19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3352 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

196. mál, þjóðaratkvæði um prestskosningar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er nú orðinn árlegur atburður að mál þetta komi til umr. á hinu háa Alþ. Það er dálítið sérkennilegur ókyrrleiki og undiralda í geistlegrar stéttar mönnum hér á landi og embættismönnum sem gegna eiga skyldum á því sviði varðandi kjör presta til þjónustu við söfnuðina. Það er ókyrr­leiki hjá þeim, sem virðast veigra sér við því að leggja það undir dóm safnaðanna hvaða prest þeir vilja velja sér til þjónustu, og hjá embættis­mönnum, sem að líkum gera sér vonir um að fá að deila og drottna í þessu sambandi. Mér virðist þetta vera svo.

Hér er til umr. till. um þjóðaratkv., þar sem skorið verði úr um afstöðu almennings til þessa máls. Ég geri ráð fyrir að þetta sé að verða nauðsynlegt, þar sem hið háa Alþ. liggur undir þeim ásökunum frá Kirkjuþingi t. d., að Alþ. þverskallist við því sem það vill álíta að sé mikið meirihlutafylgi fyrir hjá þjóðinni, og það er afnám prestskosninga. Málið er í sjálfheldu, eins og flm. benti á, og með einhverjum hætti þarf hið háa Alþ. að losna úr þeirri sjálfheldu, sem það er í að þessu leyti, eða undan þeim ásókunum frá klerkum, frá Kirkjuþingi, að Alþ. fari í þessu efni alls ekki að því sem þeir vilja álíta að sé þjóðarvilji eða vilji meiri hl. almenn­ings. Ég dreg það auðvitað í efa að þetta eigi sér nokkra stoð. Og það er auðvitað ekki nein ástæða til þess fyrir hið háa Alþ. að láta undan þrýstihópi eins og Kirkjuþingi, frekar en ég er þeirrar skoðunar að það eigi að hlaupa upp til handa og fóta og bera hér fram till. um það sem menn versla um sín á milli, t. d. L.Í.Ú. á sínum aðalfundum eða einhver slík hagsmunasamtök í landinu, en um þetta höfum við nóg dæmi. Það er engin ástæða til þess að rjúka upp til handa og fóta enda þótt Kirkjuþing eigi í hlut, fremur en önnur hagsmunasamtök, samtök verslunar­manna eða Dagsbrún eða Sjómannasambandið eða Landssamband ísl. útvegsmanna.

Ég er þeirrar skoðunar að kirkjuyfirvöld séu að færa sig upp á skaftið með það að ná meiri tökum á þessu máli og fá að deila og drottna varðandi skipun presta. Og það getur ekki verið á lýðræðislegan veg, það getur ekki verið það sem við köllum lýðræði. Raunar er mér næsta óskiljanlegt það, sem hv. þm. Ingvar Gíslason sagði, að hinar almennu prestskosningar, þar sem söfnuðir fá að velja sína sálusorgara sjálfir, minni hann helst á einræðisfyrirkomulag. Ég fæ með engu móti skilið samhengið þarna á milli. Einræðisherra skipar menn í stöður, og þeir hinir sömu ráða ekki hvenær þeir hætta, þangað til annaðhvort þeir deyja eða hann lætur skjóta þá. En mér virðist aftur á móti að þessi ásókn kirkju­yfirvalda sé af því tagi, að þau vilji fá að skipa menn ævilangt í þessi embætti að eigin geðþótta. Og þessar tilfæringar varðandi sóknarnefndir og annað þess háttar eru fyrirkomulag sem mér líst ekkert á. Maður sér í anda tilþrifin þegar tekið væri til við að þrýsta á þær sellur og síðan undanfara þess: áflogin um kosningar í safnaðarstjórnir. Ég aftur á móti er alveg tilbúin til þess að ræða það, að prestar verði ekki kosnir ævilangt til þessara embætta, það má gjarnan vera að því leyti, að þeir verði að ganga til kosn­inga t. d. eins og við alþm. Þeir eru ekkert of góðir til þess að ganga sjálfir fyrir kjósendur, eins og við t. d. verðum að gera, a. m. k. á fjög­urra ára fresti. Þó kynni að vera hyggilegra að hafa þetta aðeins lengri tíma, eins og 8 eða 10 ár. En það er náttúrlega illt við að búa fyrir söfnuði ef þeim hafa orðið þau mistök á að kjósa yfir sig einhvern pokaprest, að þurfa að sitja uppi með hann alla ævi hans, sem getur orðið löng, eða ef einn er aðeins í framboði svo sem mörg dæmi eru til.

Ég er þeirrar skoðunar, þvert á móti, að við eigum ekki að leggja niður prestskosningar, held­ur eigum við að taka til athugunar að kjósa miklu fleiri embættismenn, svo að þeir sitji ekki að völdum ævilangt, þannig að við þeim verði ekki hróflað nema þeir drýgi því stærri syndir eða glæpi. Þetta þyrfti að athuga vand­lega og sem fyrst, því að slík er fyrirferð embætt­ismanna í þjóðfélaginu að það þarf að taka til skarprar endurskoðunar hvernig eigi að sporna við því ofurvaldi. Að vísu ber Alþ. mikla sök í þessum efnum, því að það hefur á liðnum áratug­um æ ofan í æ verið að afhenda vald sitt embætt­ismönnum, — vald sem því ber að fara með og þeir hafa tekið gírugir við, eins og dæmin sanna. Það er talað um að Sjálfstfl. og Framsfl. stjórni þjóðinni. Þeir stjórna henni bara að hluta á móti embættismannaklíkunni — bara að hluta. Og hvernig á það líka að vera, þótt ofurmenni séu til allra verka sinna, átta ráðh., að þeir hafi nokkur tök á því að stjórna hinum flóknu mála­flokkum eins og þyrfti. Þótt þetta þjóðfélag sé fámennara en t. d. breska þjóðfélagið, þá eru mál í nýju tækniþjóðfélagi ekkert auðveldari viðfangs en í hinum stærri. Og menn sjá náttúrulega hvaða vit er í því, ef við ættum að hafa hlut­fallslega færri ráðh. miðað við fólkstölu. Þá væri ekki nema partur úr ráðh. Og niðurstaðan verður sú auðvitað, eins og ég gæti nefnt skýr dæmi um, að heilum rn. er stjórnað af ráðuneytisstjórnunum og embættismönnunum. Má heita að ráðh. komi þar lítt nærri nema þá til þess að skrifa nafn sitt, eftir því sem lagt er til að af hálfu ráðuneytisstjóra og annarra embættis­manna þar. Ég er ekki að upplýsa neitt nýtt. Þetta vita allir menn. Og menn hafa kannske tekið eftir því, að þegar mynduð er stjórn og uppi eru till. um að það þurfi að fjölga ráðh. í þessu nýja tækniþjóðfélagi okkar, þá kemur feiknalegur áróður á móti því og öllu saman er stjórnað af embættismönnunum sem mega ekki til þess hugsa að fá yfir sig pólitískt vald. Og aðalröksemdin er svo sú, að við höfum ekki efni á því, — við höfum ekki efni á að hafa ráðh. nógu fjölmenna til þess að Alþ. eða þeir í umboði Alþ. hafi nokkur tök á að stjórna eins og bæri. Þetta er náskylt þessu máli, sem hér er til umr., og þarf að taka til rækilegrar athug­unar ef Alþ. ætlar ekki að verða alveg undir.

Við verðum varir við þetta á öllum sviðum, hvernig embættismennirnir sækja fram, á þessu sviði hérna líka, þar sem mér virðist herra biskupinn vera að færa sig upp á skaftið með það að skipa alla presta landsins eða þá dómsmrh. eftir hans till. Danir brugðu á þetta ráð fyrir einum þremur eða fjórum áratugum. Og hver er reynsla þeirra? Það hefur ekki einn einasti maður fengið arðgefandi og náðarsamlegt brauð í Danmörku nema hann væri af húsi sósíaldemókrata, næstum því undantekningarlaust. Geta menn rétt ímyndað sér að hart sé fyrir sannkristna menn að hafa slíkt yfir sér, að hafa krata sem sálu­sorgara alls staðar þar sem einhverju máli skiptir.

Það er alveg ljóst mál, að það er spor aftur á bak og ekki til að þjóna lýðræðinu, ef við ætl­um að leggja niður leyfi almennings eða sóknar­barnanna til að velja sér sálusorgara. Það er talað um að prestskosningar séu illvígar mjög og þar berist menn gjarnan á banaspjót. Þetta eru þá hinir sannkristnu sjálfir sem því stjórna sem koma beint frá prófborðinu, gjarnan eftir skólun þar í einhver ár hjá þeim sem maður að öðru jöfnu skyldi halda að væru farnir að nálg­ast dýrlingatöluna. Þeir hljóta að vera hershöfð­ingjar í því, eins og t. d. alþm. í framboði eru þeir sem stjórna að meginhluta til stefnunni og baráttuaðferðunum þegar þeir bjóða sig fram. Það er talað um að það séu kannske hálfir söfnuðirnir flakandi í sárum eftir þessi átök. Fyrr má nú vera. En ég segi ekkert nema það, að það er slakur prestur, eftir að hann hefur náð kosningu, sem ekki er fljótur að græða slík sár. Þá hefur hann ekki tök á því að nota sér aðstöðu sína, sem er feiknarleg eins og menn vita, svo að þetta er auðvitað fyrirsláttur og viðbára eins og öll önnur rök í þessu máli, að því sem mér virðist.

Hv. þm. koma núna þing eftir þing með sakleysislegar till. og gera sig strangheiðarlega í framan og segja: Við erum bara að leggja til að endurskoða eldgömul lög. Hvaða æðibunugangur er í ykkur, lýðræðissinnum, sem viljið viðhalda rétti sóknarbarnanna til þess að velja sér sálu­sorgara? Við erum ekkert að leggja til að af­nema prestskosningar. Hvernig stendur á þess­ari þráhyggju ykkar að vilja ekki fallast á að endurskoða lög frá 1915? — Þegar grannt er skoðað, þá er ekkert í þessum lögum, ekki nokkur skapaður hrærandi hlutur nema inngangurinn um það, að það skuli vera almennar og beinar prestskosningar, og síðan er bara hvernig skuli haga til kosningunni, hvernig skuli hvolft úr kjörkössunum o. s. frv. Og þetta er nú sann­kristni mátinn á því að þykjast svo sem ekkert vera að gera annað en athuga í rólegheitum gömlu lögin, en ætla síðan að koma blaðskellandi, þegar n. hefur verið skipuð, með till. þess efnis að skerða lýðræðið með þessum hætti. Það er ekki viðfelldið. Þetta er ekki líðanleg aðferð.

En svo að ég snúi mér að þessari till. hæstv. forseta vorra í Alþ., aðalforsetanna þriggja, þá er ég, eins og ég sagði í upphafi, helst á því að það verði að hafa þessa aðferð, svo að við og hið háa Alþ. losni við þessa ásókn og afturgöngur þing eftir þing. Þetta er vakið jafnóðum upp aftur eftir að menn hafa sett það niður. Og það er ástæðulaust fyrir hið háa Alþ. að liggja undir þeirri ásökun, að það banni að vilji almennings nái fram að ganga í þessu efni, sem þeir hinir geistlegu stéttar menn halda fram að við gerum, en vita þó ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut um. Ég er alveg sannfærður um að í almenn­um kosningum um þetta, þjóðaratkvgr., yrði fellt með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. að afnema prestskosningar. Ég læt mér ekki detta annað í hug. Ég mun þess vegna ljá þessari þáltill. fylgi mitt. Mér er ljóst að það er auðvitað viðamikið mál að fara að framkvæma þjóðaratkvgr, En á hitt ber að líta, að við megum ekki heldur vera of spör á það ef um mjög mikilvæg mál er að tefla. Það má kannske segja, að þetta sé naumast af því tagi, en allt að einu, ef þetta getur stuðlað að því að menn hafi hér flóafrið fyrir þessari leiðindaásókn, þá vil ég gjarnan ljá því stuðn­ing minn.