við þróunarlönd, sem svo hafa verið nefnd, og út af fyrir sig þakka hv. 3. þm. Reykn. fyrir hans ötulu baráttu og góða stuðning við mála­leitan mína um aukið fjármagn í þessu skyni. Þar hefur, eins og hér hefur verið bent á, náðst nokkur árangur, þó hvergi nærri nægilegur, það skal viðurkennt. En aðstoð Íslands við þróunar­lönd mun samkv. fjárl, ársins 1977 nema 205,2 millj. kr. Af framangreindri fjárhæð nemur bein langtíma þróunaraðstoð 195 millj. kr. Framlög Íslands til beinnar þróunaraðstoðar hafa undan­farin ár verið mun lægri en þau eru ráðgerð á þessu ári, þ. e. árið 1973 voru þau 25.7 millj., 1974 34.6, 1975 73.9 og 1976 69.3 millj., en svo á þessu ári 195 millj. kr., beina langtíma þró­unaraðstoðin, eins og ég áðan sagði. Auðvitað ber að hafa í huga að hér hefur orðið einhver gengisbreyting, þannig að það er kannske ekki algerlega raunhæfur samanburður, en engu að síður er þó glöggt að hér er um verulega lag­færingu að ræða.

Ég get tekið undir það sem hv. 3. landsk. þm. sagði áðan, það hefur verið ósk mín í þau bráðum 6 ár, sem ég hef verið í ríkisstj., að við féllum frá að þiggja þá aðstoð sem okkur hefur verið boðin, og hann hefur stutt mig í því. En aðrir ráðh. hafa staðið gegn því. Ég ætla ekki að fara að nefna hér nein nöfn í því sambandi, þess gerist engin þörf. En í skýrslunni, sem lesin var upp og ég flutti hér áðan, eru einmitt nefnd þau rn. sem ríkustu áhersluna lögðu á að halda áfram að þiggja þessa aðstoð. Og það varð ofan á, svo að það getur verið við ýmsa að sakast í því efni ef menn vilja fara út í slíkt. Það má vel vera að ég hafi ekki sótt málið af nægum skörungsskap. En maður verður þó að hafa fylgi samráðh. sinna til þess að geta sótt slík mál. Og ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að frá utanrrn. hafa í hvert einasta skipti verið sendar miklu hærri beiðnir um fjár­framlög heldur en fengist hafa samþykkt á hv. Alþ., svo að ég hygg að það sé ekki við okkur að sakast hversu seint hefur gengið að auka þessa margumtöluðu og mikilvægu þróunarað­stoð.

Ég ætla ekki að ræða landhelgismálið neitt að ráði, og ég ætla ekki fremur en endranær að fara út í það hér hverjum eitt eða annað sé að þakka. Það hef ég aldrei gert og það mun ég aldrei gera. Það hefur verið samstaða í land­helgismálinu. Alþ. hefur verið einhuga og þjóðin hefur verið einhuga. Þess vegna tel ég að það eigi enginn öðrum frekar að eigna sér ávinn­ing þann sem unnist hefur í því efni. Þetta er mín skoðun, hefur verið og mun verða.

Ég hef þegar svarað fyrri spurningu hv. 3. þm. Reykn. um það, hvort ég hafi breytt um skoðun gagnvart fiskveiðisamningi, og mun ekki endurtaka það. En hann spurði annarrar spurn­ingar, sem sagt þeirrar, hvort tekin hefði verið ákvörðun enn þá um uppsögn þeirra samninga sem hafa þau ákvæði að geyma að uppsagnar­frestur er 6 mánuðir, í þeim öllum held ég. Það hefur ekki verið gert. Það er enn þá allmikill tími til stefnu þar til samningurinn við Vestur­Þjóðverja rennur út 28. nóv., og ég hygg eða það er a. m. k. mín hugsun í dag, þó að ég áskilji mér rétt til að breyta um skoðun, eins og oft hefur verið sagt, að þessir samningar eigi allir að renna út á sama tíma. Og ég tel að við eigum að segja þessum samningum upp. Það er auð­vitað spurning með samninginn við færeyinga, en ég tel að það eigi að segja honum upp, jafnvel þó að hann kynni að verða gerður á ný í eitthvað öðru formi, til þess að gera öllum jafnhátt undir höfði, til þess að hafa landhelg­ina alveg frjálsa þegar þar að kemur.

Um atvinnulífið á Suðurnesjum og örðugleika þess vegna dvalar varnarliðsins hef ég oft rætt áður. En ég tel ekkert eftir mér að endurtaka það, að það er ákaflega misjafnt hvað menn segja um þessi mál. Þegar lítið er að gera á Suð­urnesjum þykir mörgum gott að hafa varnar­liðið og vinnuna á Vellinum. Þegar mikið er að gera við sjóinn og annars staðar í þessum kaup­stöðum og þorpum, þá er það vont, þá þarf það helst að fara. Svona hafa sjónarmiðin verið eins lengi og ég man eftir, og ég geri satt að segja ráð fyrir að þau verði svona meðan nokkur her dvelur á Miðnesheiði.

Ég veit ekki og ætla ekki að leiða neinar getum að því hvort hv. 3. þm. Reykn. var að tala fyrir því, að varnarliðið borgaði fyrir veruna hérna, þegar hann talaði um að bæjarfélögin fengju ekki greiðslur fyrir þá aðstöðu sem þau veittu. Ég læt það liggja á milli hluta. En ég get sagt það fyrir mitt leyti, að ég er á móti því og hef alltaf verið það. Ég er ekki sammála Aron Guðbrandssyni og sálufélögum hans í þessu efni og mun berjast á móti því meðan ég hef eitthvað að segja í íslenskum stjórnmálum.

Um olíumengunina eða mengunina á vatninu vegna olíu, þá er það vandamál, það viðurkenni ég fúslega, — vandamál sem við höfum verið að reyna að rannsaka í langan tíma í utanrrn., fengið til þess hæfa verkfræðinga, jarðfræðinga að leita að nýjum vatnsbólum eða leita að ráðum til þess að halda vatninu hreinu. Það hefur gengið illa, ég skal fúslega viðurkenna það. Hér er um vandamál að ræða sem nú er verið að glíma við og vonandi finnst einhver lausn á.

Og um þetta drasl, sem fleygt var í sjóinn, vil ég segja það, að þar urðu mistök. En við höfum þegar mótmælt þessum aðgerðum, eins og ég held að ég hafi upplýst hér á hv. Alþ. ekki alls fyrir löngu og ég sé satt að segja litla möguleika á því að slæða þetta upp til þess að rannsaka hvort eitthvað sé í því sem sé hættu­legt. En ég viðurkenni það, að þarna var rangt að farið og varnarliðið fór ekki að réttum lögum og reglum, — reglum sem það á að þekkja og reglum sem því er skylt að fara eftir. Ég veit ekki hvort ég hefði samþykkt það að þessu yrði fleygt í sjóinn ef það hefði verið borið undir mig, og ég minnist ekki þeirrar yfirlýs­ingar sem hv. 3. þm. Reykn. fór með, en vafa­laust er hún rétt, hann er ekki vanur að fara með ósatt mál. Það hlýtur að standa einhvers staðar haft eftir einhverjum fyrst hann segir það. En sú yfirlýsing er ekki frá mér. Hitt er svo annað mál, að ef það hefði verið kannað að hér væri um skaðlausa hluti að tefla, þá dettur mér ekki í hug að halda því fram að ég mundi skil­yrðislaust hafa neitað því, ef það þá á annað borð heyrir undir mig sem ég er ekki viss um. Ég held að það sé fullt eins sjútvrn. sem þetta fellur undir a. m. k. þangað til við höfum umhverfismálarn. eða deild eða hvað á að kalla það, sem hugsanlegt er að við gætum komið upp.

Ég veit ekki hvort ég á að tefja hv. þingheim með því að fara að ræða um kjarnorkuvopn frekar en ég er áður búinn að gera. Það er náttúrlega einn möguleiki til þess að ganga úr skugga um það hvort kjarnorkuvopn séu á Keflavíkurvelli, og hann er sá að koma hér upp deild eða hópi manna sem hefur vit á þessu, íslenskum. Þetta hefur verið stundum athugað, þ. á m. í vinstri stjórninni. Þá vorum við svo bjartsýnir að við héldum að herinn færi og við þyrftum ekki að rannsaka þetta. Þetta er enn þá til umhugsunar hjá mér a. m. k., hvort ekki eigi að fara einhverja slíka leið.

En hv. þm. benti á aðra leið. Hann benti á að fá stofnunina SIPRI til að gera þessa könn­un. Ósköp er ég hræddur um að þó að hann væri jafnvel forsrh., þá mundi honum ganga treglega að fá þessa stofnun til að gera slíka könnun. Ég segi þetta ekki alveg út í bláinn. Það hefur verið óskað eftir upplýsingum og athugunum frá öðrum þjóðum á því sem er að gerast á Keflavíkur­velli og við höfum ekki vit á, og okkur hefur verið neitað um það. Ég ætla ekki hér að rekja það hvert leitað hefur verið, en ég vænti þess að hv. þm. trúi því að þetta hafi verið reynt og því hafi verið neitað. Þess vegna endurtek ég það, sem ég sagði hér í vetur og hv. 3. þm. Reykn. þótti fáránlegt og fjarstætt, að ég trúi því enn í dag að það séu ekki kjarnorkuvopn geymd á Keflavíkurflugvelli.

Um Norðurlandasamvinnu vil ég taka undir allt sem hv. þm. sagði um hana og fleiri raunar sem hafa, að ég hygg, minnst á hana. Ég vona að hún eflist. Hygg ég að þeir fulltrúar, sem eru margir hér inni sem hafa átt þess kost að sitja slík þing, geti borið um það og að skýrslan beri vott um það, að okkur er þessi samvinna geysi­lega mikils virði og það svo mikils virði að án hennar hefði tæpast verið unnt fyrir Íslendinga að taka þó þann þátt í alþjóðasamstarfi sem við gerum. Ég minntist á þetta lauslega í örstuttri ræðu sem ég hélt í Helsinki um daginn og endur­tek það ekki, en það fór alveg saman við það sem hv. 3. þm. Reykn. sagði um Norðurlandasam­vinnu. Og ég veit að á Norðurlöndum hefur vegna þess arna aukist skilningur á Íslandi og íslenskum þörfum, og vegna Norðurlandasamvinnunnar fengum við stuðning þessara þjóða í landhelgis­málinu, fyrst finna, síðan hverrar af annarri, og hann var okkur mikils virði á þeim tíma sem við fengum hann, því að þá áttum við sannarlega í vök að verjast.

Ég held að ég geti nú að mestu farið að ljúka máli mínu. Ég ætla aðeins að segja við hv. 2. landsk. þm., að auðvitað er það áhugamál mitt ekki síður en hans að flugsstöðin geti risið sem allra fyrst. Hann segir að vinstri stjórnin hafi eyðilagt þennan möguleika. Ekki veit ég hvað­an hann hefur það eða hvernig hann rökstyður það. En ég sem sagt geri mér vonir um að hægt verði að byrja á þessari flugstöð hið allra fyrsta, vegna þess að ég er algerlega sam­mála því sem hv. þm. sagði, að sá aðskilnaður, sem talað er um, er alger nauðsyn. Það verður ómögulegt að halda uppi þarna öruggri reglu og öruggum lögum nema þessi aðskilnaður fari fram. Öryggi flugfarþega er auðvitað ekki nægi­legt, ég skal viðurkenna það. En það hefur þó verið gerð tilraun til þess að stemma stigu við ofbeldisverkum með því að fela vissum hópi manna eftirlit með fólki sem fer úr landi og upp í íslenskar flugvélar. Ég veit að hér eru ýmsir inni sem hafa farið út fyrir pollinn, sum­ir nokkrum sinnum, og þeir ættu að þekkja þetta.

Ég þakka svo hv. 2. landsk. þm. fyrir það að hann vill meira fé til flugþjónustunnar. Hann segir að það finnist hér hlustunartæki í kringum landið og það séu að reka hér dufl og þess háttar og ég minnist ekkert á það í minni ræðu. Hann hlýtur að geta lesið um það í ræðu fyrirrennara míns.