20.04.1977
Sameinað þing: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3379 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég mun ekki hafa mörg orð um þetta mál og þakka fyrir að mér er gefinn kostur á að segja hér aðeins örfá orð.

Ég vil þakka mjög eindregið ræðu 9. landsk., Sigurlaugar Bjarnadóttur, sem var að mínu mati frábært innlegg í málið. Hún gerði því svo glögg skil að óþarft er að hafa um það fleiri orð.

Hún tók fram að það væri að hennar skapi að öll upphæðin rynni til Þjóðarbókhlöðu, og þá hugmynd vil ég styðja eindregið. En sé hitt til málamiðlunar, að skipta og 200 millj. renni í Þjóðarbókhlöðu og hitt í þann farveg, er hún nefndi, mun ég veita því stuðning.

Um aðdraganda að þessu máli væri hægt að hafa mikið mál, en ég ætla ekki að gera það hér við ríkjandi aðstæður, þó ærið tilefni sé til og grg. gefi tilefni til þess og raunar upphaf þessa máls, þegar svo er komið að ákveðin ríkisstofnun leggur út í skipulagða stórkostlega tekjuöflun á þjóðhátíðarári, á sama tíma og var komið svo hér í Alþ. að við lá að engin hátíðarhöld yrðu hér á Alþ. eða fyrir forgöngu ríkisvaldsins og meðal þjóðarinnar, a. m. k. ekki á Þingvöllum.

Það kunna e. t. v. einhverjir að muna það, að ég var beðinn að koma í sjónvarp ásamt öðrum mönnum, vegna þess að ég fór aldrei dult með það, að við gætum ekki verið svo fá­tækir að við hefðum ekki efni á því að gera okkur einhvern dagamun á sjálfum helgasta sögustaðnum og halda okkar þjóðhátíð. En það hvarflaði ekki að mér þá, að það væri ákveðin stofnun í landinu sem hefði skipulagt mörg hundruð millj. kr. hagnað, eins og hér segir, eða ágóða í því sambandi, það hvarflaði ekki að mér þá. Hins vegar hefur þetta átt sér stað, og nú á að ráðstafa ávinningnum. Það er fyrir fram skipulagt og á hér að koma inn á síðustu klukkutímum af starfstíma þingsins og keyrast í gegn. Ég mótmæli svona vinnubrögðum mjög eindregið og þakka því sérstaklega fyrir það innlegg sem kom í málið frá 9. landsk. þm.

Ég lofaði forseta því að vera ekki langorður, þegar ég bað um orðið, og mun ég ekki verða það. En ég undirstrika orð Sigurlaugar og segi, að hér varðar við virðingu Alþingis. Ég undir­strika það, sem hún sagði, að hér er ekki um flokksmál að ræða. Hún höfðar til afstöðu hvers einasta þm. frjálst og óþvingað, og ég styð það mjög að hver maður láti nú sannar­lega brjóstvitið ráða óþvingað. Hvað er betra verkefni og meira við virðingu tímamótanna en að tryggja Þjóðarbókhlöðu öruggan og skjótan framgang. Allt, sem hér er upptalið til verndar landi og öðru, er það verkefni sem hlýtur að koma inn í umr. á Alþ. fyrr eða síðar og er stór­mál. En þetta fjármagn, sem hér er lagt til, bjargar því engan veginn og það þarf miklu miklu meiri undirbúning en hér kemur fram að hafi átt sér stað í því sambandi. Ég undirstrika því, að ég mun fylgja þeirri hugmynd að Þjóðar­bókhlaðan fái allt fjármagnið ef menn vilja sameinast um það. Að öðru leyti skal ég sætta mig við skiptinguna sem Sigurlaug nefndi.