18.04.1977
Efri deild: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3196 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

219. mál, hlutafélög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil fagna því að þetta frv. skuli nú vera komið fram hér á Alþ. Hins vegar er mér ljóst og er sjálf­sagt öllum ljóst að það getur ekki orðið um það að ræða að þetta frv. fái á þessu þingi gaumgæfilega meðferð í nefnd.

Það hefur komið fram að grundvöllurinn að þessu frv. sé samnorræn tillaga um hlutafélaga­löggjöf. Nú það er afskaplega mikilvægt að svona hafi verið unnið að slíku máli. Allt frá árinu 1961 hefur verið unnið á samnorrænum vettvangi að mótun á hlutafélagalögum, og það starf tók 8 eða 9 ár. Það sýnir hversu umfangs­mikið og mikilvægt þetta starf er. En því miður — og ég segi: Því miður, þá tókum við afskap­lega lítinn þátt í því starfi og í reynd ekki nema að nafninu til. Íslendingar tóku lítinn eða engan þátt í mótun á þeim texta, sem þar kom fram, og í þeim umr., sem lágu að baki þess texta.

Framhaldið af því áliti, sem var skilað 1969 af þessari samnorrænu n., var að hinar ýmsu þjóðir tóku til við að útbúa sín hlutafélagalög og flestar hafa nú lokið því. Og mér er nær að halda að einnig í Noregi hafi verið samþykkt ný hlutafélagalög eða séu alveg á næsta leiti.

Samt sem áður, þótt við höfum ekki tekið mikinn þátt í þessu starfi, höfum við byggt á þessum texta, og það er alveg ljóst að það er mjög til bóta að svo er gert. Hins vegar þurfum við að sýna mikla varúð þar sem við höfum ekki tekið þátt í þeirri umr. sem liggur að baki textans. Hins vegar er mér kunnugt um að það hefur verið unnið að þessu frv. Hér í mörg ár, og ég efast ekki um að það hafi verið gaum­gæfilega gert, þótt hitt hefði verið betra.

Það er afskaplega mikilvægt að þetta frv. verði sem fyrst að lögum þótt það verði ekki á þessu þingi, þá er mjög mikilvægt að það geti orðið að lögum í einhverri mynd á næsta þingi. Við búum við ofullkomna hlutafélaga­löggjöf frá 1921, og það frv. til laga um hluta­félög, sem lagt var fram á Alþ. stuttu eftir 1950, náði ekki fram að ganga. Þá var brýn þörf fyrir ný hlutafélagalög, upp úr eða um 1950, og við getum ímyndað okkur hversu brýn þörfin er í dag.

þessu frv. eru ákvæði sem bæði styrkja þetta form, hlutafélagaformið, og ættu einnig að styrkja álit þessa félagsforms og auka traust þess. Það verður ekki komist fram hjá því, að þetta félagsform hefur reynst þýðingarmikið og hefur þegar unnið sér fastan sess meðal þeirra þjóða sem búa við þjóðskipulag líkt og við búum við, þannig að það er afskaplega mikilvægt að þessi löggjöf sé vel úr garði gerð.

Í þessu frv., þótt ég hafi ekki haft aðstöðu til að lesa það allt, sýnist mér að séu mjög mikilvæg ákvæði sem reyndar eru í hinum sam­norræna texta, bæði um gerð ársreikninga og matsreglur allar varðandi þá gerð, sem eru mjög ófullkomnar í dag, varðandi endurskoðun þessara reikninga og endurskoðun þessara félaga. Það eru hins vegar tekin í þessum lögum upp ný hugtök eins og góð reikningsskilavenja, góð endurskoðunarvenja, sem ekki eru fullmót­uð í okkar þjóðfélagi, en þetta eru hugtök sem yrðu að mótast og vinna sér sess. Það eru einnig mjög mikilvæg ákvæði varðandi meðferð fjár­magnsins í félaginu, á hvern hátt megi ráðstafa því, að það sé ekki heimilt að lána það og ráðstafa því til hluthafa eftir því sem mönnum dettur í hug á hverjum tíma, heldur verði það að fylgja ákveðnum reglum. Þetta er að sjálfsögðu gert til að tryggja betur hag þeirra manna og þeirra aðila sem eiga inni hjá þessum félögum, því að það hefur verið svo að hagur þessara aðila hefur ekki verið nægilega vel tryggður.

Þá eru hér einnig mikilvæg ákvæði um það, hvert skuli vera lágmarkshlutafé og hversu margir hlutir skuli vera. Um þetta má sjálf­sagt endalaust deila. Hér er gert ráð fyrir að hlutir skuli ekki vera færri en 10 í stað 5 áður. Ég leyfi mér að efast um gildi þessa ákvæðis. Það hefur verið misjafnt hversu strangar kröfur hafa ver­ið gerðar til þess hversu hlutir skuli vera margir, jafnvel allt niður í 1 eða 2, og ég er ekki sann­færður um að þetta hafi úrslitaþýðingu, þessi fjölgun úr 5 í 10. Hins vegar hefur mun meiri þýðingu hversu hátt hlutafeð skuli minnst vera. Ég held að það geti best tryggt að ekki sé verið að stofna hlutafélag í tilfellum þar sem hlutafélagsformið á alls ekki við. En það hefur verið mjög algengt fram á þennan dag að alls konar smáfyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki, hafa verið stofnuð í formi hlutafélaga. Hér er gert ráð fyrir að þetta lágmark sé ein milljón, sem vissulega þarf að endurskoða og athuga. En það er líka mjög mikilvægt í þessu frv., að það er ekki aðeins gerð ákveðin krafa um hvað þetta hlutafé má vera minnst, þótt ég telji að það þurfi að hækka þessa upphæð, heldur einnig á hvern hátt skuli tryggt að þetta hlutafé sé greitt, –­- það hefur verið mjög farið fram hjá því — að tryggja að það hlutafé, sem ákveðið er í hluta­félagi, sé greitt inn í félagið.

Ég ætla ekki að hafa miklu lengra mál um þetta, herra forseti. En þó er eitt sem mér finnst nokkuð óljóst í frv., þótt verða kunni að ég hafi ekki séð það enn þá og það er hvernig skráningu hlutafélaga skuli háttað. Hér segir að ráðh. setji reglur um skipulag hlutafélagaskrár. Ef ég man það rétt var gert ráð fyrir því í hinum samnorræna texta að það væri sérstakt embætti skráningarstjóra og sérstök hlutafélagaskrá og það væri sérstök stofnun fyrir landið allt. Nú er út af fyrir sig galli að þurfa að draga alla hlutafélagaskráningu til eins aðila. Það er á vissan hátt kostur að geta haft þessa hlutafélagaskráningu dreifða, það veitir betri þjónustu úti um allt land. En hinu er ekki að neita, að þessi hlutafélagaskráning hefur alls ekki verið í lagi, og ég efast um að menn viti með fullri vissu hversu mörg hlutafélög eru í þessu landi. Þess vegna held ég að það sé rétt metið að þetta verði ekki lagfært nema færa þetta á eina hendi og tryggja þá betur og tryggja vel upplýsingamiðlun út um landið.

Þá er einnig mikilvægt varðandi þessa hluta­félagaskrá að hlutafélagaskráin hafi raunhæft eftirlit og fylgist með hlutafélögunum. Það er í gildandi hlutafélagalögum ákvæði þess efnis, að hlutafélög skuli skila inn reikningum á hverju ári. Þessu ákvæði er ekki og hefur sennilega aldrei verið framfylgt. Í hinum samnorræna texta var gert ráð fyrir því, að til skráningarstjóra skyldi skila ársreikningum fyrir hvert einasta hlutafélag. Ég er ekki að segja að þetta skuli vera þannig, en það er mjög mikilvægt og ég vil leggja á það áherslu, að þessi hlutafélagaskrá sé þannig skipulögð að það sé raunhæft eftirlit með starfsemi hlutafélaga eða a. m. k. yfirsýn yfir starfsemi hlutafélaga. Það var gert ráð fyrir að sú regla yrði í gildi að hverjum sem væri væri heimilt að hafa aðgang að þessari hlutafélagaskrá og fá að sjá reikninga viðkom­andi félaga, því að reikningar þessara félaga eiga ekki að vera nein leyniplögg að mínum dómi. Það eru ýmsir sem hafa þar hagsmuna að gæta, og það er á vissan hátt nauðsynlegt að það sé tryggt að almenningi og þeim, sem eiga þar hagsmuna að gæta, sé tryggður aðgangur að vissum upplýsingum varðandi öll hlutafélög. Það styrkir einnig þetta form. Það mun fá meira traust í viðskiptum ef slíkt er fyrir hendi.