18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3295 í B-deild Alþingistíðinda. (2319)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. sem mig langaði til og þótti raunar nauðsynlegt að gera við það sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, 3. þm. Reykv. Hann sagði að Framsfl. hefði snúið algjörlega frá þeirri stefnumörkun sem vinstri stjórnin markaði og hann túlkaði með upplestri úr þing­tíðindum. Þessu vil ég mótmæla. Ég veit ekki annað en að það hafi verið gott samkomulag á milli stjórnarflokkanna um að halda þessari stefnu fram, sem kemur fram í því að orkumálin, eins og margsinnis hefur verið sagt, hafa haft algjöran forgang. Það kemur fram í þeim hita­veituframkvæmdum, sem átt hafa sér stað um allt land, aukinni og árangursríkri leit að heitu vatni, áframhaldi á þeim virkjunum, sem þá voru ákveðnar, og tengilínu á milli orkuvera á Suðurlandi og Norðurlandi, sem kemur í gagnið eigi löngu síðar en Sigölduvirkjun tekur til starfa. Hitt er svo annað mál, sem ég drap á áðan, að verkefnið að koma orku til húshitunar um allt landið er milljarðafyrirtæki sem við ráð­um ekki við á skömmum tíma, og hvarflar ekki að mér að við getum unnið slíkt verkefni á einu ári eða tveimur. Ég vil skýra það í leiðinni, að þegar ég talaði um það í ræðu minni áðan að við byggjum ekki við samræmda orkustefnu, þá á ég fyrst og fremst við það, að við búum í dag við það skipulag hér í landinu að við höfum stórt fyrirtæki, sem heitir Landsvirkjun, helm­ingafyrirtæki ríkisins og Reykjavíkurborgar, hér starfa Rafmagnsveitur ríkisins og fjöldamargar bæjar- eða sveitarfélagaveitur, og það er óljóst enn þá hver stefna verður mörkuð um samteng­ingu, samrekstur eða samvinnu þessara fjöl­mörgu aðila. En það vita eflaust líka allir þm., að það er unnið í dag af ákveðinni n. að stefnu­mörkun í þessu máli. Þetta er mál sem ég tel vera mjög aðkallandi að leysa, og á meðan það er ekki leyst, þá búum við sem sagt ekki við ákveðna markaða stefnu hvernig við komum fyrir stjórnunarþætti orkumálanna í framtíðinni.