18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3290 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. 2. minni hl. (Sigurður Magnússon):

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu, enda liðið á nóttu og hæstv. forseti hefur ákveðið að halda hér fundi áfram þó að þm. hafi gefist upp á að fylgjast hér með umr., m. a. ýmsir þeir sem hér töluðu í kvöld og í dag og full ástæða hefði kannske verið til að tala frekar við hér úr ræðu­stól, þannig að það eitt hlýtur að stytta mitt mál.

Ég ætla þó að víkja að nokkrum atriðum. Mörgum atriðum og rangfærslum hefur nú þegar verið svarað af öðrum ræðumönnum hér og þess vegna óþarfi að víkja að því aftur af mér, en öðru kannske ekki fyllilega svarað og þess vegna ætla ég aðeins að víkja að því.

Það kom fram í máli síðasta hv. ræðumanns og það alveg réttílega, að núv. ríkisstj. fylgir engum áætlunarbúskap í raforkumálum og hún á sér enga stefnu í raforkumálum. Þetta hafði ég reyndar vitað og sagt í framsöguræðu minni hér fyrr í dag, þegar ég hafði nokkur orð um okkar raforkuframkvæmdir og skipulagsleysi og ráðleysi sem þar ríkti. En það eru greinilega fleiri á þessari skoðun, m. a. þm. stjórnar fl., og væri vonandi að þeir væru fleiri en einn og fleiri en tveir, þannig að takast megi e. t. v. að leiða núv. ríkisstj. á réttar brautir í þessum efnum.

Það er búið að minna á það hér, að þegar fram­kvæmdir voru ákveðnar við Sigölduvirkjun á sínum tíma, í tíð fyrrv. ríkisstj., þá voru þær ákvarðanir allar teknar, svo sem fjárskuldbindingar, ákvarðanir um lánsmöguleika til framkvæmda, án þess að framkvæmdirnar væru bundnar við erlenda stóriðju eða neina stóriðju eða einn einstakan stóran orkukaupanda. Á þetta hefur verið minnt hér í umr., og þetta hefur reyndar margoft komið fram í ræðum þm. Hér í þingsölum og í blöðum ríkisstj. á sínum tíma þegar þetta mál var til umr, á Alþ. Enn þá er þó verið að hamra á því af ýmsum að þetta sé rangt, að Sigölduvirkjun hafi verið tengd einhverj­um slíkum stóriðjuáformum. Og einkum er reynt að koma því á hv. fyrrv. iðnrh., Magnús Kjart­ansson, að hann hafi með ákvörðun sinni um framkvæmdirnar við Sigöldu gert ráð fyrir Grund­artangaverksmiðjunni sem hinum stóra orku­kaupanda.

Það eitt er rétt í þessu, að um svipað leyti og ákvörðun um Sigölduvirkjun er tekin, framkvæmdarákvörðun, þá eru settar í gang alhliða athuganir á því, hvaða orkumarkaður væri heppi­legastur fyrir þessa virkjun, því þá var þannig staðið að málum þegar stórar virkjunarframkvæmdir voru settar í gang, að ákveðið var að sjá fyrir nægum raforkumarkaði. Þá var þessi möguleiki skoðaður eins og ýmsir fleiri af sér­stakri viðræðunefnd, en honum var síðar ýtt til hliðar, sérstaklega eftir að áhrif olíuverðhækkana fóru að koma í ljós í raforkuiðnaðinum á árinu 1973. Þetta varð til þess að ekki einungis þáv. iðnrh., heldur öll þáv. ríkisstj. og m. a. annar stjórnarflokkurinn í núv. ríkisstj., Framsfl., stóð að þeirri stefnubreytingu eða stefnumörkun sem þá var gerð, þ. e. a. s. að hraða nýtingu innlendr­ar raforku m. a. með það í huga að nýta þann markað fyrir framleiðsluna frá Sigöldu. Þetta finnst mér að hv. þm. Framsfl. eigi að vita og það eigi ekki að þurfa að minna þá á þetta í þingræðumnú í dag. En það er eins og þetta sé gleymt og vegna þess langar mig nú að vitna hér til þingtíðinda, en þau geta verið býsna góðar heimildir þegar minnisleysi eins og þetta ásækir þm.

Þingtíðindin, sem mig langar að vitna til, eru frá þinginu 1973–74, 23. hefti, og greina frá umr. á Alþ. í apríl á árinu 1974, Þá er hér til umr. í þinginu þáltill. um nýtingu innlendra orkugjafa sem var lögð fram af þáv. iðnrh. sem gerði það fyrir hönd allrar ríkisstj. Ég vil geta þess, að þessar umr. snerust ekki síst um mikla og merka skýrslu, sem fylgdi þessu máli hér á Alþ., skýrslu sem iðnrh. hafði látið gera um þessa innlendu orkunýtingu. Hann hafði skipað vinnu­nefnd þegar haustið 1973, þegar sýnt var að hverju stefndi vegna olíuverðhækkana. Hann hafði skipað þá n. og starfshópa til að vinna að þessu máli, og sú skýrsla var lögð fram um leið og þessi stefnumörkun átti sér stað. Hér segir:

Ríkisstj. hefur í sambandi við þessa skýrslu lagt fram till. til þál. sem felur í sér að áfram verði haldið þeirri rannsókn, sem hafin var í fyrrahaust, og sett ákveðin markmið í því skyni,“ og vil ég leyfa mér að lesa upp þá till., með leyfi hæstv. forseta, en hún er svo hljóðandi: „Alþingi ályktar eftirfarandi:

Gerð skal ítarleg framkvæmdaáætlun um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu til húshitunar og annarra þarfa. Skal áætlunin miðuð við árlega áfanga og sem mestan framkvæmdarhraða og fela í sér eftirtalin atriði:

1) Hitaveituframkvæmdir hvarvetna þar, sem jarðvarmi er tiltækur og nýting hans talin hagkvæm. Verði miðað við að hitaveituframkvæmd­um verði í meginatriðum lokið á árinu 1977.

2) Samtenging allra orkusvæða landsins og breyting á dreifikerfum svo að landsmenn allir geti átt kost á nægri raforku. Ráðist verði í nýjar virkjanir sem tryggi næga orkuframleiðslu og auknar rannsóknir á nýtanlegum virkjunar­stöðum. Verði að því stefnt að sem flestir þeirra, sem ekki eiga kost á jarðvarmaveitum, geti nýtt raforku til húshitunar fyrir árslok 1981.

3) Fjármögnunarraðstafanir með innlendri fjáröflun og erlendum lantökum, svo að nægi­legt fé verði jafnan tiltækt til þessara fram­kvæmda.

Framkvæmdaáætlun þessi skal lögð fyrir næsta þing.“

Að þessari stefnumörkun stóð öll fyrrv. ríkis­stj., og hér er sem sagt ákveðið mjög skýrt og skilmerkilega að hraða mjög öllum áformum um þessa innlendu orkunýtingu. Það er ekki látið þar við sitja, heldur er beinlínis í þáltill. gert ráð fyrir því, að strax á næsta þingi, væntanlega strax á haustinu 1974, verði lögð fram fjármögnunaráætlun um þessar framkvæmdir.

Það er svo annað mál, og á því bera ekki þeir aðilar ábyrgð sem aðild áttu að síðustu ríkis­stj. og eiga ekki aðild að núv. ríkisstj., að þess­ari stefnu var ekki framfylgt. En Framsfl. hefur í þessu máli eins og svo oft áður í málatilbúnaði sínum tekið skjótum stakkaskiptum og hann hefur ekki hirt um það í samstarfi í núv. ríkisstj. að koma þessari stefnu fram. Frá henni var horfið, sem oft hefur verið minnst á.

Í þessari skýrslu, sem ég vitnaði barna til eða um ræðir í þessari ræðu, og með þessari þáltill. var, eins og ég sagði áðan, mjög ná­kvæm úttekt gerð á raforkumarkaðinum á Íslandi og áætlanir gerðar um að nýta hann sem allra fyrst. Í þessari skýrslu var einnig gerð grein fyrir þeim nauðsynlegu forsendum sem þetta mál hlyti að hvíla á, svo sem byggingu stofnlínu í landinu og endurbyggingu dreifikerfis­ins. Segir í ræðu fyrrv. iðnrh. í þessu máli, og talar hann þar fyrir hönd ríkisstj., eins og þegar hann gerir grein fyrir þál.:

„Gert er ráð fyrir að byggðalína til Norður­lands verði tengd í árslok 1975, og nauðsynlegt er að gera ráð fyrir að tenging Austurlands við Norðurland verði samtímis virkjun Kröflu, eins og áður hefur verið fjallað um hér á hinu háa Alþingi.“

Þetta er ein af þeim ákvörðunum sem fyrri ríkisstjórn tók í sambandi við línubyggingar. Þessi lína var ekki komin fyrir árslok 1975, eins og ég hef minnst á, og hefur m. a. orðið til þess að skapa alvarleg raforkuvandamál norður í landi. Áætlun um framkvæmd þessarar línubygg­ingar var frestað af núv. ríkisstj., en í stað þess var ákveðið að flytja byggingu Kröfluvirkjunar, og ég ætla í sjálfu sér ekki að sakast við þá, sem voru bjartsýnir um virkjun Kröflu á sínum tíma. En það er ljóst að þessar ákvarðanir hafa leitt til ófremdarástands og eðlilegra hefði verið að flýta línubyggingunni og gefa sér betri tíma til rannsókna á Kröflusvæðinu, eins og að var stefnt.

Í þessari ræðu segir einnig í sambandi við rafhitunarmarkaðinn:

„Ef gert er ráð fyrir fullri rafhitun og að um 80% hennar verði komin í notkun 1980 eða 1981, er nauðsynlegt að allar landshlutatengilínur verði þá komnar og a. m. k. 80% af dreifikerfisbreyt­ingum“

Hér sem sagt gerði fyrrv. ríkisstj. ráð fyrir því, að 80% rafhitunarmarkaðarins yrði komið í notkun 1980 og að þá væri búið að koma á þess­um stofnlínum og að mestu leyti að endurbyggja dreifikerfið. Og þáltill., sem ég las upp áðan, gerði ráð fyrir að að þessari stefnu væri unnið. Ef svo hefði verið gert og ef við stæðum frammi fyrir því nú í dag, að 80% af nýtanlegum raforkuhitamarkaði á Íslandi væru komin í gagnið árið 1980, þá gætum við allt eins notað þann markað fyrir raforkuna frá Sigöldu eins og Grundartangaverksmiðjuna. Nú er gert ráð fyrir að hún komi í gagnið einhvern tíma seint á árinu 1979 og er ekki mikill munur á í þeirri tíma­setningu og þeirri tímasetningu sem gert var ráð fyrir í þessum málatilbúnaði.

Á þessu vildi ég vekja nokkra athygli hér vegna þess að umr. hafa nokkuð snúist um þetta. En ég vil sem sagt varðandi þennan þátt málsins taka undir þessi orð síðasta ræðumanns, sem voru alveg hárrétt, að núv. ríkisstj. hefur ekki fylgt áætlunarbuskap og skipulögðum vinnubrögð­um eða mótað skýra og afdráttarlausa stefnu í raforkumálum og því er nú ástand þessara mála eins og raun ber vitni.

Það hafa sumir látið að því liggja hér í umr. að við andstæðingar þessa frv. værum í alla staði á móti stóriðju, töluðum margir gegn stóriðju. En ég vil leiðrétta þetta. Þetta er alrangt. Ég gat m. a. um það í minni framsöguræðu að margs kyns stóriðja gæti verið hugsanleg hér á Íslandi og mjög gagnleg fyrir þróun okkar atvinnugreina. Ég nefndi þar m. a. stækkun á ýmissi stóriðju sem þegar er reynsla af í landinu, eins og sementsframleiðslu og áburðarframleiðslu. Nefnd hefur verið heykögglaframleiðsla og framleiðsla úr steinefnum sem væri ein af þeim nýiðnaðar­greinum sem að væri stefnt að byggja upp í landinu. Slíkar verksmiðjur, steiniðjuver, eru verksmiðjur sem nýta þetta 10–20 mw., algeng stærð slíkra verksmiðja, og það er vissulega stóriðnaður á okkar mælikvarða — mjög stór iðnaður. Ekki síst ef honum er komið fyrir hér utan þéttbýlissvæðisins, þá hljóta það að teljast stór og öflug fyrirtæki.

Stóriðja með þátttöku erlends fjármagns eða erlendra aðila getur líka vissulega við vissar kringumstæður, sé rétt á málum haldið, átt rétt á sér ef slíkt hentar okkar raforkumarkaði og ef forðast er að fara í samvinnu við erlenda einokunaraðila, sem geta í gegnum margslungin hagsmunatengsl og einokunaraðstöðu stjórnað og stýrt slíkum atvinnurekstri. Margs konar heil­brigð samvinna getur vissulega átt sér stað við erlendar þjóðir í sambandi við atvinnufram­kvæmdir og vil ég undirstrika það hér sem mína skoðun. En það á ekki við um þær framkvæmdir sem hér er verið að boða.

Ég vil svo víkja aðeins að enn öðru atriði. Það hafa nokkrir ræðumanna hér haft á því orð að það væri söknunartónn í þessu nál. sem ég stend að, þar sem minnst er á fyrri aðila að þessu máli, Union Carbide, vegna þess að fram kemur í nál. mínu, að ég tel að þessi samvinna við hinn norska aðila sé að sömu leyti neikvæðari en þær hugmyndir sem boðið var í samvinnu við Union Carbide.

Ég vil taka það skýrt fram, að hér er ekki um neinn söknuð. að ræða. Ég studdi aldrei það mál og reyndar hafði ekki aðstöðu til þess að láta skoðun mína í ljós um það þá á Alþ., en hefði ekki gert það, ef svo hefði borið undir. En það eru nokkrir þættir þarna, sem ég hélt að ég hefði gert glögga grein fyrir, sem skipta miklu máli í þessu sambandi.

Það er í fyrsta lagi mengunarþáttur þessa máls. Það er ekki neinn tilbúningur af minni hálfu að samvinnan við norska aðilann sé verri hvað því viðkemur, heldur er ráð skjalfest af Heilbrigðiseftirliti ríkisins. Í skýrslu þeirri, er ég las hér upp fyrr í dag, frá Heilbrigðiseftir­litinu, þar sem fjallað er um þetta, segir einmitt á einum stað eftir að búið er að skýra frá þess­um aðdraganda, þar segir Heilbrigðiseftirlitið að það hafi orðið að taka upp sjálfstæða rann­sókn á þessu máli eftir að ljóst var að það var kominn nýr aðili, samstarfsaðili, vegna þess að hinn norski aðili beitti annarri tækni og fram­leiðsluaðferðum en Union Carbide. Og á einum stað segir, ég les það orðrétt, reyndar las ég það fyrr í dag, en ég ætla að endurtaka það hér vegna þess að mér virðist að menn hafi ekki náð því. Þar segir:

„Í umsókn fyrirtækisins er eindregið óskað eftir því að starfsleyfi verksmiðjunnar byggi á reglum norskra yfirvalda um mengunarvarnir í slíkum verksmiðjum þar í landi sem nýlega hafa verið settar. Reglur þessar eru að verulegu leyti frábrugðnar áður nefndum till. bandarísku umhverfisverndarstofnunarinnar og gera ekki jafnstrangar kröfur til hreinsunar rykmengaðs útblásturslofts frá slíkum verksmiðjum.“

Þar með vænti ég að ég hafi gert grein fyrir þessu atriði.

Ég hef einnig lýst áhyggjum mínum yfir þeirri tæknisamvinnu sem gert er ráð fyrir að hafa við hinn norska aðila. Í Union Carbide-málinu var gert ráð fyrir að þriðji aðili hefði slíka starf­semi með höndum við hönnun og byggingu verk­smiðjunnar. Nú er það tæknideild Elkems sem fær þarna einokunaraðstöðu, sem þýðir það að við erum háðir þeirri tæknideild m. a. um smiði hreinsibúnaðar, breytingar á honum síðar og viðhald, og þetta tel ég að einkum sé hættulegt.

Og í þriðja og síðasta lagi hef ég vakið at­hygli á því, að ég tel að markaðsmálin í tengsl­um við hinn norska aðila séu að mörgu leyti verri. Þar kemur tvennt til. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því í þessum samningum að hinn norski aðili selji verksmiðjunni á Grundartanga hráefni til framleiðslu kísiljárns úr námum sínum í Norður-Noregi, hann selji henni elektrónur og ýmsan síkan búnað, og einnig, sem snertir mark­aðsmálin, að það verður sölusamband, sem hinn norski aðili hefur tögl og hagldir í, Fesil, sem annast sölu á framleiðslu verksmiðjunnar.

Ég held að í gegnum alla þessa þætti sé ástæða til að óttast að þarna geti ekki orðið um eðlilega samvinnu milli þessara aðila að ræða.

Ég veit ekki hvort það er ástæða til þess fyrir mig hér og nú að fjalla miklu ítarlegar um þetta mál. Stuðningsmenn þessa frv. og andstæðingar mínir hér á þingi í þessu máli hafa ekki séð ástæðu til þess að rökræða málið og hafa í sjálfu sér í mjög fáum atriðum vikið að þeim röksemdum sem ég hef sett hér fram, heldur reynt að afgreiða málið með almennu orðalagi og vikið sér undan því að koma að kjarna þess.

Þannig segir t. d. hv. þm. Þórarinn Þórarinsson í sambandi við allar þær arðsemisáætlanir og rekstraráætlanir, sem liggja fyrir, m. a. útreikn­aðar af Þjóðhagsstofnun, og sýna stórfelldan halla á verksmiðjunni og um allar þær upplýsingar, sem liggja fyrir um ástand markaðarins og eru mjög neikvæðar, þá segir hann með sama hætti og hann vill afgreiða mengunarþátt þessa máls, að hann hafi ekki vit á þessu. Við svona menn þýðir vitaskuld ekkert að tala eða rökræða og verður það því ekki gert hér að þessu sinni. Ég vil þó víkja að einu atriði sem hann kom að í sambandi við þetta með arðsemi og rekstur verksmiðjunnar, að hann vildi líkja því við sjáv­arútveginn okkar íslenska. Hann sagði að hann ætti sín góðu og erfiðu ár og svo væri um rekst­ur yfirleitt. Það er vissulega rétt hjá þessum hv. þm., að ýmis konar atvinnurekstur getur átt bæði við góð og erfið ár að búa, og þetta þekkj­um við hér á Íslandi m. a. úr sjávarútveginum. En þar er langur vegur á milli að líkja því sam­an, rekstrarerfiðleikum hans og því máli sem hér liggur fyrir. Sjávarútvegurinn hefur fyrst og fremst við rekstrarerfiðleika að glíma vegna einhæfni sinnar, og við íslendingar höfum verið á síðustu árum að reyna að gera þann iðnað fjöl­breyttari, setja undir hann fleiri og styrkari stoðir með því að taka upp nýtingu nýrra fisktegunda og nýjar framleiðsluaðferðir á þessu hráefni okkar og leita nýrra og ólíkra markaða. Þetta hljótum við að gera áfram. En slík upp­bygging styrkir þennan iðnað sem er um leið okkar aðalundirstöðuiðnaður. við kísiljárns-verksmiðju gildir ekkert slíkt. Við höfum ekki tök á því, íslendingar, að stjórna því, hvernig að þeim rekstri er staðið. Við ráðum ekki þeim mörkuðum og getum ekki meðhöndlað þá fram­leiðslu nema á einn veg, verðum að taka þeirri áhættu, þeim erfiðleikum, sem skella yfir, án þess að geta búist til varnar.

Ég hefði líka gjarnan viljað víkja nokkrum orðum að hv. þm. Benedikt Gröndal, en sé ekki ástæðu til þess úr því hann er ekki hér í salnum. En mér þótti svör hans við framsöguræðu minni næsta ómerkileg og það verður sannarlega í minnum haft, að hann skuli telja þær breytingar, sem heilbrrn. gerði á till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins um mengunarvarnir þessarar verksmiðju, ómerkilegan sparðatining, svo veigamiklar sem þær eru. Ætla ég ekki að þreyta þm. á því að fara að lesa bær hér aftur upp.

Ég vil aðeins að lokum segja það í þessu máli, að mér sýnist það ljóst að málið verður samþ. Hér á Alþ. Það hafa mjög fáir þm. stjórnarflokk­anna lýst yfir andstöðu sinni við frv., og sumir, sem hafa gert það, hafa lýst þá andstöðu við einstaka greinar þess, sem væntanlega þýðir að þeir muni reyna að knýja á um að þeim verði breytt, en jafnvel síðan fylgja málinu hvernig svo sem þeim tekst til með að fá slíkar einstakar breytingar fram, Sem sagt finnst mér ljóst af þessum umr. Hér að stjórnarflokkarnir muni í meginatriðum standa að þessu frv. Það er einn­ig ljóst að einn stjórnarandstöðuflokkurinn, Alþ­fl., ætlar sér að standa með samþykkt þessa frv. Þó hef ég orðið var við það hér á Alþ., ekki í stólræðum, frekar í hliðarsölum og í viðræðum við einstaka þm., að innst í hjarta sínu eru mjög margir, þeir sem nú munu e. t. v. greiða atkv. með þessu frv., í hjarta sínu á móti því. En þeir segja sem svo: Málið er svo langt komið að það verður ekki snúið til baka. Og bæta því svo gjarnan við, að vonandi sé þetta síðasta stóriðjan af þessu tagi sem við þurfum að fjalla um hér á Alþ. Ég vil taka undir þetta. Þó svo að ekki takist nú að koma í veg fyrir þetta glæfrafyrirtæki á Grundartanga, þá er það von mín að sú umr., sem hér hefur farið fram, og sú rannsókn, sem átt hefur sér stað á þessu máli, verði til þess að Alþ. vari sig á því að koma með önnur slík mál í framtíðinni.