19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3322 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

178. mál, raforkumál Vestfjarða

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. flm. þessarar þáltill. um raforkumál Vestfjarða, að með henni er hreyft ákaflega mikilvægu máli. Reyndar hafa orkumálin verið mjög mikið á dagskrá hjá okkur hér í Alþ. Mönnum er orðið ljóst að næg raf­orka, örugg raforka og ódýr raforka er ein af meginforsendum eðlilegrar þróunar um land allt, og Vestfirðir eru að sjálfsögðu þar engin undan­tekning.

Hins vegar eru Vestfirðir að þessu leyti dálítið verr settir en flestir aðrir landshlutar, að þeir eiga lengri leið í samtengt orkukerfi, og því miður hefur nokkuð borið á því, að margir ætla að það verði því lengra í það að Vestfirðir tengist þessu samtengda orkukerfi en aðrir lands­hlutar. En það er einnig staðreynd, að á Vest­fjörðum er aðstaða til virkjunar fremur lakari en annars staðar, a. m. k. má ætla að orkuverð frá þeim virkjunum, sem þar koma til greina, verði heldur hærra en af stærri virkjunum víða annars staðar um landið. Því sýnist mér að Vest­firðir þurfi jafnvel fremur en margir aðrir á slíkri tengingu fljótlega að halda.

Þótt ég geti tekið undir þetta og fjölmargt fleira sem hv. frsm. sagði, þá fannst mér hann hins vegar sleppa nokkrum mikilvægum þáttum í þessu máli. í fyrsta lagi held ég að varla sé hægt að neita því, að töluvert mikið hefur verið gert á Vestfjörðum nú upp á síðkastið. Hann hefur sjálfur bent á Mjólká II með 5.7 mw. afli og í þeirri gífurlegu aukningu sem þeirri virkjun fylgdi. Hún kom í notkun nú á síðasta ári. Einnig hefur hann nefnt Hofsárveitu sem miðla á vatni til Mjólkár I, sem missir, eins og hann sagði réttilega, það vatn, sem hún þarf á að halda, að mestu leyti a. m. k. þegar Mjólká II er í gangi. En ég veit ekki betur en að Hofsárveita hafi verið tekin í notkun s.l. haust að verulegu leyti, þó þar eigi eftir að ljúka nokkrum frágangi, og sýnist mér það misskilningur í þáltill. hans. En það er lítið mál. Hitt er svo staðreynd, að í vetur hefur þarna eins og víða verið vatnsskortur. Úrkoma hefur verið lítil, snjór lítill og vetur alveg með eindæmum mildur í raun og veru að þessu leyti, og við slíku er ávallt erfitt að gera.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. frsm., að með þessu skrefi, sem þarna er stigið, er þó ekki gert meira en að fullnægja svona nokkurn veginn orkuþörfinni eins og hún er í dag. Sam­kvæmt upplýsingum frá Rafmagnsveitum ríkis­ins, sem hann vitnaði einnig í, — ég veit ekki hvort það eru sömu upplýsingar sem hann vitn­aði í og þar sem ég er með, — en samkvæmt þeim, sem ég er með, má ætla að árinu 1977 verði 22% aukin orkuþörf á Vestfjörðum og verði henni mætt að langmestu leyti með vatns­afli 44 gwst. af 53, en 9 gwst. með dísilorku.

Nú er það út af fyrir sig svo, að fyrir íbúann, sem fær raforkuna, eða atvinnufyrirtækið skiptir það litlu máli hvort orka kemur frá dísilrafstöð eða Vatnsaflstöð. Það er náttúrlega reikningsdæmi hvenær borgar sig að taka svo dýrt fyrir­tæki eins og nýja vatnsaflsstöð í notkun. Hvað þarf orkuþörfin eða umframþörfin að vera mikil til þess að það borgi sig, til þess að það mikla fjármagn, sem þar er bundið, verði arðbært? Engu að síður sýnist mér það rétt, sem kom fram hjá honum, að með aukinni upphitun hús­næðis muni verða mikill stígandi í þessari orku­þörf á Vestfjörðum, og af þeirri ástæðu má alls ekki langt líða frá því að þessu síðasta skrefi, sem ég hef nefnt, er lokið þar til það næsta er tekið í notkun. Á þessu verður alltaf sem sagt einhver tröppugangur, einhver umframorkuþörf umfram það, sem vatnsaflsstöðvarnar geta full­nægt, einhvern tíma. Því verður þá að fullnægja með dísilorku, en síðan verður einhver umfram­orka þegar ný vatnsaflsvirkjun er tekin í notkun.

Í þessari þáltill. er ætlast til mikils. Þar er ætlast bæði til þess að tengja Vestfirði byggða­línunni og einnig að hefja nýja virkjun á Vest­fjörðum. Ég er þeirrar skoðunar, að skynsam­legra sé að reyna að ráða þessu í einhverri for­gangsröðun og reyna að skoða þessa þætti hvorn út af fyrir sig. Ég held satt að segja, að vafa­samt sé að hvort tveggja fáist í einu, og við þurfum því að meta hvort er mikilvægara. Ég fyrir mitt leyti held að lína eða tenging sé mikil­vægari og ber að leggja höfuðáherslu á hana, og heyrðist mér reyndar hv. þm. vera mér sam­mála um það. Hann lagði ríkasta áherslu á þá tengingu. Ég harma að ekki skuli vera hafin fram­kvæmd við þessa línu.

Ég vek athygli á því, að í þessari till. mun fyrst og fremst vera fjallað um hina eiginlegu Vestfirði, en ekki um Strandirnar. En líklega er orkuskortur hvergi meiri heldur en einmitt í Strandasýslu. Þar hefur engin ný vatnsaflsstöð verið byggð nú um langan tíma, og þar hefur nokkuð árvisst orðið að keyra dísilstöðvar mjög mikið til þess að fullnægja orkuþörfinni. Þar er ekki heldur líkleg góð vatnsaflsvirkjun á næstunni, þannig að ég fæ ekki séð að orkuþörf strandamanna verði fullnægt nema með annað­hvort vaxandi dísilkeyrslu eða tengingu við byggðalínuna. Fyrsti áfangi þessarar Vestfjarða­línu mundi einmitt geta leyst úr þessum vanda strandamanna, og m. a. af þeirri ástæðu tel ég að í byggingu þeirrar línu hefði þurft að ráðast í síðasta lagi nú í sumar. Fyrsti afangi línu úr Hrútafirði í Króksfjarðarnes eða rúmlega það gæti tengst inn á línu yfir Tröllatunguheiði og þannig tengt þetta kerfi meginraforkukerfi landsins. Þetta er ákaflega mikilvægt, og því miður virðist mér að mörgum hafi yfirsést þetta. A. m. k. sýnist mér sú brýna þörf, sem þarna er, hafa lítið verið rædd. Þetta yrði jafnframt fyrri áfanginn að línu sem teygði sig síðan alla leið vestur að Mjólká. Ég tek sem sagt undir þörf fyrir þessa framkvæmd mjög eindregið og ég tel óumdeilanlegt að í hana þarf að ráðast.

Að vísu hefur verið bent á það, að þörfin fyrir aukna raforku er mjög tengd því, hvernig tekst í þeirri jarðhitaleit sem nú fer fram á Vest­fjörðum, og þessari staðreynd er varla hægt að neita.

Að sjálfsögðu er ljóst að þörf fyrir rafhitun húsnæðis minnkar mjög verulega ef jarðhiti finnst á stærstu stöðunum fyrir vestan, þar sem nú er leitað. Því miður hefur þetta ekki tekist vel alls staðar. Þetta hefur tekist á Suðureyri, en ekki í Bolungarvík, og við vitum ekki enn þá hvernig árangurinn verður á Ísafirði. En þetta hefur verið haft nokkuð sem afsökun fyrir því eða ástæða fyrir því, að framkvæmdir við þessa byggðalínu hafa verið látnar dragast.

Þótt ég viðurkenni að við jarðhita breytist orkumarkaðurinn verulega, þá held ég þó að þörfin fyrir byggðalínu í Króksfjarðarnes og fyrir Strandirnar sé óumdeilanleg og þetta hef­ur engin áhrif á þann kaflann. Af þeirri ástæðu var að mínu mati fullkomlega eðlilegt að ráðast í byggingu þeirrar línu nú í sumar. Þá lægi bet­ur fyrir sumarið 1978 hver orkuþörfin verður fyrir aðra hluta Vestfjarðakjördæmis og hvort þá væri rétt að ráðast í byggingu þessarar línu áfram.

Ég vil taka það fram, að ég tel alveg vafalaust að þessi lína þurfi að koma. Það er e. t. v. spurningin um 2—3 ár eða svo, eftir því hve mikill jarðvarmi næst á þessum svæðum, þannig að út af fyrir sig mætti hraða þessari línu.

Um virkjanir á Vestfjörðum gegnir hins vegar nokkuð öðru máli. Það er rétt, sem komið hefur fram, að margir virkjunarkostir hafa verið skoð­aðir, eins og t.d. í Dynjanda, í Vatnsfirðinum, í Þverá og Ófeigsfirði og reyndar töluvert víðar, eins og kom fram í framsöguræðu. En það er einnig óumdeilanleg staðreynd, eða a. m. k. tel­ur Orkustofnun það vera svo, að verðið frá þess­um virkjunum öllum, jafnvel þeim stærstu, eins og t. d. í Vatnsfirðinum, þar sem talað er um 30 mw. virkjun, yrði yfir 4 kr. kwst. En hins vegar er það svo, að áætlað verð frá Blöndu er u. þ. b. 2 kr. og frá öðrum nokkuð minni virkj­unum á Norðurlandi u. b. b. 2.50—2.80 kr., þannig að raforkuverð er samkvæmt þessum áætlunum Orkustofnunar töluvert hærra frá virkjunum á Vestfjörðum en frá öðrum virkjunum og nokkru stærri víða um landið. Því vaknar eðlilega sú spurning, hvernig þetta raforkuverð verður jafnað. Verður það gert með auknu jöfnunargjaldi á raforku, auknum tilflutningi eða á hvern máta annan?

Ég legg á það mjög mikla áherslu, að vestfirðingar verða að búa við ekki aðeins næga raf­orku, heldur einnig raforku sem er ekki dýrari en sú raforka sem aðrir landshlutar kunna að hafa aðgang að. Þetta er mikilvægt atriði. Það breytir hins vegar ekki hinu, að einhverjar vatnsaflsstöðvar eru nauðsynlegar og eðlilegar á Vestfjörðum, m. a. til öryggis og á toppum þegar áalagið fer saman þar og víðar um landið, þannig að virkjunarkosti þar þarf að skoða vandlega og fljótlega að ákveða hvaða kostinn á að velja.

Ég legg sem sagt höfuðáherslu á byggðalínuna fyrst og fremst strax í Króksfjarðarnes og síðan sem allra fyrst áfram með tilliti til þess, hver raunveruleg orkuþörf verður, á athugun á vatnsaflsvirkjunum, en þó með það í huga að orka frá þeim yrði að öllum líkindum dýrari en frá stærri virkjunum víða annars staðar um landið.

En það er ekki hægt að ræða þetta mál án þess að líta einnig á þá staðreynd, að Alþ. samþykkti á síðasta þingi heimildarlög um Orkubú Vestfjarða sem á að taka við rekstri allra vatnsaflsstöðva, einnig línu, ef hún yrði lögð, og dreifingu eða smásölu og rekstri hitaveitna. Þetta mál var töluvert rætt á Alþingi og er hið athyglisverðasta mál. En ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína, að ég held að þetta sé tvíeggjað sverð. Ég verð að segja, að mér þykir ekki ólíklegt að einhver töf hafi orðið í ákvarðanatöku í sambandi við Vestfirði á meðan það mál er ekki afgreitt. Ef Orkubú Vestfjarða á að taka við þessu sem ég hef nefnt, er eðlilegt að orkubúið sjálft ákveði, hvað það vill hafa sem næsta áfanga. Mér er tjáð að til þess að Orkubú Vestfjarða geti hafið göngu sína þurfi hið opin­bera að losa rafveitur ríkisins á Vestfjörðum við mjög mikið af þeim skuldum sem þar á hvíla, líklega hátt í milljarð, og einnig þurfi að tryggja verðjöfnun í jafnvel mjög auknum mæli eða verulegan hluta verðjöfnunargjalds til Orkubús Vestfjarða. En er þetta nægilegt til þess að tryggja að um alla framtíð verði orku­verð á Vestfjörðum sambærilegt við það sem er annars staðar um landið eða sem sagt hið sama? Er þetta nægilegt? Ég get ekki svarað þeirri spurningu. En þeirri spurningu verður að sjálf­sögðu að svara um leið og ef Orkubú Vestfjarða er sett á fót.

Ég hef smám saman komist að þeirri niðurstöðu og orðið ákveðnari í þeirri skoðun minni, að það sé ekki rétt leið að kljúfa orkumálin þannig upp úr, taka t. d. byggðalínuna og skipta henni niður á landshluta, Vesturland eigi hana um Vesturland, Norðurland um Norðurland, Austurland um Austurland, Vestfirðir um Vest­firðina o. s. frv., og afhenda hverjum þessara aðila orkuverin til rekstrar. Mér sýnist, og það er held ég viðurkennt, að ef það er gert, þá muni reynast nauðsynlegt að setja á fót eitthvert fyrirtæki ofan á þetta allt saman með sterkt miðstjórnarvald sem tryggir eðlilega sam­keyrslu fyrir heildina. Ég held að það sé óumdeilanlegt. Svo hefur orðið t. d. í Noregi og víða annars staðar. Þetta hefur reynst nauðsynlegt. Þar var hins vegar þróun að þessu leyti komin svo langt að skrefið var ekki stigið til baka í þá átt, sem eðlilegra er að mínu mati, að fela þá einum aðila með sterkri þátttöku heimamanna að annast orkuöflun og háspennudreifingu og þar með rekstur þessa samtengda háspennu­kerfis.

Nú hefur hæstv. iðnrh. sett á fót n. sem á einmitt að fjalla um þessi mál, og ég veit að við fögnum því allir. Vonandi kemst hún fljót­lega að niðurstöðu, þannig að leiðir verði ljósari að þessu leyti en Þær hafa verið til þessa. Og þó segja megi að þetta sé kannske dálítið annað mál en raforkumál Vestfjarða, þá er þetta þó tengt að þessu leyti, að ég óttast að mjög mikil­væg ákvarðanataka sitji á hakanum á meðan þessi mál eru óráðin. Það er ákaflega skaðlegt og verður að hraða þeirri ákvörðunartöku þann­ig að framhald framkvæmda á Vestfjörðum m. a. geti orðið eðlilegt.

Ég ætla ekki að lengja þetta um of. Ég segi það eins og ég sagði í upphafi, að ég fagna þess­ari till. og ég held að gott sé að fá umr. um þessi mál hér, eins og gert hefur verið með þessari till. En við þurfum að líta á þessi mál frá öllum hliðum. Ég tel, að við ættum að reyna að sameinast um, að fá línuna í Króksfjarðarnes strax, en getum þá aðeins beðið með að ákveða, hvort virkjað verði eða hvar virkjað yrði fyrir vestan, og jafnvel fengið einhvern lengri tíma til þess að meta þörfina fyrir framhaldslínuna þótt sá dráttur megi alls ekki verða langur.