14.10.1976
Neðri deild: 3. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Virðulegi forseti. Það má segja að þetta frv., sem hér er lagt fram, sé gamall kunningi. Það var lagt fram á síðasta Alþ., en hlaut þá ekki afgreiðslu. Hv. allshn. þessarar d. hafði sent frv. til umsagnar nokkurra aðila og þeir höfðu — 6 eða 7 að ég ætla — látið í té umsagnir. Í dómsmrn. var sá háttur hafður á, að frv. var ásamt þessum umsögnum, sem borist höfðu, sent til réttarfarsnefndar sem hafði samið frv., og hún fór síðan yfir umsagnirnar. Í fskj. með frv. er birt álitsgerð réttarfarsnefndarinnar þar sem hún leggur mat sitt á þær umsagnir sem borist höfðu, og niðurstaða hennar var sú, að leggja til að frv. yrði lagt fram óbreytt að undantekinni mjög lítilfjörlegri breytingu á 4. gr. frv. sem gerð er samkv. till. Félags rannsóknarlögreglumanna Reykjavík. Geta menn séð með samanburði á frv. frá í fyrra og því, sem hér er lagt fram, í hverju þessi breyting er fólgin. En hún er sem sagt mjög lítil, skotið þarna inn einni setningu í lok 1. málsl. 4, gr., þ.e.a.s. „og rannsóknarlögreglustóri og/eða ríkissaksóknari telja það nauðsynlegt.“

Vegna þess að frv. er þannig í raun og veru óbreytt frá því sem það var í fyrra og þá var flutt nokkuð ítarleg framsaga fyrir því, get ég verið stuttorðari um það nú þó að málefnið sé mikilvægt.

Aðalbreytingarnar, sem felast í þessu frv, frá þeirri skipan, sem nú gildir, eru í fyrsta lagi, að bað er lagt til að sett sé á fót sérstök stofnun undir stjórn sérstaks embættismanns, þ.e.a.s. rannsóknarlögregla ríkisins undir stjórn rannsóknarlögreglustjóra, sem á að fullnægja tilteknum skilyrðum sem greind eru í frv., og það sem er höfuðatriðið, að við þessa stofnun á að vera starfsfólk sem á að vera sérhæft til að rannsaka ýmsar tegundir brota, eins og segir strax í 1. gr. frv. Þetta er eitt meginatriðið. Auðvitað hefur hér verið starfandi rannsóknarlögregla í langa hríð sem lotið hefur embætti yfirsakadómara. Og að sjálfsögðu hefur verið reynt að vanda til þess starfsliðs, sem valið hefur verið í þá deild, eftir föngum og þeir, sem þar hafa lengi starfað, hafa auðvitað fengið mikla reynsluþekkingu. Hins vegar hefur það nú verið svo, að í upphafi hefur orðið að velja til þessa starfs í rannsóknarlögreglunni að jafnaði menn sem áður hafa gegnt störfum í hinni almennu lögreglu, en hafa ekki áður eða sjaldnast hlotið sérstaka undirbúningsmenntun í því sem rannsóknarlögreglumanni er nauðsynlegt að kunna skil á, en bað eru að sjálfsögðu mörg og margvísleg atriði. Það er einmitt stefnt að því með þessu, að það verði menn í þessari stofnun sem hafa yfir að ráða fjölbreyttri þekkingu eða þjálfun í hinum ýmsu málsrannsóknum, sem fyrir geta komið, og hinum ýmsu afbrotategundum, sem fyrir geta komið, t.d. rithandarsérfræðingar, fingrafarasérfræðingar, bókhaldssérfræðingar o.s.frv., o.s.frv., eftir því sem reynslan synir að þörf er á. Á þetta atriði einmitt vil ég leggja sérstaka áherslu, að það er ekki með þessu á neinn hátt verið að gera litið úr því starfsliði sem hefur starfað að þessum málum, heldur verið að leggja meiri áherslu á að búa þessa stofnun betur í stakk með starfsliði sem hafi sérþekkingu á því, sem það á að fjalla um, og hafi þá jafnframt yfir að ráða þeim fækkum sem nú þykja eðlileg og sjálfsögð þegar um rannsóknarlögreglu er að tefla. Að sjálfsögðu er bað svo, að það hefur smám saman verið reynt að útbúa rannsóknarlögregluna í Reykjavík betur með tækjum. En samt skortir mikið á — og það skal fyllilega játað — að hún hafi yfir að ráða þeim hjálpartækjum sem æskilegt væri og hefur ekki heldur þá aðstöðu sem æskilegt væri.

Annað höfuðatriðið, sem ég vil nefna í sambandi við þetta frv., er að þessari rannsóknarlögreglu ríkisins yndir stjórn rannsóknarlögreglustjóra er ætlað að ná til landsins alls, Hún er ekki bundin við ákveðin umdæmi. Vald hennar er ekki takmarkað við ákveðin umdæmi. En umdæmaskipting er að ýmsu leyti ekki heppileg þegar um rannsóknir mála er að tefla, vegna þess að ýmsum málum er þannig hátað að þau fléttast inn í fleiri en eitt umdæmi. Og þá er það auðvitað svo, að með góðri samvinnu við viðkomandi lögreglustjóra er hægt að koma við skynsamlegum vinnubrögðum í því efni, en hitt er þó miklu eðlilegra, að það sé sama stofnunin sem taki þannig til landsins alls.

Að vísu er eftir sem áður gert ráð fyrir því, að það verði starfandi, eftir því sem þörf krefur, einhverjir rannsóknarmenn eða rannsóknardeildir á vegum einstakra lögreglustjóraembætta. En rannsóknarlögregla ríkisins getur hvenær sem er gripið inn í, og gert er ráð fyrir því, að hún grípi inn í á frumstigi málsins samkv. því sem sagt er í 4. gr. Það getur einmitt alveg skipt sköpum í sambandi við upplýsingu mála að það sé á frumstigi málsins tekið þannig á því af sérhæfðu starfsliði sem kann fyllstu skil á því, hvernig við á að bregðast, hvort mál upplýsist eða ekki. Þetta fel ég mjög mikinn kost, að það sé þannig ein stofnun sem tekur til landsins alls, en ekki verið að skipta þessu niður í hólf eins og nú er gert. Hitt er svo annað mál, sem ég fer ekki út í hér, að einnig með tilliti til skipanar almennra lögreglumála er umdæmaskiptingin, t.d. á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem kallað er, oft dálítið óeðlileg. En ég býst við að það verði svo, að menn verði nokkuð fastheldnir á þá umdæmaskiptingu.

Þriðja höfuðbreytingin, sem felst í þessu frv., er sú, að rannsóknarlögreglan er tekin undan embætti yfirsakadómara eða sakadóms hér í Reykjavík og fengin í hendur þessum sérstaka embættismanni sem ég hef minnst á, rannsóknarlögreglustjóra ríkisins. Með þessu er stigið mjög stórt skref í þá átt að greina til fulls á milli lögreglu og dómsvalds. Sú skipan þykir hvarvetna nú orðið sjálfsögð og við höfum verið á eftir tímanum í þessu efni. Það má segja að það spor sé ekki stigið alveg til fulls með þessu frv., en það er stigið mjög stórt skref í þá átt, og ef reynslan sýnir að þetta fyrirkomulag gefist vel, sem ég vona, þá er ekki langt í land að skilja þarna alveg á milli. En í því sambandi verður þó sjálfsagt að taka eitthvert tillit til þeirra sérstöku staðhátta sem hér á landi eru. í raun og veru er með þessu stigið mjög stórt skref frá því forna rannsóknarréttarfarskerfi, sem hér hefur ríkt í opinberum málum, og til ákæruréttarfars sem nú þykir sjálfsagt, eins og ég áðan nefndi.

Þrátt fyrir það að gert sé ráð fyrir því að setja upp þessa sérstöku stofnun með rannsóknarlögreglu ríkisins undir stjórn rannsóknarlögreglustjóra, þá er gert ráð fyrir því að það starfi sérstök rannsóknardeild við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, og það eru samkv. 6. gr. tiltekin mál sem þeirri rannsóknardeild er ætlað að fara með. Þar er í fyrsta lagi um að ræða umferðarslys og brot á umferðarlögum, í öðru lagi brot á lögreglusamþykktum, í þriðja lagi brot á áfengislögum, önnur en áfengissmygl, og í fjórða lagi brot á tilkynningum um aðsetursskipti, og síðan svo gert ráð fyrir því að það kunni að mega fjölga þessum málum. Þetta er gert með tilliti til þess að þarna er um mjög mörg mál að ræða, en oftast nær tiltölulega einföld, og þetta horfir til verksparnaðar og flýtisauka við afgreiðslu þessara mála, að láta rannsókn þeirra vera í höndum rannsóknardeildar hjá lögreglustjóra, í stað þess sem verið hefur, að fyrst fer fram þar rannsókn þessara brota, en síðan er svo skýrsla þar um send til rannsóknarlögreglunnar. Hitt er eðlilegra, að þetta sé þannig á einni hendi, þessi tegund brota, en rannsóknarlögreglan komi fyrst og fremst til — þegar um hin meiri háttar og alvarlegri brot er að tefla. Það má segja að án beinnar lagasetningar og með samkomulagi hafi verið myndaður vísir að slíkri rannsóknardeild þegar við lögreglustjóraembættið hér í Reykjavík, þ.e.a.s. rannsóknardeild í þessum málum.

Eins og ég tók fram áðan, er svo gert ráð fyrir því að eftir atvíkum og eftir því sem þörf leiðir í ljós, starfi áfram einstakir rannsóknarlögreglumenn eða rannsóknarlögreglumannadeildir við einstök lögreglustjóraembætti, fyrst og fremst þá að sjálfsögðu til þess að fjalla um þau mál sem greinir í 6. gr., en auk þess auðvitað eftir því sem þörf krefur um önnur mál sem upp kunna að koma og þar sem þeir eru nærri vettvangi. En hvenær sem er getur rannsóknarlögreglan komið til, hvort heldur er eftir beiðni viðkomandi dómara eða að eigin frumkvæði eða ef saksóknari telur það nauðsynlegt eða rannsóknarlögreglustjóri telur rétt að taka þar til.

Það er ekki tekið fram í þessu frv., en það er gert ráð fyrir því, a.m.k. að óbreyttum lögum, að sú rannsóknardeild, sem starfar við fíkniefnadómstólinn hér í Reykjavík, haldi áfram störfum. Það gefur vel verið að reynslan sýni að þá deild megi sameina rannsóknarlögreglu ríkisins, og þá mundi þegar þar að kæmi verða gerð breyting á þeim lögum. Ef ég man rétt, þá víkur réttarfarsnefndin að því og gerir ráð fyrir að svo geti farið. En eins og er hefur þessi rannsóknardeild, fíkniefnarannsóknarmenn sem hafa starfað að þessum málum hjá fíkniefnadóminum, ærið að gera Enn fremur er rétt að geta þess, að þó að það sé ekki heldur tekið fram í þessu frv. og eigi þar ekki heima, þá er gert ráð fyrir því að sú rannsóknardeild í tollmálum, sem hefur verið komið á fót við tollstjóraembættið hér í Reykjavík, haldi áfram störfum. Það er að vísu ekki margmenn deild, en þó hægt að segja að það sé vísir að rannsóknardeild, en sú rannsóknardeild lýtur að sjálfsögðu tollstjóra og svo fjmrh., en ekki dómsmrh. Sama er auðvitað að segja um skattrannsóknardeild. Það er ekki með þessu frv. neitt hróflað við henni og hún lýtur auðvitað eftir sem áður fjmrh. og fjmrn., en heyrir ekki undir dómsmrh. og dómsmrn. Það er áreiðanlega ekki á þessu stigi ástæða til þess að hreyfa við því fyrirkomulagi, hvað sem reynslan kann svo að leiða í ljós eftir að þessari stofnun hefur verið komið á fót og hún fengið festu og reynsla er fengin af starfsemi hennar.

Það er sagt og hefur verið sagt að afbrotum hafi farið mjög fjölgandi hér á landi, þótt hafi færst mjög í vöxt, og það er sjálfsagt óhrekjanleg staðreynd. Þó að það hafi ekki farið fram í sjálfu sér nægileg athugun í heim efnum, þá má draga það af ýmsu að svo hljóti að vera. T.d. var það svo árið 1974, að þá voru milli 1300 og 1400 ákærur sem saksóknari gaf út, en árið 1975 voru það milli 1800 og 1900 og hafði þannig fjölgað á milli ára um nálægt 500. Það gefur nokkra bendingu um þann vöxt sem hefur verið í þessum málum. En það er samt rétt að athuga í því sambandi að það hafa komið til í raun og veru ný brot sem ekki þekktust hér, þ. á m. eru t.d. fíkniefnabrotin. Enn fremur er það svo, að samkv, eðli málsins hefur umferðarlagabrotafjöldi margfaldast. Það er ekki nema eðlilegt vegna aukins bílafjölda og aukinnar umferðar. Hins vegar liggur, eins og ég sagði, í sjálfu sér ekki fyrir athugun á því, hvort hinum hefðbundnu brotum, ef þau mætti nefna því nafni, hefur fjölgað eða hversu mikið þeim hefur fjölgað. Og ég býst við því, að það séu í sjálfu sér ýmis vandkvæði á því að láta slíka könnun fara fram. En hvað sem bollaleggingum um það líður, þá veit ég að við erum öll sammála um að hér sé of mikið af brotum framið og að allir hv. alþm, séu sammála um að gegn því beri að vinna.

Aukin afbrot og í ýmsum nýstárlegum myndum eru að vísu ekki sérstakt fyrirbæri fyrir Ísland, heldur þekkist það annars staðar. Og þegar það á sér stað að þau ótíðindi gerast, að afbrot eru framin og sérstaklega þá alvarleg afbrot, þá er auðvitað skylda þjóðfélagsvaldsins að reyna að upplýsa um þau brot og gera viðeigandi ráðstafanir gagnvart þeim, og að því miðar þetta frv. Þetta frv. miðar að því að styrkja rannsóknir brotamála þannig að þau upplýsist og það verði hægt að láta lög ganga yfir brotamenn.

Ég verð að segja það, að ég viðurkenni það og hef haldið því fram, að dómskerfíð og rannsóknarkerfið væri of seinvirkt. Hins vegar held ég að það séu nokkuð órökstuddar staðhæfingar þegar því er slegið fram að fjöldi brota eða fjöldi mála liggi hér óupplýstur. Ég minni t.d. á það, að á þessu ári hafa fjögur morð verið framin hér á landi. Þau hafa öll verið upplýst og það innan mjög skamms tíma. Og ég hygg að þannig sé því nú farið með flest brotin. En það getur tekið sinn tíma og tekur sinn tíma að rannsaka þau. Og það er sjálfsagt hægt að segja að þar sé höfð í huga gullvæg regla, sem sagt að hugsa um réttaröryggið og ganga svo örugglega frá rannsókn hvers máls að það sé öruggt að saklaus maður sé ekki sakfelldur. Það veit ég að hv. alþm. eru líka allir sammála um, að þannig eigi að halda á þessum málum og það sé versta skyssan, sem geti komið fyrir hjá dómstólum, að dæma menn sem ekki eru sekir. Það hygg ég að megi segja að heyri a.m.k. til svo algjörra undantekninga hér, að mér er nú ekki tiltækt dæmi um slíkt. En við þekkjum dæmi um það að slíkt hefur skeð og skeður annars staðar. Þetta er aðalsmerki að mínum dómi á rannsóknum mála hér og á dómstólum. Þó að þeir þyki kannske stundum nokkuð seinvirkir og smámunasamir, að sumum finnst, þá felst þó í þeirri starfsaðferð þessi trygging, að menn eru ekki sakfelldir nema ástæða sé til.

Ég vona að þetta frv. verði nú afgreitt á þessu þingi og það fyrr en seinna. Það er gert ráð fyrir því í aths. fjárlagafrv, að það muni verða afgr. fyrir áramót og þá muni verða teknar upp í fjárlagafrv., áður en fjárl. eru endanlega afgreidd, þær fjárveitingar sem til þarf vegna þess.

Það er að sjálfsögðu svo, að það tekur nokkurn tíma þangað til það kerfi, sem gert er ráð fyrir með þessum lögum, verður komið að öllu leyti í það horf sem því er ætlað. En það verður farið að vinna að því strax og lögin hafa öðlast gildi, og ég þarf ekki að rökstyðja það frekar en ég hér hef gert, að ég tel það vera mjög þýðingarmikið spor sem er stigið í þessum efnum. Hins vegar dettur mér ekki í hug að halda því fram, að í þessu frv. felist nein töfralausn á þeim vandamálum sem við er að glíma á þessu sviði. Því fer fjarri. Það þarf í fyrsta lagi að fylgja því eftir með fleiri endurbótum á dómsstóla- og réttarkerfinu. Það verða síðar lögð fram á þessu þingi frv. sem í þá átt ganga og sýnd voru á síðasta Alþ., frv. um lögréttur, sem hefur í sér fólgna gerbreytingu á skípan dómstóla, og eins frv. um breyt. á lögum um meðferð einkamála. Enn fremur vonast ég til að það verði hægt að leggja fyrir þetta Alþ. síðar frv. til I. um gjaldþrotaskipti.

En þó að þessi frv. öll verði samþ., þá fer því fjarri að það megi setja punkt í þessum efnum. Aðalmarkmiðið, sem verður auðvitað að keppa að og hlýtur að verða markmið Alþ., markmið þeirra sem fara með þessi málefni, markmið þjóðfélagsins í heild, er að koma í veg fyrir það, svo sem kostur er, að afbrot séu framin. Og það er auðvitað það sem verður fyrst og fremst að huga að í framtíðinni, hvaða ástæður liggja til þess að afbrot hafa farið svo mjög í vöxt hér á landi sem menn vilja vera láta og ég vil ekki vefengja að sé mjög mikið. Það liggja ýmsar ástæður í augum uppi. Það liggur t.d. í augum uppi, að óhófleg áfengisnautn íslendinga á stórkostlegan þátt í þeim afbrotum sem framin eru hér á landi. Það má rekja það með mörgum dæmum, að bæði hin smærri og hin stærri brot eru oft framin undir áhrifum áfengis. Og þá er líka hitt ljóst, að þau fíkniefni, sem hér er farið að neyta af of mörgum þó að ég vilji ekki gera of mikið úr því hversu útbreytt það er, þau hafa haft í för með sér að afbrot eru framin. Þegar menn komast undir áhrif þeirra vímugjafa sem þar er um að ræða og þeir gera sér ekki grein fyrir raunveruleik hlutanna, þá fremja þeir brot sem þeir mundu allsgáðir ekki láta sér koma til hugar, og auðvitað verður hættulegast þegar þessir menn komast undir vanaáhrif þessara eiturefna. Það verður að hefja herferð gegn slíku. En þar verður að hafa í huga að refsingar gagnvart þeim öllum, sem þar koma við sögu, eru ekki alltaf heppilegasta úrræðið þegar um neytendurna er að tefla, Það er höfuðatriðið að ná í þá sem flytja þessi efni til landsins með þeim ótrúlega gróða, að ég býst við því að menn í fljótu bragði láti sér ekki detta í hug þær fjárhæðir sem þar er um að tefla. Og það er hugsanlegt að þeir, sem slíka iðju stunda, séu komnir í samband við alþjóðahringi sem standa að verslun með slík efni. Á slíkum brotum verður auðvitað að taka hart og láta þá menn sæta hörðum refsingum, en í öðrum tilfellum getur hugsanlega önnur aðferð en bein refsing verið réttara og heppilegra úrræði til þess að snúa mönnum af rangri braut, einkanlega ef um unglinga er að tefla. Þriðja ástæðan, sem ég held að liggi í augum uppi og veldur því að afbrot eru framin hér á landi í ríkara mæli en áður og ný tegund brota hefur komið til sögunnar, er að allt of margir íslendingar lifa óhófslifnaði, lifa langt um efni fram, og hjá þeim kemur að skuldadögunum og þá verður þeim mörgum fyrir að reyna að bjarga sér á þann hátt sem við höfum séð dæmin til, gefa kannske út falskar ávísanir, innistæðulausar ávísanir eða lenda í öðrum fjársvikamálum.

Ég verð að segja það, þó að ég geti ekki sannað það, að ég álít að áhríf sjónvarpsins í þessum efnum séu miður heppileg. Það er áreiðanlegt að það hefur sín áhrif að fá sjónvarpið með glæpamynd inn á heimilin, sýnandi e.t.v. hetju kvikmyndarinnar sötrandi áfengi sí og æ, berjandi þann niður sem fyrir verður, hampandi byssu og skjóta. Við skulum gæta að því að þetta er á engan hátt sambærilegt við kvikmyndir í venjulegum kvikmyndahúsum. Sjónvarpið verður heimilisvinur og kemur inn á heimilið og gerir þessa hluti hversdagslega í hugum kannske allt of margra unglinga sem á horfa. En um þessi áhrif er auðvitað ekki hægt að fullyrða. Engin rannsókn hefur farið fram á þeim hér. Það er verið að reyna að rannsaka þetta erlendis, en það er sjálfsagt erfitt að fá nokkrar óyggjandi niðurstöður í því efni. Hinu skal ekki gleymt heldur, að sjónvarpið hefur sínar jákvæðu hliðar í þessu efni. Það getur vissulega haldið unglingum heima og haldíð þeim frá því að lenda í miður heppilegum félagsskap sem þeir annars mundu lenda í, þannig að það verður líka að líta á þær jákvæðu hliðar sem það hefur þegar dæmið er gert upp. En fróðlegt rannsóknarefni er þetta óneitanlega og mikil ábyrgð hvílir á sjónvarpinu í þessu efni, að halda þannig á málum að það spilli ekki hugsunarhætti með þeim myndum sem það sýnir. Við höfum geysilega mikið af skólum hér og allir ganga í skóla og um margra ára skeið. En ég held að það sé orðið tímabært að athuga það, hvaða áhríf skólarnir hafa á mótun hugarfars þeirra sem í þá ganga, hvort menn sækja þann aukna þroska, sem þeir eiga að gera, í skólana eða ekki, hvort þeir sækja einhvern leiða í skólana, einhvern hugsunarhátt sem er öndverður við það þjóðfélag sem hefur haldið þeim í skóla, e.t.v. að þeirra óvilja, í mörg ár.

Þetta verkefni, sem ég hef hér aðeins lauslega minnst á, það bíður félagsfræðinga og uppeldisfræðinga að fjalla um það, og það er í sjálfu sér rótin sem leita verður að og það eru ræturnar sem verður að reyna að komast fyrir þegar nm þessi mál er fjallað af góðvild og skilningi.

Ég sé svo, herra forseti, ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. þar sem ítarleg grg. fylgir og fskj, með líka sem ég gat um og ég gerði nokkuð ítarlega grein fyrir því í fyrra, en ég leyfi mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.