19.04.1977
Sameinað þing: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3303 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

202. mál, sykurhreinsunarstöð

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. 12. maí 1976 var samþ. á Alþ. þál. þar sem ríkisstj. var falið að láta fara fram könnun á hagnýtu gildi þeirra hugmynda sem upp hafa komið um sykurhreinsunarstöð hér á landi. Iðnrh. sendi Iðnþróunarstofnun Íslands þær áætlanir sem því höfðu borist um þetta mál, en þær byggja á því að reisa verksmiðju er flytti inn hrásykur, hreins­aði hann og pakkaði til notkunar á innanlandsmarkaði, en heildarsykurneysla hér á landi er nú áætluð um 10 þús. tonn á ári. Iðnþróunarstofnun var beðin um könnun á þessu máli, eins og farið var fram á samkv. þál. í umsögn Iðnþróunarstofnunar segir m. a.:

„Sykurhreinsunarstöð yrði að ráða yfir öllum innlendum markaði, því að verðsveiflur eins og átt hafa sér stað undanfarin ár yrðu öllum hugsanlegum rekstraryfirburðum verksmiðjunnar of­viða sem í stöðugu ástandi væru ugglaust til staðar.“

Hinar miklu verðsveiflur á sykri valda því, að afar erfitt er að gera sér fullkomna grein fyrir hver verðmunur raunverulega er á milli hrá­sykurs og hreinsaðs sykurs þegar til lengdar lætur. En miðað við þær upplýsingar, sem Iðn­þróunarstofnunin hafði um þann verðmun sem var í febrúar á síðasta ári á milli hrásykurs og hreinsaðs sykur, er talið að ráðgert fyrirtæki hefði ekki starfsgrundvöll.

Þetta er mat Iðnþróunarstofnunar. Í viðræðum iðnrn. við Iðnþróunarstofnun hefur komið fram að til þess að komast nær raunverulegri hag­kvæmni ráðgerðrar sykurhreinsunarstöðvar væri nauðsynlegt að leita aðstoðar erlends sérfræðings, og í samráði við höfund áætlunar um sykurhreinsunarstöð hér á landi, Hinrik Guðmundsson verkfræðing, hefur verið ákveðið að leita frekari aðstoðar um eftirtalin þrjú atriði:

1. Tæknilega umsögn um byggingu og rekstur sykurhreinsunarstöðvar hér á landi, þar sem gert er ráð fyrir jarðgufu sem aðalorkugjafa.

2. Hverjar séu helstu forsendur þess, að rekstur sykurhreinsunarstöðvar komi til greina hér á landi.

3. Tölulegt mat á arðsemi fjárfestingar í fyrrnefndri sykurhreinsunarstöð miðað við ofan­nefndar forsendur.

Samband hefur verið tekið upp við finnskan sérfræðing, en ekki liggur fyrir hvenær álits hans er að vænta á þessu máli.