18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Þegar vitnað er í menn eins og Sigurð skólameistara, orðheppna menn, þá er viðkunnanlegra að rétt sé með farið.

Athugasemd Sigurðar skólameistara: „Þetta var nú ljóta Njálan,“ var ekki sögð af því til­efni að nemandi hans kynni ekki það sem hann átti að kunna í Njálu. Sigurður var að prófa nemanda í íslensku og þótti hann standa sig illa, kunna lítið í móðurmálinu. Og þá spurði meistari: „Heyrðu, góði minn, hver hefur kennt þér íslensku?“ Og nemandinn svaraði: „Hann heitir Njáll.“ Og þá var það sem meistari sagði: „Þetta var nú ljóta Njálan.“

Ræða hv. síðasta ræðumanns var því miður nokkuð með svipuðum blæ og þessi tilvitnun hans í Sigurð skólameistara eða þau tildrög sem hann sagði hafa verið til orða hans. Ég verð að segja það, af því að hér talaði ágætur dalamaður, að þetta var ljóta Laxdælan.

Mér kemur satt að segja á óvart að heyra þennan tón allt í einu í þessum hv. þm. Það mátti hann eiga, að fyrir tveimur árum hafði hann miklu meiri fyrirvara varðandi stuðning sinn við Grundartangaverksmiðjuna, benti á ýmislegt sem mátti verða mönnum til varnaðar. Nú hefur hann alveg frelsast, að því er virðist, og er farinn að halda ræður í svipuðum dúr eins og hæstv. landbrh. flutti um þá sælu sem biði byggðarlagsins þar efra með tilkomu þessarar verksmiðju. (Gripið fram í: Og er þá mikið sagt.) Og er þá mikið sagt, já.

Annars er ég ekki hingað kominn í þennan stól til þess að bera neitt í þann læk sem þegar er orðinn barmafullur af óhrekjanlegum rök­semdum gegn Grundartangaverksmiðjunni. Mig langar aðeins að drepa á nokkur atriði sem mættu kannske verða mönnum umhugsunarefni.

Hvernig stendur á þessu kappi sem stjórn­völd leggja á að fá þessa verksmiðju, þrátt fyrir þær staðreyndir sem fyrir liggja? Það er búið að sýna fram á það, að ef rekstur þessarar verksmiðju hefði verið hafinn á s. l. ári, þá hefði tapið orðið um 800 millj. Það er búið að sýna það, að raforka til verksmiðjunnar er sama sem gefin. Það er búið að sýna fram á, að þessu fyrirtæki er ekki gert að hlíta ákvæðum um mengunarvarnir nema að takmörkuðu leyti, þegar tekið er tillit til þeirrar kröfu sem Heilbrigðis­eftirlitið gerði í þessum efnum. Það er búið að sýna fram á þetta, það er búið að sýna fram á hitt.

Hér eiga útlendingar hlut að máli, eins og oft áður í stórmálum á undanförnum áratugum. Ég er þeirrar skoðunar, að þegar sagnfræðingar framtíðarinnar fara að kanna þetta tímabil, þá verði það eitt helsta rannsóknarefni þeirra og undrunarefni jafnframt hvað hafi ráðið afstöðu valdamanna þessarar þjóðar gagnvart útlendingum.

Svo segir í hinni ágætu bók, Atómstöðinni, að hvenær sem Búi Árland nálgaðist Uglu eða yrti á hana, þá „fékk hún í hnén“, eins og nóbelsskáldið orðaði það. Það er engu líkara en íslenskir valdamenn, þeir sem mestu hafa ráðið um íslensk stjórnmál á undanförnum áratugum, hafi „fengið í hnén“, aftur og aftur „fengið í hnén“, þegar þeir hafa staðið frammi fyrir útlendu valdi. Svona virðist þetta hafa verið í sambandi við hermálin, landhelgismálið aftur og aftur og nú í sambandi við stóriðjuna. Ég vona að sú komi tíð að þeir menn, sem mestu ráða um örlög þessarar þjóðar, hætti að „fá í hnén“ gagnvart útlendu valdi.

Nú er farið að fækka á fundinum, ýmsir þeir, sem töluðu hér í dag, eru horfnir af vettvangi. Hv. þm. Benedikt Gröndal, formaður Alþfl., veitt­ist að þeim eina fulltrúa frá iðnn. sem gerði málinu raunverulega einhver skil, veittist að honum beinlínis fyrir það. Ef við hefðum ekki fengið ræðu hv. þm. Sigurðar Magnússonar og samanburð hans á kröfum Heilbrigðiseftirlitsins og svo aftur á móti starfsleyfinu sem veitt var til vinnslu á Grundartanga, þá hefðum við ekki vitað það sem við vitum núna um hættuna sem vofir yfir byggðarlaginu þar efra, mengunarhætt­una sem vofir yfir þegar verksmiðjan tekur til starfa. Fyrir þetta veittist hv. þm. Benedikt Gröndal sérstaklega að Sigurði Magnússyni, kallaði þetta sparðartíning, auvirðilegan sparðar­tíning. Og til þess nú að allir vissu að hann, Benedikt Gröndal, hefði fjallað um mengunar­hliðina af samviskusemi, þá lét hann þess getið að hann hefði talað við forstöðumann Heilbrigð­iseftirlitsins og sannfærst um það af því sam­tali að allt væri í besta lagi.

Menn sýna hver af öðrum mjög vítavert ábyrgðarleysi í sambandi við þetta mál. Og málflutn­ingur sumra kemur mjög á óvart, þegar hann er miðaður við það sem þeir hafa verið að segja á öðrum vettvangi.

Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, form. þingflokks Framsfl., sagði frá því í dag, að þegar við vor­um báðir staddir vestur í New York, þá hefði hann orðið var við það, að ég hefði aflað mér gagna um Union Garbide og ég hefði leyft honum að athuga þessi gögn. Það er rétt, ég reyndi að leiða hann í allan sannleikann um rennan auð­hring, og ég verð að segja það, að hann reyndist hinn námfúsasti nemandi, enda játaði hann í dag að það hefði verið kominn í hann mikinn beygur varðandi samstarfið við þennan auð­hring eftir að ég hafði haft hann í læri, miðlað honum fróðleiknum vestur í New York. En hann er ekki fyrr kominn heim heldur en hann turn­ast, lendir þá í öðrum og verri félagsskap og endurskoðar þessa afstöðu sína.

Mér hefur því virst núna að undanförnu, þegar ég hef lesið leiðara Tímans, að þessi hv. þm. hafi aftur verið að vitkast.

Það má vitna í þessa leiðara sem svar við málflutningi hv. þm. Hér í dag. Hann segir t. d. 11. jan. — undir leiðarann skrifar ÞÞ: „Reynslan af viðskiptunum við álhringinn“ — hann er að að ræða um mengunina í Straumsvík — „hvetur vissulega til varfærni þegar fjölþjóðafyrirtæki eiga í hlut, og undarlegt hlýtur það að þykja ef einhverjir láta sig dreyma um frekari samn­inga við hann meðan hann vill ekki hlíta íslensk­um lögum, ekki greiða eðlilegt orkuverð og ekki fullnægja loforðum um umhverfisvernd.“ Og svo bætir hann við: „Annars mun það rétt, að hann er hvorki verri né betri en fjölþjóðafyrirtæki eru yfirleitt. Þess vegna ber smáþjóðum eins og íslendingum að eiga sem minnst undir þeim.“ Og lýkur leiðaranum á þessum orðum: „Íslend­ingum hefur gefist best og mun áfram gefast best að treysta á eigið framtak.“

Þegar ég las þetta var ég sannfærður um að höfundurinn væri á móti Grundartangaverksmiðjunni.

Í leiðara 10. mars, sem heitir: „Er þörf fyrir stóriðju útlendinga?“ er tónninn alveg þessi sami. Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson lykur þeim leiðara með þessum orðum: „Ísland býður þjóð­inni þannig vissulega mikla möguleika til góðr­ar afkomu ef hana brestur ekki framtak til að hagnýta þá. Íslendingar þurfa vissulega ekki að gerast háðir erlendri stóriðju á neinn hátt.“

Þetta tel ég að merki það, að við þurfum ekki heldur að gerast háðir Elkem-Spigerverket. Og sá, sem þetta segir, hann er, meðan hann er að semja þennan leiðara, á móti Grundartangaverksmiðjunni. Það eru nú reyndar ennþá fleiri framsóknarmenn. Situr einn á vinstri hönd hv. þm. Þórarni Þórarinssyni núna, sem áreiðanlega er á móti henni líka. Og ég sé a. m. k. tvo sem eru það áreiðanlega í hjarta sínu. Þar með er nú eiginlega upp talið Framsóknarliðið í salnum þessa stundina, að undanskildum hæstv. ráðh.

En nú kem ég að því, hvers vegna framsóknarmenn, að undanskildum tveimur, koma ekki fram og mótmæla, lýsa yfir þessari afstöðu sinni. Mér er ljúft að vitna það, að þegar ég rabba við þessa menn marga hverja eru þeir nákvæmlega sam­mála mér um öll helstu mál. Og þetta segi ég þeim til hróss. Ég finn yfirleitt engan mun þeg­ar ég rabba við þessa menn einslega. En svo kemur annað til skjalanna þegar á að fara að afgreiða mál. Þá gerist svipað og þegar fóstrur á dagheimilum fá sér göngu með börnin. Þá ganga þær á undan og halda í band og börnin koma á eftir og halda öll í þetta band. Þetta sama er að gerast með þingflokk Framsfl. á þess­ari Grundartangagöngu. Það gerist yfirleitt í þessum göngutúrum, að það eru einhverjir óþekktarormar. Tveir hafa svolítið vikið frá, sleppt bandinu, en afgangurinn dregst með, öll strollan. Og sú fóstra sem teymir strolluna samkvæmt fyrirskipun frá forstöðukonu dagheimilisins, sú fóstra sem hefur verið að skrifa þá leiðara, sem ég var að lesa hér úr áðan, hún ber ábyrgð á göngunni. Hún er látin taka ábyrgðina.

Það er eitt af mörgum merkilegum rannsókn­arefnum, þetta Framsóknarfyrirbæri, þessi tvískinnungur sem kemur t. d. fram annars vegar í þeim leiðurum, sem. ég var að vitna í, og svo málflutningi hv. þm. Þórarins Þórarinssonar hér í dag. Ef ég vissi ekki af reynslu að maður­inn er fyllilega normal, þá mundi maður nefna í þessu sambandi það sem er nefnt „skizofrenia“.

Hvað allt væri nú miklu gæfulegra fyrir þessa þjóð ef þessir ágætu menn, sem skipa þingflokk Framsfl., höguðu sér eins og þeim er í raun og veru eðlilegt í stórmálum. Þá væri búið með allar Grundartangaáætlanir. Við værum líka búnir að losna við herinn. Því vil ég bæta við þeirri ósk, að sú komi tíð að þessir framsóknar­þm. hagi sér eins og þeim er eðlilegt í stórmál­um.

Hæstv. iðnrh. hefur í sambandi við stóriðjumál gefið ýmsar yfirlýsingar. Til að mynda gaf hann þá yfirlýsingu í sambandi við hugmyndir um að koma upp álveri í Eyjafirði, að slíkt kæmi auðvitað ekki til mála í andstöðu við vilja heima­manna, — kæmi alls ekki til mála nú er það svo með Grundartangann, að það mál hefur aldrei verið borið undir heimamenn. Þessi nýi samn­ingur hefur aldrei verið ræddur þar á almenn­um fundi. Og það fullyrði ég, að allur þorri manna á Vesturlandi, ég get ímyndað mér 70­–80% af borgfirðingum, þeir eru harðir andstæð­ingar þessarar verksmiðju. Og þeir hafa spurt mig, bændur þar efra, þegar þeir hafa verið að heyra þessar yfirlýsingar hæstv. ráðh.: Af hverju gildir ekki sama um okkur og t. d. eyfirðinga?

Ég vil nú beina þessari fyrirspurn til hæstv. ráðh. Og ég læt það fylgja með til hv. þm. Vesturl., sem hér eru staddir, að ég skora á þá að efna með mér til almennra funda í kjördæm­inu um þetta mál áður en það fær hér endanlega afgreiðslu, svo að hæstv. iðnrh. geti fengið um það að vita hvar menn á Vesturlandi standa í þessu máli. Og þá vænti ég þess, að hann standi við þær yfirlýsingar sínar að honum detti ekki í hug að þröngva upp á heimamenn verksmiðju eins og þessari þvert gegn vilja þeirra.

Þetta er eitt af þeim dapurlegu kvöldum sem jafnan verður óþægilegt að minnast. Málið er afgreitt. Liðið er allt tilbúið. Strollan er komin á bandið. Það er oft talað um virðingu Alþ., hún sé ekki nógu mikil. Engin furða kannske.

Árið 1949, rétt eftir að búið var að ganga frá aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu með þeim hætti sem það var gert, því að þá fengu íslensk stjórnvöld heldur betur í hnén, þá var ég rit­stjóri að tímariti, mánaðarriti, sem gefið var út af ungum sósíalistum, og það kom til mín skáld, Steinn Steinarr, með kvæði sem nú er orðið frægt. Það heitir „Eir“. Skáldið ávarpar styttu, „standmynd, sem steypt er í eir“, byrjar sísvona: „Jón Sigurðsson forseti, standmynd, sem steypt er í eir.“ Seinna í kvæðinu segir skáldið: „Ó, þú, sem einn sólbjartan morgun varst ham­ingja mín.“ Það er nótt þegar skáldið stendur þarna og ávarpar Jón forseta, nótt og myrkur, eins og núna, þegar búið er að draga tjöldin fyrir gluggana hérna í salnum. Og þó að nú séu næstum 30 ár síðan skáldið orti þetta, þá sýnist mér að hugleiðingar þess eigi við enn í dag. Ég tek sem dæmi þessar ljóðlínur:

„Eitt þögult og dularfullt hús stendur andspænis oss, og enginn veit lengur til hvers það var forðum reist, en nafnlausir menn, eins og nýkeypt afsláttar­hross, standa náttlangt á verði, svo það geti sjálfum sér treyst. Jón Sigurðsson forseti, standmynd, sem steypt er í eir, hér stöndum við saman í myrkrinu — báðir tveir.“