19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3355 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

196. mál, þjóðaratkvæði um prestskosningar

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Því miður missti ég af framsöguræðu 1. flm. sem og ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e., þannig að ég get ekki vitnað í það sem þar var sagt. Mér þykir samt hlýða að koma hér upp og segja örfá orð í sambandi við þá till. sem hér liggur fyrir.

Ég vil segja það fyrst, að það hlýtur að vekja þó nokkra athygli þegar forsetar þingsins sam­einast um till. þar sem lagt er til að vissu máli sé skotið til þjóðaratkvæðis. Og það hlýtur að leiða líka hugann að því, hvaða reglur við höfum um þjóðaratkvgr. Þær eru, hygg ég, harla fátæklegar. En svo mikið er víst, að þjóðaratkvgr. er út af fyrir sig ekkert einfalt mál, og enda þótt æ ofan í æ hafi verið um það rætt að skjóta þessu málinu eða hinu málinu til þjóðaratkvæðis, hvort sem um her eða öl eða eitthvað annað er að ræða, þá hefur aldrei úr því orðið, og þjóðar­atkvgr. um eitthvert ákveðið málefni fór síðast fram þegar lýðveldi var stofnað á Íslandi þann­ig að síðan það var stofnað hefur hún aldrei verið framkvæmd. Ég hygg þess vegna að það þurfi vel til að vanda þegar efnt er til þjóðaratkvgr., og mér finnst út af fyrir sig rétt og eðlilegt að við stefnum að því, að mjög mikilsverðum málum verði skotið til þjóðarinnar. Ég vil segja það strax, að ég er ekki reiðubúinn á þessu stigi að leggjast gegn því að málinu verði skotið til þjóðarinnar einhvern tíma, en ekki á því stigi sem það er núna.

Sannleikurinn er sá, að mál eru venjulega það viðamikil og flókin að almenningur á þess raunar engan kost að afgreiða þau með því að skrifa eða krossa við eitt já eða við eitt nei. Það geta verið á málinu margir fletir. Og ég tel fyrir mitt leyti að þetta mál sé þess eðlis, að það sé nauð­synlegt að af hálfu Alþ. verði búið að vinna nokkra undirbúningsvinnu áður en það yrði lagt fyrir þjóðina.

Það hefur af þeim ræðumönnum, sem töluðu hér á undan mér, verið farið háðskum orðum um þetta mál, sérstaklega af hv. síðasta ræðu­manni, og bregður nú engum við í þessum sal. Það er verið að tala um það að endurskoða lög frá 1915 og tala um það í þeim dúr að þarna sé í raun og veru ekkert að endurskoða, þetta séu bara fyrirmæli um hvernig kosningin skuli framkvæmd. Ég verð nú að segja það almennt, að það er ástæða til þess að endurskoða lög og fyrirkomulag í þjóðfélagi sem hefur breyst ger­samlega á þessu tímabili síðan 1915, bæði hvað snertir búsetu fólks, samþjöppun hér á Reykjavíkursvæðinu, stækkun bæja og þorpa úti um land, sóknir sem hafa lagst í eyði, gersamlega allt, allt annað viðhorf varðandi umsóknir presta. Þeir eru sárafáir í landinu nú miðað við þann fjölda sem var í þann tíð þegar þessi lög voru sett. Það var ólíkt hvað keppt var þá meir um hvert brauð og hvert gott brauð þá en nú. Ef við getum ekki leitað að neinni leið til ein­földunar á þessum málum og föllumst ekki á að það verði rólega skoðað og settir fram einhverjir valkostir í því, þá verð ég að segja það, að ef Alþ. fellst ekki á það, þá þykir mér að hér sé ríkjandi mikil þröngsýni og mikill einstrengingsháttur. Ég hefði þess vegna í fáum orðum sagt talið að einmitt flutningur þessarar þáltill. þrýsti á með það, að Alþ. kjósi n. til að skoða þessi mál og það yrði ekki tekin afstaða til þjóðaratkvgr. fyrr en sú n. hefur skilað störfum. Það kunni að fara svo, eftir því hvernig n. er skipuð og hve mikla vinnu hún innir af hendi, að þar komi fram upplýsingar um viðhorf manna, um breytta mynd og annað, svo að Alþ. ætti auðveldara með að átta sig á málinu og auðvelda Alþ. að taka ákvörðun og meta hvort það sé ástæða til þess að leggja málið fyrir þjóðina.

Við, sem fluttum þá till. sem hér var til umr. um daginn, höfum verið vændir æ ofan í æ um alls konar óheilindi og það var gert af síðasta hv. ræðumanni. Þegar ég kom hér inn var Karvel Pálmason, hv. 5. þm. Vestf., að tala, og ég heyrði að hann var enn að tala í því máli sem var hér á dagskrá um daginn. Ég verð þó að segja það um þennan ágæta hv. þm., að ég er eflaust mjög sammála honum í mörgu varðandi viðhorf mitt og viðhorf hans varðandi kirkjulegt starf í land­inu. En við erum ekki sammála um þetta atriði. Hv. þm. vill meina það, að þeir, sem standa að tillöguflutningnum um endurskoðun á lögunum, hafi myndað sér alveg ákveðna skoðun, þeir vilja bara ekki láta hana uppi og allt annað sé fals. Ég held að hann mætti nú minnast ræðu hv. þm. Magnúsar Torfa hér um daginn, sem er einn af flm. og var aldeilis ekki á hví að hann sigldi hér undir fölsku flaggi. Sannleikurinn er sá, ef við tölum um hugsanlega niðurstöðu slíkr­ar n., að ég er ekki búinn að móta mér afstöðu um það, hvaða leið ég mundi fylgja ef n. legði fram einhverjar ákveðnar till. þannig að það væri ekki bara óbreytt ástand eða algert afnám kosninga. Ef til afnáms kemur, þá er spurning hvaða leið yrði farin. Og mér þykir brydda ærið mikið á því, að biskupnum sé gert það upp sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Austf., þar sem hann sagði að biskupinn væri að færa sig upp á skaft­ið með að skipa alla presta í landinu. Ég vil nú vekja athygli á því í fyrsta lagi, að mér þykir mjög ólíklegt að ný löggjöf yrði gengin í gildi þannig að hann hefði mörg ár á sínum embættis­ferli til þess að ráðskast með þá hluti. Og í öðru lagi þætti mér gaman að heyra hvaða prest biskupinn yfir Íslandi hefur skipað ólöglega, því miður er ræðumaður farinn úr salnum, en ég vona að hann gæti komið með það úr því að hann kemur fram með slíka sleggjudóma.

Ég vil ekki mæla gegn því, að fólk heima fyrir í söfnuðum fái að ráða þessum hlutum. Við getum sennilega deilt hér endalaust um það, hvað er lýðræði og hvað er ekki lýðræði. En ég vil bara benda á það, að í þeim hugmyndum, sem hafa verið lagðar fram og Kirkjuþing lítur nán­ast á, má ég segja, sem umræðugrundvöll, eru þau tilbrigði að söfnuðurinn í heild þarf ekkert að leita, hvorki til biskups né ráðh. Hann getur ráðið til sín mann og það er skylt að veita hon­um embættið. Það eru til fleiri leiðir í þessu. Það er spurning um það, ef ákveðið er að auglýsa starfið laust og margir sækja um, — það er eflaust hægt að finna fleiri fleti á því en það, — hvort það verða bara einhverjir ákveðnir fulltrúar sem kjósa manninn, ég skal ekki segja um það, eða hvort hægt er að setja ákveðnar reglur eða söfnuðurinn sjálfur kynni að ráða því, hvort hann leitaði eða færi með málið til almennrar atkvgr.

Ég hafna þess vegna gersamlega því, sem fram hefur komið hér, að verið sé í einhverjum felu­leik, hér sé meint annað en það, sem verið er að flytja, og hér eigi að lauma inn einhverju eftir að n. er búin að starfa. Og mér er spurn: Hvernig verður þessi n. skipuð? Ef það eru svona miklar fullyrðingar hér á Alþ. um að það sé á móti öllum breytingum, verða þá ekki allir, sem kosnir eru í n., þeirrar skoðunar að það skuli ekki breyta neinu, ef það á að fara eftir því. Mér dettur ekki í hug út af fyrir sig að þessi n. verði einlit. Og það er alveg áreiðanlegt, að mínu mati a. m. k. að það þurfi mikla lagni til og menn verði að slá töluvert af sínum hug­myndum ef þeir eru með einhverjar fyrir fram, eða a. m. k. þeir sem harðastir eru í því að engu skuli breytt, til þess að það náist samstaða í slíkri n. Hins vegar getur hún veitt mikilsverð­ar upplýsingar, og ég tel það alls ekki fráleitt að hún geti fallist á einhverja skynsamlega leið sem einfaldar þessa hluti frá því sem er í dag.

Hv. 5. þm. Vestf. kom hér með spurningu áðan sem hann kom og með í umr. um hina till. um daginn, og var ég með upplýsingar, sem ég því miður hef ekki hjá mér hér. Það er varðandi þær umsagnir sem Kirkjuþing hafði leitað eftir með­al héraðsfunda í landinu. Ég man þó vissa hluti úr þessu án þess að vilja taka ábyrgð á því að þeir séu alveg réttir. En þessi skoðanakönnun er orðin það gömul, að ég tel að á henni sé ekki byggjandi í dag. Hún var þannig, að það var aðeins einn héraðsfundur sem mælti með óbreyttu skipulagi, og það var héraðsfundurinn í Reykjavíkurprófastsdæmi. 6 fundir, hygg ég, mæltu með þeim hugmyndum sem Kirkjuþing var með þá, þ. e. 1962. Síðari frv. Kirkjuþings eru ekki í veigamiklum atriðum breytt frá því sem þá var. Ég man ekki hvort það voru 2 eða 3 héraðsfundir sem vildu taka upp beina veitingu. En eins og ég segi: niðurstaða úr könnun, sem gerð var þá, og þeirri einu, sem ég hef, ég tel að hún sé ekki til þess að byggja á fyrir n. sem að þessum málum mundi starfa.

Ég ætla að sleppa því hér núna, eins og ég hef gert að undanförnu, að ræða um lýðræðið, þetta form lýðræðis. Það er þó jákvætt í ræðu hv. 3. þm. Austurl., að hann vildi ekki hafa prestana þá einu embættismenn sem eru kosnir aftur og aftur, heldur vildi hann setja undir þann hátt fleiri embættismenn.

Mitt sjónarmið er það, að prestar eigi að lúta sömu ráðningarkjörum og aðrir opinberir embættismenn. Hitt er annað mál, að ég get vel tekið undir það, að það eigi að opna betur möguleikana fyrir því að breyta um ef menn standa sig ekki. Og ég get verið alveg opinn fyrir því, ef söfnuðirnir fá heimild til þess á eigin spýtur að ráða presta, að það verði líka opnaðir betur fyrir þeim möguleikarnir til að segja prestum upp ef þeir reynast ekki starfi sínu vaxnir.

En ég vona nú að þessi ásókn, sem sækir að Sverri Hermannssyni, hv. þm., ég vona það nú innilega að hann nái sálarheill sinni og þessari ásókn, sem hann virðist sjá hér í þinginu, linni og hann öðlist nú sálarró. Og ég held að það verði best gert með því, að áður en þessu þingi lýkur verði valinn 7 manna hópur til þess að skoða þessi mál, þessi 7 manna hópur skili áliti og í ljósi þeirrar grg., sem hann sendir frá sér, verði tekin ákvörðun um það, hvort þjóðaratkvgr. fari fram eða ekki, og þá líka hvaða valkostir verði settir fram í slíkri þjóðaratkvgr.