19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3367 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

183. mál, þjónustustarfsemi í Vestur-Húnavatnssýslu

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég er þakklátur fyrir að fá að gera grein fyrir þáltill. sem ég flyt hér um þjónustustarfsemi á Hvamms­tanga ásamt hv. þm. Páli Péturssyni. Þótt nokk­uð sé nú orðið áliðið kvölds og fáir þm. eftir í húsinu, þá er meira um vert að reyna að koma til n. þessu máli sem flutt var fyrir allmörgum vikum, þar sem nú styttist oðum það sem eftir er þings.

Þessi till. er einfaldlega um það, að aukin verði þjónusta opinberra aðila á Hvammstanga Við íbúa Vestur-Húnavatnssýslu, og þessi till. er flutt samkvæmt eindregnum tilmælum heimamanna.

Við framkvæmd byggðastefnu má segja að tvær leiðir séu til. Annars vegar er sú stefna að efla tiltölulega fáa þéttbýlisstaði í landinu, t. d. einn til tvo staði í hverju kjördæmi, og safna til þessara staða allri uppbyggingarstarfsemi, opin­berri þjónustu og stórvirkum atvinnutækjum sem völ er á að staðsetja í hverju kjördæmi. Hins vegar er sú stefna að gera ekki upp á milli stórra og smárra þéttbýlisstaða í hverju kjördæmi, heldur gefa þeim öllum færi á að þróast og dafna og láta ekki minni staðina í hverju kjördæmi lenda í skugga af hinum stærri til þess að komast hjá því að þeir minni staðni og jafn­vel visni upp.

Fyrri leiðin, sem ég nefndi, á sér ýmsa talsmenn. Menn sjá þá gjarnan aðeins einn stað í hverju kjördæmi eða í hverri sýslu og vilja draga sem mest vald og umsvif á þennan eina stað. Ég held að það sé ekki síst meðal embættis­manna í Reykjavík sem slík stefna á sér hvað öflugasta talsmenn. Ég er persónulega andvígur þessari stefnu og svo mun áreiðanlega vera um fleiri. Ég tel síðari leiðina tvímælalaust gæfu­legri fyrir byggðaþróun á Íslandi.

Byggðarlögin utan höfuðborgarsvæðins hafa lent í nokkurs konar nýlenduafstöðu gagnvart Reykjavík á ýmsum sviðum, og við eigum að forðast að hliðstæð þróun í smærri mynd eigi sér stað úti um landsbyggðina.

Vestur-Húnavatnssýsla er samfellt hérað og í því miðju hefur dafnað lítil þjónustumiðstöð á Hvammstanga. Hvammstangi hefur öll skil­yrði til að gegna þjónustuhlutverki sínu með á­gætum og þar er ört varðandi atvinnulíf bæði á sviði verslunar og annarrar þjónustustarfsemi og einnig í útgerð, fiskvinnslu og iðnaði.

Ein af sameiginlegum stofnunum sýslufélags­ins er sjúkrasamlag héraðsins. En það furðu­lega hefur gerst nú á seinustu árum, að eftir að sjúkrasamlög hreppanna voru lögð niður hefur öll þjónusta og skrifstofuhald sjúkrasamlags vestur-húnvetninga færst út úr sýslufélaginu. Stjórn sjúkrasamlagsins ákvað þó í desember­mánuði fyrir rúmum tveim árum að skrifstofu­hald sjúkrasamlagsins skyldi verða á Hvammstanga frá ársbyrjun 1975. En þá gerðist það að stofnun hér í Reykjavík, Tryggingastofnun ríkis­ins, kom beinlínis í veg fyrir það að sjúkrasam­lagsstjórnin fengi ráðið því hvar skrifstofa þess væri, eins og raunar kemur fram í bréfi sem birt er sem fylgiskjal með þessari þáltill.

Þessi afskiptasemi miðstjórnarvaldsins í Reykjavík af málefnum sjálfstæðs sjúkrasam­lags úti á landi er óþolandi og á ekki að líðast, og þar sem hér er um stefnumarkandi mál að ræða sem varðar fleiri staði en Hvammstanga og Vestur-Húnavatnssýslu, þá er alls ekki ó­eðlilegt að mál af þessu tagi sé tekið upp hér á Alþingi. Einnig er ljóst að ofríki Tryggingastofnunarinnar í málum héraðssjúkrasamlaganna er ekki heppilegt fyrir starfsemi þeirra og lang­eðlilegast að stjórnir sjúkrasamlaga séu einrað­ar um það, hvar þær vilja hafa skrifstofuhald sitt.

Annað dæmi um vandamál þessa staðar er lög­gæslumálin. Hreppsnefnd Hvammstanga hefur lengi krafist þess, að lögreglumaður verði ráðinn til starfa á Hvammstanga, en þeirri kröfu hefur alls ekki verið sinnt. Lögreglustörf á Hvammstanga hafa að undanförnu verið unnin í auka­vinnu manns sem gegnir öðru starfi.

Á Blönduósi eru tveir lögreglumenn og einn á Skagaströnd. Sýslumaður hefur hins vegar skrifstofuaðstöðu á Hvammstanga og kemur hann þangað eða fulltrúi hans einu sinni í viku.

Það þarf tæpast að taka það fram, að megn óánægja er ríkjandi heima fyrir með skipan þessara mála, og á fundi manna úr öllum hrepp­um Vestur-Húnavatnssýslu 12. maí 1975 var samþykkt að beina því til sýslunefndar Vestur­-Húnavatnssýslu, „hvort ekki sé tímabært að sýslunefndin óski eftir því við viðkomandi yfir­völd að Vestur-Húnavatnssýsla verði gerð að sérstöku lögsagnarumdaemi, en með því ætti opinber þjónusta í sýslunni að geta batnað til muna frá því sem nú er,“ sagði í þessari sam­rykkt. Á sýslunefndarfundi var svo slík sam­þykkt gerð og efni hennar sent þm. kjördæmisins.

Hér er ekki gerð till. um að Vestur-Húnavatnssýsla sé gerð að sérstöku lögsagnarumdæmi, því að vafalaust er mikil andstaða gegn því af kostnaðarástæðum að sýslumannsembættum sé fjölg­að. En flm. þessarar till. virðist ekki til of mikils mælst að skrifstofuaðstöðu sýslumannsins verði nú a. m. k. breytt í lögregluvarðstofu með fast­ráðnum lögreglumanni, og má segja að það sé lágmarksúrlausn á þessum vanda.

Fleiri vandamál eru nefnd í þessari till., m. a. viðhaldsþjónusta frá Landssímanum sem ekki er á þessum stað, en þarf þar að vera.

Í till., eins og hún var flutt fyrir einu ári, var þess óskað að einnig yrðu staðsettir viðgerðar­menn frá Rafmagnsveitum ríkisins á þessum stað. Úr því hefur ekki verið bætt.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa mörg orð um þessa till. að öðru leyti. Ég vil aðeins láta þess getið, að sýslunefnd Vestur-Húnvatnssýslu hefur mjög eindregið hvatt hv. Alþ. til að samþykkja þessa till., en till. þess efnis var samþ. á seinasta sýslunefndarfundi. Einnig hafa ýmsir aðrir aðilar hvatt til þess, að þessi till. verði samþ., m. a. hreppsnefnd Hvamms­tanga og fundur margra hreppsnefnda á þessu svæði.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn.