19.04.1977
Sameinað þing: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3300 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

266. mál, útgjöld vísitölufjölskyldunnar

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ef ég hef tekið rétt eftir tölum í svari hæstv. forsrh. eru heildarútgjöld vísitölufjölskyldunnar 1807 þús. kr. Þessi stærð er ekki ný, en það er afar sjaldan sem það kemur fram opinberlega hvernig þessi vísitölufjölskylda er og við hvað er miðað. Mér er það minnistætt frá því að ég starfaði sem blaðamaður, að það var gert mikið til þess að hindra að þessi tala væri birt eða henni hampað mikið. En það er óneitanlega mjög fróðlegt að meðalfjölskyldan, sem við notum til þess að reikna breytingar á verðlagi og kjörum, vísitölu­fjölskyldan, skuli hafa 150 þús. kr. á mánuði. Ég bendi á þetta vegna þess að það standa yfir samningar um kaup og kjör vinnandi fólks í landinu og verkalýðsfélögin hafa gert þá grundvallarkröfu að láglaunafólk komist upp í 100 þús. kr. laun á mánuði. En svo er að heyra, sem sterkum öflum í þjóðfélaginu og forstöðumönn­um atvinnulífsins þyki þetta vera miklar og harðar kröfur sem vafasamt sé að efnahagslífið geti staðið undir. Þess vegna vil ég benda þessa staðreynd, að vísitölufjölskyldan hefur 150 þús. kr. tekjur á mánuði.