29.10.1976
Sameinað þing: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki heldur að lengja þessar umr. Vegna þeirra ummæla, sem hv. 2. landsk. þm. viðhafði um ónákvæmni þýðinga eða misræmi milli samnings texta á íslensku og ensku, þá fæ ég ekki betur séð en ef einhver blæmunur sé þar á, sem ég sé reyndar ekki, þá sé það heldur á þann veginn að sá breski sé afdráttarlausari. En ég sé ekki þennan blæmun og ítreka það og undirstrika, að í þessum lið samningsins felst viðurkenning breta á 200 mílna útfærslunni, og hef ekki fleiri orð um það en ég viðhafði í ræðu minni á þriðjudaginn var.

En í tengslum við það þykir mér rétt að koma hingað í ræðustól til þess að lýsa ánægju minni yfir því, að ég skuli hafa misskilið gagnrýni hv. stjórnarandstæðinga og þ. á m. hv. 2. þm. Austurl. um að það, sem á skorti um viðurkenninguna samkv. þessum lið samningsins, væri ekki það, sem ég hef þó skilið hingað til, að samningsmönnum okkar og ríkisstj. hefði láðst að fá fram yfirlýsingu breta um að þeir mundu aldrei nokkurn tíma óska eftir fiskveiðiréttindum hér við land: Það kom skýrt fram í máli hv. 2, þm. Austurl. áðan að það ætti hann ekki við, hann teldi ósköp eðlilegt að bretar gætu farið fram á fiskveiðiréttindi hér við land, eins og við gætum farið fram á fiskveiðiréttindi við þeirra land. Þetta er mergurinn málsins. Í framhaldi af því fæ ég ekki séð hvar er unnt að fá sterkari viðurkenningu en felst í 10. lið samkomulagsins annars vegar, ef menn viðurkenna að ekkert sé óeðlilegt við það að bretar fari fram á fiskveiðiréttindi hér við land, ef þeir telja það nauðsynlegt hagamuna sinna vegna, og menn viðurkenna að við getum neitað þeirra málaleitun, ef við teljum það ekki vera í samræmi við okkar hagsmuni. Á milli þessa tvenns, 10. liðs samkomulagsins og hins, er ekkert bil. Það er ekki unnt að fá neina sterkari yfirlýsingu sem þarna liggur á milli. Að ekki fellst formleg viðurkenning í þessu orðalagi samningsins fæ ég ekki skilið, og þá er hv. 2. þm. Austurl. orðinn meiri formalisti en ég. Kann að vera að ég hafi þá gleymt einhverri af kröfum lögfræðinnar að því leyti, sem hann hefur tileinkað sér af langri reynslu.

Ég vildi láta þetta koma fram að lokum, en vil svo aðeins vekja athygli á því, að þessi samningur við breta, sem rætt var um áður en hann var gerður og eftir að hann var undirritaður sem voðaverk, sem framkvæmd af hálfu stjórnvalda er jaðraði við landráð, í sumum málgögnum og fjölmiðlum þjóðarinnar, hann er nú afgreiddur þannig við þessar umr. að út af fyrir síg skipti hann ekki öllu máli, heldur hvað verði eftir lok samningstímabilsins. Og það er einmitt sterkasti þátturinn í þessum samningi, að það er á valdi okkar hvað verður að samningstímanum loknum. Ríkisstj. hefur markað ákveðna afstöðu sem grundvöll að víðræðum ef og þegar þær fara fram. Þar verður rætt um gagnkvæm fiskveiðiréttindi, og það fer eftir hagsmunum okkar í bráð og lengd hvort um eitthvað verður samið eða ekki.