20.04.1977
Sameinað þing: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3374 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi tjá þakkir mínar fyrir að mér er hér gert fært að tjá mig í þessu máli, sem ég var ekki reiðubúin til í gær.

En í till. þeirri til þál., sem hér liggur fyrir flutt af ríkisstj., er farið fram á heimild Alþ. til þess að ríkisstj. setji Þjóðhátíðarsjóði skipu­lagsskrá þá sem prentuð er með ályktun þessari.

Þessi stuttorða till. hefur slíkt yfirbragð að eðlilegt virðist samkvæmt þingvenju að hv. Alþ. veitti hæstv. ríkisstj. með fúsu og glöðu geði heimild þá sem farið er fram á, ekki síst vegna þess að hér er annars vegar málefni sem í sjálfu sér verðskuldar einingu Alþingis.

Málið er hins vegar þannig til komið, að ég finn mig knúða til að gera við það nokkrar athugasemdir og biðja hv. alþm. að íhuga vel alla málavöxtu, sem ég veit að þeim er það vel kunnugt um að ég þarf ekki að hafa hér langt mál til upprifjunar. Ég hlýt þó að gera nokkru nán­ari grein fyrir viðhorfi mínu í sem stystu máli.

Skal ég þá strax koma að því meginatriði í mínum huga, sem ég hef áður lýst hér á hv. Alþ., að ég tel að hér hafi það gerst að stofnun utan Alþ. hafi seilst inn á verksvið þess með ákvarðanatöku um ráðstöfun mikilla fjármuna sem heyra beint undir fjárveitingavald þingsins.

Seðlabanki Íslands, eign íslenska ríkisins, gefur út þjóðhátíðarmynt og annast sölu hennar í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974.

Í des. s. l. liggur fyrir uppgjör á hagnaði þeim sem af útgáfunni varð, nokkuð á fjórða hundrað milljóna kr. Bankastjórn Seðlabankans býður í þessu tilefni til hátíðlegrar móttöku forseta Ís­lands, ríkisstjórn og fleira stórmenni tilkynnir þar að bankaráð Seðlabankans hafi nú að tillögu bankastjórnarinnar „ákveðið að stofna sérstakan sjóð af ágóða af útgáfu þjóð­hátíðarmyntar. Nefnist hann Þjóðhátíðarsjóður og er stofnfé hans 300 millj. kr.“ Hér var vitnað — með leyfi forseta — orðrétt til ávarps Jó­hannesar Nordals bankastjóra við þetta hátíðlega tækifæri, er tilkynnt var opinberlega um þessa ákvörðun Seðlabankans. Það fer sem sagt ekkert á milli mála, að hér var ákvörðunin tekin, og það fer varla fram hjá okkur þm., að við erum hér í dag að fjalla um þegar stofnaðan sjóð sem ber nafnið Þjóðhátíðarsjóður, sbr. fyrir­sögn þáltill. Það fer væntanlega ekki heldur fram hjá okkur, að skipulagsskrá sú, sem prentuð er með ályktun þessari, er að efni til nákvæm­lega í samræmi við till. seðlabankastjórnar að öðru leyti en því, að í stað þriggja manna sjóðs­stjórnar er í skipulagsskránni gert ráð fyrir 5 mönnum, þar af þremur kjörnum af Sþ. Mætti sú bragarbót vissulega gleðja hjörtu vorra alþm.

Í ávarpi bankastjórans, sem ég vitnaði til áðan, segir á öðrum stað, með leyfi forseta:

„Taldi stjórn bankans óeðlilegt að hún tæki upp á sitt eindæmi ákvörðun um að verja svo miklum fjármunum til þarfa utan við verksvið bankans, enda þótt enginn vafi leiki á um form­lega eignaraðild hans að þessu fé. Var því ákveðið að bankinn gerði till. um þetta efni til ríkisstj. sem síðan tæki endanlega ákvörðun um ráðstöfun fjárins.“

Nú er þá sem sagt að því komið fyrir okkur alþm. að rétta upp höndina til staðfestingar hinni endanlegu ákvörðun ríkisstj. — eða var það ekki það sem bankastjórinn átti við? Er ekki í raun og veru verið að binda hendur alþm. í þessu máli? Eða getum við verið þekktir fyrir að fara eitthvað að brölta með eigin skoðanir, gera rövl í svona góðu og menningarlegu máli sem lagt er fyrir okkur af hæstv. ríkisstj. sem óskar eftir samstöðu um málið? Eða er kannske ekki pláss í sölum hins hv. Alþ. fyrir tjáningar­frelsi og frjálsa skoðanamyndun, þessi dýrmætu gæði lýðræðisins sem við teljum okkur jafnómissandi og loftið sem við öndum að okkur?

Það er í trausti þess, að hv. alþm. sem flestir svari þessari spurningu játandi, að ég vil lýsa því yfir nú, að ég ásamt fleiri alþm. mun bera fram brtt. við till. sem fyrir liggur, sem hljóðar efnislega á þá leið, að ágóða þeim, sem varð af útgáfu þjóðhátíðarmyntar í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, skuli varið þannig:

1) Til byggingar Þjóðarbókhlöðu 200 millj. kr.

2) Til Húsfriðunarsjóðs 100 millj. kr.

Ég vænti þess, að þessi brtt., sem mun koma fram innan skamms, geti orðið samferða aðaltill. til fjvn. og verði þar tekin til umfjöllunar jafn­hliða henni. En ég hlýt nú, þó að till. liggi ekki fyrir, að gera í stuttu máli grein fyrir brtt. eins og hún mun hljóða.

Þegar á árinu 1961 urðu allmiklar umr. á Alþ. um byggingu Þjóðarbókhlöðu, sem leiddu til þess að stofnaður var sérstakur byggingarsjóður sem veitt var til í fyrsta skipti árið 1968 1.5 millj. kr. Í aprílmánuði árið 1970 var síðan samþykkt, að í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974 skyldi reist Þjóðarbókhlaða er rúmi Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn.

Um þessa till. var fullkomin samstaða á Alþ., og í umr. um hana, sem ég hef kynnt mér í þingtíðindum, lýsti einn þm. af öðrum ánægju sinni og fögnuði yfir þeim áhuga og einhug sem kom fram á þinginu um málið.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og Þórarinn Þórarinsson gerðu málinu allítarleg skil, og hinn síðar­nefndi lýsti m. a. hinu fullkomna vandræðaástandi sem ríkti í safnamálum okkar vegna þrengsla og aðstöðuleysis. Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson fór þarna vissulega með rétt mál, og ég held að öðrum hv. þm. væri hollt að kynna sér málið af eigin raun. Það er t. d. fróðlegt, ekki síst fyrir þm., að sjá hvernig búið er að varðveislu stór­merkra þingskjala í Þjóðskjalasafninu, gamalla gjörðabóka Alþingis, m. a. frá þjóðfundinum 1851, þar sem lýst er þeim sögulega fundi með gull­fallegri rithönd Benedikts Gröndals.

Ég fer ekki nánar út í þessa sálma þó að þar mætti hafa um mörg orð. Í umr. um áðurnefnda þáltill. árið 1970 var lögð áhersla á að hraða sem mest öllum undirbúningi að byggingu Þjóðarbókhlöðunnar, þannig að framkvæmdir yrðu vel á veg komnar á þjóðhátíðarári, þó tæpast væri þess að vænta að byggingunni yrði þá lokið.

Um framgang þessa máls þarf ég ekki að fjölyrða nú. Hv. þm. öllum er það fullkunnugt, að fyrst nú er undirbúningi um það bil lokið og verið um þessar mundir að vinna að útboðs­gögnum verksins.

Ég get ekki litið öðruvísi á málið, með tilliti til þeirrar kyrrstöðu og aðgerðaleysis sem þar hefur ríkt eftir samþykkt fyrrgreindrar þál., en að Alþ. hafi þarna með dapurlegum hætti fellt á sig heitstrengingar í þjóðhátíðarmáli, svo að sannarlega virðist nú ástæða til að bæta þar um. Fæ ég ekki séð að það yrði gert með eðlilegri og verðugri hætti en að láta Þjóðarbókhlöðu njóta þeirra fjármuna sem nú eru handbærir frá þjóðhátíðarári.

Ég hefði talið eðlilegt að upphæðin öll óskipt rynni til Þjóðarbókhlöðu. En til þess að fara millileið hef ég hugsað mér að ætla 200 millj. til Þjóðarbókhlöðu og 100 millj. til Húsfrið­unarsjóðs.

Húsfriðunarsjóður er tiltölulega nýr sjóður sem ber það í nafninu að hann á að annast vernd gamalla húsa. Hann er fjárvana og honum væri að sjálfsögðu ómetanlegur styrkur að 100 millj. kr. framlagi.

Benda má á að Húsfriðunarsjóður gegnir um leið nokkrum hluta þess hlutverks sem Seðla­banki Íslands og ríkisstj. ætla Þjóðhátíðarsjóðn­um, þ. e. einmitt verndun gamalla húsa og menningarminja, en þar að auki er sjóðnum sam­kvæmt skipulagsskránni, sem við höfum fyrir augum, ætlað að annast vernd lands og náttúru. Ég vil í þessu sambandi vitna til áðurgreinds fylgiskjals, ávarps Jóhannesar Nordals seðla­bankastjóra, en hann segir um þetta efni, með leyfi forseta.

„Í fyrsta lagi er hér ekki um svo mikla fjár­muni að ræða, að þeir geti komið að verulegu gagni nema notkun þeirra sé takmörkuð við til­tölulega þröngt svið.“

Þessu er ég algjörlega sammála. En ég tel að eins og skipulagsskránni er háttað nú, þá sé þessum sjóði ætlað að ná til svo víðtæks sviðs, bæði til húsaverndunar, fornminja, verndunar lands og náttúru, að það sé orðið í rauninni allt of víðtækt til að sjóðurinn komi að því gagni sem til er ætlast af upphafsmönnum sjóðsins, seðlabankastjórum og þar á eftir ríkisstj., þar sem Þjóðarbókhlaða er er hins vegar afmarkað verkefni, það er stórt verkefni, mun sennilega koma til með að kosta um 1600 millj. kr., og 200 eða 300 millj. kr. mundu gera mögulegt að hleypa verkinu af stað myndarlega og tryggja áframhaldandi framgang verksins.

Nú er skylt að minnast yfirlýsingar hæstv. forsrh. og ríkisstj. um það, að framlög Alþ. muni á næstu árum verða tryggð til þess að tryggja eðlilegan framkvæmdahraða verksins, og síst vil ég draga í efa einlægni þessara fyrirheita. En við skulum hafa í huga, að það eru mörg verk­efni af þessu tagi sem þurfa fjárframlaga með, og eins og efnahagsástandi okkar er háttað í dag og eftir reynslu undanfarinna ára við gerð fjár­laga þegar menningarmál eiga í hlut, þá fer ekki hjá því að það læðist að manni ótti um að erfitt verði að standa við þessar skuldbind­ingar, hversu einlægur hugur og ásetningur sem fylgir máli nú.

Ég vil líka minna á það, að samkvæmt upplýsingum frá byggingarnefnd — og það mun fleir­um kunnugt um — er þessi bygging þannig vaxin, að hún er hugsuð sem einn áfangi, þannig að það verður að taka hana fyrir alla í einu. Hér er því þörf mikilla fjármuna til þess að málið kom­ist á verulegan skrið.

Hæstv. forsrh. minntist á það í ræðu sinni í gær, að byggingarnefnd Þjóðarbókhlöðu hefði sent ríkisstj. bréf þar sem farið var fram á bein­línis að þessi sjóður yrði heill og óskiptur látinn ganga til Þjóðarbókhlöðu. Hæstv. forsrh. upp­lysti jafnframt, að hann og menntmrh. hefðu boðað bygginganefndina á sinn fund og heitið fullum stuðningi Alþ. og ríkisstj. á næstu árum sem tryggði framgang málsins.

Ég vil leggja áherslu á að þetta er ekki flokkspólitískt mál. Það er mál sem fyrst og fremst varðar hlutverk og virðingu Alþingis og þess vegna í mínum huga stórmál. Ég get fúslega viðurkennt að það er ekki með horskum hug sem ég geng hér í rauninni á móti till. og ósk­um sjálfs forsrh. og um leið míns ágæta flokksforingja, Geirs Hallgrímssonar, og ríkisstj. allrar. En málið sjálft er mér einfaldlega meira virði en svo, að ég geti látið það aftra mér frá að fylgja sannfæringu minni.

Ég hlýt að lýsa því yfir einnig, að ég geri mér harla litlar vonir um að þessi brtt. okkar, sem lögð verður fram, nái fram að ganga, og það er fjarri mér að hafa í frammi hér nokkrar brýn­ingar í garð hv. alþm. til stuðnings við hana. Þar koma að sjálfsögðu persónuleg viðhorf og sannfæring hvers og eins til með að ræða úrslitum.

Ég stend hér ekki af því að ég hafi neina löngun til að gera uppsteyt á hinu háa Alþ., og mér þykir í rauninni miður að verða til þess að rjúfa samstöðu í máli sem í sjálfu sér á sam­stöðu skilið. Það, sem fyrir mér vakir, er fyrst og fremst að fá úr því skorið, hvort hv. alþm. geta fellt sig við það hlutskipti, sem þeim er hér ætlað, og hvort þeir telji það samrýmast virðingu og reisn Alþingis.

En þegar nú loksins þetta mál kemur til kasta Alþ. og því vísað með þinglegum hætti til um­fjöllunar þingnefndar, hv. fjvn., þá leyfi ég mér að vænta þess, að það fái bar eðlilega umfjöll­un sem hvert annað þingmál sem þingið hefur allan rétt til að hafa áhrif á ef vilji og sann­færing er fyrir hendi.